Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnunarávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á samráðsþingi um landsáætlun um innleiðingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæru samráðsþingsgestir!

Stuttu eftir að ég tók við sem félags- og vinnumarkaðsráðherra fékk ég bréf frá konu sem lýsti stöðu sinni þannig:

Ég er með sjúkdóm sem hefur þróast þannig að ég á erfitt með gang og kom oft fyrir að ég gat ekki stundað vinnu vegna veikinda. Þegar covid skall á bauð vinnustaðurinn upp á fjarvinnu að heiman og það breytti miklu fyrir mig. Síðastliðinn tvö ár þá hef ég ekki misst dag úr vinnu þar sem það að geta unnið að heiman hefur breytt öllu fyrir mig. Ef fjarvinna hefði ekki verið í boði þá tel ég líklegt að ég væri komin í hlutastarf eða alveg hætt að vinna og komin á örorku. Ég sé núna fram á að vinna fram að starfslokum.

Annað lærdómsríkt andartak á fyrstu mánuðum mínum í starfi, var þegar ég fékk fólk frá Einhverfusamtökunum í heimsókn. Ég var að lýsa hugmyndum mínum um opnari og aðgengilegri vinnumarkað. Vinnumarkað fyrir okkur öll. Á meðan ég talaði digurbarkalega um þetta allt saman sá ég að þau horfðu á mig og brostu út í annað. Loksins þegar ég hætti að tala þá bentu þau mér á að, jú, það væri allt gott og blessað að vilja hafa opnari og aðgengilegri vinnumarkað. En það væri nánast alltaf í atvinnuauglýsingum óskað eftir framúrskarandi samskiptahæfileikum og ég vitna í orð gesta minna:

„Og, kæri ráðherra – það eru ekki sterkustu eiginleikar okkar einhverfra“.  BÚMM!

Fatlað fólk nýtur ekki sömu tækifæra og ófatlað fólk. Það fær færri tækifæri til náms, færri tækifæri til vinnu, er líklegra til að missa vinnuna á undan öðrum, líklegra til að verða fyrir margskonar ofbeldi og rekur sig á mun fleiri þröskulda en ófatlað fólk.

En ég skynja nýja strauma. Strauma sem snúast um raunverulegan vilja til að skapa nýja framtíð sem tryggir aðgengilegra samfélag sem rúmar okkur öll sem hér búum. Samfélag þar sem við öll eigum raunhæfa möguleika á að uppgötva og nýta hæfileika okkar á þeim sviðum sem hverju og einu okkar langar til og á eigin forsendum.

Það er þannig samfélag sem ég vil taka þátt í að skapa - Það er í þannig samfélagi sem ég vil búa í.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að lögfesta skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og koma Mannréttindastofnun á fót.

Mörg okkar sem hér erum höfum beðið lengi eftir þessari lögfestingu, lögfestingu á sjálfsögðum mannréttindum stórs hóps fólks. Vinna við lögfestinguna á sér nú stað í forsætisráðuneytinu.

Landsáætlunin, sem við ætlum að ræða hér í dag, er hins vegar meginverkfæri stjórnvalda í heildstæðri stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks og hún mun ná til allra þeirra málasviða sem falla undir samninginn. Og þeirri vinnu er stýrt úr félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Með landsáætluninni mun verða grundvallarbreyting hvað varðar viðurkenningu á réttindum, menntun, störfum og aðgengi fatlaðs fólks. Vegna þess að við eigum öll sama rétt til hamingju og tækifæra í lífinu.

Landsáætluninni er þannig ætlað að setja fram skýra framtíðarsýn, draga upp val og skilgreiningar á meginmarkmiðum sem stefna skuli að og teikna upp aðgerðir til að tryggja að markmið samningsins raungerist.

Og það er meðal annars drög að aðgerðum sem við fáum að kynnast hér í dag, en á þessu fyrsta samráðsþingi eru þeir ellefu vinnuhópar sem hafa starfað síðan í nóvember að ljúka fyrsta spretti sínum með hugmyndum að 121 aðgerð.

Þeim hefur greinilega tekist að koma Litla-Deutz í gang.

Takið vel eftir þessu: Litla-Deutz…

Eins og sum ykkar vitið þá er ég sveitastrákur vestan af Mýrum og þess vegna ætla ég að grípa aðeins til smá sveitatals. Í sveitinni heima þegar ég var patti var Deutz dráttarvél árgerð 1954. Þessum traktór þurfti að snúa í gang með handsveif, og það var ekki létt verk fyrir lítinn patta, því það krafðist bæði ákveðinnar tækni og snerpu. Og, fyrir strákpjakk kostaði það mikla þrautseigju.

Rétt eins og það tók yfirleitt nokkurn tíma að koma Litla-Deutz í gang þá tekur tíma að byggja sterkar stoðir sem eiga að standa tímans tönn.

Það tekur tíma að brjóta nýtt land.

Og, það er akkúrat þetta sem við erum að gera í vinnunni við landsáætluninni.

Í mínum huga er samfélagið eins og þessi risastóri akur sem við verðum að plægja og sá fræjum jöfnuðar, félagslegs réttlætis og jafnréttis þar sem engir einstaklingar eða hópar verða skildir eftir og þar sem hugmyndafræði Samningsins Sþ um réttindi fatlaðs fólks kallast á við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Þetta er það sem fjöldi fólks hefur unnið að undanfarnar vikur og mun halda áfram á næstu misserum. Að plægja og sá í akurinn.

Ég er óþolinmóður maður. En ég veit að vönduð stefnumótun í víðtæku samráði skilar sér alltaf í betri og faglegri ákvörðunum.

En, á sama tíma þá eru fjögur ár, eitt kjörtímabil, óskaplega fljót að líða og þess vegna fannst mér mikilvægt að ráðast strax í ákveðin verkefni utan við stefnumótunina sem við ræðum hér í dag.

Þannig að í viðbót við vinnu við lögfestingu, stofnun Mannréttindastofnunar og gerð landsáætlunar, þá hef ég lagt sérstaka áherslu á að auka stafrænt aðgengi fatlaðs fólks, að auka þátttöku fatlaðs fólks í námi og á vinnumarkaði, fyrir utan að í gangi er endurskoðun á kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Mig langar að segja nokkur orð um fyrstu tvö atriðin en unnið er að kostnaðarskiptingunni í starfshópi sem ég vil að geti fengið rými til að skila af sér.

Við höfum stigið fyrsta skrefið í að auka stafrænt aðgengi fatlað fólks með opnun svokallaðs stafræns talsmannagrunns þar sem persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geta nú fengið aðgang að stafrænu pósthólfi skjólstæðinga sinna og sinnt margvíslegum rafrænum erindum. Nú vinnum við að því að  talsmannagrunnurinn nái til víðtækari þjónustu, eins og hjá bönkum og opinberum aðilum.

Ég hef sett af stað sérstakan starfshóp í samvinnu við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra, sem á að vinna tillögur um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk.

Ég bind miklar vonir við tillögur frá þessum hópi. Vegna þess að við eigum að tryggja að fatlað fólk njóti sömu tækifæra og ófatlað fólk.

Mig langar líka að segja ykkur frá Project SEARCH. Verkefni sem ég veitti Ás styrktarfélagi styrk til að framkvæma fyrir ári síðan. Verkefnið felur í sér níu mánaða starfsnám sem miðar að því að þátttakendur öðlist færni og sjálfsöryggi til að takast á við störf á almennum vinnumarkaði. Aðferðafræði verkefnisins er að bandarískri fyrirmynd og starfað er eftir þessu módeli víða um heim.

Hér bind ég vonir við að sveitarfélögin í landinu komi að þessu verkefni því það mun valda straumhvörfum í lífi fólks, veita fólki tækifæri sem þau annars hefðu ekki fengið.

Alþingi steig líka mikilvægt skref með samþykkt frumvarps míns um að halda áfram þróun á notendastýrðri persónulegri aðstoð og fjölga NPA samningum. Þessi vinna heldur áfram.

Síðast en ekki síst vil ég minnast á endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu sem við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu erum að vinna að – en það mun stuðla að aukinni virkni og tækifærum á vinnumarkaði, auk þess að bæta kjör þeirra sérstaklega sem lakast standa á meðal örorkulífeyrisþega. Nýtt og betra kerfi mun meðal annars gagnast fötluðu fólki.

Já, ég held að okkur í sameiningu hafi tekist að koma Litla-Deutz í gang!

Ágæta fólk!

Það er mér sönn ánægja að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa fyrsta samráðsþings um landsáætlun um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Vil ég þakka öllum þeim sem hafa tekið þátt í vinnu að Landsáætlun og að gera þetta samráðsþing að veruleika – framlag ykkar er og verður áfram ómetanlegt!

Við erum rétt að byrja þetta ferðalag og ég hlakka til að halda þessari vegferð áfram með ykkur.

Áfram til nýrrar framtíðar – sem rúmar okkur öll!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta