Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnunarávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á landssamráðsfundi gegn ofbeldi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæru gestir, bæði þið sem sitjið hér í sal og þið sem eruð að fylgjast með streyminu, ég býð ykkur öll hjartanlega velkomin á þennan landssamráðsfund gegn ofbeldi.

Það er löngu orðið tímabært að við komum saman og ræðum á svo breiðum vettvangi, það alvarlega samfélagsmein sem ofbeldi er.

Ör þróun samfélagsins, ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu, á eflaust hér stóran hlut að máli, þó svo að ofbeldi hafi fylgt manninum frá fyrstu tíð. Þrátt fyrir allt það jákvæða sem fylgt hefur hraðri tækniþróun síðustu árin, þá á sú þróun sér einnig margar skuggahliðar og hefur því miður opnað leiðir fyrir margskonar ofbeldisverknað, aukið aðgengi að ofbeldisefni, og ekki síst aukið aðgengi að börnunum okkar.

En við getum þó fagnað því að síðustu ár, einkum í kjölfar #metoo byltinganna, hefur átt sér stað stóraukin umræða um ofbeldi í samfélaginu og það er ekki síst að þakka öllu okkar hugrakka fólki sem stígur fram, segir frá, leitar sér aðstoðar – og skilar skömminni. Það er einmitt þetta sem varpað getur mikilvægu ljósi á umfang og eðli vandans sem við erum að fást við.

Víða er verið að vinna að mörgum góðum verkefnum til að berjast gegn ofbeldi, á vegum stjórnvalda, stofnana, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og fleiri aðila sem láta sig ofbeldismál varða. Mig langar að nefna nokkur dæmi um aðgerðir og verkefni sem unnið hefur verið að síðustu misseri á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, eða eru í undirbúningi, með þátttöku fleiri aðila: 

  • Fyrst langar mig að nefna þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess, var samþykkt á Alþingi sumarið 2019. Að henni stóðu, auk félagsmálaráðuneytisins, ráðuneyti dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála.

    Aðgerðaáætlunin inniheldur 30 aðgerðir og tekur til ofbeldis í margþættri mynd, þar með talið líkamlegs, kynferðislegs, andlegs og ekki síst kynbundins ofbeldis. Hún byggist á þremur meginþáttum: Vakningu, sem felur í sér forvarnir og fræðslu; viðbrögðum, sem eru verklag og málsmeðferð, og valdeflingu, sem er styrking í kjölfar ofbeldis. Vel hefur gengið að fylgja aðgerðunum eftir og nú þegar tímabili áætlunarinnar er um það bil að ljúka, þá er 70% aðgerða lokið, aðrar eru ýmist komnar til framkvæmda eða í undirbúningi.

    Ég tel afar mikilvægt að haldið verði áfram með vinnu við þau verkefni sem eftir standa í þessari áætlun og að á vormánuðum 2023 verði hafin vinna við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar, undir forystu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, sem lögð verði fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu haustið 2023 eða vorið 2024.

  • Í öðru lagi vil ég taka fram að þegar tímabil aðgerðaáætlunarinnar var rétt hafið, skall á okkur heimsfaraldur en við slíkar aðstæður má búast við auknu ofbeldi einkum sökum áfalla, efnahagsþrenginga og annarra algengra afleiðinga heimsfaraldra. Í upphafi faraldursins ákváðu stjórnvöld því að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Þáverandi ráðherrar félags- og dómsmála, skipuðu sérstakt aðgerðateymi gegn ofbeldi, sem leitt var mynduglega af þeim Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Eyglóu Harðardóttur.

  • Teyminu var m.a. falið að fylgja eftir almennum aðgerðum sem lúta að fræðslu, þjónustu og stuðningi vegna ofbeldis í samræmi við tillögur í þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og jafnframt þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, sem nú er unnið eftir á vegum forsætisráðuneytisins.

    Á starfstíma teymisins var ráðist í fjölmörg verkefni sem mörg hver eru enn í vinnslu en lögð var áhersla á að verkefnin væru ekki bara átaksverkefni heldur verkefni sem kæmu til með að breyta hlutum til frambúðar, til dæmis með því að breyta starfsháttum eða bæta verklag. Ég vil í því samhengi nefna embætti ríkislögreglustjóra, sem hefur meðal annars unnið markvisst að því að breyta verklagi á landsvísu og þróa leiðir til þess að draga úr hættu á frekari brotum, einkum á meðal barna og ungmenna í viðkvæmri stöðu.

    Á þessu tímabili skapaðist einnig mikilvægt tækifæri til samvinnu og samlegðar þvert á svið allra þeirra sem koma að málaflokknum með einhverjum hætti, sem fest hefur sig í sessi. Dæmi um slíkt verkefni eru frekari þróun og efling þjónustu Neyðarlínunnar en í dag er 112.is orðin okkar megin upplýsingagátt um allt sem tengist ofbeldi.

  • Í þriðja lagi, þá hef ég skipað starfshóp sem taka á til skoðunar hvernig hátta megi laga- og reglugerðarumhverfi þjónustu vegna ofbeldis, einkum í samræmi við ákvæði samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, öðru nafni Istanbúl-samningurinn, sem íslensk stjórnvöld hafa undirritað og fullgilt. Ég tel afar mikilvægt að þjónusta við þolendur og gerendur ofbeldis verði skoðuð í þessu samhengi og komið í viðeigandi umgjörð eins og mörg lönd í kringum okkur hafa gert.

  • Í fjórða lagi, þá mun ég á næstu vikum skipa annan starfshóp sem falið verður að greina efni samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 190 um aðgerðir gegn ofbeldi og áreitni, og leggja mat á hvort og þá hvaða breytingar á löggjöf fullgilding samþykktarinnar hefur í för með sér hér á landi.
  • Í fimmta lagi hef ég nýlega veitt ríkislögreglustjóra fjármagn sem embættið mun verja til eflingar og frekari þróunar á svæðisbundnu þverfaglegu samstarfi um aðgerðir gegn ofbeldi meðal lykilaðila á hverju landssvæði þ.m.t. félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu sveitarfélaga, barnaverndaryfirvöld, lögreglu, heilbrigðisþjónustu og skólastjórnendur, í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga.

  • Í sjötta lagi, þá er nú í samvinnu dómsmálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis unnið að greiningu á núverandi stöðu þolendamiðstöðva sem starfa eftir „Family Justice Center“ módelinu, þar sem markmiðið er að þolendum ofbeldis sé veitt öll sú þjónusta sem á þarf að halda á einum stað, en um er að ræða þolendamiðstöðvarnar Bjarkarhlíð, Bjarmahlíð og Sigurhæðir. Gert er ráð fyrir að greiningin skili tillögum um framtíðarfyrirkomulag miðstöðvanna svo sem varðandi aðkomu ráðuneytanna þriggja, sveitarfélaga, mögulegra annarra ráðuneyta og frjálsra félagasamtaka að rekstri þeirra.
  • Í sjöunda lagi, þá stendur til að félags-og vinnumarkaðsráðuneytið láti gera rannsókn á heimilisofbeldi í hinsegin samböndum og fjölskyldum skv. aðgerð í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025, en markmiðið með þeirri aðgerð er að skapa þekkingu á heimilisofbeldi meðal hinsegin fólks á Íslandi og vinna gegn því.

  • Í áttunda lagi, og nú fer ég að hætta, þá hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið um langt skeið veitt fjárframlagi til aðila sem veita þolendum ofbeldis stuðning og ráðgjöf. Ráðuneytið hefur sömuleiðis veitt stuðning til verkefna sem miða að gerendum ofbeldis, sem þurfa oft sjálfir á verulegri aðstoð að halda, ekki síst til að sporna gegn áframhaldandi ofbeldi þeirra.

Ég vænti þess að niðurstöður og tillögur þeirra starfshópa og þeirra rannsókna og greininga sem ég hef hér greint frá, og framvinda annarra verkefna og áætlana sem verið er að vinna að á vegum stjórnvalda, verði mikilvægt innlegg við undirbúning nýrrar aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi.

Að lokum langar mig til að nefna þrjú atriði sem ný aðgerðaáætlun mætti m.a. taka á, en þau eru auðvitað miklu fleiri.

  • Þar vil ég fyrst nefna að huga þarf enn betur að ofbeldi gagnvart viðkvæmum hópum þar með talið ofbeldi gegn eldra fólki og fötluðu fólki.

  • Þá er mikilvægt að huga að þolendum og gerendum ofbeldis af erlendum uppruna og að þeim sé gert kunnugt um þá þjónustu og úrræði sem í boði eru. Ný framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda er með aðgerðir í þessa veru.
  • Síðasti punkturinn snýr aðvinnumarkaðnum og þörfum þolenda í kjölfar ofbeldis. Það getur t.d. verið tímafrekt fyrir þolendur að sinna ýmsum erindum fari mál þeirra í gegnum réttarvörslukerfið. Tímabundið leyfi frá störfum myndi gera þolendum kleift að takast á við þessi óhjákvæmilegu verkefni án þess að það hafi neikvæð áhrif á atvinnuþátttöku þeirra, þar á meðal atvinnuöryggi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða sérstaklega.

Kæru þátttakendur!

Hér í dag munum við hlusta á fjölmarga sérfræðinga taka til máls, við ætlum að tala saman, við ætlum að þétta raðirnar og síðast en ekki síst: vinna saman að leiðum til þess að takast á við ofbeldi og afleiðingar þess.

Ég vil þakka ríkislögreglustjóra og öllum þeim sem hafa haft veg og vanda af dagskránni hér í dag, kærlega fyrir skipulagningu þessa fundar. Ég veit að undirbúningur hefur staðið lengi yfir og hér hefur svo sannarlega verið vandað til verka. Ég trúi því að þessi fundur muni gefa okkur byr undir báða vængi í baráttunni gegn ofbeldi - ég mun að minnsta kosti leggja allt mitt af mörkum til þess að reyna að skapa hér friðsælla og betra samfélag, án ofbeldis.

Ég segi þennan fund hér með settan.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta