Hoppa yfir valmynd

Greining á útgjöldum

Alls námu heildarútgjöld, þ.e. gjöld og fjárfestingar, þeirra málaflokka sem fjármála- og efnahagsráðuneytið ber ábyrgð á 278 ma.kr. árið 2023.

Útgjöld málaflokks 5.1. Skattar og innheimta eru 9.648 m.kr. sem er 546 m.kr. umfram heimildir ársins en þegar tekið er tillit til uppsafnaðra heimilda eru útgjöldin 679 m.kr. innan heildarfjárheimilda eða 6,6%. Uppsafnaðar heimildir málaflokksins eru að mestu til komnar vegna uppsafnaðs höfuðstóls Skattsins en stofnunin gekk á þennan höfuðstól á árinu 2023. Ástæður aukinna útgjalda Skattsins á árinu 2023 má að mestu rekja til einskiptis kostnaðar vegna flutnings stofnunarinnar í nýtt húsnæði og uppbyggingu á nýju tæknilegu umhverfi.

Frávik málaflokks 5.20 Eignaumsýsla ríkisins námu samtals 22,9 ma.kr. umfram heimildir. Málaflokkurinn er ólíkur öðrum málaflokkum sem falla undir ráðuneytið að því leyti að hann er að mestu fjármagnaður með sértekjum. Eignasafn Ríkiseigna var fært yfir í A2 hluta ríkissjóðs í fjárlögum ársins 2023 en reikningshaldsleg yfirfærsla mun eiga sér stað í ársbyrjun 2024. Á árinu 2023 var fasteignasafns Ríkiseigna endurmetið í samræmi við ástand fasteigna sem leiddi til 25,4 ma.kr. verðmatslækkunar og var sú lækkun gjaldfærð.

Útgjöld málaflokks 5.3 Fjármálaumsýsla ríkisins eru 3.407 m.kr. og voru 151 m.kr. umfram heildarfjárheimildir ársins 202. Frávikin skýrast af neikvæðri rekstrarniðurstöðu Ríkiskaupa og Umbru þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins. Rekstur Ríkiskaupa hefur verið ósjálfbær síðustu ár og mun stofnunin vera sameinuð Fjársýslu ríkisins árið 2024.

Útgjöld málaflokks 5.4 Stjórnsýsla ríkisfjármála eru 8.643 m.kr. og eru 483 m.kr. umfram fjárheimildir ársins en þegar tekið er tillit til stöðu frá fyrra ári og millifærslu úr almennum varasjóði eru útgjöldin 483 m.kr. innan heildarfjárheimilda eða sem nemur 5,3%. Frávikin innan ársins skýrast að mestu af útgjöldum vegna dómkrafna en þau útgjöld eru eðli málsins samkvæmt mjög breytileg á milli ára. Umframútgjöld dómkrafna eru að mestu til komin vegna dóms um endurgreiðslu flutningsjöfnunargjalds sem lagt var á innfluttar olíuvörur en millifært var 1,7 ma.kr. framlag af almennum varasjóði til mæta frávikinu. Þar fyrir utan voru frávik vegna umsýslu hugbúnaðarleyfa sem alls náum 262 m.kr.

Málaflokkur 31.1 Húsnæðisstuðningur: Heildargreiðslur vegna vaxtabóta eru 746,1 m.kr. undir heimildum eða sem nemur 26,6%. Viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins héldust óbreyttar á milli ára en á sama tíma hækkaði matsverð fasteigna um tæp 20% ásamt því að laun og fjármagnstekjur hækkuðu um ríflega 15%. Hærri eigna og tekjustofnar leiða til meiri skerðinga í vaxtabótakerfinu. Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að beina húsnæðisstuðningi í annan farveg en í gegnum vaxtabótakerfið og er viðbúið að vaxtabætur muni fara áfram lækkandi.

Útgjöld málaflokk 33.20 Ríkisábyrgðir eru 180,7 m.kr. umfram heimildir til rekstrar en á móti kemur að til staðar er uppsöfnuð fjárfestingarheimild sem nemur 240 m.kr. Í lögum nr. 38/2020 um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs er kveðið á um að ríkissjóður ábyrgist stuðningslán sem lánastofnun veitir rekstraraðila sem uppfyllir ákveðin skilyrði. Í ár kom til greiðslu á ríkisábyrgð vegna stuðningslána, samtals 180,7 m.kr.

Í málaflokki 33.1 Fjármagnskostnaður nema útgjöld 103,8 ma.kr. sem er umtalsvert hærra en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir. Í fjáraukalögum ársins 2023 var veitt heimild fyrir 26,4 ma.kr. á grunni þess að verðbólga var umfram spár. Niðurstaða ársins var því 2,3 ma.kr. undir heildarfjárheimild ársins. Frávik frá áætlun má skýra með því að vaxtakjör tekinna lána voru hagstæðari en spáð var og styrking krónunnar og afleidd áhrif á höfuðstól erlendra lána lækka gjaldfærð vaxtagjöld. Aftur á móti voru verðbólga og verðbætur umfram spár sem hefur áhrif á vaxtagjöld til hækkunar.

Í málaflokki 33.3 Lífeyrisskuldbindingar nema útgjöld 96,9 ma.kr. og eru þau um 8,9 ma.kr. lægri en heildarfjárheimild ársins 2023. Fjárheimild í fjárlögum ársins nam 61 ma.kr. auk þess sem fjárheimild fjáraukalaga nam 44,3 ma.kr. Hækkun á lífeyrisskuldbindingar umfram áætlun fjárlaga má rekja til hækkunar á vísitölu lífeyrisskuldbindinga sem hefur verið óvenju há fyrstu mánuði ársins 2023 m.a. í tengslum við kjarasamninga. Ein helsta beina skuldbinding ríkissjóðs felst í lífeyrisskuldbindingum vegna B-deildar LSR en þær eru háðar ytri og hagrænum breytingum.

Útgjöld vegna málaflokks 34.3 afskriftir skattkrafna eru 2,3 ma.kr. í stað áætlaðra 22,4 ma.kr. og því 20,1 ma.kr. undir áætlun. Hið mikla frávik má rekja til breyttrar aðferðafræði við mat á verðmæti ógreiddra skattkrafna. Breytingar hafa verið innleiddar í áföngum undanfarin ár og miðast að því að kröfur séu ekki ofmetnar í ljósi þess hversu líklegt er að þær innheimtist. Eftir miklar afskriftir á tímabilinu 2018–2021 hefur mun minna verið afskrifað undanfarin tvö ár. Afskriftir skatt­krafna hafa hvorki áhrif á sjóðstreymi né skuldir ríkissjóðs.

Frávik vegna almenna varasjóðsins sýna óráðstafaða stöðu varasjóðsins sem verður felld niður í árslok. Nánari umfjöllun um almenna varasjóðinn er að finna í sérstökum kafla um almenna varasjóðinn. Frávik vegna reksturs annarra málaflokka voru óveruleg.

Á málefnasvið 5 er um að ræða uppsafnað fjárfestingarframlag sem skýrist af uppsöfnuðu framlagi vegna fjárfestinga sem hafa frestast.

 

Upphæðir eru í m.kr.

 

Yfirlit yfir ráðstöfun varasjóða

Í lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, er gert ráð fyrir að hægt sé að nýta varasjóði málaflokka til að bregðast við áhættu og veikleikum í rekstri. Ef hætta er á að útgjöld verði umfram fjárveitingar skal hver ráðherra leita leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjárveitingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveitingar. Ráðuneytið hefur til umráða fjóra varasjóði málaflokka sem allir eru á málefnasviði 05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla. Eftirfarandi töflur sýna ráðstöfun úr varasjóðunum.

 

Almennur varasjóður

Í fjárlögum er óskiptur almennur varasjóður, skv. 24. gr. laga um opinber fjármál, til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti á fjárlagaárinu. Almennur varasjóður nemur að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga. Framlag úr ríkissjóði í almennan varasjóð á árinu 2023 nam 33,9 ma.kr. Fjármála- og efnahagsráðherra tekur ákvarðanir um ráðstöfun fjár úr varasjóði og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir nýtingu þess þegar ákvörðun liggur fyrir. Almennum varasjóði er einkum ætlað að mæta frávikum í launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga ásamt öðrum meiri háttar ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum.
Á árinu 2023 voru veittir 18,6 ma.kr. úr sjóðnum í tengslum við endurmat á launaforsendum fjárlaga 2023 og áhrifum kjarasamningshækkana á árinu. Veitt var framlag til ýmissa mála sem eru í eðli sínu tímabundin og ófyrirséð og eru þau talin upp í eftirfarandi töflu:

 

Yfirlit yfir styrki

Vegna eðlis starfsemis fjármála- og efnahagsráðuneytis eru styrkir og framlög skv. 42. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, ekki stór hluti af starfseminni. Veittur voru þrír styrkir af ráðstöfunarfé ráðherra, 200 þ.kr. styrkur til Hinsegin daga í Reykjavík, 350 þ.kr. styrkur vegna viðburðarins ,,Food and Fun“ og 1,6 m.kr. styrkur til félagasamtakanna Afrekshuga.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta