Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnunarávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á Þjóðarspeglinum 2022

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Ágætu gestir,

Það er mér heiður og ánægja að fá að segja nokkur orð í tilefni af Þjóðarspeglinum 2022.

Ég þekki það sjálfur bæði sem fyrrverandi nemandi og starfsmaður við Háskóla Íslands og sem starfsmaður félagasamtaka og síðar ráðherra hve nauðsynlegt það er að hafa aðgang að nýjum og áreiðanlegum gögnum og rannsóknaniðurstöðum. Að geta sótt í lifandi fræðasamfélag er nauðsynlegt til þess að geta sótt ferskar og framsæknar hugmyndir. Efni og áherslur í Þjóðarspeglinum tala eðlilega margar beint inn í þau stefnumál sem stjórnvöld eru að koma í verk á hverjum degi.

Atvinnulíf og þátttaka, fjölbreytileiki og vinnumarkaður, ójöfnuður, og velferð og þjónusta eru efni nokkurra fyrirlestra sem verða fluttir í ár og þeir tala inn í stærstu verkefni og áherslur mínar sem ráðherra.

Á stefnuskrá minni er að umbylta vinnumarkaðnum svo hann verði aðgengilegri fyrir okkur öll. Það krefst samvinnu – samvinnu aðila vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga um að skapa fleiri sveigjanleg störf, fleiri hlutastörf og ráðast í samhent átak við að breyta viðhorfum gagnvart atvinnuþátttöku stórra hópa fólks sem verið hafa utangarðs eða ekki fengið viðurkennda þekkingu og reynslu sína. Hér vísa ég sérstaklega til fatlaðs fólks og innflytjenda.

Vinnumarkaðurinn þarf líka að undirbúa sig fyrir þær breytingar sem bíða okkar í náinni framtíð. Breytingar sem til koma vegna loftslagsbreytinga og tæknibreytinga tengdum fjórðu iðnbyltingunni, þar sem við verðum að gæta að réttlátum umskiptum.

En það eru tækifæri eins og það eru ógnanir. Tækifæri til þess að skapa samfélag sem byggir á meiri jöfnuði, fjölbreytileika og jöfnum tækifærum. Í þessu samhengi vil ég líta til þeirrar þekkingar sem verður meðal annars til í háskólasamfélaginu.

Sem dæmi má nefna rannsóknir Sigrúnar Ólafsdóttur og Jón Gunnars Bernburgs við Háskóla Íslands á ójöfnuði sem sýna að mikill meirihluti Íslendinga vill búa í jöfnu samfélagi og sér ríkisvaldið sem tæki til að jafna lífskjör almennings. Þannig eru það rúmlega 80% sem telja að tekjumunur sé of mikill á Íslandi og ríflega 70% telja að það sé ábyrgð stjórnvalda að draga úr tekjumun. Um 80% telja það vera ábyrgð stjórnvalda að veita atvinnulausum sómasamleg lífskjör.

Það er líka ljóst að almenningur vill standa vörð um helstu velferðarkerfi samfélagsins og að öll eigi að hafa sama aðgang að heilbrigðis- og menntakerfinu.

Þá sýna niðurstöður einnig að örorkulífeyrisþegar eru líklegri til að telja að tekjumunur sé of mikill í íslensku samfélagi og að stjórnvöld beri ábyrgð á að draga úr þeim tekjumun. Einnig kemur fram að örorkulífeyrisþegar eiga erfiðara með að ná endum saman á heimilinu í samanburði við aðra hópa og þau eru einnig óánægðari en önnur vegna misskiptingar auðs á Íslandi. Þetta bendir til þess að öryrkjar skeri sig úr sem hópur í íslensku samfélagi sem upplifir að samfélagið virki verr fyrir sig og að þau finni meira fyrir ójöfnuði á eigin skinni. Það er eitt stærsta verkefni mitt á meðan ég gegni sem félags- og vinnumarkaðsráðherra að auka möguleika fólks með mismikla starfsgetu til þess að verða virk í samfélagi og vinnu, ef þau geta og kjósa, og bæta kjör þeirra sem minnst hafa í þessum hópi.

Þá er ég einnig með mikilvægt verkefni á minni könnu sem er landsáætlun um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það skiptir mig miklu máli að við gerum enn betur í tækifærum til menntunar og atvinnu fyrir fatlað fólk.

Rannsóknir fræðimanna við HÍ eins og Rannveigar Traustadóttur, Laufeyjar Löve, Stefans Hardonk og fleiri geta nýst okkur í því starfi sem framundan er að innleiða samninginn. Má þar til dæmis nefna rannsóknir um mat notenda á þeirri þjónustu sem samningur sameinuðu þjóðanna veitir og hvernig þátttaka fatlaðs fólks í sjálfboðnu starfi bjóði upp á tækifæri þegar kemur að áhrifum á vinnumarkaði og stuðli að jákvæðum félagslegum tengslum.

Mikilvægi rannsókna háskólasamfélagsins fyrir stefnumótun er mikið og ég er talsmaður þess að brúa betur bilið milli rannsókna og stefnumótunar, þannig að nýjasta þekking geti sem best leiðbeint okkur sem vinnum að stefnumótun í samfélaginu. Er það líka í takti við vísinda- og tæknistefnu stjórnvalda sem samþykkt var fyrir tveimur árum síðan.

Við í ráðuneyti mínu höfum því mikinn áhuga á að nýta þá þekkingu sem Félagsvísindasvið HÍ hefur að bjóða og höfum tekið höndum saman með sviðinu um að láta það gerast. Það er gleðilegt að segja frá því að formleg samvinna milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Félagsvísindasviðs er þegar komin í mótun og hlökkum við til farsæls samstarfs.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta