Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. nóvember 1996 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðFriðrik Sophusson, fjármálaráðherra 1991-1998

Ræða á ráðstefnu um nýskipan í ríkisrekstri - Árangur og markmið til aldamóta.

Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar 23. apríl 1995 - 16. apríl 1998

Ráðstefnustjóri, góðir ráðstefnugestir!

Það er mér mikil ánægja að sjá hversu margir hafa séð sér fært að sækja þessa ráðstefnu um nýskipan í ríkisrekstri, þá fimmtu sem haldin er um þetta efni á undanförnum árum. Yfirskrift ráðstefnunnar er: "Árangur og markmið til aldamóta". Hér á eftir mun ég fara nokkrum orðum um þann árangur sem þegar hefur náðst og fjalla síðan um þá nýskipan í ríkisrekstrinum sem framundan er.

I.

Íslensk stjórnsýsla er ekki gömul. Við fengum nokkurt löggjafarvald í innanlandsmálum 1874, framkvæmdavald 1904, fullveldi 1918 og sjálfstæði 1944. Hvert þessara tímabila ber sitt svipmót. Síðustu áratugir 19. aldarinnar einkenndust af mikilli aðgát í fjármálum og framkvæmdir og uppbygging grunnstofnana einkenna áratugina eftir aldamótin. Lýðveldistíminn hefur öðru fremur einkennst af mikilli útþenslu í rekstri hins opinbera. Má sem dæmi nefna að hlutur hins opinbera í þjóðarbúskapnum var 20% árið 1950, 30% árið 1980 og 42% árið 1989. Vonandi verður dómur sögunnar sá, að yfirstandandi áratugur einkennist af viðspyrnu gegn útgjaldaþenslu og skuldasöfnun - þeim tveimur atriðum sem segja má, að verst hafi leikið ríkissjóði vestrænna ríkja á þessari öld - að styrjöldum undanskildum.

Nýskipan í ríkisrekstri á rætur sínar í þeirri staðreynd að ekkert félag fær staðist nema að tekjur þess standi undir útgjöldum. Sífelldur hallarekstur ríkissjóðs leiðir til þess eins að smám saman brestur skuldafjötruð stjórnvöld getuna til að gera allt það góða sem kjósendur vilja gjöra, vegna sívaxandi afborgana. Ekki má heldur ofmeta hlutverk og getu ríkisvaldsins í efnahags- og atvinnumálum eins og okkur Íslendingum hefur stundum hætt til. Það eru ekki stjórnmálamenn sem búa til störf. Það eru fyrirtækin sem skapa atvinnuna. Stjórnmálamenn geta hins vegar búið fyrirtækjunum góð rekstrarskilyrði. Það er því atvinnulífið fremur en ríkissjóður sem markar velferð þjóðar. Sterk fyrirtæki, fjölbreytt atvinnulíf, arðbær atvinna, vel menntað starfsfólk og góð framleiðni eru þær stoðir sem einar megna að halda uppi þaki velmegunar.

Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarskilyrðum fyrirtækja sem skila sér í meiri stöðugleika, athafnafrelsi og bættri afkomu. Almennar leikreglur hafa komið í stað boða og banna. Verðlagshöft hafa verið afnumin og samkeppnislög eflt samkeppnisvitund viðskiptalífsins. Vextir hafa verið gefnir frjálsir. Nær engar hömlur eru á gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnsflutningum. EES samningurinn hefur treyst starfsskilyrði, eflt samkeppni og opnað aðgang að Evrópumarkaði. Skattakerfið hefur verið endurskoðað, undanþágum fækkað, skattstofnar breikkaðir og skattkerfið samræmt því sem gerist í samkeppnislöndum okkar. Ég bendi á þetta hér til að minna okkur á mikilvægi atvinnulífsins og að fyrirtækin hafa jafnvel enn frekar en ríkisreksturinn gengið í gegnum nýskipan.

Ég hef orðið þess var í samtölum mínum bæði við fólk sem starfar utan og innan ríkiskerfisins að sú hugmynd sem liggur að baki nýskipunar í ríkisrekstri nýtur sívaxandi skilnings. Markmið nýskipunar í ríkisrekstri eru fyrst og fremst tvö. Þau koma fram í stefnu sem ríkisstjórnin samþykkti fyrir einu ári. Fyrra markmiðið er að skipulag og starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að ríkið geti sinnt skyldum sínum við borgarana á eins hagkvæman, skjótvirkan og árangursríkan hátt og kostur er og vísar til þess að ríkið nýti þær rekstraraðferðir sem árangursríkastar eru hverju sinni. Síðara markmiðið er að opinber þjónusta sé svo skilvirk að hún gefi íslenskum fyrirtækjum forskot í vaxandi alþjóðlegri samkeppni. Þetta markmið undirstrikar að framtíðarafkoma okkar íslendinga ræðst af samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Sú meginleið sem farin hefur verið til að ná áðurnefndum markmiðum byggist í fyrsta lagi á að fækka verkefnum ríkisins. Í öðru lagi á að dreifa valdi og ábyrgð til þeirra sem stjórna daglegum rekstri á hverjum stað og í þriðja lagi að skilja ábyrgð á rekstri frá pólitískri stefnumörkun.

Víkjum aðeins að fækkun verkefna ríkisins. Á þessu sviði hefur náðst mikill árangur. Á yfirstandandi ári mun til dæmis starfsmönnum ríkisins fækka um 20% með tilflutningi grunnskólans til sveitarfélaga og breytingu Póst- og símamálastofnunar í hlutafélag. Skipta má fækkun rekstrarverkefna í fernt eftir eðli þeirra. Í fyrsta lagi hafa heilir málaflokkar flust til sveitarfélaga auk þess sem nokkur sveitarfélög hafa í tilraunaskyni tekið að sér rekstur tiltekinna málaflokka sem þó eru á forræði ríkisins. Hvort tveggja, varanlegi tilflutningurinn og tilraunafærslan, tryggja að ákvarðanir færist nær neytendum og styrkja jafnframt sveitarfélögin til átaka við ný verkefni.

Í öðru lagi er stöðugt unnið að einkavæðingu ríkisfyrirtækja og sölu á hlutum sem ríkið á í fyrirtækjum og voru verklagsreglur um framkvæmd samþykktar í ríkisstjórn síðastliðinn vetur. Frá ársbyrjun 1992 hafa um 3000 manns keypt hlutabréf í einkavæddum fyrirtækjum fyrir um 2,1 milljarð króna. Sem betur fer hefur verulega dregið úr pólitískum átökum um einkavæðingu og virðist mér skilningur hafi aukist á því að ríkið eigi fyrst og fremst að örva samkeppni en ekki að eiga og reka atvinnustarfsemi sem aðrir geta haft með höndum. Framundan er sala á eignarhlutum ríkisins í slíkri starfsemi.

Í þriðja lagi má nefna breytingar á rekstrarformi þar sem ríkisfyrirtækjum er breytt í hlutafélög án þess að formbreyting sé liður í sölu í beinu framhaldi samanber breytingu á Pósti og síma nú um áramótin. Á næsta ári er áformað að breyta rekstrarformi ríkisbankanna og fjárfestingarlánasjóða þannig að fjármagnsmarkaðurinn verði sem mest í höndum einkaaðila.

Í fjórða lagi eru útboð. Löng hefð er fyrir útboðum á framkvæmdum hér á landi, styttri fyrir útboðum á vörukaupum og lítið hefur verið um að þjónusta og rekstur sé boðin út enn sem komið er. Umtalsverðar breytingar áttu sér stað samfara EES aðild og árið 1993 var útboðsstefna ríkisins samþykkt í ríkisstjórn og hefur hún nú verið útfærð í reglugerð. Aukin áhersla á útboð rekstrar er einn liður í að fækka rekstrarverkefnum ríkisins. Síðar í dag verður sérstaklega fjallað um þennan þátt og opinber innkaup en þar ríður á miklu að auk þess að örva samkeppni milli seljenda um viðskipti við ríkið sé verið að breyta vinnubrögðum við innkaup ríkisins.

Þrátt fyrir að rekstrarverkefnum ríkisins fækki verður ýmsum verkefnum að sjálfsögðu áfram sinnt. Þar er megináhersla lögð á að efla völd og ábyrgð þeirra sem reka hina daglegu starfsemi. Þannig verða hin einstöku verkefni leyst á hagkvæmastan hátt og staðbundin þekking á þörfum þjónustuþegans nýtt best. Vegna þessa þarf að skapa ríkisstofnunum góð rekstrarskilyrði og búa þeim svipað rekstrarumhverfi og almennum rekstri.

Mikilvæg breyting í þessa átt varð er framkvæmd rammafjárlaga hófst árið 1993. Þetta hefur leitt til þess að fjárhagsleg ábyrgð ráðuneytanna hefur aukist og framkvæmd fjárlaga batnað þótt gera megi enn betur. Sú ábyrgð sem rammafjárlög hafa fært yfir á ráðuneytin hafa þau síðan fært yfir á stofnanir. Þetta hefur m.a. leitt til aukinnar áherslu á gerð rekstrar- og starfsáætlana ríkisstofnana. Slík áætlanagerð hefur það m.a. í för með sér að forstöðumenn þurfa að gera það upp við sig og sína samstarfsmenn hvaða verkefni njóti forgangs og á hvaða sviðum stofnunin eigi að beita kröftum sínum.

Á fyrstu mánuðum mínum sem fjármálaráðherra varð ég var við verulega óánægju forstöðumanna með það að ef þeir höfðu ekki nýtt alla sína fjárveitingu í lok fjárlagaárs hvarf það sem eftir stóð í ríkissjóð. Þessi sjónarmið koma m.a. glögglega fram í álitum sjö vinnuhópa með þátttakendum víða að úr ríkisrekstrinum sem störfuðu veturinn 1992-1993 og fjölluðu um afmörkuð svið ríkisrekstrarins. Þessu hefur verið breytt. Forstöðumenn geta nú samkvæmt settum reglum geymt fjárveitingu yfir áramót og nýtt hana á nýju ári. Jafnframt er ætlast til að fjárveiting næsta árs sé notuð til að greiða skuldina sé farið er fram úr fjárheimildum

Reynt hefur verið að fjölga rekstraraðferðum ríkisins og má þar nefna samningsstjórnun. Þá gerir ráðuneyti þjónustusamning við stofnun um verkefni stofnunar, þann árangur sem hún skuldbindur sig til að ná og um fjárveitingar og sjálfræði stofnunar. Gerðir hafa verið fimm þjónustusamningar þessa eðlis og voru þeir allir til þriggja ára. Eru tvö ár samningstímans nú að baki og eitt eftir. Kostir þessarar aðferðar eru einkum þeir að hún hvetur stofnun og ráðuneyti að skilgreina verkefni stofnunar og markar starfseminni farveg til lengri tíma.

Fyrir nokkrum dögum gaf fjármálaráðuneytið út verkefnavísa fyrir árið 1997 og er það í annað sinn sem slík útgáfa er gerð. Markmiðið er að upplýsa almenning, alþingismenn og fjölmiðla um við hvað ríkisstofnanir fást. Með þessu er leitast við að veita á einfaldan hátt upplýsingar um viðfangsefni ríkisstofnana, kostnað við þau og tölulega mælikvarða á umfang og gæði þjónustunnar. Með því að þróa verkefnavísa enn frekar og fá allar ríkisstofnanir til að taka þátt í gerð þeirra má án efa skerpa sýn stjórnenda í ríkisrekstrinum og stuðla að markvissara starfi að settum markmiðum.

En það er ekki nóg að skapa ríkisstofnunum betri starfsskilyrði - það þarf einnig að hvetja starfsfólk og stjórnendur til dáða og veita því verðskuldaða viðurkenningu sem vel er gert. Og þar er afar margt vel gert eins og best sást af hugmyndastefnu sem fjármálaráðuneytið gekkst fyrir. Af þessum ástæðum skipaði ég fyrir ári nefnd til að veita þeim ríkisstofnunum viðurkenningu sem með einum eða öðrum hætti hefðu skarað fram úr í þjónustu, hagræðingu í rekstri eða hugvitssamlegum nýjungum og væru til fyrirmyndar. Eins og ykkur er kunnugt hlaut Kvennaskólinn í Reykjavík þessa viðurkenningu en hann er ein þeirra stofnana sem starfa samkvæmt þjónustusamningi. Áformað er að veita slíka viðurkenningu annað eða þriðja hvert ár.

Eignaumsýsla ríkisins þarf jafnan að vera með eins hagkvæmum hætti og kostur er. Meginhluti eigna ríkisins er bundinn í fasteignum og á ríkið hátt í eina milljón fermetra af húsnæði. Meginverkefni ríkisins í eignamálum á næstunni verður ekki að byggja hús heldur að halda húseignum sínum við. Nú eru til skoðunar tilllögur um að ríkisstofnanir greiði leigu fyrir afnot af húsnæði og nægi hún að lágmarki fyrir viðhaldi og öðrum rekstrarkostnaði. Jafnframt verði markvisst unnið að því að fækka embættisbústöðum og nýta annað húsnæði ríkisins á eins hagkvæman hátt og kostur er.

Á síðasta þingi mælti ég fyrir viðamiklu frumvarpi til laga um fjárrreiður ríkissjóðs. Til marks um það ákvað Alþingi að kjósa sérstaka þingnefnd til þess að fjalla um málið. Ekki náðist að afgreiða frumvarpið fyrir þingslit og hefur það nú verið endurflutt. Verði frumvarpið að lögum mun það marka verulegar breytingar á fjármálaumsýslu ríkisins og allri uppsetningu á fjárlögum, bókhaldi og ríkisreikningi. Hafa þessar breytingar einkum að markmiði að skýra og samræma fjárhagsupplýsingar og færa bókhald ríkisins nær því sem tíðkast í fyrirtækjarekstri og setja hann á rekstrargrunn sem auðveldar allan samanburð við annan rekstur og gefur á ýmsan hátt réttari mynd rekstrinum. Ríkisreikningur s.l. árs var gefinn út í myndrænna formi en áður í sama skyni.

Ég legg sérstaklega áherslu á að forsenda þess að hægt sé að dreifa valdi og ábyrgð í ríkisrekstri er að pólitísk og lagaleg stefna sé skýr og ljós, því að viðkomandi ráðherrar bera ávallt ábyrgð á framkvæmdavaldinu samkvæmt stjórnarskrá og stjórnarráðslögum.

II.

Ég hef nú rifjað upp ýmislegt af því sem við höfum unnið kerfisbundið að undir merkjum stefnunnar um nýskipan í ríkisrekstri. Ég vil sérstaklega undirstrika að nýskipan er ekki tímabundið verkefni í þeirri merkingu að einn góðan veðurdag hafi öllum markmiðum nýskipunar verið náð. Þvert á móti. Þegar einu markmiði hefur verið náð taka önnur við. Á þann hátt einan getur ríkiskerfið þróast í takt við samfélagsbreytingarnar.

Í ljósi þess að stærsta viðfangsefni stjórnvalda á komandi árum verður að reka ríkissjóð með tekjuafgangi og greiða niður skuldir munu meginmarkmiðin tvö, sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, ekki breytast. Þau verða áfram að skipulag og starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að ríkið geti sinnt skyldum sínum við borgarana á hagkvæman og árangursríkan hátt og að opinber þjónusta sé svo skilvirk að hún gefi íslenskum fyrirtækjum forskot í vaxandi alþjóðlegri samkeppni. Raunar er ástæða til að árétta það hér að með einfaldri og árangursríkri stjórnsýslu getum við auðveldlega unnið upp það óhagræði sem felst í fámenni þjóðar og fjarlægð milli byggða. Þetta staðhæfi ég eftir að hafa kynnst flókinni stjórnsýslu stærri þjóða, þar sem opinber tungumál eru tvö, stjórnsýslustigin mörg og aðild að yfirþjóðlegum bandalögum bætir enn við umfang stjórnsýslunnar og skrifræði. En hvaða leiðir munum við fara til að ná fyrrgreindum markmiðum?

Í fyrsta lagi vil ég nefna að áfram verður leitast við að fækka viðfangsefnum ríkisins og selja eignir. Halda þarf áfram að breyta ríkisfyrirtækjum í hlutafélög og selja þau þegar aðstæður leyfa. Næsta stórverkefni á þessu sviði er að losa um tök ríkisins á fjármálastofnunum, bönkum og sjóðum. Er mikilvægt að þessu verkefni verði lokið sem allra fyrst þannig að íslenskur fjármagnsmarkaður geti lagað sig að þeim miklu breytingum sem orðið hafa á alþjóðafjármagnsmarkaði. En þótt formbreyting og sala fjármálastofnana sé brýnt verkefni þurfum við jafnframt að vinna að því að einkavæða rannsóknastofnanir, menningarstofnanir, verslunarrekstur, verktakastarfsemi, gæslu- og eftirlitsverkefni og ýmsar þjónustustofnanir á þeim sviðum, þar sem samkeppni er næg.

Á sama hátt þarf að stefna að frekari tilflutningi verkefna til sveitarfélaga til að færa starfsemina nær fólkinu og styrkja sveitarfélögin í sessi. Þjónusta við fatlaða fellur vel að félagsþjónustu sveitarfélaga og er stefnt að því að flytja þann málaflokk frá ríkinu fyrir aldamót. Ég vek hins vegar athygli á því að ekki dregur úr opinberum rekstri við að flytja verkefni til sveitarfélaganna og að slíkur tilflutningur jafngildir ekki flutningi verkefna út á markað atvinnulífsins.

Þess vegna þarf að efla útboð á rekstri og þjónustu svo sem stoðþjónustu, heilbrigðisþjónustu, rannsóknum og menningarstarfsemi og nota sóknarfæri sem eru samfara þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi á sviði opinberra innkaupa. Við þurfum að gera útboðsmarkað EES virkari hér á landi á sama hátt og íslenskum fyrirtækjum er frjálst að taka þátt í opinberum útboðum í löndum EES. Einnig þurfum við að gerast aðilar að þeim hluta GATT samkomulagsins sem fjallar um opinber innkaup og kynna enn frekar rétt seljenda til að koma vörum sínum og þjónustu á framfæri við ríkið. Ríkið þarf að vera góður kaupandi og nota markaðinn til að gera góð kaup á vörum, framkvæmdum og þjónustu.

Sameining stofnana er ekki aðeins liður í að fækka rekstrarverkefnum ríkisins heldur getur einnig verið heppileg leið til að hagræða og lækka tilkostnað eins og reynslan hefur hefur sýnt við sameiningu atvinnufyrirtækja. Stórbættar samgöngur og byggðaþróun stuðla að þessum breytingum auk þess sem framfarir í samskipta- og tölvutækni hafa opnað ýmsa nýja möguleika á þessu sviði. Nú er verið er að stíga fyrstu skrefin í þessa átt og verið að ræða um sameiningu stofnana víða í ríkiskerfinu. Meðal annars er rætt um sameiningu framhaldsskóla, sýslumannsembætta, heilbrigðisstofnana og rannsóknastofnana. Augljóst er að nýskipunar er þörf á þessum vettvangi á næstu misserum.

Í verkefnavísum fyrir árið 1997 kemur fram að ríkið rekur um 370 stofnanir. Margt bendir til þess að ríkið gæti sinnt viðfangsefnum sínum betur og á hagkvæmari hátt þótt fjöldi stofnana væri aðeins brot af þeirri tölu. Ég legg áherslu á að fjöldi stofnana þarf ekki að vera hinn sami og fjöldi staða þar sem þjónusta er veitt því að sama stofnunin getur haft starfsstöðvar á mörgum stöðum. Samhliða því að stofnanir eru sameinaðar er eðlilegt að endurskoða fjölda og verksvið ráðuneyta.

Annað meginatriði í nýskipan framtíðarinnar er að koma nýjum viðhorfum í starfsmannamálum ríkisins í framkvæmd og nýta breytingar í starfsmannamálum til að ná fram breyttri stjórnun ríkisstofnana. Kjarni nýju starfsmannalaganna er hinn sami og annarrar nýskipunar í ríkisrekstri - það er að flytja vald og ábyrgð á starfsmannamálum til forstöðumann ríkisstofnana.

Nú hefur verið skipað sérstakt samningaráð forstöðumanna stofnana og fyrirtækja ríkisins til að fylgjast með gerð þeirra kjarasamninga sem framundan eru og móta áherslur í þeim. Ef til vill verður þetta upphafið að einskonar vinnuveitendasambandi ríkisstofnana þar sem forstöðumenn þeirra munu í framtíðinni taka á beinan hátt þátt í kjarasamningum ríkisvaldsins eða fara jafnvel alfarið með samningsumboð ríkisins.

Ekki ber að skilja það svo að forstöðumenn hafi verið ábyrgðarlausir varðandi starfsmannamálin því að markvisst hefur verið unnið að því að færa launavinnslu sem mest út til stofnana. Er svo komið að allar stærstu stofnanir ríkisins og ýmsar af minni stofnunum annast nú þegar að stærstum hluta starfsmannahald sitt, þar á meðal afgreiðslu launa og sjá fyrir hönd fjármálaráðherra um framkvæmd kjarasamninga á sínu sviði.

Jafnréttismálin eru órjúfanlegur þáttur starfsmannastefnu ríkisins. Sérstaklega hefur verið tekið á jafnréttismálum með það að markmiði að tryggja eins og frekast er unnt jöfn laun karla og kvenna við sambærileg störf í þjónustu ríkisins og fá konum jöfn færi á við karla til að fara með vald og axla ábyrgð í ríkisrekstrinum. Verður lögð áhersla á að stofnanir starfi eftir virkum jafnréttisáætlunum til að ná þessu markmiði. Jafnréttismálin byggja ekki síður á viðhorfum og vilja en laganna bókstaf og því er mikilvægt að nýta þá viðhorfsbreytingu sem nú á sér stað. Ég dreg ekki dul á, að ég vil sjá verkin tala í þessum efnum.

Lífeyrismálin eru einn þáttur starfsmannamála. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur um margt haft sérstöðu meðal lífeyrissjóða landsmanna. Réttindagjöf sjóðsins hefur verið önnur og meiri auk þess sem fjármögnun sjóðsins hefur verið á þann veg að miklar framtíðarskuldbindingar hvíla á ríkissjóði og vaxa ár frá ári. Fjármálaráðuneytið og stærstu félög ríkisstarfsmanna hafa orðið sammála um tillögur til breytinga og mun ég á næstu dögum mæla fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem skipta sjóðnum í tvær deildir. Steingrímur Ari mun fjalla um þetta mikilvæga mál hér á eftir.

Einn þáttur nýskipunar er að búa ríkisrekstrinum viðunandi lagaumhverfi. Á örfáum misserum hefur lagagrundvöllur stjórnsýslunnar verið endurnýjaður að miklum hluta. Þar vil ég fyrst minnast á stjórnsýslulögin sem gengu í gildi árið 1993. Ekki er vafi á að þessi lög hafa aukið aga og reglufestu í ríkisrekstrinum jafnframt því sem þau hafa gefið aðilum mála, sem þar eru til umfjöllunar, mikilvæga réttarbót. Upplýsingalögin sem ganga í gildi eftir mánuð hafa sömu áhrif en þau hafa að geyma ákvæði sem móta munu vinnubrögð og verklag ríkisstarfsmanna og auðvelda jafnframt aðgengi almennings og fjölmiðla að málum og málsmeðferð.

Stjórnsýslulögin og upplýsingalögin eru bæði tengd umræðu um siðfræði og siðferði í stjórnsýslunni. Ekki verður frekar farið í þá sálma hér, en á því sviði eru sífellt gerðar nýjar kröfur til framgöngu og verka stjórnmálamanna og embættismanna.

Ég hef hér farið yfir flesta þætti þeirrar nýskipunar sem unnið hefur verið að í ríkisrekstrinum og drepið á ýmislegt sem framundan er. Eitt hef ég þó ekki nefnt og það er árangursstjórnun. Síðar á þessum fundi kynnir dr. Guðfinna Bjarnadóttir tillögur nefndar um árangursstjórnun sem ég skipaði í febrúar s.l. Þessar tillögur hafa verið lagðar fyrir ríkisstjórnina og eru þar nú til umfjöllunar.

Með árangursstjórnun er verið að skilgreina betur hlutverk ríkisins, leita hagkvæmustu leiða til að veita þjónustu sem kostuð er af opinberu fé og auka rekstrarlegan sveigjanleika stofnana. Í árangursstjórnun felst að athafnir ráðuneyta og stjórnenda stofnana beinast sérstaklega að því að sjá til þess að stofnanir ræki hlutverk sitt eins vel og unnt er. Árangur stofnana er metinn með tilliti til þess hverju þær skila og hve hagkvæmur reksturinn er. Til að ná sem bestum árangri eru sett skýr markmið. Reynt er að fullnægja þörfum notenda þjónustunnar sem best. Leitast er við að hindra að vandamál komi upp. Vald og ábyrgð eru framseld til þeirra sem annast framkvæmdina. Árangur er mældur á einfaldan og auðskilinn kvarða. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að vinna að stöðugum umbótum í rekstrinum.

Hér inni sé ég marga forstöðumenn ríkisstofnana. Við ykkur vil ég segja þetta: Ég hvet ykkur til að sýna frumkvæði og að hafa forystu um þróun og breytingar í ríkisrekstrinum. Þið eruð dráttarbátarnir sem koma þurfa málum í höfn. Þið verðið með öðrum orðum að vera leiðandi afl í þessu efni, enda hafið þið betri sýn á umbótamöguleika og nýjungar heldur en við hin, sem kosin eru á þing eða störfum í ráðuneytunum. Við skulum hins vegar reyna að bæta rekstrarskilyrðin, þótt ég segi það jafnframt hreinskilnislega að fjárveitingar til stofnana munu tæpast hækka á komandi árum. Eitt meginverkefni okkar allra verður því að nýta fjármuni skattborgaranna betur. Þið verðið að hugsa um stofnun ykkar sem tæki sem samfélagið hefur útbúið til að ná markmiðum og ykkar verkefni er að nýta þetta tæki ásamt ykkar samstarfsmönnum, öllum til heilla.

Góðir áheyrendur, ég vil að lokum nefna sérstaklega þrjú atriði í þeirri nýskipun sem framundan er:

  1. Við eigum alltaf að velta fyrir okkur með hvaða hætti við getum komið á samkeppni í þeirri þjónustu sem við veitum almenningi. Afleiðing raunverulegrar samkeppni er alla jafnan sú að verð lækkar og gæði aukast. Nýtum okkur það til ávinnings.
  2. Við eigum að halda áfram einkavæðingu, flytja verkefni til sveitarfélaga, bjóða út og vera virkir kaupendur. Sameina þarf ríkisstofnanir þar sem við á til að ná fram rekstrarlegri hagkvæmni og faglegum styrk þeirra.
  3. Við eigum að veita ríkisstofnunum meira sjálfstæði og betra rekstrarumhverfi. Í staðinn gerum við kröfur um betri árangur og meiri ábyrgð.

Aðrir frummælendur munu hér á eftir fjalla ítarlega frá mismunandi sjónarhólum um þessi mikilvægu efni og ég veit að umræður í dag verða lærdómsríkar og málefnalegar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta