Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fékkst á árinu 2023 við fjölmörg verkefni, bæði lögbundin sem og ýmis áherslumál. Meginhlutverk ráðuneytisins er að fara með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála, en það fer að auki með málefni fjármálamarkaðarins, ber ábyrgð á bættum stjórnunarháttum og áætlanagerð, hefur með höndum virka stjórn mannauðsmála ríkisins og er leiðandi í umbótum og nýsköpun í rekstri ríkisins. Mörg verkefni voru á borðum ráðuneytisins sem snúa að þessum þáttum á síðasta ári, sem og önnur áherslu- og átaksverkefni.

Jarðhræringar á Reykjanesskaga settu mark sitt á árið. Þegar eldgos varð þar í nóvember brugðust stjórnvöld við krefjandi aðstæðum sem þá sköpuðust og beindu sjónum að íbúum og innviðum í Grindavík. Samþykkt var ákvæði um forvarnargjald til standa undir kostnaði við byggingu varnargarða og í samstarfi við félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið var unnið að fyrstu úrræðum til einstaklinga og fyrirtækja, stuðningi til greiðslu launa og húsaleigustuðningi.

Ísland hélt áfram að sækja fram á stafrænum vettvangi og er í fremstu röð ríkja í stafrænni þjónustu. Undanfarin ár hefur Stafrænt Ísland unnið ötullega að því að gera stafræna þjónustu að meginsamskiptaleið hins opinbera við almenning. Æ fleiri nýta stafræna opinbera þjónustu og sem dæmi höfðu um 160.000 manns sótt app Ísland.is á síðasta ári og þeim þjónustuleiðum sem bjóðast þar og á Ísland.is fjölgar jafnt og þétt. Þeir tækniinnvðir sem Stafrænt Ísland hefur byggt upp gera að verkum að hægt er að leysa verkefni hratt, t.d. að veita stafræna þjónustu til Grindvíkinga í kjölfar jarðhræringanna á Reykjanesskaga.

Ráðuneytið kemur með ýmsum hætti að loftslagsmálum. Á síðustu árum hafa þannig verið til staðar ýmsar ívilnanir frá virðisaukaskatti til að greiða fyrir vistvænni ferðamáta. Árið 2023 var horfið frá flestum þeirra og nýju kerfi komið , þar sem veittar eru beinar greiðslur úr Orkusjóði.

Unnið var að því að móta heildstæða framtíðarsýn um tekjuöflun af vegasamgöngum og útfæra nýtt tekjukerfi í samræmi við það. Sett var á fót verkefnastofa sem starfar þvert á þrjú ráðuneyti – fjármála- og efnahagsráðuneyti innviðaráðuneyti og forsætisráðuneyti. Sett var löggjöf um kílómetragjald fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla, þar sem lögð var áhersla á samráð við hagaðila og trausta upplýsingamiðlun til almennings um ávinning breytinganna, á vefnum Vegir okkar allra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum