Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

26. júní 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ráðstefna um endurvinnslu í nútíð og framtíð

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra.


Ávarp á ráðstefnu

um endurvinnslu í nútíð og framtíð,

26. júní 1998



Það er mér sönn ánægja að setja þessa ráðstefnu um endurvinnslu í nútíð og framtíð. Endurvinnsla er mikilvægur hlekkur í umhverfisvernd og hornsteinn í þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda sem lýtur að því að stuðla að sjálfbærri þróun á Íslandi. Þetta er því kærkomið tækifæri til að fjalla um bæði endurvinnslu og umhverfismál almennt. Þessi mál eru samofin og tengjast einnig ýmsum viðfangsefnum sem fjármálaráðuneytið fæst við, enda er traustur efnahagur og fjármálastjórn mikilvæg forsenda ábyrgrar umhverfisstefnu í öllum löndum. Efnahagsstefna sem stuðlar að sjálfbærum hagvexti er nauðsynleg forsenda umhverfisverndar. Mér er það því bæði ljúft og skylt að opna þessa ráðstefnu með nokkrum orðum sem tengjast því viðfangsefni sem ætlunin er að fjalla um hér síðar í dag.

Sorphirða og endurvinnsla hefur verið vaxandi atvinnugrein á Íslandi. Menn hafa í sívaxandi mæli gert sér grein fyrir því að hér er ekki bara eitthvert rusl á ferð heldur raunveruleg atvinnustarfsemi sem getur gefið góðan arð.

Velta í þessari atvinnugrein er um tveir milljarðar króna á ári og á fjórða hundrað manns hafa atvinnu af þessari starfsemi. Það gildir um þessa atvinnugrein eins og aðrar að stjórnvöld þurfa að vinna að því að skapa sem mestan stöðugleika í rekstrarumhverfi og stuðla að eðlilegri samkeppni til að tryggja hagkvæman rekstur og góða þjónustu á sanngjörnu verði. Ég tel að heppilegast sé að treysta einkaaðilum fyrir ýmsum rekstrarþáttum en jafnframt er nauðsynlegt að stjórnvöld seti almennar leikreglur. Stjórnvöld þurfa einnig að sjá til þess að það séu fyrir hendi réttir hvatar fyrir heimili og fyrirtæki til að þau dragi úr úrgangsmyndun og efli endurvinnslu. Ríkisvaldið getur að sjálfsögðu haft talsverð áhrif á það hvernig þessi mál þróast en þó er hlutverk sveitarfélaga enn mikilvægara í þessum málaflokki.

Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi er markmiðið að endanleg förgun á úrgangi verði 50% minni um aldamótin en árið 1990. Þessu markmiði á að ná bæði með því að draga úr úrgangi og með því að efla endurvinnslu. Þær upplýsingar sem liggja fyrir um þróun mála benda til þess að við höfum nálgast þetta markmið. Endurvinnsla hefur eflst verulega á þessu tímabili og fyrirliggjandi upplýsingar um úrgangsmagn á Íslandi benda til þess að það hafi minnkað um uþb.fimmtung síðan 1990 ef miðað er við íbúafjölda.

Forsenda fyrir árangri er jákvætt hugarfar almennings. Árangursrík endurvinnsla hefst á heimilum okkar og vinnustöðum. Byggðahverfið á Sólheimum í Grímsnesi er lýssandi dæmi um eftirtektarverðan árangur á þessu sviði. Þar hafa íbúarnir flokkað sorp og staðið að endurnýtingu og endurvinnslu með góðum árangri í þessu fyrsta vistræna byggðahverfi á Íslandi.


SORPA hefur einnig sýnt mikið frumkvæði og verið leiðandi aðili í endurvinnslu. Nægir í þessu sambandi að nefna frumkvæði SORPU í að beisla metangas. Fyrirtækið hefur með því framtaki lagt lóð á vogarskálarnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Vonandi verður hægt að breyta þessum úrgangi í verðmætan orkugjafa í næstu framtíð. Vil ég nota tækifærið til að þakka SORPU fyrir sérstaklega mikilvægt framlag á þessum sviði.

Ég nefndi að stjórnvöld gætu haft áhrif á að réttir hvatar væru til staðar til að stuðla að hagkvæmri meðhöndlun á úrgangi. Í þessu sambandi vil ég nefna að ríkisstjórnin hefur haft til athugunar að beita sér enn frekar fyrir umhverfisgjöldum og umhverfissköttum en nú er gert. Hagræn stjórntæki, eins og þessi gjöld og skattar eru stundum nefnd, eru sett á til hafa áhrif á hegðun heimila og fyrirtækja með óbeinum hætti og ná fram hagkvæmni. Kostur þess að beita slíkum stjórntækjum eru helstur sá að þau gefa markaðnum tækifæri til að finna hagkvæmustu lausnir í stað þess að stjórnvöld tilgreini nákvæmlega hvaða aðferðir nota skal til að ná settu marki. Slík gjöld eiga þó ekki að leiða til hærri heildarskattheimtu ef þau verða lögð á, og mikilvægt er að á móti komi lækkun annarra gjalda og skatta.

Við höfum haft góða reynslu af slíkum gjöldum vegna einnota drykkjarumbúða og eru skil á þessum umbúðum nú með því hæsta sem gerist í heiminum. Nýlega var sett á sérstakt gjald á spilliefni til að tryggja að þau komi til endurvinnslu eða ábyrgrar förgunar þegar notkun þeirra lýkur. Að sjálfsögðu þarf að fara varlega þegar slík gjöld eru innleidd og aðeins má taka þau upp ef sýna má fram á að sá umhverfisbati sem af þeim leiðir sé umtalsverður og að þau stuðli jafnframt að hagkvæmri meðferð úrgangs og jafnvel verðmætasköpun. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Þetta á ekki hvað síst við í þeirri umræðu sem hefur verið um að leggja skatt á losun koldíoxíðs, en það mál hefur lengi verið til umræðu innan Evrópusambandsins.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þarfasta þjón Íslendinga á þessari öld - bílinn, sem einnig verður til umfjöllunar á umhverfisdögum SORPU. Bílar eru óhjákvæmilegir í okkar samfélagi og tilkoma þeirra og þróun vegasamgangna hefur haft mjög jákvæð áhrif á lífsskilyrði í þessu landi. En eins og við vitum fylgja þessum þarfa þjóni aukaverkanir sem við þurfum að reyna að draga úr. Um fjórðungur af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er vegna bíla og staðbundin mengun hér á höfuðborgarsvæðinu hefur verið vaxandi vandamál. Á næstu árum eigum við von á ýmsum tækniframförum sem munu innleiða bíla sem ganga fyrir hreinum orkugjöfum. Það þarfa að skapa forsendur fyrir því að hægt verði að prófa þessar nýjungar hér á landi og eftir atvikum að taka þátt í þróun þeirra. Nýlega voru ákveðnar tímabundnar breytingar á vörugjaldi til að bæta samkeppnisstöðu rafmagnsbíla.

Það er að sjálfsögðu ekki hlutverk ríkisvaldsins að ákveða hvernig bílar verða notaðir á Íslandi. En ríkisvaldið getur beitt sér fyrir því að innleiða ýmsa hvata, til að mynda með því að beita hagrænum stjórntækjum, til að stuðla að jákvæðri þróun í þessum efnum. Eins og við vitum er oft ákveðin tregða til breytinga, jafnvel þó auðsýnt sé að þeim fylgi verulegur ávinningur þegar til lengri tíma er litið. Við ákveðnar aðstæður kann því að vera nauðsynlegt að ýta undir breytingar með aðgerðum af þeim toga sem gert var fyrr á þessu ári. Ég vil ekki útloka fleiri aðgerðir sem geta virkað hvetjandi á frekari þróun í þá átt að innleiða farartæki sem valda minni mengun sem og minni losun á gróðurhúsalofttegundum. Þetta kann einnig að leiða til þess að við getum í vaxandi mæli notað innlenda orkugjafa í samgöngumálum landsins. Í þessu sambandi má minna á það átak sem stjórnvöld gerðu á sínum tíma til að nýta jarðvarma til húshitunar á áttunda áratugnum. Það átak hefur bæði skilað okkur efnahagslegum og umhverfislegum ávinningi.

Að svo mæltu segi ég þessa ráðstefnu setta og óska þátttakendum velgengni í starfi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta