Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnunarávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á ráðstefnu um Landsáætlun um SSRF

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæru ráðstefnugestir,

Við höfum einsett okkur að hefja gerð Landsáætlunar um innleiðingu á ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna og stofnun nýrrar Mannréttindastofnunar. Jafnframt kemur þar fram að til að tryggja jafnræði í þjónustu við fatlað fólk þurfi að eiga sér stað samráð milli ríkis og sveitarfélaga um endurmat á kostnaði í þjónustu við fatlað fólk. Hvorutveggja eru þetta risastór verkefni.

Ágætu ráðstefnugestir, við skulum hefja nýja vegferð í þjónustu við fatlað fólk á Íslandi.  Vegferð sem ég trúi að geti fært okkur að því markmiði að fatlað fólk geti notið allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og til jafns við aðra.

Undirbúningur þessarar vegferðar hefur reyndar staðið yfir um nokkurt skeið. Á síðasta ári tóku stjórnvöld  ákvörðun um að hefja heildarendurskoðun á lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Skipaður var starfshópur sem fékk það hlutverk að greina þau álitaefni sem komið höfðu upp um framkvæmd laganna og koma með tillögur að lausn þeirra. Jafnframt var skipaður sérstakur starfshópur til að greina kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk.

Afrakstur starfshópanna var kynntur í ríkisstjórn í byrjun maí síðastliðnum.  Nú er í fullum gangi vinna ríkis og sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu þeirra vegna þjónustu við fatlað fólk og geri ég ráð fyrir því að fyrstu tillögur líti dagsins ljós nú í desember.

Ágætu gestir, við lagasetningu á undanförnum áratugum höfum við skapað væntingar um breytingar og þróun sem okkur hefur ekki að fullu tekist á að koma í framkvæmd. Og, það hefur stundum gert stöðu notenda þjónustunnar mjög erfiða.  Þessu verðum við að breyta.

Ein leið til þess að ná fram breytingum er ákvörðun um gerð Landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Við getum saman tekið ákvörðun um að hefja okkur upp í 20 þúsund fetin, ná góðri yfirsýn, steypa okkur svo niður og vinna saman að því að ná markmiðum samningsins.

Með gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins skilgreinum við þau markmið sem við stefnum að en þau munu byggja á greinum samningsins. Með því að hafa markmiðin skýr og hafa vitneskju um til hvaða aðgerða þarf að grípa til stöndum við mikið betur að vígi.

Verkefnin eru mörg og það verður ekki alltaf auðvelt að leysa þau. En það er nú samt sem áður verkefnið okkar og við þurfum að einhenda okkur í það verkefni saman. 

Ágætu ráðstefnugestir, eg hef skipað sérstaka verkefnastjórn sem samanstendur af fulltrúum allra þeirra sem beinna hagsmuna eiga að gæta.

Með verkefnastjórninni starfa síðan 11 vinnuhópar þar sem hagaðilar eiga fulltrúa eftir því sem þeir sjálfir telja þurfa. Þessir vinnuhópar samanstanda af 5-7 aðilum hver. Síðan er gert ráð fyrir að hver og einn í þessum undirhópum geti átt sér bakland til samráðs. Þannig er ekki ólíklegt að  a.m.k. 200 einstaklingar komið beint að þessari samsköpun. Ef okkur tekst vel til  munum við ná samtali við mikinn fjölda fólks sem aftur getur haft áhrif á mótun skilnings og þekkingar á stöðu fatlaðs fólks á Íslandi.

Framvindan í starfi vinnuhópanna er síðan metin á svokölluðum þjóðfundi einu sinni á ári með  mælaborði þar sem staða aðgerða gagnvart markmiðum hverrar einnar greinar samningsins er metin. Allir þeir sem hagsmuna eiga að gæta geta haft rödd og komið ábendingum og tillögum á framfæri.

Landsáætluninni er í grunninn skipt í tvennt þ.e. frá 2022 til 2024 og frá 2025 til 2030.

Nú spyrja sig kannski einhverjir, þetta er allt gott og blessað en það sem við þurfum er peningar og það strax. Það er rétt en við þurfum alltaf að vita hvað þær aðgerðir sem við gerum tillögur muni kosta og hver muni fjármagna þær og hvenær það verði gert.

Því er hér gert ráð fyrir því að landsáætlunin verði samþætt við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það verði þannig ljóst hvaða fé verði til ráðstöfunar og hvernig því verði forgangsraðað.

Svo mun verða áfram spurt: Er þetta mögulegt?  Við höfum talað um þetta lengi, hvers vegna er ekki löngu búið að gera þetta?

Með gerð landsáætlunar um þjónustu við fatlað fólk leggjum við upp með það að tryggja fyrirsjáanleika og öryggi í fjármögnun þeirra verkefna sem sett verða á dagskrá. Jafnframt þurfum við að sýna fram á að fjármagn sem er til ráðstöfunar skili sér í góðri og skilvirkri þjónustu sem tryggir virkni og þátttöku allra á leið til sjálfstæðs lífs og aukinna lífsgæða.

Ágætu ráðstefnugestir, ég hef áður minnst á að þetta ferðalag fram undan verður lærdómsferli. Í umræðu um Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur ítrekað komið fram að stærstur hluti þjóðarinnar þekkir ekki til ákvæða samningsins. Hér er því mikið verk fyrir okkur að vinna því ef fólk þekkir ekki til þess sem í samningnum stendur og hvað það þýðir í reynd þá er ekki víst að við náum miklum árangri.

Spurningin er því sú, vitum við sem hér erum hvað allar greinar samningsins þýða í reynd? Örugglega ekki alltaf, ekki í öllum tilvikum. Við þurfum því að byrja á sjálfum okkur og auka okkar skilning og þekkingu á samningnum til þess að geta borið boðskapinn áfram með trúverðugum hætti.

Við byrjum því daginn í dag með því að kynna okkur rækilega innihald samningsins og fáum til þess þá aðila sem til hans þekkja og starfa fyrir hönd þeirra sem innihaldið snertir sérstaklega. Við munum síðan koma auga á tengingar samningsins við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, því öll eru þessi markmið samofin órjúfanlegum böndum. Að lokum munum við fara yfir verklagið í vinnunni fram undan.

Ágætu ráðstefnugestir, ég segi þessa ráðstefnu um innleiðingu Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks setta og óska ykkur ánægjulegrar og lærdómsríkrar ráðstefnu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta