Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. apríl 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á fundi forstöðumanna símenntunarstöðva

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra 

Ágætu fundargestir,

Í mínum huga er menntun lykillinn að auknum tækifærum einstaklinga og auknum jöfnuði í samfélaginu.

Með aukinni þekkingu og þjálfun á færni valdeflist fólk, fær meira sjálfstraust og fær tækifæri til að vaxa og dafna í félagslegu samstarfi – og fá að tilheyra og vera með.

Þannig erum við með framhaldsfræðslunni að auka tækifæri fólks, hækka menntunarstig og auka jöfnuð í samfélaginu. Við erum líka að auka virkni og velferð fólks á vinnumarkaði og gera fólki kleift að taka þátt í breytingum á vinnumarkaði, eins og t.d. vegna loftslagsbreytinga og tæknibreytinga, sem munu hafa áhrif á störf til framtíðar.

Í upphafi kjörtímabils boðaði ég endurskoðun á framhaldsfræðslunni í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Að störfum er stór samstarfshópur undir stjórn Berglindar Rósar Magnúsdóttur prófessors við Menntavísindasvið HÍ. Reyndar hef ég aldrei sé jafn stóran hóp í verkefni sem þessu, eða 25 manns. Ástæða þess er að hér er gerð tilraun til að fá sem flest að borðinu til að raddir allra heyrist og þess sé freistað að ná niðurstöðu sem sátt er um.

Ein meginspurningin sem takast þarf á við er hvar við staðsetjum framhaldsfræðsluna í menntakerfinu? Í mínum huga er hún fimmta stoð menntakerfisins, en ekki vinnumarkaðsúrræði fyrir afmarkaðan hóp. Hún á að vera hluti af hinu opinbera menntakerfi, þó svo að ýmsir aðilar komi þar að.

Samkvæmt skipunarbréfi sem ég setti samstarfshópnum, er honum „ætlað að koma með tillögu að heildstæðu kerfi í framhaldsfræðslu og styrkja hana sem fimmtu stoð hins opinbera menntakerfis, stoð sem gefur fullorðnu fólki með stutta skólagöngu eða skerta möguleika til að fá störf, ný tækifæri til náms og hæfniþróunar“ – eins og segir í skipunarbréfi.

En við þurfum líka afmörkun á þeim hópi sem framhaldsfræðslan þarf að taka til. Það er spurningin fyrir hver á framhaldsfræðslan að vera? Þetta er eitt megin viðfangsefni starfshópsins, þ.e.a.s., og þetta er tekið orðrétt upp úr skipunarbréfinu: „að skoða afmörkun á markhópi framhaldsfræðslu meðal annars út frá menntunarstigi og stöðu fólks á vinnumarkaði, með áherslu á stöðu innflytjenda og fatlaðs fólks innan kerfisins.

Áherslan á innflytjendur og fatlað fólk kemur frá mér, en ég veit að mörg deila þessari áherslu með mér. Tímarnir hafa breyst frá árinu 2010 þegar frumvarp Katrínar Jakobsdóttur þáverandi menntamálaráðherra var samþykkt. Innflytjendum hefur fjölgað gríðarlega síðan þá, en þeir voru um 8% þjóðarinnar árið 2012 en eru um 17% núna. Þá hafa, sem betur fer, kröfur til menntunar fatlaðs fólks stóraukist og meðvitund samfélagsins um þau sjálfsögðu mannréttindi að fatlað fólk geti verið jafnvígir þátttakendur í samfélaginu til jafns við ófatlað fólk.

Samstarfshópnum er líka ætlað „að greina styrkleika núverandi kerfis og draga fram leiðir til að festa í sessi og styðja frekar við þá þætti sem eru taldir til styrkleika framhaldsfræðslunnar“, eins og segir í skipunarbréfinu.

Símenntunarmiðstöðvar út um allt land eru mikilvægir aðilar í framkvæmd framhaldsfræðslunnar og má líkja við kjölfestueiningar. Uppbyggingin, og ykkar starf, hefur vakið athygli út fyrir landsteinana og ég held að við Íslendingar getum státað af því að ná vel til sem flestra í framhaldsfræðslukerfinu sama hvar þau búa á landinu.

Eitt af verkefnum samstarfshópsins er einmitt að „skoða hvernig efla megi þjónustu framhaldsfræðslu í dreifðum byggðum og viðhalda samstarfi við sveitarfélög og aðra aðila í héraði.“

Við sem uppalin erum í smærri samfélögum vitum hversu mikilvægt það er að tækifæri til mennta séu í boði heima fyrir. Þannig hafa smærri framhaldsskólar víða sannað gildi sitt sem kjölfesta í byggðafestu og sem lykilaðgerð í byggðamálum. Það sama á við um símenntunarmiðstöðvar – þær eru líka lífæð samfélaga um allt land, því þær bjóða upp á tækifæri til betra lífs og jafnara samfélags.

En talandi um menntun og þekkingu, þá er líka mikilvægt að skoða það sem gert hefur verið og læra af reynslunni. Við höfum einmitt sett í gang þrjú verkefni sem tengjast sérstaklega íslenskukennslu innflytjenda, en þar er um að ræða framhaldsrannsókn á viðhorfum innflytjenda til íslenskunámskeiða, heildarúttekt á framkvæmd þjónustukannana hjá viðurkenndum fræðsluaðilum og heildarúttekt á þjónustusamningi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Auk þess höfum við sett af stað kerfisbundna greiningu á innlendum og alþjóðlegum ritrýndum rannsóknum er varða nám og þjálfunarúrræði fullorðinna sem tilheyra markhópi framhaldsfræðslu. Auk innflytjenda er um að ræða fullorðið fólk með stutta skólagöngu, fatlað fólk, fólk sem býr við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku, og ungt fólk sem hvorki er í námi, þjálfun eða starfi.

Þessi vinna er öll unnin af fagaðilum utan ráðuneytisins og ég vonast til að hún nýtist líka inn í endurskoðunarvinnuna. 

Önnur verkefni sem samstarfshópnum er ætlað að skoða sérstaklega og ég hef ekki farið í hér að framan eru:

  • Að móta tillögur um hvernig hægt er að koma sem best til móts við markhóp framhaldsfræðslunnar og á hvaða úrræði skuli lögð áhersla við framkvæmd hennar.
  • Að greina hlutverk fræðslu- og stuðningsþjónustu m.t.t. verkefna, samstarfsmöguleika og bættrar samlegðar á milli kerfa menntunar, velferðar og atvinnulífs.
  • Að skoða hvernig inntak og fjármögnunarleiðir styðji sem best við framhaldsfræðsluna sem hluta af hinu opinbera menntakerfi og þær meginstoðir sem kerfið byggir á.
  • Að greina leiðir til þróunar framhaldsfræðslukerfisins í átt að árangri, gæðum og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum eins og loftslagsbreytingum og tæknivæðingu á vinnumarkaði.

Að lokum langar mig að segja að ég tel að við þurfum að huga betur að tengingu framhaldsfræðslunnar við aðra þætti velferðarmála. Þannig á menntun, færniþróun og þekking sem framhaldsfræðslukerfið býður upp á að geta verið eitt meginverkfæri okkar til að bæta lífskjör fólks sem í meira mæli nýta sér þjónustu velferðarkerfanna, hvort sem litið er til fólks á örorku, innflytjenda, eða fatlaðs fólks, án þess að gleyma því að framhaldsfræðslunni er líka ætlað áfram að sinna þeim sem einhverra hluta vegna hlutu takmarkaða menntun á yngri árum.

Það að einstaklingi, sem tilheyri markhópnum eða standi á einhvern hátt höllum fæti, sé boðið til þátttöku og upplifi sig  velkominn í nám eða á vinnumarkað er í mínum huga lífsspursmál. Það varðar ekki bara áherslu ríkisstjórnarinnar á velsældarmælikvarða eins og að auka virkni í námi og starfi, eða að hækka menntunarstig þjóðarinnar almennt. Það varðar það að vinna gegn kerfislegum hindrunum, fækka þröskuldum og reyna að þróa áfram einn vinnumarkað fyrir okkur öll, inngildandi vinnumarkað sem tekur öllum opnum örmum, þar sem hvert og eitt spreytir sig á sínum forsendum og fær bæði tækifæri til þess og stuðning.

Og gleymum því ekki að það að grípa fólk fyrr og veita því hlutdeild í samfélagslegum verkefnum, getur líka komið í veg fyrir félagslega einangrun og einmanaleika. Námsúrræði framhaldsfræðslunnar gegna þar hlutverki.

Ég óska ykkur góðs gengis í ykkar vinnu í dag, sem og aðra daga, og hlakka til áframhaldandi samstarfs um að auka veg og vanda framhaldsfræðslunnar sem mest.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta