Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. maí 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á 15 ára afmælisráðstefnu VIRK 2023

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: 

Ágætu fundargestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa ykkur hér í dag á 15 ára afmælisráðstefnu VIRK.

Það er sameiginleg ábyrgð okkar sem hér erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að fólk sem missir starfsorkuna fái rétta þjónustu á réttum tíma og að sem flest komist aftur út á vinnumarkað sem detta út af honum.

Við höfum öll okkar hlutverk í því samhengi. Það þarf að skapa umgjörðina sem á að grípa fólk, nýta þekkingu og reynslu sem best gagnast hverju sinni og tryggja að setja einstaklinginn í forgrunn.

Eitt af mínum aðaláherslumálum á þessu kjörtímabili snýr að heildarendurskoðun á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu þar sem meðal annars er unnið að því að tryggja réttindi fólks sem verður fyrir starfsgetumissi og þarfnast starfsendurhæfingar.

Við þurfum nýtt fyrirkomulag með nýrri hugsun þar sem þjónustan er fyrir notandann en ekki fyrir kerfið, þar sem fólk hefur möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum.

Kerfið eins og það er í dag er of flókið með öllum sínum þröskuldum og kerfisflækjum. Fólk á ekki að mæta þröskuldum heldur þjónustu og við erum loksins að búa til þannig kerfi.

Um er að ræða mestu umbyltingu á örorkulífeyris- og starfsendurhæfingarkerfinu frá upphafi, umbylting sem er arðsöm fyrir okkur öll.

Og ég veit að ég get stólað á samvinnu ykkar sem hér eruð til þess að ná árangri fyrir okkur öll. Því breyting á kerfinu er ekki aðeins fyrir þau sem í dag þurfa stuðning. Breytingin er til frambúðar fyrir okkur öll og þau sem á eftir okkur koma.

Oft er sagt að tími manns í pólitík sé stuttur – það er nú þó allaveganna, en ég veit hið minnsta að tími manns í ráðherrastóli getur verið stuttur og það er ekki sjálfgefið að fá þau tækifæri sem ég hef fengið og nýt núna. Tíma minn í stóli félags- og vinnumarkaðsráðherra vil ég nýta vel til þess að gera jákvæðar og framsæknar breytingar á velferðarkerfinu:

Þess vegna hef ég sett á oddinn endurskoðun á þjónustu við eldra fólk, en þar samþykkti Alþingi nýlega þingsályktun mína og heilbrigðisráðherra um aðgerðaáætlun til næstu 5 ára,

Þess vegna hef ég sett á oddinn málefni fatlaðs fólks, bæði framkvæmd SRFF, og sérstaka áherslu á tækifæri til náms og atvinnu fyrir þennan hóp

Þess vegna hef ég sett á oddinn fyrstu stefnumótun á Íslandi um málefni innflytjenda

Og þess vegna er heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins stærsta velferðarmálið sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fæst við á þessu kjörtímabili.

Ég treysti á ráðgjöf ykkar og samvinnu þegar við leggjum fram drög að frumvarpi í samráðsgátt um nýtt örorkulífeyriskerfi. Að fá augu ykkar og sem flestra á nýtt kerfi mun styrkja byggingu þess og tryggja framgang.

En gleymum því ekki að við erum þegar byrjuð á þessum breytingum:

  • Í fyrsta lagi er búið að lengja greiðslutímabils endurhæfingarlífeyris úr 3 árum í 5 ár. Með því bætum við réttarstöðu einstaklinga með alvarlegan heilsuvanda, til dæmis ungs fólks með nýlegar geðgreiningar þar sem viðeigandi heilbrigðismeðferð er ekki lokið. Þetta skiptir mjög miklu máli og snertir líf fólks um land allt. Höfum það hugfast að það munar mikið um hvern einasta einstakling sem hægt er að endurhæfa til virkni í samfélaginu. Þetta segi ég með hag einstaklingsins og samfélagsins alls í huga.
  • Í öðru lagi er búið að nær tvöfalda frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyris- og endurhæfingarlífeyrisþega, sem hefur það að markmiði að setja réttan hvata til aukinnar virkni og atvinnuþátttöku.

Í nýju kerfi verður samræmt kerfi tilvísana og mats á þjónustuþörf einstaklinga sem misst hafa starfsgetu sína og eru í þörf á endurhæfingu með aukna atvinnuþátttöku eða endurkomu til vinnu að markmiði.

Við erum í dag að veita góða endurhæfingarþjónustu á mörgum stöðum og innan ólíkra kerfa en við sjáum tækifæri í að hægt sé að skapa meiri samfellu og bæta skilvirkni í þjónustunni til handa einstaklingum sem þurfa á henni að halda, óháð því innan hvaða kerfis þjónustan er veitt.

Undir lok síðasta árs var birt heildarúttekt á þjónustu VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs. Niðurstöður hennar leiddu í ljós að nýgengi örorku er minna eftir tilkomu VIRK og að greinilegur ábati er af starfinu sem ég óska VIRK og okkur öllum til hamingju með.

Reynslan hefur sýnt okkur að með því að vinna markvisst að farsælli endurkomu fólks á vinnumarkað eftir veikindi eða slys aukum við líkurnar á virkni þeirra einstaklinga í lífi og starfi til framtíðar.

Þá sýna rannsóknir að samfélagsleg virkni hefur bein jákvæð áhrif á líðan fólks sem svo stuðlar að aukinni velferð þess í lífinu öllu. Samfélagslegur ávinningur samvinnu þessara tveggja ráðuneyta, heilbrigðis- og félags- og vinnumarkaðs, á sviðinu er fyrir vikið ómetanlegur.

Ég mun halda áfram að setja mikinn kraft í að stuðla að aukinni velferð og virkni á vinnumarkaði fyrir öll.

Annar hluti kerfisbreytingarinnar er að auka tækifæri fólks með mismikla starfsgetu á vinnumarkaði. Ég er mjög stoltur af nýlegu verkefni sem snýr að því að stórefla stuðning við ungt fólk með aðgerðum sem hafa sýnt að þær virka og geta haft áhrif langt inni í framtíð fólks.

Hér er um að ræða samstarfsverkefni ráðuneytis míns, SA, VIRK og Vinnumálastofnunar sem hefur það að markmiði að fyrirbyggja ótímabært brotthvarf ungs fólks með geðraskanir af vinnumarkaði, auk þess að auka samfélagslega virkni ungmenna sem tilheyra svokölluðum NEET-hópi, þ.e. ungt fólk sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun.

Meira en 450 milljónum króna verður varið til verkefnisins, sem er jafnframt liður í heildarendurskoðun á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu, yfir þriggja ára tímabil.

Kæru afmælisgestir!

Við þurfum stefnubreytingu, og unnið er að henni. Við þurfum hugarfarsbreytingu til að búa öllum tækifæri, opna vinnumarkaðinn og viðurkenna að sum þurfa aðstoð til að vera þátttakendur, alveg eins og þegar maður lærir að hjóla, þá notast maður við hjálpardekk. Þannig búum við til öflugt samfélags.

Við hljótum öll að vilja samfélag sem veitir öllum tækifæri og styður viðkvæma hópa. Við hljótum öll að vilja samfélag sem gerir okkur öll auðugri, einstaklinga, vinnustaði, fyrirtæki og samfélagið allt.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem komið hafa að þjónustu VIRK síðastliðin 15 ár – fyrir ykkar ómetanlega starf. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs og óska ykkur velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta