Þróun byggðar : stjórn ríkisfjármála. Akureyri
Ávarp fjármálaráðherra
Þróun byggðar - Stjórn ríkisfjármála
27. ágúst 1998.
Aukin hagsæld
Það er gömul kenning í alþjóðastjórnmálum að þjóðríki geri nágrönnum sínum mest gagn með því að hafa sín eigin efnahagsmál í góðu lagi. Svipað má segja um samskipti ríkisvaldsins og annarra virkra þátttakenda í hagkerfinu. Þeim mun betur sem ríkisvaldið vandar sína efnahagsstjórn og skilar meiri árangri á því sviði þeim mun betra fyrir alla aðra, þar með talin sveitarfélögin.
Einmitt þetta höfum við verið að upplifa hér á landi undanfarin misseri. Sú umgjörð um efnahagslífið sem ríkisvaldið og aðilar á vinnumarkaði bjuggu atvinnurekstri og annarri starfsemi með kjarasamningum og aðgerðum í tengslum við þá á síðari árum hefur skilað mjög miklum árangri. Sveitarfélögin hafa, eins og margir fleiri, notið þess ríkulega.
Efnahagsárangurinn skilar sér í bættri afkomu bæði ríkis og sveitarfélaga. Kostnaður vegna atvinnuleysis og félagslegrar aðstoðar lækkar og aukinn kaupmáttur heimilanna, meiri atvinna og aukin atvinnuþátttaka hækkar tekjuskatt og útsvar. Launaþróunin hefur sérstaka þýðingu fyrir sveitarfélögin þar sem meira en 80% tekna þeirra er undir henni komin. Við álagningu útsvars á tekjur ársins 1997 í upphafi þessa mánaðar var þannig staðfest að útsvarsstofninn hafði hækkað um rúm 7% milli ára eða um 5% umfram verðlag. Ef fram fer sem horfir gæti álagningarstofn útsvars á næsta ári hækkað um 11% til viðbótar og skilað sveitarfélögum nálægt 3,5 milljörðum króna tekjuauka. Það er því ljóst að mikið er í húfi og mikilvægt að sveitarfélög ásamt ríki leggi sitt af mörkum til að tryggja stöðugleika í verðlagsmálum og farsælt framhald þess árangurs sem náðst hefur.
Ytri skilyrði þjóðarbúsins hafa batnað, en án bættrar hagstjórnar og víðtækra umbóta á leikreglum efnahagslífsins hefði sá árangur auðveldlega getað farið forgörðum. Markaðsöflin hafa á undanförnum árum komið í stað opinberra afskipta á mörgum sviðum. Stórstígar breytingar hafa átt sér stað með tilkomu fiskmarkaða og verðbréfamarkaða, aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu, aukins frjálsræðis á peninga- og gjaldeyrismarkaði og með formbreytingu og sölu ríkisfyrirtækja, svo nokkur dæmi séu nefnd.
Mikilvægt er að hafa hugfast að með þeim breytingum sem orðið hafa á skipulagi og allri umgjörð efnahagslífsins á undanförnum árum eru nú litlar líkur á að hagkerfið leiti aftur í gamla verðbólgufarið. Hins vegar gera þessar breytingar auknar kröfur til ríkis, sveitarfélaga og stjórnenda fyrirtækja, sem menn mega ekki víkja sér undan. Ef ekki á að glutra árangrinum niður þarf að auka enn ráðdeild og hagræðingu í öllum rekstri og halda þannig áfram að treysta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og auka framleiðni.
Enginn vafi er á að aðhald í fjármálum hins opinbera er öruggasta leiðin til að treysta þann stöðugleika í sessi sem náðst hefur hér á landi að undanförnu. Afgangur í opinberum rekstri á næstu árum gerir í senn kleift að greiða niður skuldir og draga úr vaxtakostnaði ríkis og sveitarfélaga. Með því skapast einnig svigrúm fyrir frekari lækkun skatta. Þegar vel árar eins og nú er mikilvægt að búa í haginn fyrir framtíðina. Reynslan kennir okkur að uppsveiflan í efnahagslífinu mun ekki haldast að eilífu.
Afkoma ríkissjóðs
Á síðasta ári urðu þau tíðindi í ríkisfjármálum að ríkissjóður var rekinn með 1.200 m.kr. afgangi á greiðslugrunni þrátt fyrir skattalækkanir og hækkun launakostnaðar á fyrri hluta ársins. Ef horft er fram hjá sérstakri innlausn á spariskírteinum varð 4,7 ma.kr. afgangur á ríkisbúskapnum. Á svokölluðum rekstrargrunni var tekjuafgangurinn á hinn bóginn um 700 m.kr., en þá er m.a. tekið tillit til áfallinna vaxta og lífeyrisskuldbindinga. Þetta var í fyrsta skipti síðan 1984 að ríkissjóður skilaði afgangi. Þannig gat ríkissjóður á árinu 1997 greitt upp meira af lánum en hann tók og lækkað erlendar skuldir ríkisins úr rúmum 132 ma.kr. í ársbyrjun niður í 127 ma.kr. í árslok. Vert er að vekja athygli á því að undanfarin ár hafa útgjöld ríkisins vaxið mun hægar en landsframleiðslan.
Það er misskilningur að meginrökin fyrir því að selja eignir ríkisins séu að ná inn tekjum í ríkissjóð til þess að standa undir auknum útgjöldum. Vissulega eru það rök fyrir slíkri sölu að hún skilar ríkissjóði og þar með landsmönnum öllum tekjum. En þessar tekjur eiga ekki að ganga til þess að fjármagna aukin útgjöld heldur til þess að lækka skuldir ríkisins og þar með lækka vaxtabyrðina á næstu árum.
Fyrr í þessum mánuði kynnti ég niðurstöður um afkomu ríkissjóðs fyrstu sex mánuði þessa árs og mat á horfum fyrir árið allt. Þar kom fram að greiðslustaða ríkisins er afar hagstæð um þessar mundir og horfur á að lánsfjárafgangur ríkisins verði 11-12 milljarðar króna á árinu. Þetta er um það bil tvöfalt meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Í árslok ættu vergar skuldir ríkisins að vera komnar niður í 41% af landsframleiðslu. Hæst fóru þetta hlutfall í 51% á árunum 1995 og 1996.
Með gildistöku nýrra laga um fjárreiður ríkisins á þessu ári varð grundvallarbreyting á framsetningu fjárlaga og ríkisreiknings. Meginfrávikið er að nú eru bæði fjárlög og ríkisreikningur færð á rekstrargrunni, en fjárlög voru áður eingöngu færð á greiðslugrunni. Í þessu felst meðal annars að nú ber að færa til gjalda allar skuldbindingar sem falla á ríkissjóð á því ári sem til þeirra er stofnað. Þetta sést best á færslu lífeyrisskuldbindinga, en hækkun þeirra vegna breytinga á launakerfi ríkisstarfsmanna á þessu ári er öll bókfærð á rekstur ársins 1998 þótt hún komi til greiðslu á mörgum árum.
Það er mikil framför að birta fjárlög á sama grunni og ríkisreikningur er gerður upp á, og hvet ég sveitarstjórnarmenn eindregið til að kynna sér þá reynslu, sem nú er að fást af þessu fyrirkomulagi hjá ríkinu. Rekstrargrunnurinn þýðir að horfast verður í augu við og bókfæra allar skuldbindingar vegna ákvarðana sem teknar eru á viðkomandi ári, jafnvel þótt þær komi ekki til greiðslu fyrr en seinna. Þar með er verið að leggja til hliðar fyrir þeim greiðslum. Þessi breyting hefur það hins vegar í för með sér að það þarf að mæta gjaldfærslunum með auknum tekjum til að afkoman verði í jafnvægi og þess vegna er erfiðara en áður að ná jafnvægi í búskapnum.
Afkoma ríkissjóðs á árinu 1998 er gott dæmi um áhrif þessara breytinga. Samkvæmt fjárlögum var, eins og áður segir, gert ráð fyrir lítilsháttar rekstrarafgangi ríkissjóðs á árinu, miðað við rekstrargrunn. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun er nú gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs geti orðið tæplega 5,5 milljörðum króna meiri en í fjárlagaáætlun. Á móti vegur að bókfærð útgjöld eru talin munu fara fram úr áætlun um 13 milljarða króna. Þar vega stórauknar lífeyrisskuldbindingar þyngst, en þær eru taldar verða 9-10 milljörðum króna hærri en áætlað hafði verið. Samkvæmt þessu stefnir því í 7,5 milljarða króna halla á ríkissjóði á árinu öllu. Að lífeyrisskuldbindingunum frátöldum hefði hins vegar stefnt í 5-6 milljarða króna afgang.
Það er athyglisvert í þessu sambandi, nú eftir að launamál kennara eru komin til sveitarfélaga, að semji þau um hækkun dagvinnulauna kennara eykur það bókfærð útgjöld ríkisins vegna lífeyrisskuldbindinga.
Við undirbúning fjárlaga fyrir næsta ár stefnir ríkisstjórnin að því að rekstur ríkisins skili afgangi bæði á greiðslugrunni og rekstrargrunni. Áfram verður því tryggt svigrúm til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og er markmiðið að endurgreiðsla skulda verði enn meiri en í ár. Þannig er ætlunin að ríkissjóður lækki skuldir sínar á þessu og næsta ári um samtals allt að 25 milljarða króna. Allir vita að vaxtagreiðslur af lánum eru hrikalegur baggi á ríkissjóði. Í þær er varið svipaðri fjárhæð og í allar verklegar framkvæmdir ríkisins á ári hverju. Með þeirri skuldalækkun sem nú er fyrirhuguð má lækka árlegan vaxtakostnað um 1 – 1S milljarð króna, og enn meira ef okkur auðnast að halda áfram á sömu braut. Hluta þess fjármagns mætti verja til byggðamála, samgangna eða annarra þjóðþrifamála. Af þessu má ráða að það er samhengi á milli ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum og þess að geta fylgt eftir nútímalegri stefnu í byggðamálum.
Einkavæðing
Einkavæðing á ríkisfyrirtækjum og einkaframkvæmdir eru til þess fallnar að ná fram hagræðingu í rekstri, draga úr ríkisumsvifum og auka sparnað almennings. Á þessu ári er þannig gert ráð fyrir umtalsverðum tekjum af sölu eigna. Hlutur ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu hefur verið seldur og undirbúningur að sölu á eignarhlut ríkisins í Skýrr hf., Íslenskum aðalverktökum og á 49% hlutabréfa í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er vel á veg kominn, en þetta eru stærstu einkavæðingaráformin á þessu ári.
Ríkisstjórnin hefur sem kunnugt er þegar tekið fyrstu skref í átt til sölu viðskiptabankanna tveggja, sem eru í eigu ríkisins, með því að breyta þeim í hlutafélög. Jafnframt hefur Alþingi heimilað að auka hlutafé í Landsbanka og selja það á markaði og er undirbúningur þess á lokastigi. Þessa dagana er síðan rætt um næstu skref og má fljótlega búast við ákvörðun ríkisstjórnarinnar varðandi þau.
Meginröksemdin fyrir sölu ríkiseigna er að ríkið eigi ekki að hafa með höndum atvinnurekstur sem einkaaðilar geta sinnt betur og með hagkvæmari hætti. Þessi hugsun er ekki ný af nálinni og fjarri því að vera bundin við Ísland. Þar nægir að líta til ýmissa Evrópulanda, jafnt í vestri sem í austri. Hvarvetna eru stjórnvöld að vinna að sölu ríkiseigna til einkaaðila af þeirri grundvallarástæðu sem ég hef nefnt.
Þessi rök eiga ekki síst við um ríkisbankana þrjá enda hefur ríkið óvíða jafnmikil ítök á fjármagnsmarkaði og hér á landi. Slíkt kann að hafa verið réttlætanlegt áður fyrr þegar hagkerfið var lokað og fjármagnshöft voru allsráðandi. Á tímum frjálsra fjármagnshreyfinga, jafnt innanlands sem milli landa, og aukinnar alþjóðavæðingar og samkeppni, ekki síst á fjármagnsmarkaði, eru ríkisbankar hins vegar tímaskekkja eins og margoft hefur verið bent á, af innlendum sem erlendum aðilum. Meðal annars hafa þau tvö erlendu fyrirtæki sem birta reglulega mat sitt á lánshæfi okkar erlendis nefnt að of sterk ítök ríkisins á fjármálamarkaði lækki lánshæfismatið og geri lánskjör okkar erlendis óhagstæðari en ella.
Auk sölu atvinnufyrirtækja eru miklir möguleikar fólgnir í sölu eigna, sem notaðar hafa verið fyrir hefðbundinn ríkisrekstur, og með samningum við einkaaðila um rekstur þeirra og þjónustu, sem að stórum hluta er kostuð af ríkinu. Í síðasta mánuði kom út skýrsla nefndar sem starfaði á vegum fjármálaráðherra og fjallar um þennan þátt undir yfirskriftinni: "Einkaframkvæmd". Ég hvet menn til að kynna sér efni hennar og innihald fyrsta samningsins sem byggir á sömu nálgun og skýrslan, en hann er milli ríkis og Hafnarfjarðarbæjar og tekur til uppbyggingar og reksturs Iðnskólans í Hafnarfirði. Nýir fjárfestingarkostir munu bjóðast einkaaðilum á næstu árum þar sem hið opinbera mun í vaxandi mæli leita eftir fjármögnun mannvirkja sem ríki og sveitarfélög hafa fram að þessu séð um, svo sem orkumannvirki, samgöngumannvirki og húsnæði undir opinbera starfsemi.
Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga
Flutningur á rekstri grunnskólans til sveitarfélaganna er gott dæmi um hvaða árangri má ná með góðum undirbúningi. Hækkun á útsvari og lækkun á tekjuskatti ríkisins þýðir yfir 20% hækkun á skatttekjum sveitarfélaganna og er þess vegna viss mælikvarði á aukin umsvif þeirra. Yfir 3.600 manns fengu nýjan vinnuveitanda og er áætlað að stöðugildum í sveitarfélögum hafi þar með fjölgað úr 10.200 í rúmlega 13.400 eða um 31%.
Rökin fyrir flutningi grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga eiga augljóslega við um marga þætti í opinberum rekstri. Stóru málaflokkarnir sem nefndir hafa verið í því sambandi eru málefni fatlaðra, heilsugæsla og öldrunarþjónusta. Á öðrum sviðum hefur verið rætt um aukið hlutverk og svigrúm sveitarfélaga til eigin ákvarðana og má í því sambandi nefna félagsleg húsnæðismál, samgöngumál og umhverfismál. Mögulegur verkefnaflutningur til viðbótar rekstri grunnskólans hefur þannig verið til skoðunar á undanförnum árum og má almennt fullyrða að stuðningur sé mikill við þá hugmynd, þó að jafnframt sé ljóst að einstök verkefni kalla á mismikinn undirbúning.
Með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga má ná fram skýrari verkaskiptingu, þannig að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á stofnkostnaði og rekstri. Almennt er það eftirsóknarvert að sveitarfélögin hafi með höndum staðbundin verkefni, en ríkisvaldið annist þá þjónustu sem hagkvæmara er að leysa á landsvísu. Með því að sveitarfélögin annist staðbundna þjónustu er komið í veg fyrir óþarft millifærslukerfi auk þess sem heimamönnum gefst betri kostur en ella á að laga þjónustuna að aðstæðum á hverjum stað. Slíkur sveigjanleiki opnar nýja möguleika til sparnaðar og ráðdeildar. Samhliða skapast svigrúm fyrir breyttar áherslur og bætta þjónustu.
Mikilvægt er að standa vörð um einfalda og skilvirka stjórnsýslu. Fámenni íslensku þjóðarinnar gerir það að verkum að eðlilegt er að skipta verkum milli ríkis og sveitarfélaga með öðrum hætti en hjá milljóna þjóðum. Hér nægja tvö stjórnsýslustig. Hagkvæm stjórnsýsla byggir ekki síst á stuttum boðleiðum og þó að fámenni geti á sumum sviðum valdið viðbótarkostnaði fylgja því líka kostir. Stuttar boðleiðir og skýr verkaskipting er lykill að skilvirkri stjórnsýslu sem skiptir miklu máli í vaxandi alþjóðlegri samkeppni þar sem skjót afgreiðsla og fljótvirk ákvarðanataka hafa þýðingu fyrir fólk og fyrirtæki.
Einn þáttur sem vert er að undirstrika er möguleg þátttaka sveitarfélaga í opinberum rekstri þar sem áætlað þjónustusvæði tekur ekki aðeins til hlutaðeigandi sveitarfélags, heldur nær til stærra svæðis. Með þessum hætti gæti sveitarfélag annast þjónustu sem að öðrum kosti væri skilgreind þjónusta á vegum ríkisins. Þetta krefst sambærilegra samninga og gerðir hafa verið við reynslusveitarfélögin og aukinnar áherslu á að fjárveitingar fylgi einstaklingunum sem eiga rétt á þjónustunni í stað þess að renna til þeirra sem veita hana óháð eftirspurn. Í þessu sambandi má nefna rekstur framhaldsskóla, sjúkrahúsa, hafna og flugvalla. Ný lög um fjárreiður ríkisins opna nýja möguleika til þess að gera samninga um slíkan rekstur.
Ég tel hafið yfir allan vafa að með því að stækka sveitarfélögin, gera þau öflugri og sjálfstæðari, flytja til þeirra verkefni og tekjur er hægt draga úr umsvifum ríkisins og skapa skilyrði fyrir uppbyggingu fjölbreyttrar þjónustu á landsbyggðinni.
Breyttar áherslur í byggðamálum
Búferlaflutningar til höfuðborgarsvæðisins hafa farið vaxandi. Þegar búsetuþróunin er til umræðu er engu að síður mikilvægt að halda því til haga að hún er ekki með sama hætti alls staðar á landinu. Á sumum stöðum er nokkur fjölgun meðan íbúum fækkar mikið á öðrum. Þróunin sýnist með öðrum orðum langt frá því að vera eitthvert náttúrulögmál. Auk almennra skilyrða svo sem markaðsaðstæðna og efnahagsástands ráða m.a. landfræðilegar aðstæður, frumkvæði og framtíðarsýn heimamanna miklu um framvindu mála í einstökum byggðarlögum.
Eðlileg búsetuþróun í landinu er og á að vera sameiginlegt viðfangsefni allrar þjóðarinnar. Búsetuskilyrði á Íslandi verða að standast samanburð við búsetuskilyrði í öðrum löndum. Því má ekki gleyma að valið stendur ekki aðeins um það hvort fólk vill búa á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig um búsetu í öðrum löndum. Raunhæfir möguleikar til búferlaflutninga eru réttindi sem við viljum tryggja öllum einstaklingingum og við teljum eftirsóknarvert að gengið sé út frá slíkum réttindum í hagstjórn og við uppbyggingu efnahagslífsins. Þannig ber ekki aðeins að forðast beinar hindranir og þvingunaraðgerðir, heldur einnig þau óbeinu afskipti sem byggja á mismunun, sértækum álögum eða ívilnunum.
Fjölbreytt atvinnulíf og hagkvæm nýting landkosta, mannvirkja og stofnana er sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Bylting í samgöngu- og fjarskiptamálum hefur opnað ýmsa möguleika sem fylgja þarf eftir, bæði hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu almennt. Í vaxandi mæli hafa fyrirtæki og stofnanir á landsbyggðinni bein og milliliðalaus tengsl við erlenda aðila. Með nýrri tækni skipta vegalengdir og staðsetning æ minna máli. Hagnýting þessara nýju möguleika er krefjandi verkefni og kallar á viðeigandi viðbrögð.
Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998-2001. Með henni er ætlunin að fylgja eftir tillögum Byggðastofnunar varðandi svokölluð vaxtarsvæði og stefnumörkuninni fyrir árin 1994-1997, sem bar yfirskriftina "Breyttar áherslur í byggðamálum". Samkvæmt þeirri stefnu skal miða uppbyggingarstarf hins opinbera við þau svæði á landsbyggðinni, sem helst hafa forsendur til að vaxa og svara auknum kröfum fólks um fjölbreytta atvinnu og nútímalega þjónustu. Lögð er áhersla á að byggja upp opinbera þjónustu þar sem flestir hafa aðgang að henni og þar sem hagkvæmast er að veita hana.
Stefnumótun sem þessi er brýn í ljósi þess að á landsbyggðinni fer fækkandi þeim þéttbýlisstöðum þar sem fólki fjölgar. Í henni felst viðurkenning á því að það eru margir samverkandi þættir sem ráða ákvörðunum um búsetu. Gildismat einstaklinganna hefur breyst, fleiri afla sér menntunar af ýmsu tagi en áður og fólk vill ekki binda sig við einn stað um aldur og ævi. Þetta sést á tilflutningi fólks á undanförnum árum bæði milli byggðarlaga og til og frá landinu.
Lokaorð
Áhrifamesta byggðastefnan felst í því að draga úr afskiptum ríkisins af atvinnulífinu, jafna samkeppnisskilyrði fyrirtækja og gefa heimamönnum kost á að annast, á sínum forsendum, staðbundna opinbera þjónustu. Á undanförnum árum hefur verið lagður grunnur að breytingum, sem meðal annars birtast í nýjum atvinnumöguleikum og auknum ráðstöfunartekjum heimilanna. Hagvöxtur og efnahagslegur stöðugleiki á næstu árum eru þannig þættir sem skapa skilyrði fyrir efnahagslegum framförum um allt land. Á þessari stundu er á hinn bóginn ekki hægt að segja til um áhrifin fyrir þróun byggðar á Íslandi. Eitt er þó víst, hún bæði leiðir til breytinga og kallar á breytingar. Til að snúa vörn í sókn þarf umfram allt jákvætt hugarfar, frumkvæði og framtíðarsýn