Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. september 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á opnunarhátíð Fundar fólksins 2023

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Ágætu gestir og aðstandendur Fundar fólksins,

Það er mér sönn ánægja að taka þátt í áttundu opnunarhátíð lýðræðishátíðarinnar Fundar fólksins. Hátíðir af sambærilegu tagi hafa víða fest sig vel í sessi á Norðurlöndunum. Þær eru uppspretta nýrra hugmynda og lausna. 

Ef horft er yfir söguna frá því hátíðin hófst fyrir rúmlega 50 árum má sjá og jákvæðar samfélagsbreytingar eru ekki sjálfgefnar. Barátta fyrir lýðræði og þátttöku borgaranna í ákvarðanatöku hefur víða skilað miklum árangri, en svo hefur líka orðið bakslag. 

Sem dæmi má nefna að réttindi kvenna og hinsegin fólks eiga undir högg að sækja víða í kringum okkur. Nýjasta dæmið hér heima á Íslandi er hvernig fræðsla um hinseginleikann er skrumskæld, véfengd og talað um innrætingu.

Við höfum einnig nýlega séð hvernig lýðræðinu stendur ógn af vaxandi tilburðum til að ala á upplýsingaóreiðu, stjórna fréttamiðlum, dreifa falsfréttum og stýra umræðunni til þess að valda hræðslu og óöryggi í okkar daglega lífi.

Ég hef miklar áhyggjur af því að skautun í orðræðu eykst gagnvart þeim sem leita skjóls undan hættu í heimalandi sínu, hvort sem er vegna stríða, flóða eða elda af völdum hamfarahlýnunar sem við ríkari þjóðir berum ábyrgð á, eða vegna stjórnmálaskoðana, eða vegna kyns eða kynhneigðar. Á stuttum tíma erum við að horfa upp á hvernig þróun mannréttinda og jöfnuðar getur færst aftur á bak, og eru ekki sjálfsagðir fastar. 

En hvers vegna og hvernig gerist þetta? Það er það sem við ættum að ræða og vinna með. 

Einn þáttur sem skiptir gríðarlegu miklu máli er traust í samfélögum. Ef leitast er eftir að draga okkur í hópa og dilka og finna það sem sundrar okkur frekar en sameinar rýrir það traust í samfélaginu og á milli fólks. 

Í nýlegu erindi Bo Rothstein fyrrverandi prófessors við Oxford og Gautaborgarháskóla á því hvers vegna Norðurlandabúar eru hamingjusamastir, var fjallað um að það væri meðal annars vegna þess að við berum traust til þeirra stofnana sem samfélög okkar reiða sig á sem og hámörkunar lýðræðislegar þátttöku. Á traustinu getum við byggt umræðuna og þar eru réttar upplýsingar lykilatriði. 

Annar þáttur sem hér skiptir máli er máttur þekkingar, fræðslu og umburðarlyndis. Ein persónuleg saga. 

Pabbi minn sem átti pínku erfitt þegar ég kom út úr skápnum, spurði mig um daginn þegar við feðgar vorum að keyra heim saman norðan af Ströndum, hvaða máli skiptir það hvers kyns fólk er, og hvers vegna mega börn ekki vera það kyn sem þeim finnst þau vera? Af hverju ætti honum eða öðrum að koma það svona mikið við? Væri ekki aðalatriðið að fólki liði vel í eigin skinni.

Ég verð að viðurkenna að við pabbi ræðum svona mál ekki oft, hann átti frumkvæðið að umræðunni, og ég hélt bara í mér tárunum yfir því hvað ég ætti góðan og réttsýnan pabba. En ég held líka að hann hafi lært mjög margt af því að eiga samkynhneigðan son, sem lítið breyttist við að koma út úr skápnum, nema honum leið einmitt betur í eigin skinni.

Það að kona klæðist gallabuxum þótti einu sinni djarft, að karlmaður málaði sig eða börn klæddust ekki fötum sem þóttu hæfa því líkamlega kyni sem þau fæddust með. Eftir því sem þetta verður algengara, fleiri þekkja til fólks þá verða hlutirnir líka eðlilegri fyrir fólki – því okkur þykir vænt um fjölskyldu, vini og samstarfsfólk eða samtíðarfólk okkar. Þannig að máttur umburðarlyndis, fræðslu og sýnileika er líka afar mikill.

Það er því ekki aðeins ánægjulegt heldur nauðsynlegt að taka umræðuna og veita tækifæri til þess. 

Í vikunni mátti sjá þessa ljóslifandi dæmi. Fyrir ári síðan var mikið í umræðunni og fjölmiðlum hvernig hinsegin ungmenni urðu fyrir aðkasti og hótunum og það var gelt að þeim fyrir það eitt að vera þau sjálf. Nú ári síðar segja þau frá því að þetta hafi batnað, ekki horfið, en batnað. Þau telja að umræðan og umfjöllunin hafi verið til þess að batnaði. Það er það sem við verðum að gera hér og nú og þessi fundur getur verið afl til jákvæðra breytinga!

Grípum tækifærið og tökum þátt, virkjum önnur til að taka þátt og byggjum þannig áfram undir lýðræði og hamingju okkar hér á Norðurlöndunum.

Að lokum óska ég Almannaheillum, Norræna félaginu og öðrum þeim sem koma að skipulagningu Fundar fólksins til hamingju með vandaðan undirbúning og glæsilega dagskrá. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta