Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á ársfundi TR 2023

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæra stjórn og starfsfólk Tryggingastofnunar og aðrir góðir gestir

Þakkir fyrir að fá að ávarpa ykkur á ársfundinum.

Tryggingastofnun er ein mikilvægasta stofnun lýðveldisins vegna þess að þið þjónustið fólk. Og ekki bara eitthvað fólk, heldur þjónustið þið viðkvæman og stóran hóp fólks sem reiðir sig á framfærslu frá hinu opinbera. Það er mjög vandasamt verk.

Ég veit að þið reynið að veita þá bestu þjónustu sem þið getið, því þið eruð með fólk í höndunum á ykkur. Og, ég veit að þið eruð mikið gagnrýnd. Og, ég veit að það er ekki alltaf auðvelt.

En þess þá heldur reynir meira á ykkur en margar aðrar stofnanir sem sinna þjónustu og það er okkur öllum metnaðarmál að standa undir þeim kröfum.

Ég leyfi mér að setja tölur á fólkið til að setja þetta í samhengi:

TR veitir árlega um og yfir 80.000 viðskiptavinum þjónustu og ráðgjöf, nærri því 25% þjóðarinnar. Áætlaðar útgreiðslur TR á yfirstandandi ári nema um 213 ma.kr. sem jafngildir um 16% af ríkisútgjöldum.

En það er mikilvægt að muna alltaf að á bak við tölur og tölfræði er fólk sem reiðir sig á okkur. Ég veit að það er leiðarljós í vinnu ykkar.

Kæru gestir,

Mig langar að þakka fyrrum forstjóra stofnunarinnar til margra ára fyrir farsæl og góð störf í þágu samfélagsins. Á sama tíma og við horfum á eftir góðu fólki þá bjóðum við nýtt fólk velkomið.

Það er mikið gleðiefni fyrir ráðherra sem ber ábyrgð á því að hafa ráðið nýjan forstjóra að sjá mjög metnaðarfulla stefnumótunarvinnu, áform um að bæta rekstur og þjónustu stofnunarinnar, að setja fólkið áfram í forgrunn og mæta áskorunum með hag fólksins að leiðarljósi.

Það er nefnilega kjörið tækifæri á slíkum tímamótum til að móta straumana til framtíðar – það tækifæri hafið þið nýtt í gegnum ótal vinnustofur og samstarf innanhúss og í samtali við aðra aðila.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka fyrir gott samstarf ráðuneytisins og stofnunarinnar. Þegar maður brennur fyrir einhverju þá er gott að vita að fleiri brenna líka fyrir auknum réttindum og betri kjörum þeirra hópa sem okkur hefur verið falið að sinna.

Opinberar stofnanir eru, má segja, framlenging á ráðuneytum, við erum öll eitt lið, og sinna því með ráðuneytunum stefnumótun og framkvæmd laga og reglna. Þess vegna fagna ég góðu samstarfi við ykkur á Tryggingastofnun. Það mun reyna áfram á það samstarf á komandi misserum, þegar stórfelldar breytingar á örorkulífeyriskerfinu munu eiga sér stað.

Kæra stjórn og starfsfólk Tryggingastofnunar!

Framundan er heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins.

Þetta er og verður stærsta pólitíska áherslumálið mitt og ég óska eftir góðu samstarfi við ykkur við að vinna því framgang. Ekki bara höfum við fengið lánað starfsfólk frá ykkur inn í ráðuneytið, heldur hafið þið sinnt mikilvægu hlutverki í gerð sviðsmynda og útreikninga á kostnaði við breytingar á kerfinu.

Og, nú hefur okkur tekist að fjármagna kerfisbreytinguna í nýrri fjármálaáætlun. Það eru vatnaskil í áratugalöngum áætlunum um að breyta þessu blessaða kerfi.

Og, vinnan heldur áfram. Aðkoma ykkar að frumvarpssmíðinni skiptir miklu máli því þið kunnið á framkvæmdina.

Kæru vinir,

Hvað ætlum við þá að gera? Jú, við ætlum að bæta kerfi almannatrygginga fyrir fólk með mismikla starfsorku.

Við ætlum að færa áherslur yfir á fyrri stig, þ.e.a.s. grípa inn í þegar fólk sýnir merki um veikindi, aðstoða fólk við að komast aftur út á vinnumarkað, aðstoða þau sem þurfa aðstoð í fyrsta skipti á vinnumarkað, t.d. vegna þess að þau eru einhverf, eru með ADHD, eru með líkamlega fötlun, eru með andlegar fatlanir eða hafa misstigið sig í lífinu og þurfa annað tækifæri.

Við erum ekki öll fædd eins. Sem betur fer. En öll eigum við að njóta tækifæra til menntunar og atvinnu, og ef sum okkar þurfa meiri aðstoð en önnur, þá á samfélagið að veita hana. Út á það ganga mannréttindi.

Á sama tíma verðum við að bæta kjör þeirra sem ekki geta unnið, og ekkert grípur nema hið opinbera. Og við ætlum að gera það fallega og gera það auðvelt að vera í þjónustu hjá okkur.

Við ætlum þess vegna að fækka hindrunum fyrir fólk út á vinnumarkaðinn hvort heldur sem horft er til skerðinga í greiðslukerfinu eða skorts á störfum við hæfi.

Og, ég vona að fólk skynji að þau skref sem þegar hafa verið stigin í átt að betra kerfi sé til vitnis um það að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er full alvara með því að koma á löngu tímabærum breytingum á örorkulífeyriskerfinu.

En, hvaða skref hafa þá verið tekin? Ég ætla að nefna þrennt:

Við lengdum greiðslutíma endurhæfingarlífeyris um tvö ár, úr þremur í fimm ár sem bent hefur verið á í fjöldamörg ár að þyrfti að gera. Þetta gagnast mest ungu fólki sem á við geðrænar áskoranir að stríða og ekki hafa fundið nægjanlegt jafnvægi í sjúkdómi sínum.

Við hækkuðum líka frítekjumark atvinnutekna sem ekki hefur hreyfst í 14 ár og reyndar nærri því tvöfölduðum það, og þetta skapar rétta hvata til aukinnar atvinnuþátttöku.

Þegar kemur að fjölgun starfa þá vil ég nefna stóraukið fjármagn til að aðstoða ungt fólk í svokölluðum NEET hópi (fólk sem ekki er í vinnu, ekki í námi og ekki í virkni) við að komast út á vinnumarkað og haldast á vinnumarkaði, í gegnum samstarf VIRK, VMST og SA.

Og, vinna er í gangi við gerð frumvarps um breytingar á matskerfinu, þjónustukerfinu og greiðslukerfinu sem munu fækka hindrunum til atvinnuþátttöku, stoppa upp í göt í kerfinu, halda betur utan um fólk þannig að það falli ekki milli stafs og hurðar í kerfinu og bæta kjör þeirra sem minnst hafa í hópi örorkulífeyrisþega.

En á sama tíma erum við líka að vinna að landsáætlun um framkvæmd Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögleiðingu samningsins hérlendis.

Við erum með starfshópa að vinna að tillögum um náms- og starfstækifæri fatlaðs fólks og starfshóp eða samhæfingarvettvang fyrir velferð og virkni á vinnumarkaði þar sem meðal annars er horft til fjölgunar hlutastarfa og sveigjanlegra starfa, snemmtækrar íhlutunar þegar veikindi og slys bera að garði, sérstakrar stefnu fyrir NEET hópinn og fleiri atriða.

Öll þessi vinna verður ekki slitin úr samhengi við almannatryggingakerfið sem sér fólki fyrir framfærslu að hluta eða öllu leyti.

Kæru vinir,

Ég vona að mér hafi tekist að draga upp einhverja mynd af því sem ég vil ná til leiðar sem félags- og vinnumarkaðsráðherra. Tíminn tikkar.

Það sem ég er að tala um og boða hér eru breytingar sem skipta munu máli langt inn í framtíðina.

Í dag er alltof margt fólk sem endar á algjörlega ótímabærri örorku vegna þess að það fær ekki aðstoð og þjónustu við hæfi á réttum tíma og með réttum hætti.

Þessu skulum við breyta og búa fleirum í samfélagi okkar aukin tækifæri, betri lífskjör og ánægjuríkara líf.

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta