Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á afmæli Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
Ágætu afmælisgestir og velunnarar Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins,
Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur öll og óska Fræðslumiðstöð atvinnulífsins til hamingju með 20 ára afmælið. Ég sé að ykkar bíður kraftmikil og glæsileg afmælisdagskrá. Því miður get ég ekki verið með ykkur í eigin persónu þar sem að ég er staddur erlendis í dag og sendi ykkur því góða kveðju með þessu rafræna ávarpi. Ég fæ ekki betur séð en að bæði samstarfið sem hefur þróast í kringum Fræðslumiðstöðina, í gegnum tíðina, og sú sameiginlega sýn sem hefur mótast í kringum starfið, hafi bæði skilað góðum árangri og búið til verðmæta þekkingu sem við eigum að halda áfram að byggja á.
Við þurfum að vera hugmyndarík og djörf og ræða hvernig framhaldsfræðslan nær best til fólks og fyrirtækja og hvernig hún tekur þátt í að auka velferð og lífsgæði og skapa verðmæti fyrir samfélagið. Framhaldsfræðslan þarf að grípa fólk sem ekki hefur lokið námi,- eða sem af einhverjum ástæðum hefur skerta möguleika til náms- eða atvinnuþátttöku.
Framhaldsfræðslan þarf líka að fá skýra stöðu meðal annarra sí- og endurmenntunarkosta, sem sérstök stuðningsaðgerð stjórnvalda til að bjóða þessum hópum upp á annað tækifæri til náms. Þar þurfum við að ganga vasklega til verks og tryggja það að framhaldsfræðslan sé vel nýtt af þeim sem helst þurfa á að halda, hún sé aðgengileg án mikils tilkostnaðar, geti mætt áhuga einstaklinga, áskorunum atvinnulífs og eigi svör við áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og loftslagsbreytinga.
Það að málaflokkur framhaldsfræðslunnar sé kominn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið gefur kærkomið tækifæri til að samþætta framhaldsfræðsluna enn betur við þau velferðar- og atvinnumál sem eru á forræði ráðuneytisins.
Stærsta verkefnið sem tengist framhaldsfræðslunni beint er heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og lögum um framhaldsfræðslu frá 2010.
Þessi vinna er hafin í ráðuneytinu. Í júní var boðað til hugmynda- og kynningarfundar með hagsmunaaðilum til að fá þekkingu og fóður í framhaldið. Starfshópur skipaður af mér mun vinna Grænbók um helstu álitamál framhaldsfræðslunnar, Hvítbók um stefnu til framtíðar og ráðuneytið vinna nýtt frumvarp til laga um framhaldsfræðslu á grunni þessarar vinnu, vonandi á næsta haustþingi. Við munum boða til fundar til kryfja málin til mergjar, þann 7. nóvember. Þar skiptir okkur miklu máli að ná til allra þeirra sem hafa unnið í þessum geira og ekki síður til nemenda til að heyra viðhorf þeirra og raddir. Vonandi tekst okkur með öllum þessum aðferðum og þessu breiða samráði að grípa nauðsynlegar nýjungar til hagsbóta fyrir öll.
Önnur verkefni eru líka í gangi í ráðuneyti sem tengjast framhaldsfræðslunni með beinum hætti, svo sem:
- Starfshópur um aukin námstækifæri fyrir fatlað fólk
- Starfshópur um velferð og virkni
- Starfshópur um stefnu í málefnum innflytjenda.
Verkefnin varða öll umbætur á þessum kerfum. Verkefnunum mætum við með opnum hug og með það að leiðarljósi að bæta þjónustu við fólkið og leggja grunn að því að á Íslandi bjóðist öllum tækifæri til náms og stuðnings. Það leggur grunn að enn betra og réttlátara samfélagi.
Vinnustaðurinn er mikilvægur sem námsstaður og lærdómsvettvangur, en allt bendir til að vægi vinnustaðarins í námi, þjálfun og markvissri hæfniuppbyggingu eigi bara eftir að aukast. Að fá tækifæri til að læra samhliða vinnu og dýpka þannig þekkingu og sérhæfingu er mjög mikilvægt. Mér skilst að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ætli að kynna í dag eina nálgun þar sem atvinnulíf, fyrirtæki og starfsmenntasjóðir leggjast á árarnar til að meta námsþátttöku starfsmanna með skipulagðari hætti en áður.
Við lifum á róstursömum tímum. Ég er nýkominn af fundi með félags- og vinnumarkaðsráðherrum í Evrópu þar sem umræðuefnið var hvernig við getum staðið betur að aðlögun úkraínsks flóttafólks. Eitt af því sem þar kom mjög skýrt fram var mikilvægi þess að meta menntun og starfsreynslu þeirra sem leita skjóls undan stríðinu í öðrum löndum. Það sem afar mikilvægt að fólk fái tækifæri til að halda áfram að þróa sig í starfi – því að það er lykillinn að því að byggja Úkraínu upp að nýju að loknu stríði.
Hér bíður okkar mikilvægt verk – það er ekki í lagi að við bjóðum háskólamenntuðu fólki frá öðrum löndum upp á það að nám þeirra sé ekki metið að verðleikum og að viðkomandi fái ekki vinnu sem samræmist menntun og starfsreynslu þeirra. Með áframhaldandi hætti verður aðgreining á vinnumarkaði eftir þjóðerni viðvarandi regla en ekki undantekning. Gegn því þarf að sporna.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur hlutverk í öllum þessum breytingum framundan sem öflugur samstarfsvettvangur með 20 ára starfsreynslu. Fræðslumiðstöðin kynnir sig sem „verkfærasmiðju“ sem framleiðir tól, tæki og lausnir fyrir fræðsluaðila, fólk og fyrirtæki m.a. „til að draga fram og staðfesta hæfni“ t.d. í gegnum raunfærnimat, náms- og starfsráðgjöf og þróun náms fyrir fólk með stutta skólagöngu. Og ég fæ ekki betur séð en Fræðslumiðstöðin sé sjálf – þetta miðlæga tæki eða tól, verkfærasmiðjan sem að við þurfum - sem leitt getur fólk saman og stillt upp verkefnum þar sem ólíkir aðilar vinna að sameiginlegum markmiðum, hver á sinn hátt – en samt við öll í takt. Gangi ykkur vel á þeirri leið.
Ágæta Fræðslumiðstöð, enn og aftur til hamingju með afmæli og ég er viss um að þið komið öll rík og uppfull af góðum hugmyndum eftir þennan fund, sem mun nýtast okkur vel.