Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar 5. mars 2024
Ágætu stjórnendur og aðrir starfsmenn Landsvirkjunar, góðir gestir
Það er mér sönn ánægja að ávarpa ársfund Landsvirkjunar, nú sem fjármála- og efnahagsráðherra, en þegar ég ávarpaði ársfund Landsvirkjunar síðast, fyrir fimm árum, var ég með orkumálahattinn.
Áður en lengra er haldið langar mig til að óska fyrirtækinu, starfsfólki þess, og eigendum þess, til hamingju með sterka rekstrarniðurstöðu sem kynnt var í dag. Skynsamlegar ákvarðanir og framkvæmdir varðandi nýtingu á orkuauðlindum landsins á undanförnum árum og áratugum, sem og ábyrg stýring þessara mikilvægu þjóðarhagsmuna af hálfu fyrirtækisins skilar okkur gríðarlegum verðmætum.
Kæru gestir.
Jónas Hallgrímsson orti - það er svo bágt að standa í stað og mönnunum munar annaðhvort afturábak ellegar nokkuð á veg.
Að sækja ekki fram jafngildir nefnilega afturför. Önnur samfélög hafa líka metnað og þau munu sækja fram. Við þurfum stöðugt að gera betur til þess að viðhalda stöðu okkar sem framúrskarandi samfélag.
Heimurinn er síbreytilegur og aðstæður hverfular. Sumt þykjumst við geta séð nokkurn veginn fyrir, annað mun koma okkur í opna skjöldu.
Það er eiginlega ótrúlegt hve gæfulega hefur tekist til við að byggja upp samfélag í fremstu röð hér á Íslandi á þeim rúmlega hundrað árum sem við höfum verið fullvalda ríki. Þetta sjá utanaðkomandi augu vel. Við búum í ríki sem er álitið hið friðsælasta í heimi, efnahagsleg og menningarleg lífskjör eru óvíða betri - og hér á landi höldum við ætíð í þá hugsun að við séum þrátt fyrir allt jöfn, þótt okkur gangi misvel á stundum.
En það væru stór mistök að taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Við þurfum að mæta hverjum degi eins og íþróttamaður sem veit að hver einasti leikur byrjar jafn og það þarf alltaf að leggja sig fram.
Á Iðnþingi fyrir sex árum síðan fjallaði ég um bók Stefans Zweig, „Veröld sem var“. Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins upp úr þeirri ræðu – þið megið endilega hugsa um það sem hefur gerst síðan þá.
Þá sagði ég: Mig til að fara með ykkur í dálítið ferðalag í tíma og rúmi, til Vínarborgar, fyrir rúmlega hundrað árum, í kringum aldamótin 1900, skömmu áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út. Stefan Zweig lýsir andrúmsloftinu í þessari miklu menningarborg á þeim tíma meistaralega vel í bók sinni „Veröld sem var”. Þetta var „gullöld öryggisins”, segir hann. „Menn trúðu á framfarirnar meira en sjálfa biblíuna, og furðuverk vísinda og tækni virtust dag hvern vitna um þennan fagnaðarboðskap. […] Á götunum brunnu rafljós alla nóttina í staðinn fyrir gömlu týrurnar [...]. Nú var hægt að talast við í síma milli fjarlægra staða eða þjóta í vélknúnum vögnum, og [...] maðurinn hóf sig til flugs.”
„Ár frá ári voru þegnunum veitt aukin réttindi. [...] Jafnvel sjálft höfuðvandamálið, fátækt alþýðunnar, virtist ekki lengur óleysanlegt.” „Sannfæringin um samfelldar, viðstöðulausar framfarir” var allsráðandi. „Enginn gerði ráð fyrir stríði né byltingu. Ofbeldi og öfgar virtust óhugsandi á þessari öld skynseminnar.”
Það er merkilegt að lesa þennan texta og skynja hve trúin á stöðugar framfarir, stöðugar umbætur, stöðugt batnandi lífskjör og réttindi, og stöðugan frið í samfélagi manna og þjóða, var sterk og óbilandi á þessum tíma.
Ég held að við höfum flest þessa sömu trú í dag. Við trúum því að stríð, kúgun og kreppur séu tímabundnar truflanir í stóru myndinni, sem er samfelld framfarasaga mannkynsins. Við trúum því að framtíðin verði betri en dagurinn í dag. Að framfarir í tækni og vísindum muni á heildina litið gera líf okkar betra. Að hvert ár, og hver kynslóð, muni færa okkur aukinn skilning á mannréttindum, aukið jafnrétti, og bætt lífskjör.
Kannski á þessi trú hvergi betur við en á Íslandi. Óvíða hefur fólk það betra en hér. Við getum nefnt hvern listann á fætur öðrum yfir lífsgæði, hagsæld og velferð þar sem við erum í efstu tíu til fimmtán sætum í heiminum. Við hljótum að hafa fullan rétt til að spyrja okkur: “Erum við ekki hér að lifa gullöld lífsgæða? Gullöld velferðar? Gullöld öryggis?”
En við lestur bókar Stefans Zweig vaknar líka spurningin: Er mögulegt að innan nokkurra áratuga verði skrifað um þennan tíma undir fyrirsögninni: „Veröld sem var”?
Er kannski eitthvað við sjóndeildarhringinn, sem ógnar grundvelli okkar og góðri stöðu?”
Svo mörg voru þau orð mín á iðnþingi 2018.
Og sannarlega hefur heimurinn breyst síðustu sex ár. Veruleiki Evrópu hefur umturnast síðastliðin tvö ár. Öll vonum við að stríð Rússa í Úkraínu endi með sigri úkraínsku þjóðarinnar í eigin landi.
En það dugir bara ekki til að vona. Þunginn er mikill og staðan er ekki góð. Vinir og bandamenn eru ekki að gera nóg. Og Rússland Pútíns mun ekki stoppa nema það sem það verður stöðvað.
Við Íslendingar eru ólíkleg skotmörk en við erum sannarlega ekki ónæm fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. Það er þess vegna mikilvægt að hafa þennan veruleika í huga þegar við tökum ákvarðanir í okkar samfélagi. Áhættustýring, þar á meðal í orkumálum, framkvæmdum og ríkisfjármálum er mikilvægari nú en verið hefur um marga áratugi.
Ég vona sannarlega að þjóðir komist á rétta braut áður en veröldin fer til verri vegar.
Ég er bara því miður ekki viss um að það verði þannig.
Allt þetta kallar á að við sem förum með ábyrgð tökum hana alvarlega; hvort sem það er á vettvangi stjórnmála, viðskipta, menningar eða í stjórnsýslunni. Við lifum ekki á tímum þar sem við getum leyft okkur að horfa bláeyg inn í framtíðina og halda að allt muni reddast og fara vel að lokum.
Við þurfum að hafa í huga að tímarnir kalla á að við þurfum að hugsa lengra; að við þurfum að vanda okkur betur en nokkru sinni fyrr og við þurfum alltaf að hugsa - ekki bara um hvað er best til skemmri tíma - heldur hvað er best fyrir Ísland, og hvaða ákvarðanir okkar sýna ábyrgð gagnvart heiminum. Hvernig við að leggja af mörkum til þess að sporna gegn þeirri óheillaþróun sem hætt er við að haldi áfram í heiminum.
Þegar ég fékk að ávarpa fundinn síðast ræddi ég um áformin um Þjóðarsjóð. Áfram - og aftur - ræðum við um að ráðstafa arði af rekstri Landsvirkjunar í áfallasjóð, sem nýttur yrði til að bregðast við óvæntum áföllum í rekstri þjóðarbúsins. Sjóðurinn var í umræðunni þegar ég flutti ávarp á ársfundi Landsvirkjunar fyrir fimm árum síðan og sagðist ég þá styðja stofnun slíks sjóðs. Það geri ég enn - og hann er á þingmálaskrá minni nú á vorþingi.
Það er ábyrgðarhluti að byggja upp slíka getu fyrir komandi kynslóðir enda er gert er ráð fyrir að þessum tekjum verði ekki ráðstafað í sjóðinn fyrr en við höfum náð skuldahlutfallinu, eins og það er skilgreint í lögum um opinber fjármál, niður fyrir lögboðin mörk. Og okkur mun takast að koma skuldahlutföllum á ásættanlegan stað innan nokkurra ára.
Frá því áform þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra komu fram höfum við reyndar farið í gegnum heimsfaraldur, allsherjarstríð braust út í Evrópu sem mikil óvissa ríkir um hvernig þróast og nú blasa við okkur náttúruhamfarir á Íslandi sem staðið geta í mörg ár eða áratugi.
Það er auðvitað hin sama náttúra sem er gjöful og gerir Ísland ríkt af orku og auðlindum - og lætur nú vita af sínum illviðráðanlega eyðileggingarmætti. Hluti af því að geta brugðist við áföllum af völdum náttúrunnar er einmitt að stýra nýtingu okkar á þeim gjöfum sem hún færir.
Ég vil halda því fram að þessi veruleiki sýni okkur að aukinn ráðdeild og áfallasjóður fyrir fullvalda og sjálfstætt eyland sé góð hugmynd.
Því enginn er eyland – ekki einu sinni land sem raunverulega er eyland eins og Ísland.
Mig langar að nefna nokkur praktísk mál sem ég tel mikilvægt að við leggjum sérstaklega áherslu á og mátum alla ákvarðanatöku í raforkumálum við. Þetta eru:
Í fyrsta lagi það sem snýr að þjóðaröryggi
Í öðru lagi efnahagsleg tækifæri og verðmætasköpun
Og í þriðja lagi samkeppni og þróun orkumarkaðar á Íslandi
Þegar kemur að öryggi okkar þá blasir við nýr veruleiki á Reykjanesskaga sem hefur mikil áhrif á nauðsynlega orkuinnviði okkar, heitt vatn og raforku, og er veruleiki sem kallað hefur á mikil útgjöld – og meira gæti komið til. Náttúran hefur þannig minnt okkur á í hvaða landi við búum. Við getum hvorki verið værukær gagnvart innviðauppbygginu, orkuframleiðslu né ríkisfjármálum heldur verðum við að vera undirbúin fyrir áföll og högg. Við þurfum að ráða við þau.
Þegar kemur að efnahagslegum tækifærum og verðmætasköpun tel ég að Ísland sé í færi um að vera leiðandi í grænni orku. Við getum þó hæglega glatað forystu okkar ef við höfum ekki skýra sýn og látum ekki hug fylgja máli. Við eigum að keyra Ísland á grænni innlendri orku eins og kostur er, fremur en að kaupa hana með gjaldeyri okkar fyrir 170 milljarða króna eins og við gerðum á síðasta ári. Þetta er augljóst.
Umræða um orkumál snýst nefnilega um það hvernig hagkerfi viljum við? Svara þarf spurningum um það hvernig orku við teljum okkur þurfa, meiri vatnsfallsorku með „batterísvirkni“, jarðhita, vind - á landi og í sjó?
Það er efnahagslega skynsamlegt fyrir Ísland að fara í orkuskipti, bæði þar sem tæknin er þegar til staðar og að fjárfesta í því að Ísland verði land þar sem slík tækni er þróuð og prófuð.
Ef það lukkat mun þjóðarbúið mun spara tugi milljarða sem í dag fara til kaupa á jarðefnaeldsneyti frá útlöndum. Orkuöryggi og orkusjálfstæði Íslands mun aukast. Aukin raforkuframleiðsla í þágu stærri hóps viðskiptavina stuðlar að betri nýtingu orkuauðlinda og minni sóun á þeim, sem er því miður umtalsverð í dag. Dýrmæt þekking mun byggjast upp á Íslandi sem hægt verður að flytja út. Sprotar og nýsköpunarfyrirtæki munu spretta fram og vaxa, rétt eins og gerst hefur í kringum sjávarútveginn til dæmis, ef við tryggjum opin gögn og opinn og gagnsæjan markað svo snjallir hlutir geti orðið til.
Verkefnið snýst um trúverðuga leið að markmiðinu og hvort hugur fylgir raunverulega máli um að sækja fram og sækja tækifærin. Sú spurning er eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands til framtíðar, en henni þarf að svara, ekki í orði, heldur á borði. Það dugir nefnilega ekki að segjast vilja orkuskiptin, að vilja grænu nýsköpunina því þessi tækifæri kalla öll á grænu orkuna. Að sækja hana þýðir að náttúrunni er raskað, þótt hægt sé og mikilvægt, að lágmarka það rask – þá verður ekki hjá því komist. Hér þarf fólk að meina það sem það segir og segja það sem það raunverulega meinar.
Við búum á grænu batteríi – við látum það ekki gerast að búa við skort á raforku.
Einangrað orkukerfi sem byggir á sveiflukenndri náttúruauðlind eins og vatnsafli hefur alla jafna í för með sér töluverða sóun. Sóunin felst í því að aðeins er hægt að selja versta vatnsárið á gefnu viðmiðunartímabili. Í meðalári fer afgangsorka til spillis. Það er ekki hægt að selja hana af því að það er ekki hægt að tryggja að hún verði til reiðu í óvenjulega þurrum árum. Svokallað lögmætt brottkast.
Í meðalári nemur árlegt brottkast um það bil tveimur teravatt-stundum eða um 10% af okkar raforkuframleiðslu. Það er meira en tvöföld ársnotkun allra heimila landsins. Ef það fengjust nú fjögur þúsund krónur fyrir hverja megavattstund á markaði, sem er ekki fráleitt, þá nemur verðmæti þessa löglega brottkasts átta milljörðum króna á ári, í meðalári.
Ein leið til að koma í veg fyrir þetta væri að leggja raforkustreng, og það hefur verið ein helsta röksemdin fyrir honum. Önnur leið væri að fá sveigjanlegri viðskiptavini, sem væru tilbúin til að slaka á notkun sinni í slæmum vatnsárum, til að gera Landsvirkjun kleift að selja ekki bara versta vatnsárið heldur kannski það næstversta, þriðja versta, eða fjórða versta.
Það er ólíklegt að slíkur sveigjanleiki myndi útrýma sóuninni með öllu en hann gæti minnkað hana verulega. Það er allt að því borðleggjandi að þarna liggja nokkrir milljarðar sem bíða þess að vera teknir upp af gólfinu án mikillar fyrirhafnar; afgangsorka sem er hent og kallar ekki á nýjar virkjanir, heldur aðeins að aðilar séu tilbúnir til að veðja á líkurnar á lélegum vatnsárum og nái samningum um hvernig beri að skipta ávinningnum.
Þegar kemur að samkeppni og þróun orkumarkaðar er rétt að hafa hugfast að hér hefur verið komið á frjálsu markaðsumhverfi í framleiðslu og sölu á rafmagni og frelsi til að kaupa rafmagn af hverjum sem selur slíka vöru. Í frjálsu markaðsumhverfi þarf samkeppni að þrífast og það er mikilvægt að auka samkeppni á orkumarkaði.
Landsvirkjun framleiddi tæplega 15 TWst árið 2022, svipað í fyrra, eða um 73% af raforkuframleiðslu landsins það ár. Samkeppni á mörkuðum er grundvöllur fyrir samkeppnishæfni ríkja. Hún ýtir við öllum á markaði, hún er nauðsynlegt aðhald og hún stuðlar að jafnari leik. Það er því mikilvægt að félagið stuðli að samkeppni og hafi samkeppnisgleraugun á í öllum sínum ákvörðunum.
Tryggja þarf að komið sé á fót skipulögðum heildsölumarkaði sem ýtir undir heilbrigða samkeppni, gagnsæja verðmyndun og jafnræði aðila.
Skilvirkur heildsölumarkaður með raforku skilar auknu virði til samfélagsins, ekki síst þar sem stuðlað yrði að því að ná orku inn á kerfið til nýtingar á viðunandi tíma fyrir notendur á gagnsæjan hátt. Slíkur markaður, með gagnsæ orkuverð, styður við fjárfestingar í kerfinu. Loks mætti opna á að nýta umframorku stórnotenda á slíkum markaði.
Með tilliti til þessara þriggja þátta sem ég nefndi hér að ofan, þjóðaröryggi, verðmætasköpun og samkeppni tel ég mikilvægt að vinna og birta sérstakan viðauka við almenna eigendastefnu ríkisins með vorinu.
Kæru gestir.
Ég vil að lokum ítreka þakkir til Landsvirkjunar, stjórnenda og allra starfsmanna, fyrir vel unnin störf við að gæta gríðarlega mikilvægra hagsmuna fyrir land og þjóð.
Landsvirkjun er mikilvægasta fyrirtæki á Íslandi í opinberri eigu. Ábyrgð ykkar er mikil. Með slíka ábyrgð er alltaf mikilvægt að nálgast mál af alvöru, ákveðni, yfirvegun og langtímasýn.
Megi ykkur ganga vel að taka sem réttustu ákvarðanir og rísa undir þeirri miklu ábyrgð sem þið berið.
Fyrir okkur öll. Fyrir Ísland.
Takk fyrir mig.