Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

18. febrúar 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðFriðrik Sophusson, fjármálaráðherra 1991-1998

Ræða á fundi um einkaframkvæmd 18. febrúar 1998

Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar 23. apríl 1995 - 16. apríl 1998

Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra:
(á fundi um einkaframkvæmd 18. febrúar 1998)

Um einkaframkvæmd

Góðir fundarmenn.

Ég býð ykkur öll velkomin á þennan fund um einkaframkvæmdir. Líklega er þetta í fyrsta skipti sem hér á landi er haldinn fundur einvörðungu um þetta efni. Ég er hins vegar sannfærður um að umræðan um einkaframkvæmdir verður mjög fyrirferðarmikil á næstu árum eins og einkavæðingarumræðan hefur verið á þessum áratug.

Mér er einnig sérstök ánægja að bjóða velkominn Henning Christophersen fyrrum fjármálaráðherra Danmerkur og framkvæmdarstjórnarmann Evrópusambandsins. Hann þekkir viðfangsefni dagsins vel og mun segja okkur frá því á eftir hvað er að gerast á þessu sviði í öðrum löndum.

Markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að draga úr ríkisafskiptum hér á landi með einkavæðingu ríkisfyrirtækja og útboðum. Á þessu ári er ráðgert að selja hlutabréf ríkisins fyrir tæplega átta milljarða króna. Það er ekki hlutverk ríkisins að vera þátttakandi í atvinnurekstri sem einkaaðilar geta starfrækt betur. Það er trú mín að einkaframtakið geti einnig tekið að sér að sinna ýmsum verkefnum sem verða áfram á vegum ríkisins. Til eru leiðir sem farnar hafa verið hérlendis og má þar nefna útboð á rekstri. Nú ræðum við nýjar leiðir, sem reyndar hafa verið víða erlendis. Viðfangsefni dagsins í dag er aðferð,sem við köllum einkaframkvæmd.

Á mínum vegum hefur á undanförnum mánuðum verið starfandi nefnd sem ætlað var að kanna kosti einkaframkvæmdar. Nefndinni var ætlað að kanna allar hliðar málsins og leggja línur um hvernig ríkið geti haft hag af þessari nýjung. M.a. þyrfti að skoða eftirfarandi atriði:

  • Á hvaða sviðum opinbers rekstrar má nota einkaframkvæmd?
  • Hverjir eru kostir og gallar einkaframkvæmdar fyrir rekstur ríkisins?
  • Hvernig verður bókhaldi háttað um skuldbindingar, greiðslur og hugsanlega eignfærslu?
  • Hvernig samræmist einkaframkvæmd gildandi lögum um skipan opinberra framkvæmda?
  • Hvernig á að haga samningum um einkaframkvæmd?

Nefndin er nú að ljúka störfum sínum og verður skýrsla hennar gefin út á næstunni. Samantekt úr skýrslu nefndarinnar liggur frammi hér á fundinum. Vonast ég til að umræðurnar hér á eftir, gagnist nefndinni við lokafrágang skýrslunnar.

Á seinni árum hafa viðhorf til opinbers rekstrar verið að breytast. Ríkið sinnir ekki lengur eingöngu stjórnsýslu og grunnþörf í þjóðfélaginu. Ríkið er þvert á móti umfangsmikill rekstraraðili. Stjórnvöld líta því í vaxandi mæli til einkamarkaðarins til að nýta betur fé og auka afköst. Annars vegar er um að ræða almennar stjórnunaraðferðir í eigin rekstri. Hins vegar hefur ríkið tekið upp samstarf við einkamarkaðinn til að leysa verkefni sem það hefur sjálft sinnt. Lengst er gengið í þessum efnum með einkavæðingu, en þá er starfsemin eða verkefnið alfarið flutt frá ríki til einkaaðila. Má hér nefna rekstur prentsmiðju, lyfjaverslun, fiskvinnslu o.fl. Þá hafa ýmis þjónustuverkefni verið boðin út.

Gerðir hafa verið samningar við sjálfseignarstofnanir eða einkaaðila um rekstur tiltekinnar starfsemi eins og umönnun aldraðra, krabbameinseftirlit og vistun barna og ungmenna. Og á allra síðustu árum hefur enn eitt form þessa samstarfs rutt sér til rúms en það er hin svonefnda einkaframkvæmd (e. private financing). Við notum hugtakið einkaframkvæmd hér á þessum fundi, en önnur heiti eins og t.d. einkafjármögnun hefur einnig heyrst.

Þessari aðferð hefur verið beitt með góðum árangri í ýmsum löndum. Af þeim löndum sem næst okkur liggja hafa Bretar náð einna lengst. Þar hefur einkaframkvæmdaraðferðinni verið beitt við uppbyggingu og rekstur samgöngumannvirkja, fangelsa, sjúkrahúsa, skóla og upplýsingakerfa. Árangurinn birtist m.a. í eftirfarandi tölum:

  • Í verkefnum á sviði vegagerðar hefur kostnaður verið 15% lægri að jafnaði en ef ríkið hefði annast vegalagninguna og rekstur veganna með hefðbundnum hætti.
  • Með útboði á byggingu, fjármögnun og rekstri fangelsis hefur árlegur kostnaður reynst vera 10% lægri en gera hefði mátt ráð fyrir ef ríkið hefði sjálft annast málið.
  • Dæmi eru um að kostnaður við að fela einkaaðilum rekstur umfangsmikilla tölvukerfa nemi allt að 60% lægri fjárhæð en sambærilegra verkefna á vegum ríkisins.

Það er víðar en í Bretlandi sem ríkið hefur notfært sér þessa aðferð. Í Ástralíu t.d. er margt að gerast á þessu sviði. Má þar nefna að Ástralir hafa gengið lengra en aðrir í að bjóða út það sem kalla mætti kjarnastarfsemi í rekstri spítala s.s. lækningar og kennslu en ekki aðeins byggingar og stoðþjónustu fyrir slíkar stofnanir. Kanadamenn hafa sett sér metnaðarfull markmið á sviði einkaframkvæmdar en eru ekki komnir langt áleiðis. Einkaframkvæmd í vegagerð þekkist í Finnlandi, Spáni og Portúgal. Við uppbyggingu opinberrar þjónustu í Suður-Afríku hefur einkaframkvæmdaraðferðin verið notuð. Mikill áhugi er víða um heim á reynslu Breta.

Hvað er einkaframkvæmd?
En hvað er einkaframkvæmd opinberra verkefna?

Einkaframkvæmd felur það í sér að ríkið gerir samning við einkaaðila um að veita tiltekna þjónustu. Venjulega er um að ræða verkefni sem krefst umtalsverðrar fjárfestingar og er samningstíminn langur, jafnan 20-30 ár.

Einkaframkvæmd er oft flokkuð eftir eðli verkefna eða samnings og hvernig greitt er fyrir þjónustu:

  • Í fyrsta lagi eru það fjárhagslega sjálfbær verkefni. Þar tekur einkafyrirtæki að sér að annast tiltekna þjónustu við almenning sem greiðir fyrir hana með notendagjaldi.
  • Í öðru lagi er þjónusta seld ríkinu. Þar tekur einkafyrirtæki að sér að annast þjónustu sem ríkið eitt er kaupandi að.
  • Í þriðja lagi er síðan hlutaþátttaka ríkisins. Í því tilfelli tekur einkafyrirtæki að sér að annast þjónustu sem að hluta til er greidd af ríkinu en að hluta með sjálfsaflafé.

Með einkaframkvæmd verður ríkið kaupandi þjónustunnar frá einkaaðilum en ekki eigandi, framleiðslustjóri og rekstraraðili. Einkafyrirtæki verða veitendur þjónustunnar samkvæmt langtímasamningi og þau eiga þau tæki og mannvirki sem nauðsynleg eru til að veita þjónustuna. Þannig fer saman ábyrgð þess sem hannar, byggir, fjármagnar og þess sem annast rekstur þeirrar þjónustu sem óskað er eftir. Til að nefna dæmi um einkaframkvæmd í vegamálum þá byggir ríkið ekki lengur vegina heldur kaupir það aðgang að þeim. Ríkið byggir ekki og rekur fangelsi heldur kaupir það fangagæslu. Það kaupir ekki lengur tölvur og hugbúnað heldur upplýsingaþjónustu. Einkaframkvæmd snýst því ekki eingöngu um fjármögnun frá einkaaðilum eins og bein þýðing á hugtakinu Private Financing gefur til kynna heldur einnig um að notfæra sér megineinkenni og kosti einkarekstrar þar sem sparnaði er náð með hugkvæmni einkaframtaksins til að veita skilgreinda þjónustu með hagkvæmari hætti en ríkið getur. Einkaframkvæmd er þá ekki markmið í sjálfu sér heldur er hún ein af þeim leiðum sem til álita koma þegar verið er að skoða möguleika á að auka hagkvæmni og skilvirkni í rekstri ríkisins. Val á aðferð fer eftir aðstæðum og eðli þeirra verkefna sem til skoðunar eru.

Möguleg hagkvæmni einkaframkvæmdar og þar með tök á að nota hana byggist á því að:

  • Til staðar sé verkefni sem líklegt er að þekking einkaaðila geti leyst betur af hendi og hann getur framkvæmt án of mikilla afskipta opinberra aðila.
  • Fyrirkomulag rekstrarins hafi þá eiginleika að fela megi einkaaðila að taka þá áhættu sem er til staðar og vænta má að komi upp á samningstímanum.
  • Til staðar séu fyrirtæki sem hafi þekkingu og hæfni til að sjá um verkefni og áhuga á að bjóða í það.

Mat á áhættu er sá þáttur sem erfiðast er að meta við skoðun á verkefnum til einkaframkvæmdar. Það mat ræður líka oft mestu um hagkvæmni verkefnisins. Þekktasta dæmið um áhættu er líklega við hönnun og byggingu mannvirkja þar sem reynsla ríkisins er oft sú að veruleg hækkun verður á þessum þáttum frá upphaflegri áætlun til verkloka.

Meginsjónarmiðin varðandi það hvort ríki eða einkaaðili eigi að bera áhættuna er að hún liggi hjá þeim sem getur dregið úr henni með sem minnstum tilkostnaði. Þannig má það ekki verða markmið í sjálfu sér að flytja alla áhættu frá ríki til einkaaðila. Þá á að fela einkaaðila að taka þá áhættu sem ætla má að hann ráði við að lágmarka með einhverjum hætti.

Hagkvæmni einkaframkvæmdar verður minni ef gengið er of langt í að færa áhættu frá ríki til einkaaðila. Ríkið greiðir fyrir það með hærra verði ef áhættunni er óskynsamlega skipt milli aðila. Til að tryggja hagkvæmni og sparnað verður því að meta hvar þessi mörk skulu liggja. Í samningi má ekki setja svo þröngar skorður að það hamli starfseminni á einhvern hátt. Ef ríkið hyggst geta haft áhrif á ýmsa rekstrarlega þætti og gerir of miklar kröfur um það hvernig starfseminni skuli háttað þá hækkar tilboðsgjafi einfaldlega verðið og möguleikum til sparnaðar fækkar. Helsti ábati af færslu áhættu til einkaaðila er að hún hvetur seljandann til að veita góða og hagkvæma þjónustu á réttum tíma. Seljandi einkaframkvæmdar fær ekki greitt fyrir þjónustuna fyrr en hún er innt af hendi og greiðslur eru háðar því að þjónustan hafi verið í samræmi við þær kröfur sem settar voru. Þannig eru dæmi þess í Bretlandi að rekstraraðili hafi lokið byggingu mörgum mánuðum fyrr en hefði gerst með hefðbundnum aðferðum. Þetta leiðir til þess að fjárfestingin nýtist fyrr með þeirri hagkvæmni sem í því kann að felast.

Útbreiðsla einkaframkvæmdar
Framan af voru aðferðir einkaframkvæmdar fyrst og fremst notaðar í samgöngumálum. Áratugum saman hefur það tíðkast að hraðbrautir á meginlandi Evrópu hafa verið fjármagnaðar og reknar af einkaaðilum. Það sama má segja um samgöngumannvirki víðar í heiminum. Einkaframkvæmd hentar enda einkar vel á þessu sviði. Um er að ræða rekstur sem krefst umfangsmikillar fjárfestingar sem hefur langan líftíma, áhætta er nokkur og auðvelt að koma við gjaldtöku.

Það er hins vegar styttra síðan farið var að nýta einkaframkvæmd á öðrum sviðum. Á undanförnum árum hefur það þó færst í vöxt og má þar nefna byggingu og rekstur sjúkrahúsa, menntastofnana og fangelsa. Nýlega hóf sænska verktakafyrirtæki Skanska rekstur fangelsis á Bretlandseyjum fyrir bresk fangelsismálayfirvöld. Skanska hafði hannað og reist fangelsisbyggingarnar og tók jafnframt að sér rekstur fangelsisins.

Einkaframkvæmd má nota á nánast hvaða sviði sem er þegar saman fer rekstur og fjárfesting. Við ákvörðun á því hvort nota eigi einkaframkvæmd þarf að meta hvort aðferðin sé hagkvæmust til að leysa tiltekið viðfangsefni. Taka þarf tillit til kostnaðar við undirbúning annars vegar og hins vegar hvort koma má rekstrinum fyrir með öðrum hætti, annað hvort hjá stofnun sem fyrir er eða með því að einkavæða viðfangsefnið að öllu leyti.

Seljandi þjónustu sem ríkið gerir samning við er jafnan fyrirtæki sem sérstaklega er sett á fót til að framkvæma samninginn. Samstarfsaðilar sem eiga og reka fyrirtækið koma iðulega úr ólíkum áttum. Verktakafyrirtæki og fjárfestar hafa jafnan haft frumkvæði að þátttöku í útboðum á einkaframkvæmd en í vaxandi mæli hafa rekstraraðilar frumkvæði að tilboðum eftir því sem fleiri fyrirtæki verða til á sviðum, þar sem kostir einkaframkvæmdar njóta sín best. Í sjálfu sér er æskilegast að rekstraraðilar eigi frumkvæði að tilboði og stýri hlutverki seljanda. Með því móti er megináhersla lögð á þjónustuþáttinn í verkefninu en ekki verklega framkvæmd eða lánveitingu.

Einkaframkvæmd á Íslandi
Það er niðurstaða nefndarinnar, sem fjallað hefur um málið, að innlendur fjármagnsmarkaður ásamt opnum aðgangi að þjónustu erlendis muni veita viðunandi fjármögnun og ráðgjöf við einkaframkvæmd á Íslandi.

Innlendur sparnaður mun vaxa mjög á næstu árum. Fyrirsjáanlegt er að lánsfjárþörf ríkisins muni minnka og að samtímis munu eignir lífeyrissjóða vaxa um 7-8% á ári. Lífeyrissjóðir munu því væntanlega fjárfesta í síauknum mæli í öðrum eignum en ríkisverðbréfum og ættu að taka hugmyndum um einkaframkvæmd fagnandi. Tilfærsla verkefna og hugsanlega aukin fjárfesting munu skapa ný tækifæri til ávöxtunar innanlands, þar sem í boði verða verðbréf með nokkru hærri ávöxtun en ríkisskuldabréf enda verður áhættan meiri. Öll rök hníga að þeirri niðurstöðu að innlendur fjármagnsmarkaður ætti með vaxandi sparnaði þjóðarinnar að ráða við þau verkefni sem verða til, sérstaklega þegar haft er í huga, að væntanlega verður farið hægt í sakirnar til að byrja með.

Íslenskur fjármagnsmarkaður hefur tekið gífurlegum framförum á liðnum áratug. Innlendir bankar, verðbréfafyrirtæki og aðrar lánastofnanir eru burðugri og faglegri en áður og þar af leiðandi betur í stakk búnar til að takast á við slík verkefni. Samtímis hefur markaður fyrir skuldabréf og hlutabréf eflst og á fjármálamarkaði er fjárhæð markaðsverðbréfa nú nær þrefalt hærri en heildarinnlán í bönkum og sparisjóðum. Þessari þróun er á engan hátt lokið.

Öflugur verðbréfamarkaður og samkeppni fjármálafyrirtækja og ráðgjafa ásamt frjálsum aðgangi að þjónustu erlendis mun standa einkaaðilum til boða við fjármögnun og rekstur verkefna. Fyrir þessa aðila verður einkaframkvæmd krefjandi viðfangsefni sem án efa getur stuðlað að frekari þróun innlenda fjármagnsmarkaðarins.

Ég tel fyrirsjáanlegt að á næstu árum muni verkefnum, þar sem einkaframkvæmdaraðferðinni er beitt, fjölga verulega. En hér á landi erum við enn á undirbúningsstigi og þurfum að skoða vandlega alla kosti í þessu eins og öðru.

Einkaframkvæmd er bæði tímafrek og dýr í útfærslu. Við val á verkefnum þarf að leggja megin áherslu á þau verkefni sem skila mestri arðsemi fyrir þjóðfélagið. Einkaframkvæmdarnefndin leggur til að ríkisstjórnin samþykki að stefnt verði að því að færa nokkur verkefni ríkisins til einkaaðila með einkaframkvæmd á næstu árum. Eftirfarandi verkefni sem öll eru á framkvæmdaáætlun ráðuneyta voru til skoðunar:

  • Reykjavíkurflugvöllur
  • Heilsugæsla á höfuðborgarsvæði
  • Iðnskólinn í Hafnarfirði
  • Gæsluvarðhaldsfangelsi

Nefndin leggur til að þessi verkefni verði athuguð með tiliti til hagkvæmni þess að einkaframkvæmdaraðferðinni verði beitt.

Reykjavíkurflugvöllur
Ég ætla nú að lýsa nánar einu þessara verkefna til að skýra hvernig einkaframkvæmd gengur fyrir sig. Ég vil taka það sérstaklega fram að hér er einungis um eitt tiltekið dæmi sem sett er fram til að sýna útfærslu einkaframkvæmdar.

Samkvæmt hefðbundnum leiðum ætti ríkið að hanna og bjóða út endurbyggingu flugbrautanna á Reykjavíkurflugvelli, byggja flugstöð og fjármagna hvort tveggja með skattfé eða lántökum ríkisins. Ríkisstofnun annaðist svo reksturinn eins og verið hefur. Til hvers er ríkið að eiga og reka flugvelli og flugstöðvar? Hlutverk ríkisins er fyrst og fremst að sjá til þess að samgöngumannvirki séu til staðar og að fólk geti komist milli áfangastaða. Ef ríkið getur séð til þess að rekstrarumhverfi einkafyrirtækja sé þannig að þau geti annast þessa þjónustu er hagkvæmara að þau geri það sjálf.

Hugmyndin um einkaframkvæmd fellur að mörgu leyti vel að starfseminni á Reykjavíkurflugvelli.
Með einkaframkvæmd væri einkaaðilum falin bygging og rekstur flugbrauta, bygging og rekstur flugstöðvar og öll þjónusta við flugumferð.

  • Í útboðslýsingu verði við það miðað að seljandi yfirtaki alla núverandi aðstöðu til flugrekstrar á Reykjavíkurflugvelli sem nú tilheyrir flugmálayfirvöldum. Ítarlegar lýsingar liggja fyrir um það frá alþjóðlegum stofnunum hvaða kröfur þarf að uppfylla við byggingu flugbrauta til að yfirvöld heimili flugumferð um flugvöllinn.

Flugmálastjórn í Reykjavík annast nú allan rekstur á flugvellinum sem tengist flugstarfsemi. Má þar nefna snjóruðning, slökkvilið, viðhald og flugumferðarstjórn. Alla þessi þjónustuþætti mætti fela einkaaðilum.

  • Flugvallarfyrirtækinu verði veitt verulegt svigrúm til að ákveða hvaða starfsemi verður í flugstöðinni og á flugvallarsvæðinu. Kröfur stjórnvalda í útboðslýsingu verði að flugfélög og flugfarþegar eigi greiðan aðgang að þjónustunni.
  • Tekjur flugvallarfyrirtækisins verði fyrst og fremst þjónustugjöld sem greidd eru af notendum flugvallarins. Ætla má að þau muni ekki duga og má því gera ráð fyrir að ríkið greiði árlega fasta greiðslu til að standa undir hluta kostnaðar. Flugvallargjald renni eftir sem áður í ríkissjóð. Í útboðslýsingu liggi fyrir hvaða reglur gildi um gjaldskrá lendingargjalda, leigugreiðslur flugrekstraraðila í flugstöð og aðra gjaldtöku flugvallarfyrirtækisins sem telja má einkasölu. Til fyrirtækisins renni öll lendingargjöld af flugi um flugvöllinn auk leigutekna í flugstöð. Þá fái það allar þjónustutekjur sem kunna að verða til af starfsemi á flugvellinum. Í útboði bjóði það síðan í hvert árlegt meðlag ríkisins þurfi að vera, ef eitthvað. Gerðar verði skýrar kröfur um að engar tekjur renni til rekstrarfyrirtækis fyrr en endurbótum á flugbrautum er að fullu lokið.
  • Ef farin verður hefðbundin leið við uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar verða annars vegar endurbætur á flugbrautum gerðar í nokkrum áföngum eftir því sem flugmálaáætlun leyfir og hins vegar verður bygging flugstöðvar fjármögnuð af skattfé og lántökum ríkisins. Með því að einkaframkvæma (ef svo má að orði komast) mun rekstraraðili hafa hag af því að ljúka endurbótum flugbrauta og byggingu flugstöðvar sem fyrst. Fyrr fær hann jú ekki tekjur til að standa undir fjárfestingu sinni.
  • Samningstími verði 30 ár. Að samningstíma loknum færist eignarhald flugbrauta til ríkisins. Um önnur mannvirki á flugvallarsvæðinu í eigu rekstrarfyrirækis eða á vegum þess, verði gerður lóðarleigusamningur til 50 ára og að þeim tíma liðnum geti ríkið krafist þess að hvert mannvirki verði fjarlægt eða eignarhald færist til ríkisins.
  • Ætla má að undirbúningur og útboð taki 12 – 15 mánuði. Það þýðir að ef ákvörðun liggur fyrir fljótlega um að fara þessa leið gætu framkvæmdir hafist vorið 1999.
  • Vafalítið mun verða áhugi á þessu verkefni hjá fjárfestum og verktökum. Þá má ætla að fyrirtæki víða um heim sem sérhæft hafa sig í rekstri flugvalla og flugstöðva muni sýna þessu útboði áhuga. Kynna verður vel þessi áform ríkisins til að tryggja víðtækan áhuga.

Áhætta ríkisins

Ég hef nú rakið hugmyndir sem uppi eru um hvernig einkaframkvæmdaraðferðin getur nýst hérlendis. Í allri umræðunni verðum við þó að hafa í huga að einkaframkvæmd getur reynst varhugaverð ef ekki er vandað til undirbúnings í hvívetna og ef þáttur ríkisins er að einhverju leyti óljós eða ábyrgð og áhætta ríkisins umtalsverð. Einkaframkvæmd verður að byggja á tveimur meginþáttum:

Í fyrsta lagi verður reglan að vera sú að öll verkefni séu hagkvæm og fyllstu varfærni gætt í meðferð þess almannafjár sem varið er til verkefnisins til lengri og skemmri tíma.

Í öðru lagi verður fyrirtækið að taka á sig stærstan hluta áhættu vegna verkefnisins. Þetta seinna atriði er talið vera lykillinn að vel heppnaðri einkaframkvæmd.
Einkaframkvæmd getur reynst varhugaverð ef ríkið tekur á sig verulegar ábyrgðir eða skuldbindingar vegna tiltekinna verkefna eða hyggst greiða há notendagjöld, svokölluð skuggagjöld. Skuggagjöld fela í sér að t.d. einkaaðili leggur tiltekinn veg og rekur hann en ríkið greiðir ákveðið gjald fyrir hverja bifreið sem fer um veginn.

Í þessari aðferð felst viss hætta: Í fyrsta lagi tekur ríkið umtalsverða áhættu enda þótt hún sé minni en við hefðbundnar framkvæmdir ríkisins. Í öðru lagi getur þessi aðferð boðið heim freistingu – ekki síst fyrir stjórnmálamenn – því að ábyrgð ríkisins er mikil. Framkvæmdir sem setið hafa á hakanum vegna fjárskorts komast allt í einu á dagskrá þar sem utanbókhaldsaðferð einkaframkvæmdar hefur síður áhrif á reikningsskil ríkisins en venjulegar opinberar framkvæmdir. Slíkt kann að leiða til þeirrar hugsunar sem við þekkjum svo vel: Framkvæmum nú og greiðum síðar. Þrátt fyrir að ríkið taki á sig töluverðar ábyrgðir eða skuldbindingar til tuttugu ára þarf slíkt ekki að hafa áhrif á ársuppgjör ríkisins fyrir viðkomandi ár. Afkoma verður óbreytt. Þannig mætti byrja með misarðbærar framkvæmdir án þess að það hefði áhrif á stöðu ríkissjóðs til skamms tíma. Þetta verðum við að hafa hugfast í allri umræðunni um einkaframkvæmd sem byggir á föstum greiðslum frá ríkinu eða skuggagjöldum. Þess vegna undirstrika ég þetta hér.

Lokaorð
Góðir fundarmenn,

Ég er sannfærður um að einkaframkvæmd mun hasla sér völl hérlendis á næstu árum og að með þessari aðferð verður hægt að hraða uppbyggingu mannvirkja, örva hagvöxt og bæta lífskjör.

Hér á landi eins og annars staðar ríkir vaxandi skilningur á því að ríkið eigi ekki að vasast í atvinnurekstri. Það eru ekki nema rúm tíu ár síðan umræðan snerist um það hvort ríkið ætti að reka almenna atvinnustarfsemi. Segja má að við séum nú komin að nýjum þáttaskilum í einkavæðingarumræðunni: Einkaaðilar geta alfarið átt og rekið mannvirki og starfrækt þjónustu sem áður þótti eðlilegt að eingöngu ríkið hefði með höndum.

Þessi nýja hugsun – eða hugmynd, sem við köllum einkaframkvæmd – er eðlilegt framhald af því, sem hefur verið að gerast á undanförnum tuttugu árum í verkaskiptingu ríkis og einkafyrirtækja.

Mín trú er reyndar sú að enn sé vaxandi skilningur á því að færa þurfi valdmörkin til milli ríkis og einkareksturs. Það er að mínu áliti eðlileg leiðrétting á þeirri stefnuskekkju sem varð þegar okkur bar af leið á fyrri hluta aldarinnar, meðal annars vegna heimsstyrjalda og heimskreppu. Í stað þess ofmats á mætti ríkisvaldsins, sem fylgdi í kjölfar þessara áfalla, hefur komið raunsætt mat á gildi einkaframtaksins og markaðslögmálsins, sem skila bestum lífskjörum þegar leikreglurnar eru í lagi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta