Áfram dregur úr umsvifum ríkisins. Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar 23. apríl 1995 - 16. apríl 1998.
Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar 23. apríl 1995 - 16. apríl 1998
Eitt mikilvægasta markmið ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í ríkisfjármálum er að draga úr afskiptum ríkisins og beita markaðslausnum á þeim sviðum, sem það á við. Þannig hafa ríkisfyrirtæki verið seld einkaaðilum og útboðum verið fjölgað. Einnig hafa verið gerðir þjónustusamningar við stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins og á almennum markaði. Þá hafa verið gerðir sérstakir samningar þar sem kveðið er á um meira sjálfstæði og aukna ábyrgð einstakra stofnana og sett markmið um árangur. Allt miðar þetta að því að einfalda rekstur ríkisins og gera hann skilvirkari. Þessi stefna hefur jafnframt skilað sér í minni ríkisumsvifum.
Skatthlutfall lækkar
Aukin umsvif í efnahagslífinu leiða alla jafna til þess að hlutfall skatttekna ríkisins af landsframleiðslu hækka. Þetta kemur meðal annars fram í tölum frá árunum 1993-1996. Á árunum 1997 og 1998 er hins vegar gert ráð fyrir að skatttekjur ríkissjóðs lækki, sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta má að hluta rekja til flutnings grunnskólans til sveitarfélaganna og lækkunar tekjuskatts af þeirri ástæðu. Þyngst vegur samt sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem lögfest var á Alþingi síðastliðið vor að lækka tekjuskatt einstaklinga um 4% á árunum 1997-1999, en 3% hafa nú þegar komið til framkvæmda. Þannig hefur auknum tekjum ríkissjóðs í góðærinu verið skilað til heimilanna í landinu og birtist í meiri kaupmætti en launahækkanir skila einar sér.
Ríkisútgjöld dragast saman
Ekki er síður fróðlegt að skoða þróun útgjalda ríkisins á undanförnum árum því að hún sýnir glöggt hvernig dregið hefur úr umsvifum ríkisins. Frá árinu 1991 hefur hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu lækkað um nálægt 4%, úr rúmlega 28% í rúmlega 24% samkvæmt fjárlögum 1998, eða sem nemur meira en 20 milljörðum króna á núgildandi verðlagi. Um fjórðungur þessarar lækkunar skýrist af flutningi grunnskólans til sveitarfélaga. Meginhluta þessarar lækkunar má hins vegar rekja til margvíslegra sparnaðaraðgerða stjórnvalda á þessu tímabili. Í þessu samhengi má nefna að í nýlegri samantekt er talið að hallinn á ríkissjóði væri nú um 17 milljarðar króna, ef ekki hefði verið gripið til þessara sérstöku aðgerða á undanförnum árum.
Þrátt fyrir öflugra aðhald og meiri sparnað á mörgum sviðum ríkisfjármála að undanförnu hafa útgjöld til velferðarmála aukist að raungildi. Hjúkrunarrýmum hefur fjölgað umtalsvert og aðstaða til heilsugæslu batnað verulega. Framlög til málefna fatlaðra hafa einnig hækkað og útgjöld til menntamála hafa aukist.
Forgangsröðun verkefna
Mikilvægasta verkefnið á sviði ríkisfjármála á næstu árum er að greiða niður skuldir ríkisins og koma þannig í veg fyrir hækkun skatta í framtíðinni. Þetta þrengir óhjákvæmilega svigrúmið til aukinna útgjalda á næstu árum. Þess vegna er brýnt að verkefnum sé raðað eftir mikilvægi þeirra. Þetta á ekki síst við um fjárfestingar á vegum ríkisins þar sem aðhalds er þörf til þess að gefa fyrirtækjum aukið svigrúm til að byggja upp atvinnulífið á næstu árum og hamla gegn þenslu. Líkt og hjá fyrirtækjum og heimilum verða stjórnvöld stöðugt að leita leiða til að gera ríkisreksturinn hagkvæmari. Skýr markmið, einkavæðing og útboð stuðla að umfangsminni, skilvirkari og hagkvæmari ríkisrekstri. Mikilvægt er að halda áfram að draga úr ríkisumsvifum á næstu árum og efla í staðinn sveitarfélög sem geta tekið við verkefnum frá ríkinu. Umfram allt er þó nauðsynlegt að tryggja öflugt atvinnulíf sem styrkir samkeppnisstöðu þjóðarinnar og bætir lífskjörin.