Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2023

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með viðamikil og fjölbreytt verkefni. Meginhlutverk ráðuneytisins er að fara með yfirstjórn opinberra fjármála og efnahagsmála, en það fer að auki með málefni fjármálamarkaðarins, ber ábyrgð á bættum stjórnunarháttum og áætlanagerð, hefur með höndum virka stjórn mannauðsmála ríkisins og er leiðandi í umbótum og nýsköpun í rekstri ríkisins. Um hundrað starfsmenn eru í ráðuneytinu. Árið komu sem fyrr mörg verkefni til kasta þess, sem tengjast stefnumörkun stjórnvalda, bæði reglubundnum á borð við fjármálaáætlun, fjárlög og fjáraukalög, en einnig ýmsum áhersluverkefnum. Hér á eftir er stutt yfirlit yfir framgang nokkurra þeirra verkefna sem voru ofarlega á baugi á árinu 2023.

Fréttaannáll 2023

 

Yfirlit yfir helstu verkefni ráðuneytisins má sjá í meðfylgjandi fréttaannál.

Tekjuöflun ríkisins 

Fjármála- og efnahagsráðherra fer með tekjuöflun ríkissjóðs, en það felur í sér stefnumótun og áætlanagerð skatta, eignatekna og annarra tekjustofna. Í fjárlögum ársins 2023 voru heildartekjur samkvæmt GFS-staðli áætlaðar 1.148 ma.kr. Hagvöxtur var enn mikill, og reyndist 2,3 prósentustigum meiri en áætlað var. Verðbólga var sömuleiðis 3,2 prósentustigum meiri en gert hafði verið ráð fyrir við gerð fjárlaga, en báðir þessara þátta verka til tekjuhækkunar fyrir ríkissjóð til skemmri tíma litið. Urðu heildartekjur ríkissjóðs 1.286 ma.kr. samkvæmt uppgjöri ríkisreiknings, sem aðlagað hefur verið GFS-staðlinum

Þá voru þjóðarútgjöld, sem nýtast sem mælikvarði á innlenda eftirspurn, eilítið lægri á raunvirði en spáð hafði verið, sem skýra má af lakari vexti bæði einkaneyslu og fjármunamyndunar, og var það í raun svo að fjármunamyndun dróst saman milli ára. Mismunandi hreyfingar í vergri landsframleiðslu og þjóðarútgjöldum má að hluta til skýra með komu erlendra ferðamanna hingað til lands, en þeir voru fleiri en væntingar stóðu til, og útflutt þjónusta þar með meiri. Tekjur ársins námu 30,1% af vergri landsframleiðslu, og reyndist frávik þess hlutfalls frá áætlun fjárlaga jákvætt um 1,0 prósentustig. Auk efnahagsþróunar ársins býr að baki því uppfært mat á afskriftum skattkrafna sbr. frávikaumfjöllun í útgjaldakafla ársskýrslunnar.

Skatttekjur og tryggingagjöld voru alls 89% af tekjum ríkissjóðs, sem er svipað hlutfall og á fyrra ári. Skatttekjur og tryggingagjöld voru áætluð 1.025 ma.kr. í fjárlögum, en reyndust 1.144 ma.kr. í uppgjörinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá greiningu á þeirri breytingu.

 

 

 

Grænir hvatar 

Skattar, skattaívilnanir og styrkir eru meðal þeirra stýritækja sem stjórnvöld geta beitt til þess að íslenskt samfélag þokist nær markmiðum sínum í loftslags- og umhverfismálum. Meðal þeirra skatta sem miða að þessu takmarki eru kolefnisgjald, vörugjöld af bensíni, olíugjald, vörugjald af ökutækjum, bifreiðagjald, kílómetragjald, skattur á flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úrvinnslugjald og gjald á rekstrarleyfishafa sjókvíaeldis.

Þá hafa einnig verið til staðar ýmsar ívilnanir frá virðisaukaskatti til að greiða fyrir vistvænni ferðamáta hér á landi, líkt og tilgreint er í ársskýrslu 2022, en árið 2023 var horfið frá flestum þeirra og nýju kerfi komið á þeirra í stað, þar sem veittar eru beinar greiðslur úr Orkusjóði. Þótti það enda áhrifaríkari leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þó voru tvær þessa ívilnana, fyrir rafmagnshjól og endursölu bílaleigubifreiða, framlengdar.

Eftirfarandi verkefni voru í brennidepli á árinu:

Stafrænt Ísland og upplýsingatækni 

Ísland heldur áfram að vera í fremstu röð ríkja í stafrænni opinberri þjónustu og vekur verkefnið athygli bæði innanlands og erlendis. Stafrænt Ísland hlaut UT verðlaun í flokki besta stafræna opinbera þjónustan árið 2023 á UT-messunni og hlaut alþjóðleg verðlaun sem slík hjá World Summit Awards.

Einföldum líf fólks

Ísland.is vinnur að því meginhlutverki sínu að einfalda líf fólks með stafrænni, opinberri þjónustu á tvo vegu. Annars vegar með því að styðja stafræna þróun stofnana og hins vegar með áherslu á að þjónustan sé notendamiðuð með áherslu á lífsviðburði á Ísland.is, þar sem notendur geta fundið og nýtt stafræna þjónustu út frá sínum forsendum.

Stórar áskoranir

Þeir tækniinnviðir sem Stafrænt Ísland hefur byggt upp gera okkur í stakk búin til að leysa verkefni hratt til að veita stafræna þjónustu til Grindvíkinga í þeim aðstæðum sem sköpuðust við jarðhræringar á Reykjanesi. Setttur var upp upplýsingavefur og aðgangur að þjónustukerfi Ísland.is á einungis viku, útfærðar voru ýmsar umsóknir á mjög skömmum tíma, allt frá umsóknum viðbragðsaðila og íbúa að komast inn í bæinn til umsókna um kaup á íbúðarhúsnæði. Þá var mikið lagt í að þjálfa fólk sem helst sinnti þjónustu við Grindvíkinga til að hagnýta stafrænar lausnir í þjónustuveitingunni.

Árið samandregið:

  • Fjöldi flettinga á Ísland.is fór yfir 17,5 milljónir en aukningin er 67% milli ára.
  • Samgöngustofa flutti sína þjónustu á Ísland.is þ.a. nú er öll umsýsla ökutækja aðgengileg þar.
  • Til viðbótar fluttu 15 stofnanir vefi sína á Ísland.is og eru þetta t.d.: heilbrigðisstofnanir suður-, vestur- og austurlands, sjúkrahúsið á Akureyri, Landlæknir, fjársýslan, NTÍ, réttindagæslan o.fl.
  • Ný og bætt samráðsgátt var opnuð á Ísland.is
  • Innleiðing stafræns pósthólfs hélt áfram og eru nú 69 opinberir aðilar með tengda skjalaveitu
  • 160.000 manns hafa sótt Ísland.is appið og eru nokkur skírteini aðgengileg þar: ADR-réttindi, vinnuvélaréttindi, skotvopnaleyfi, byssueign, veiðikortið og ökuskírteini
  • Dæmi um ferli sem voru stafvædd eru: stæðiskort hreyfihamlaðra, sem nú er aðgengilegt í appinu og vegabréf, en upplýsingar um það er aðgengilegt bæði á Mínum síðum og í appinu.
  •  Skráning kílómetrastöðu rafbíla var útfærð bæði á Mínum síðum og í appi
  • Appið heldur áfram að þróast og eru upplýsingar um ökutæki og fasteignir aðgengileg þar ásamt upplýsingum um fjármál gagnvart hinu opinbera.
  • 76 þjónustur eru aðgengilegar í gegnum Strauminn (X-Road)
  • Umsóknir sem fóru í gegnum Ísland.is á árinu 2023 voru yfir 165.000 hvorki meira né minna en 212% fjölgun frá árinu 2022
  • Þjónustukerfi ríkisins var boðið út og er kerfið hugsað til að styðja við nýja þjónustustefnu
  •  Askur, spjallmenni Stafræns Íslands svaraði um 74% samskipta almennings til samanburðar við 67% árið áður.

Jarðhræringar á Reykjanesskaga

Jarðhræringar á Reykjanesskaga settu mark sitt á árið. Þann 10. nóvember hófst þar eldgos og kallaði atburðurinn á snör viðbrögð stjórnvalda við þeim krefjandi aðstæðum sem þá sköpuðust. Var sjónum beint að aðgerðum til stuðnings íbúum og vegna innviða í Grindavík. Samþykkt var ákvæði um forvarnargjald til standa undir kostnaði við byggingu varnargarða og í samstarfi við félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið var unnið að fyrstu úrræðum til einstaklinga og fyrirtækja, stuðningi til greiðslu launa og húsaleigustuðningi.

Vegir okkar allra

Í byrjun árs 2024 var tekið upp kílómetragjald fyrir akstur rafmagns-, tengiltvinn- og vetnisbíla í flokki fólks- og sendibíla. Gjaldið byggist á fjölda ekinna kílómetra og er greitt mánaðarlega út frá áætlun um meðalakstur á gjaldtímabili sem er hver almanaksmánuður og er gert upp þegar ný kílómetrastaða ökutækis er skráð á Ísland.is. Kerfisbreytingin náði til 51 þúsund ökutækja sem er um 18% af bílaflota landsmanna. Um 97% af eigendum umræddra ökutækja skráðu kílómetrastöðu á skráningarsíðu hjá island.is fyrir janúarlok. Gekk skráningin því vonum framar. Mikil áhersla var lögð á að kynna efnið vel fyrir almenningi með auglýsingaherferð og upplýsingasíðunni Vegirokkarallra.is sem hefur vafalaust haft áhrif á hversu vel gekk.

Einföldun regluverks á fjármálamarkaði 

Umfang regluverks á fjármálamarkaði hefur aukist mikið í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Í því skyni að einfalda regluverkið og draga úr réttaróvissu var áformað að fella brott lög og reglugerðir á fjármálamarkaði sem hefðu ekki lengur þýðingu.
Áformin hafa nú gengið eftir. Með reglugerð um brottfall úreltra reglugerða á fjármálamarkaði voru átján úreltar reglugerðir felldar brott. Með lögum um brottfall ýmissa laga á sviði fjármálamarkaðar (úrelt lög), voru nítján lagabálkar sem hafa lokið hlutverki sínu felldir brott.

Úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á íslenska fjármálakerfinu 

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti á síðasta ári niðurstöður úttektar á fjármálakerfinu á Íslandi. Jafnframt birti hann nokkrar skýrslur um tiltekna þætti fjármálakerfisins með margvíslegum tillögum til íslenskra stjórnvalda. Um þrjátíu tillögur snúa að fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hluta tillagnanna hefur þegar verið hrint í framkvæmd, svo sem tillögu um að starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins sitji ekki í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands, og unnið er að sumum, svo sem tillögum sem lúta að netöryggi fjármálakerfisins, en aðrar tillögur eru til skoðunar.

Kynja- og jafnréttismál 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið er ábyrgðaraðili kynjaðrar hagstjórnar og fjárlagagerðar en vinnur, líkt og önnur ráðuneyti, einnig að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku í þeim málaflokkum sem það ber ábyrgð á.
Ráðuneytið fylgdi eftir ákvörðun ríkisstjórnar um að hvert ráðuneyti skilgreini að lágmarki eitt jafnréttismarkmið í fjármálaáætlun 2024-2028 sem gekk eftir. Í málaflokkum ráðuneytisins voru skilgreind þrjú markmið eða mælikvarðar sem miða að jafnrétti kynjanna. Þetta eru bætt kynjahlutfall stjórnarformanna ríkisfyrirtækja, aukið hlutfall fjárfestingakosta sem eru umhverfis- og jafnréttismetin auk hærra hlutfalls mælikvarða sem mæla framgang settra markmiða í fjármálaáætlun séu kynnæmir. Viðmið um hlutfall kvenna meðal stjórnaformanna ríkisformanna náðist en konur eru nú 40% stjórnarformanna. Sama má segja um hlutfall mælikvarða sem eru kynnæmir en mælikvarði fyrir jafnréttismat er enn í mótun.

Í apríl var sjálfbær fjármögnunarrammi ríkissjóðs uppfærður og samhliða gefinn út viðauki um fjármögnun jafnréttisverkefna. Gerð sérstaks viðauka um jafnrétti endurspeglar áherslur ríkisstjórnarinnar á jafnréttismál og valdeflingu kvenna og metnað til að vera í fararbroddi þegar að kemur að beitingu tækja opinberra fjármála og fjármálamarkaða til að stuðla að jafnrétti. Vinnan við viðaukann var leidd af fjármála- og efnahagsráðuneytinu með þátttöku frá öðrum ráðuneytum og stofunum auk sérfræðiráðgjafar frá UN Women. Jafnréttisverkefni sem falla undir viðaukann eru t.d. fjárfesting í umönnunarhagkerfinu til að draga úr ólaunuðum umönnunarstörfum kvenna, félags- og efnahagslegur stuðningur við konur í viðkvæmri stöðu, aðgerðir til að koma í veg fyrir, bregðast við og rannsaka kynferðisbrot, stuðningur og styrkir til frumkvöðla sem tilheyra hópum sem hallar á o.fl.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum