Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á fulltrúafundi Þroskahjálpar 2022

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:     

Ágætu fulltrúar,

Ég hefði svo gjarnan viljað geta verið með ykkur í Borgarnesi, en ég er fæddur og uppalinn vestur á Mýrum, steinsnar frá Nesinu. Ef þið eruð áttavillt þá er það áttin sem fallegast er að horfa í!

Þroskahjálp hefur ávallt staðið í eldlínunni með nýjar og ferskar hugmyndir um hvernig best er að móta nútíð og framtíð með hagsmuni fatlaðs fólks að leiðarljósi.

Samtökin hafa aldrei staðnað á leið sinni og hefur borið gæfa til að leita sífellt nýrra leiða til að halda stjórnvöldum við efnið, virkja umræðu og vinna að breyttum viðhorfum til fatlaðs fólks. Ég gæti talið upp langan lista verkefna þar sem aðkoma Landssamtakanna Þroskahjálpar hefur valdið straumhvörfum í lífi og starfi margra þeirra sem eru með þroskahömlun og fjölskyldna þeirra.

En mig langar að nefna nýlegt dæmi sem ég fékk að taka sjálfur þátt í. Herferðin Hvað er planið? sem var liður í baráttunni fyrir bættu aðgengi ungs fatlaðs fólks að námi og vinnu. Algjörlega frábært framtak. Ég hef það fyrir reglu eftir að ég varð ráðherra að skrifa ekki undir undirskriftasafnanir en vá hvað mig langaði mikið til þess í þessu tilfelli.  

Ágætu fulltrúar, ég vil þakka fyrir gott samstarf ráðuneytisins og Þroskahjálpar.

Ég lít svo á að við deilum sameiginlegri framtíðarsýn og það er mér mjög dýrmætt í starfi mínu að eiga sjónarmið ykkar að.

Í réttum takti við áherslu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks höfum við  meðal annars unnið að því í samvinnu við Þroskahjálp að tryggja aðgengi og viðeigandi stuðning við þátttöku í notendaráðum. Nú liggja fyrir leiðbeiningar á auðlesnu máli sem auðvelda þátttöku fólks með þroskahömlun í notendaráðunum þar sem rödd þess getur heyrst með skýrum hætti á vettvangi sveitarfélaga. Með þessu erum við að reyna að tryggja að fólk með þroskahömlun geti haft áhrif á lífsaðstæður sínar og nærumhverfi, en það er eitt markmiða samningsins að tryggja það.

Í samfélagi framtíðarinnar mun það skipta sköpum að fatlað fólk geti tekið þátt og notið þeirra réttinda sem það hefur. Vegna þessa hefur ráðuneytið stutt við Miðstöð um auðlesið efni þannig að fatlað fólk geti haft aðgang að réttum og gagnlegum upplýsingum um samfélag sitt. Þetta er í mínum huga afar mikilvægt verkefni og við munum halda áfram að styðja við það.

Annað verkefni sem mig langar til að nefna þessu tengt, er verkefni sem ber heitið „Sæti við borðið – stuðningur og fræðsla fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir á landsbyggðinni til aukinnar virkni og þátttöku í notendaráðum“. Markmiðið með þessu verkefni er að fatlað fólk á landsbyggðinni  fái stuðning til að láta til sín taka í heimabyggð, um málefni sem það lætur sig varða. Einnig að fólk með þroskahömlun geti aukið virkni sína og geti notið þess að taka þátt á vettvangi starfsbrauta framhaldsskólanna, Fjölmenntar og símenntunarstöðva sem starfa víðs vegar um land.

Þessu til viðbótar er verið að skipa starfshóp sem mun fá það hlutverk að greina  núverandi starfs- og menntunartækifæri fatlaðs fólks með tilliti til þess hvað þurfi að bæta, og koma með tillögur að aðgerðum til að auka jöfnuð og tækifæri allra. Í þeirri vinnu mun rödd fatlaðs fólks fá veglegan sess.

Ágætu fulltrúar, við erum hér til að tryggja að rödd fólks með þroskahömlun heyrist í hinu fjölbreytta litrófi samfélagsins. Til þess að árétta þennan stuðning okkar enn frekar höfum við styrkt þættina „Með okkar augum“, sem við þekkjum öll.

Síðast en ekki síst vil ég nefna stuðning við verkefni Átaks, félag fólks með þroskahömlun og skyldar raskanir til þess að félagið geti orðið enn virkari þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni og í málum sem það varða. Hér erum við sannanlega að stuðla að því að ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sé mætt með fullnægjandi hætti.

Mig langar líka að nefna að í ráðherratíð minni legg ég ríka áherslu á endurskoðun örorkulífeyriskerfisins og að opna vinnumarkaðinn þannig að hann verði aðgengilegur okkur öllum, með fleiri tækifærum meðal annars fyrir fatlað fólk.

Kerfið eins og það er í dag er of flókið með öllum sínum þröskuldum og kerfisflækjum. Fólk á ekki að mæta þröskuldum heldur þjónustu. Við erum loksins að búa til kerfi, nýtt kerfi, þar sem við erum öll með. Ný þjónusta með nýrri hugsun þar sem þjónustan er fyrir notandann en ekki kerfið, þar sem fólk hefur möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Um er að ræða algjöra umbyltingu á kerfinu sem er arðsöm fyrir okkur öll, félagslega og efnahagslega.

Í þessu ljósi styrkti ráðuneyti mitt verkefnið SEARCH, sem á uppruna sinn í Bandaríkjunum. Ás styrkarfélag stýrir verkefninu í samvinnu við Vinnumálastofnun en verkefnið gengur út á að styðja við fólk með þroskahömlun til að taka þátt á vinnumarkaði utan aðgreindra vinnustaða. Ég vonast til að það verkefni geti orðið módel fyrir það hvernig við styðjum við fólkið okkar í atvinnuþátttöku.

Umræðan um aðgengi fatlaðs fólks að stafrænni framtíð hefur svo sannarlega verið sett á dagskrá að undanförnu.  Við erum einbeitt í þeirri vegferð þó svo að ég viti að ykkur hafi mörgum þótt þetta taka of langan tíma.

Í sumar var opnað fyrir þátttöku persónulegra talsmanna að námskeiðum um hlutverk þeirra á netinu. Þetta tryggir og auðveldar til mikilla muna aðgengi persónulegra talsmanna að þekkingu og reynslu sem snerta þeirra störf. Með þessu verkefni teljum við okkur geta tryggt ákveðin gæði í hópi talsmanna og fleiri muni hugsanlega sjá tækifæri til þess að taka að sér þetta hlutverk.

Rafræn persónuskilríki fyrir fatlað fólk hafa verið ofarlega á dagskrá, bæði í samfélagsumræðu og í ráðuneytinu mínu. Hér er um viðamikið réttindamál að ræða en í því fellst að aðgengi fatlaðs fólks að rafrænum heimi verði tryggt. Í ljósi þeirrar hröðu tækniþróunar sem nú á sér stað er mikilvægt að við fylgjumst með og tökum frumkvæði þar sem tækifæri gefast. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að aðrar leiðir sem fatlað fólk hefur notað hingað til hafa verið afnumdar eða gerðar óaðgengilegar. Hér má t.d. nefna að þjónusta viðskiptabankanna er að taka miklum breytingum þar sem eldri lausnir eru ekki lengur færar.

Þau sem þekkja mig vita að ég er ekki mjög þolinmóður maður – og hef ég beðið óþreyjufullur eftir því að geta sagt frá opnun svokallaðs talsmannagrunni. Loksins, loksins get ég sagt að grunnurinn sé tilbúinn!

Ráðuneytið hefur unnið ötullega að því að taka í gagnið talsmannagrunnninn sem tryggir öryggi fatlaðs fólks og annarra sem ekki geta nýtt sér rafrænt auðkenni nema með stuðningi. Ráðuneytið hefur unnið að þessum lausnum í góðri samvinnu við réttindagæslu fatlaðs fólks og fjölmarga aðila aðra. Ráðuneytið mun gefa út leiðbeiningar um hvernig hægt sé að nálgast þessa lausn og verður það rækilega kynnt.

Á formennskuári Ísland í norrænu samstarfi mun Ísland einnig hafa forystu um farsæla framvindu stafrænnar þróunar þar sem frekari þróun talsmannsgrunnsins og annarra lausna honum tengd verða í forgangi.

Að tryggja stafrænt aðgengi fyrir öll er einmitt dæmi um verkefni þar sem samvinna hinna norrænu þjóða getur nýst öllum til heilla.

Innleiðing landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er eitt stærsta verkefni ráðuneytisins á næstu misserum. Stefnt er að því að skilgreina markmið og aðgerðir á grundvelli hinna 33ja greina samningsins og mæla framvindu þeirra með reglulegum hætti. Þegar megin línurnar liggja fyrir er gert ráð fyrir lögfestingu samningsins og að hún muni eiga sér stað á kjörtímabilinu. Það að innleiða öll þau verkefni sem framundan eru til ársins 2030 er hins vegar langhlaup og krefst þolinmæði og skilnings allra sem að koma.  Við munum þó á hverju ári gefa okkur tækifæri til endurskoða áætlunina og hugsanlega forgangsraða að nýju ef ástæður eru til.

Ég hef nú skipað verkefnastjórn um innleiðinguna og er hún skipuð fulltrúum notenda, sveitarfélaga og ráðuneyta og á hún að skila niðurstöðum sínum á næsta ári.  Í tengslum við verkefnastjórnina munu síðan starfa undirhópar sem taka fyrir tilteknar greinar samningsins. Þar verður líka kallað eftir ykkar rödd.

Við stefnum að því með þessu verkefni að verða til fyrirmyndar meðal þjóða.

Ágætu fulltrúar, það er ljóst að við lifum á miklum umbrotatímum og framtíðin um margt óljósari en oft áður. Ég hef hins vegar fulla trú á því að okkur takist í sameiningu að skapa samfélag sem rúmar okkur öll. 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta