Stofnfundur Landssamtaka lífeyrissjóða
Ávarp fjármálaráðherra
á stofnfundi Landssamtaka lífeyrissjóða.
18. desember 1998
Öflugir lífeyrissjóðir auðvelda endurskoðun laga um almannatryggingar og frjálsan viðbótarlífeyrissparnað
Lífeyrismál og starfsemi lífeyrissjóða er mikilvægur málaflokkur sem í raun hefur ekki fengið verðuga athygli né umfjöllun hér á landi fyrr en á síðustu árum. Samtímis árangri við að byggja upp og styrkja innviði lífeyriskerfisins er gagnger endurskoðun almannatryggingalaganna aðkallandi m.a. vegna fyrirsjáanlegra breytinga á aldurssamsetningu þjóðarinnar.
Lögin sem tóku gildi 1. júlí sl. um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eru mikilvæg undirstaða fyrir það velferðarkerfi sem við ætlum að búa íslensku þjóðinni á 21. öldinni. Á grundvelli þeirra er því eðlilegt að endurskoða samspil og verkaskiptingu lífeyrissjóða og almannatrygginga. Jafnframt eru lögin farvegur fyrir aukna áherslu á frjálsan viðbótarlífeyrissparnað.
Mikilvægt er að treysta það lífeyriskerfi, sem við höfum þegar byggt upp og halda uppbyggingarstarfinu áfram. Okkur ber að nýta til fulls hagstæða aldurssamsetningu þjóðarinnar og þá staðreynd að aðilum vinnumarkaðarins tókst með samningum árið 1969 að leggja grunn að fyrirmyndarlífeyriskerfi.
Þrátt fyrir að staða okkar Íslendinga sé hagstæð í samanburði við aðrar þjóðir kallar úrlausnarefnið á stefnufestu og árvekni. Það eru ekki nema tæpir tveir áratugir síðan flest benti til þess að markmið íslenska lífeyriskerfisins mundu ekki nást og þar með að við stæðum í sömu sporum í lífeyrismálunum og flestar aðrar þjóðir. Fjárhagsstaða lífeyrissjóða sem starfa án ábyrgðar launagreiðanda hefur gjörbreyst á undanförnum árum og samstaða hefur náðst um að byggja upp lífeyrissjóði opinberra starfsmanna sem söfnunarsjóði. Ekki eru nema níu ár síðan lögboðið atvinnurekandaframlag ríkisins til Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna var skert með þeim rökum að sjóðurinn væri í raun gegnumstreymissjóður og iðgjöld til lífeyrissjóða jafngildi skattgreiðslna.
Endurskoðun laga um almannatryggingar
Auk þess að huga að verkaskiptingu almannatrygginga og lífeyrissjóða þarf einnig að athuga samspil trygginga og félagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga. Það vill oft gleymast í umræðu um þessi mál að umönnunar- og heilbrigðisþjónusta hins opinbera gegnir stóru hlutverki í þeirri afkomutryggingu sem íslenska velferðarkerfið veitir og kemur oft í staðinn fyrir beinar lífeyris- og tryggingagreiðslur.
Sérstaklega þarf að huga að tekjutengingu almannatryggingakerfisins og innleiða á ný sveigjanlegan ellilífeyrisaldur. Vert er að hafa í huga að frá upphafi almannatryggingakerfisins 1937 til ársins 1992 gat einstaklingurinn hækkað þann ellilífeyri, sem hann átti rétt á með því að fresta töku hans. Sveigjanlegur ellilífeyrisaldur er einnig mikilvægt markmið í því ljósi að frá því að almannatryggingalögin voru sett hafa lífslíkur karla við fæðingu aukist um 16 ár og kvenna um 15 ár. Við endurskoðun almannatryggingalaganna er mikilvægt að styrkja hinn eiginlega tryggingaþátt umfram það sem nú er gert og efla þannig sambandið milli innborgunar og réttinda.
Í allri umræðu um málefni aldraðra má það ekki gleymast að aldraðir eru ekki afmarkaður einsleitur hópur. Eins og meðal ungs fólks er starfsorka aldraðra breytileg, svo og óskir, þarfir og áhugamál. Okkur væri öllum hollt að hafa oftar í huga þá staðreynd að öldrun hefst ekki þegar einhverju tilbúnu aldursmarki er náð. Við eigum að gefa eldra fólki kost á að starfa áfram og líta fremur á hvaða gagn einstaklingar geta gert í atvinnulífinu en að spyrja um aldur þeirra.
Með framangreindum hætti og öðrum tiltækum aðgerðum þarf að styrkja stöðu þeirra sem eldri eru. Almennt þarf að auka sveigjanleika og svigrúm á vinnumarkaði þannig að hár starfsaldur, starfshlé vegna endurmenntunar, ráðning í hlutastarf og tímabundið hlé á atvinnuþátttöku vegna barna eða sjúkra, séu allt eðlilegir þættir í lífshlaupi sérhvers manns.
Pólitísk umræða í velferðarríkjunum mun á næstu árum í auknum mæli snúast um viðbrögð við breyttri aldurssamsetningu. Á vettvangi stjórnmálanna hérlendis verður einnig að fara fram opinská umræða um hvernig sætta megi ólík sjónarmið milli aldurshópa og tryggja aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði. Við megum ekki taka velferðina að láni og eigum að byggja upp öflugt lífeyriskerfi á grundvelli almannatrygginga, skyldutryggingar og frjáls viðbótarlífeyrissparnaðar.
Það eru sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar allrar að efla lífeyriskerfi grundvallað á sjóðsöfnun, hvetja til frjáls langtímasparnaðar og virkrar atvinnuþátttöku óháð aldri. Með aðgerðum í lífeyrismálum á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref í þessa átt, stuðlað að sátt milli kynslóða og lagður grunnur að farsælu þjóðlífi á 21. öldinni.
Aukinn langtímasparnaður
Hvort sem litið er til einstaklingsins eða þjóðfélagsins hefur aukinn langtímasparnaður mikla þýðingu. Hann gerir okkur kleift að efla atvinnulífið, draga úr erlendri skuldasöfnun og þróa frjálsa fjármagnsflutninga til og frá landinu. Um leið og æskilegt er að fá inn í landið erlent áhættufjármagn er einnig mikilvægt að íslensk fyrirtæki hafi bolmagn til að fjárfesta í útlöndum. Með alþjóðlegum fjárfestingum flyst þekking og reynsla milli landa og tryggir æskilega áhættudreifingu.
Eins og nú horfir í efnahagsmálum okkar Íslendinga er einnig afar mikilvægt að langtímasparnaður aukist. Þannig má draga úr þenslu og neikvæðum áhrifum viðskiptahalla. Aðhald í ríkisfjármálum, öflug uppbygging íslenska lífeyrissjóðakerfisins og aukinn frjáls viðbótarlífeyrissparnaður eru mikilsverðir þættir í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að treysta forsendur áframhaldandi hagsældar.
Langtímasparnaður er að sjálfsögðu ekki síður mikilvægur frá sjónarhóli einstaklingsins. Hugmyndir og væntingar ungs fólks um elliárin eru margbreytilegar og þar með einnig áherslan á fjárhagsafkomu líðandi stundar og í framtíðinni. Í stuttu máli eykst efnahagslegt sjálfstæði okkar eftir því sem langtímasparnaður verður meiri. Aukinn langtímasparnaður styrkir frelsi einstaklinganna og leiðir bæði til hagsældar og farsældar.
Mikilvæg forsenda þeirrar samstöðu sem náðst hefur í lífeyrismálunum var sú samþykkt Alþingis að hækka frádráttarbærni iðgjalda vegna lífeyrissparnaðar úr 4% í 6% hjá einstaklingum. Frá 1. janúar á næsta ári verður einstaklingum þannig heimilað að verja viðbótariðgjaldi til frjáls lífeyrissparnaðar og byggja upp þriðju stoð lífeyriskerfisins til hliðar við skyldutryggingu og almannatryggingar.
Í gær samþykkti Alþingi frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um tryggingagjald. Þar með eiga launþegar rétt á 10% mótframlagi frá ríkinu, eða sem samsvarar 0,2% af launum, ákveði þeir að spara 2% af tekjum með þátttöku í frjálsum viðbótarlífeyrissparnaði. Ef vel tekst til á þetta mótframlag, ásamt skattalega hagræðinu, að tryggja almenna þátttöku launþega í þessum sparnaði.
Samtök þeirra aðila sem koma til með að taka við og ávaxta frjálsa viðbótarlífeyrissparnaðinn hafa ásamt fjármálaráðuneytinu stofnað til tímabundins samstarfs. Það hefur farið vel af stað og er kynningarátak fyrirhugað í byrjun næsta árs. Samstaða þessara aðila er ánægjuleg, en hún hefur án efa mikið að segja í þeirri viðleitni okkar að vekja fólk til umhugsunar um gildi lífeyrissparnaðar. Með auknum sparnaði og sjóðsöfnun á starfsævinni tryggjum við betur en nú að menn geti hætt eða dregið úr vinnu og jafnframt séð sér og sínum farborða með fullri reisn og sjálfsvirðingu.
Ég hef jafnframt þá sannfæringu að aukin samkeppni um þá sparnaðarkosti sem í boði eru mun hafa jákvæð áhrif á heildarsparnaðinn í þjóðfélaginu. Með því að ýta undir frjálsan sparnað og samkeppni er skapað nauðsynlegt mótvægi við stöðuga hvatningu til eyðslu og skuldsetningar. Þetta er mikilvægt atriði og ef til vill þáttur sem við höfum vanmetið fram að þessu við uppbyggingu skyldusparnaðar- og skyldutryggingakerfisins.
Lokaorð
Lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða tryggja nauðsynlega umgjörð og festu fyrir heilbrigt og traust starfsumhverfi og þau eiga án efa stóran þátt í því að við erum hér stödd í dag á stofnfundi Landssamtaka lífeyrissjóða. Um leið og ég óska fundarmönnum til hamingju með daginn vil ég nota tækifærið og óska þeim gleðilegra jóla og þakka samstarfið á árinu.