Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. febrúar 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðFriðrik Sophusson, fjármálaráðherra 1991-1998

Sveigjanlegur eftirlaunaaldur. Grein í Morgunblaðinu í janúar 1998.

Blaðagrein
Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra:
(Morgunblaðið, janúar 1998)

Sveigjanlegur eftirlaunaaldur

Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem samþykkt voru fyrir jól marka tímamót. Ég hef í fyrri grein minni um lífeyrismál lýst því hvernig ný lög auka valfrelsi fólks og tryggja festu í þessum mikilvæga málaflokki sem snertir hvert mannsbarn í landinu. Í þessari grein vil ég varpa fram nokkrum hugmyndum um aðgerðir á öðrum sviðum í þeim tilgangi að tryggja betur en nú er hagsmuni aldraðra og sátt milli kynslóða.

Breytt aldurssametning
Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir að 3-4 vinnandi einstaklingar verði að baki hverjum eftirlaunaþega eftir rúm 30 ár, en þeir eru nú 6-7. Ljóst er að búa verður í haginn fyrir þessar breytingar og ýta undir aukinn sparnað einstaklinga til að mæta útgjaldaaukningu vegna hlutfallslegrar fjölgunar aldraðra á næstu árum. Nýju lífeyrislögin leggja grunn að þessu.
Aukinn sparnaður er þó ekki eina svarið við breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar. Í allri umræðu um málefni aldraðra má það ekki gleymast að aldraðir eru ekki afmarkaður einsleitur hópur. Eins og meðal ungs fólks er starfsorka aldraðra breytileg, svo og óskir, þarfir og áhugamál. Í ljósi þessa sést hversu einkennilegt það er að festa eftirlaunaaldur við tiltekið aldursmark. Mrgt fullfrískt fólk er nauðbeygt til að víkja úr vinnu þar sem það hefur náð tilteknum aldri þrátt fyrir fullt starfsþrek og að starfið veiti því ánægju. Þegar hefur svigrúm fólks til að flýta töku ellilífeyris og auka lífeyrissparnað verið rýmkað nokkuð þar sem nýju lögin treysta lagaumgjörð frjálsra samninga milli launþega og vinnuveitenda um séreignarlífeyrissjóði starfsmanna. Þannig er einstaklingum, sem til að mynda sinna mjög krefjandi störfum, gert kleift að fara fyrr á eftirlaun en ella hefði verið.
Nauðsynlegt er að auka valfrelsi fólks á vinumarkaði og hætta að tengja starfslok við tiltekinn afmælisdag viðkomandi. Auka þarf sveigjanleika og svigrúm á vinnumarkaði, þannig að hár starfsaldur, starfshlé vegna endurmenntunar, ráðning í hlutastarf og tímabundið hlé á atvinnuþátttöku vegna barna eða sjúkra, séu allt þættir sem geti talist eðlilegir í lífshlaupi sérhvers manns.

Bábiljan um fjölda starfa
Í umræðu um atvinnumál eldra fólks hefur borið á þeirri bábilju að fjöldi starfa sé einhver föst stærð. Það á ekki síst við í löndum þar sem atvinnuleysi er meira en hérlendis. Því er þá haldið fram að með því að senda eldra fólk heim skapist störf fyrir ungt, atvinnulaust fólk. Margar Evrópuþjóðir hafa snúið frá þessari stefnu þar sem hún hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Reglan á að vera sú að allir einstaklingar sem hafa fullt starfsþrek eiga að geta tekið þátt á vinnumarkaði óháð aldri. Það er engum gerður greiði með því að reka fólk úr vinnu vegna aldursins eins. Við eigum að gefa eldra fólki kost á að starfa áfram og líta fremur á hvaða gagn einstaklingar geta gert í atvinnulífinu en að spyrja um aldur þeirra.
Á Nýja Sjálandi verður frá og með 1. febrúar 1999 bannað að segja fólki upp starfi vegna þess að það hefur náð tilteknum aldri. Uppsögn eða tilfærsla í starfi verður einungis heimil á grundvelli efnislegra ástæðna. Eðlilegt er að huga vel að þessu atriði hér á landi.

Sveigjanlegur eftirlaunaaldur
Ég tel að innleiða eigi á ný sveigjanlegan ellilífeyrisaldur í almannatryggingakerfinu. Vert er að hafa í huga að frá upphafi kerfisins 1937 til ársins 1992 var ellilífeyrir hafður breytilegur eftir aldri lífeyrisþegans þegar taka lífeyrisins var hafin. Í byrjun var hann hafður breytilegur eftir aldri lífeyrisþegans á bilinu 67 til 71 árs en síðar einu ári bætt við. Sveigjanlegur ellilífeyrisaldur er einnig mikilvægt markmið í því ljósi að frá því að almannatryggingalögin voru sett hafa lífslíkur karla við fæðingu aukist um 16 ár og kvenna um 15 ár.

Gefum einstaklingum aukið frelsi
Pólitísk umræða í velferðarríkjunum mun á næstu árum í auknum mæli snúast um viðbrögð við breyttri aldurssamsetningu. Á vettvangi stjórnmálanna hérlendis verður einnig að fara fram opinská umræða um hvernig sætta megi ólík sjónarmið milli aldurshópa og tryggja aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði. Við megum ekki taka velferðina að láni og eigum að veita einstaklingunum frelsi og svigrúm til að safna til efri áranna og til virkrar atvinnuþátttöku óháð aldri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta