Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á ársfundi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Meðfylgjandi er texti úr vídeó-ávarpi:

Til hamingju með ársfundinn ykkar og þessa áhugaverðu dagskrá sem hér er fram undan.

„Rík af reynslu – lærum hvert af öðru“ sem er yfirskrift þessa fundar eru kröftug orð sem lýsa bæði stolti af þeirri reynslu sem við höfum en um leið þeirri auðmýkt að við getum alltaf gert betur og lært hvert af öðru. Og við þurfum svo sannarlega á því að halda í dag í síbreytilegri tilveru dagsins í dag að þora að endurmeta þær leiðir í þjálfun og menntun með inngildingu að leiðarljósi.

Það að læra hvert af öðru er það sem við erum að gera í mínu ráðuneyti í tengslum við margskonar endurskoðunar- og stefnumótandi verkefni og þar á meðal er endurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og lögum um framhaldsfræðslu frá 2010.

En við erum einnig með í gangi fleiri stór verkefni, sem öll tengjast og þurfa að spila vel saman, -  eins og heildarendurskoðun á málefnum innflytjenda, þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk sem þegar hefur verið samþykkt og gengur undir nafninu „Gott að eldast“ ásamt Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er nýkomin í samráðsátt og heildarendurskoðun á endurhæfingar- og örorkulífeyriskerfunum.
 
Í þingsályktun menningar- og viðskiptaráðherra um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 sem verður brátt lögð fram á Alþingi eru  fimm aðgerðir af 19 sem eru á ábyrgð míns ráðuneytis.

Þær eru:
- Aðgerð 1 um Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu.
- Aðgerð 2 um Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
- Aðgerð 15 um Samþættingu íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum starfsfólks í heilbrigðis-, félags- og umönnunargreinum.
- Aðgerð 17 um Íslensku handa öllum.
og aðgerð 19 um Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.

Tungumálið er lykillinn að samfélaginu, og íslenska sem annað mál fyrir innflytjendur finnst mér að eigi að geta farið fram á vinnutíma og á kostnað atvinnurekanda, sem sjálfsögð fjárfesting í mannauði.

Ég legg líka sérstaka áherslu á að framhaldsfræðslan nái enn betur utan um fatlað fólk Í kaflanum um menntun og atvinnu, í landsáætluninni sem ég nefndi hér áðan eru í allt 11 aðgerðir, þar af níu aðgerðir frá starfshópi um aukin náms- og starfstækifæri, sem skipaður var af félags- og vinnumarkaðsráðherra í samráði við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra í lok árs 2022. Aðgerðir landsáætlunar í menntun og atvinnu miða að því að auka aðgengi að fjölbreyttum tækifærum til menntunar og atvinnu án aðgreiningar, í því skyni að fatlað fólk geti tekið fullan þátt í námi og á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Ein af þessum aðgerðum – aðgerð D.8. er um aukið samstarf Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Fjölmenntar. 27. grein SRFF kveður á um að aðildarríki viðurkenni rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu. Í því felst m.a. að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að starfs- og símenntun.

Lagt er til að efla samstarf  Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Fjölmenntar, fræðsluaðila sem fá úthlutað úr fræðslusjóði og Vinnumálastofnunar til að tengja saman verkfæri þeirra og gera kerfin skilvirkari fyrir fatlað fólk. Með því að auka ofangreint samstarf má gefa þeim einstaklingum sem ekki hafa lokið námi frá framhaldsskóla tækifæri til að afla sér menntunar eða bæta stöðu sína á vinnumarkaði.

Þessum verkefnunum, eins og öðrum, mætum við með opnum huga og með það að leiðarljósi að bæta þjónustu við fólki og leggja grunn að því að á Íslandi bjóðist öllum tækifæri til náms og stuðnings. Það leggur grunn að enn betra og réttlátara samfélagi.

Þannig hefur það verið með endurskoðunarverkefnið í framhaldsfræðslunni sem Berglind Rós Magnúsdóttir, formaður samstarfshópsins mun segja ykkur betur frá á eftir. Um 25 hagsmunaaðilar vinna í þeim skelegga hópi. Nú er verið að skrifa Grænbók þar sem staða málaflokksins er teiknuð upp og lykilþættir í væntanlegri stefnu settir fram til umræðu. Þessi atriði verða rædd í starfshópsins og koma síðan til almennrar umræðu í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda og muni mynda grunn fyrir hvítbókarvinnu sem á að njörva niður stefnuna og síðar verður leitað eftir ráðgjöf frá samstarfshópnum um gerð nýs frumvarps.

Að endurskoða framhaldsfræðsluna er eitt þeirra verkefna sem sett var fram í sáttmála um stjórnarsamstarf vegna þess að oft hefur verið bent á agnúa við framkvæmd laganna og sagt að kerfið þyki flókið og það verði að geta mætt breytingum vegna tækni- og loftslagsbreytinga. Hóparnir sem sækja sér framhaldsfræðslu virðast einnig vera á mikilli hreyfingu, innflytjendum og flóttafólki fjölgar mikið, stórar kynslóðir eldast sem verða virkar í ævinámi. Þá þarf að mæta eftirspurn atvinnulífs eftir fólki og eftirspurn fólks eftir námi og störfum. Svo í ofanálag er að verða einhvers konar mennta- eða lífsstílsbyltingin með tilkomu gervigreindar og sjálfvirknivæðingar þar sem líklega verður hægt  að læra allt alls staðar.

Öll þessi opnun og endalausu möguleikar - kalla á að við lærum á umhverfi okkar og verðum þar skapandi gerendur -  um leið að við kunnum að lesa umhverfi okkar á gagnrýninn og greinandi hátt. 

Og allt þetta getum við lært hvert af öðru í allskonar aðstæðum sem leyfa námi að gerast og hæfileikum að njóta sín.

Eigið góðan dag þar sem þið vonandi lærið ríkulega af hvert öðru.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta