Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

05. mars 1999 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ræður og greinar - Stefnan í skattamálum. Ráðstefna Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks þann 5. mars 1999.

Fjármálaráðherra
Stefnan í skattamálum
Ráðstefna á vegum
Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks
5. mars 1999


Þegar fjallað er um stefnuna í skattamálum undanfarin ár og verkefnin framundan á því sviði er óhjákvæmilegt að horfa til þess hver helstu markmið efnahagsstefnunnar hafa verið því að þetta tvennt er bundið órjúfanlegum böndum. Þannig hafa aðgerðir stjórnvalda í skattamálum undanfarin ár ekki snúist um hvernig skattkerfið eigi að þróast í einangrun heldur hafa stjórnvöld með markvissum hætti beitt skattamálum í því skyni að ná fram ákveðnum markmiðum í efnahagsmálum.

Ég vil því í upphafi máls míns fara nokkrum orðum um hver hafa verið helstu markmið stjórnvalda í efnahagsmálum að undanförnu. Því næst er ástæða til að rifja upp þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á sviði skattamála, hvernig þær tengjast markmiðum efnahagsstefnunnar og hvaða áhrif þessar aðgerðir hafa haft, á efnahagslífið almennt, stöðu atvinnulífs, atvinnustig og kaupmátt heimilanna. Í þriðja lagi er mikilvægt að horfa til þeirrar þróunar sem hefur orðið og framundan er í skattamálum á alþjóðavettvangi. Loks mun ég freista þess að horfa til þeirra verkefna sem ég tel brýnust á þessum vettvangi á næstu árum.

1. Markmið efnahagsstefnunnar
Eins og allir vita hefur staða efnahagsmála hér á landi gjörbreyst á undanförnum árum. Í stað óðaverðbólgu, jafnvægisleysis og óstöðugleika ríkir nú stöðugleiki í efnahagslífinu. Gert er ráð fyrir afgangi á fjárlögum árið 1999 eftir samfelldan halla frá miðjum síðasta áratug. Hagvöxtur er meiri en í flestum nálægum ríkjum. Atvinna hefur aukist og atvinnuleysi að sama skapi minnkað og er nú minna en í nær öllum aðildarríkjum OECD. Verðbólga hefur einnig verið með minnsta móti, eða á bilinu 1S-2S% síðustu fimm ár. Kaupmáttur heimilanna hefur jafnframt aukist verulega undanfarin ár, eða um fjórðung frá árinu 1995, og gætir þar meðal annars áhrifa lækkunar tekjuskatts og skattfrelsis lífeyrisiðgjalda auk almennra launahækkana samhliða batnandi afkomu fyrirtækja. Þá hafa vextir farið lækkandi og eru nú mun lægri en var fyrir nokkrum árum.

Aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum í því skyni að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði með lækkun og niðurfellingu skatta og öðrum aðgerðum til að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu, eiga hér ekki síst hlut að máli. Í kjölfarið hefur traust erlendra aðila á efnahagsstefnu stjórnvalda farið vaxandi sem aftur hefur leitt til minni vaxtagreiðslna. Ennfremur hafa íslensk stjórnvöld fengið afar jákvæða umfjöllun í skýrslum OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, bæði vegna þeirra áherslubreytinga sem orðið hafa í hagstjórn og ýmissa skipulagsbreytinga sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á mörgum sviðum efnahagslífsins, á fjármálamarkaði, í opinberum rekstri með aukinni áherslu á hagræðingu og markaðsvæðingu, í lífeyrismálum og víðar.

Þegar horft er til baka er í raun ótrúlegt hve mikið hefur breyst í íslensku efnahagslífi á tiltölulega skömmum tíma. Þetta á ekki aðeins við um skipulag efnahagsmála, sjálfa efnahagsumgjörðina, því að í kjölfarið hefur efnahagslífið rétt úr kútnum svo að um munar. Í upphafi þessa áratugar var staða efnahagsmála hér á landi um flest gjörólík því sem nú er. Rekstrarstaða fyrirtækja var afar erfið, ekki einungis í sjávarútvegi af völdum aflaskerðingar, heldur ekki síður í öðrum atvinnugreinum sem höfðu ekki lagað sig að gjörbreyttum rekstraraðstæðum, jafnt innanlands vegna aukins frjálsræðis og fráhvarfs frá fyrri tímum hafta, styrkja og opinberrar forsjár, sem erlendis samhliða auknu frelsi í milliríkjaviðskiptum og harðnandi samkeppni í kjölfar aukinnar alþjóðavæðingar. Mörg íslensk fyrirtæki áttu erfitt með að fóta sig í þessu nýja rekstrarumhverfi og við þeim blasti einfaldlega sá veruleiki að rekstrargrundvöllur starfseminnar, sem hafði virst blómlegur og traustur í skjóli styrkja og ríkisforsjár um langt skeið, var brostinn. Í kjölfarið lögðu mörg fyrirtæki upp laupana og atvinnuleysi varð hlutskipti fjölmargra einstaklinga.

Þessar gjörbreyttu aðstæður í íslensku efnahagslífi hlutu að kalla á ný viðhorf og önnur vinnubrögð en áður höfðu tíðkast. Meginmarkmið efnahagsstefnunnar voru því að treysta rekstrargrundvöll íslensks atvinnulífs með öllum tiltækum ráðum og freista þess að vinna bug á því atvinnuleysi sem skyndilega hafði haldið innreið sína. Þjóðarsáttarsamningarnir í upphafi áratugarins, þar sem horfið var frá áratugahefð mikilla kauphækkana án nokkurrar tryggingar fyrir því að þessar hækkanir leiddu til varanlegrar kaupmáttaraukningar, mörkuðu viss þáttaskil og voru til vitnis um víðtækan skilning á eðli þeirra erfiðleika sem íslenskt efnahagslíf átti við að etja á þessum tíma.

Þess í stað var lögð megináhersla á að tryggja stöðugleika í verðlagi jafnframt því að treysta rekstrargrundvöll og samkeppnisstöðu atvinnulífsins og stuðla þannig að auknum hagvexti og minnka atvinnuleysi. Ríkisfjármál voru hér í lykilhlutverki, ekki síst með því að talið var mikilvægt að grípa til sérstakra aðgerða, einkum á sviði skattamála, til þess að ná þessum efnahagsmarkmiðum. Jafnframt var vaxandi skilningur á mikilvægi traustrar ríkisfjármálastefnu sem miðaði að því að hverfa frá skuldasöfnun margra undanfarinna ára enda var hún talin ein veigamesta forsenda þess að festa stöðugleikann í sessi og tryggja þannig lífskjör almennings. Mér finnst nauðsynlegt að vekja athygli á þessum atriðum til þess að sýna fram á hversu nátengd stefnan í skattamálum síðustu ára er hinni almennu stefnu í efnahagsmálum. Þetta vill oft gleymast í umræðunni, ekki síst þegar vel árar í íslensku efnahagslífi og erfiðleikar fyrri ára eru að baki.

2. Aðgerðir í skattamálum að undanförnu og áhrif þeirra
Víkjum þá að þeim aðgerðum á sviði skattamála sem stjórnvöld hafa gripið til á undanförnum árum. Með nokkurri einföldun má segja að þessar aðgerðir hafi haft eftirfarandi fjögur meginmarkmið að leiðarljósi:

Að treysta samkeppnisstöðu atvinnulífsins og draga úr atvinnuleysi.
Að tryggja afkomu hinna tekjulægri.
Að stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífinu.
Að bæta lífskjör heimilanna.

Tekjuskattar fyrirtækja, aðstöðugjald og tryggingagjald. Framan af var lögð megináhersla á að styrkja stöðu atvinnulífsins til þess að vinna bug á því atvinnuleysi sem hafði skotið rótum og fór ört vaxandi. Í þessu skyni voru tekjuskattar á fyrirtæki lækkaðir umtalsvert, en um leið voru felldar niður margvíslegar undanþágur sem þá voru í gildi. Jafnframt var aðstöðugjald fellt niður, en það var lagt á veltu fyrirtækja án tillits til afkomu og var því mjög ósanngjarn skattur. Aðstöðugjaldið lagðist sérstaklega þungt á verslunarfyrirtæki þar sem veltan var mikil sem aftur varð til þess að hækka almennt verðlag til almennings. Niðurfelling aðstöðugjalds kom því ekki síst almenningi til góða því að í kjölfar þessa lækkaði vöruverð umtalsvert. Loks má nefna að lokaáfangi samræmingar tryggingagjalds, en það er lagt á launagreiðslur fyrirtækja, kemur til framkvæmda á næsta ári. Frá þeim tíma greiða allar atvinnugreinar jafnhátt tryggingargjald, en það var áður mishátt eftir atvinnugreinum sem bitnaði harðast á ýmsum þeim nýju fyrirtækjum sem hafa verið að hasla sér völl að undanförnu.

Með þessum aðgerðum hefur rekstrargrundvöllur íslenskra fyrirtækja verið treystur og samkeppnisstaða þeirra gagnvart erlendum aðilum batnað að mun. Þetta hefur í kjölfarið stuðlað enn frekar að fjölgun atvinnutækifæra og orðið til þess að draga úr atvinnuleysi. Jafnframt er með þessu búið í haginn fyrir framtíðina til að mæta auknu framboði af vinnuafli á næstu árum. Ég hygg að það sé óumdeilt að þessi stefna í skattamálum hefur skilað umtalsverðum og tilætluðum árangri enda ríkti um hana víðtæk sátt milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins á sínum tíma. Hér var ekki verið að hygla atvinnurekstrinum á kostnað launafólks eins og stundum er haldið fram heldur að skapa atvinnulífinu lífvænleg starfsskilyrði. En eins og allir vita er það grundvallarforsenda atvinnu- og verðmætasköpunar - og þar með í reynd búsetu - í landinu.

Afleiðing þessarar stefnu er meðal annars sú að á undanförnum árum hafa sprottið upp ný fyrirtæki í mörgum atvinnugreinum, jafnt gömlum sem nýjum, sem hafa skapað fjölmörg ný störf og mikil verðmæti fyrir þjóðarbúskapinn. Jafnframt hafa fyrirtæki fært út kvíarnar til annarra landa og jafnvel orðið ráðandi afl í einstökum tilvikum. Þetta sýnir að íslensk fyrirtæki geta verið fyllilega samkeppnisfær við erlend fyrirtæki svo framarlega sem þeim eru búin sambærileg eða betri starfsskilyrði en annars staðar tíðkast.

Virðisaukaskattur af matvælum. En þótt uppbygging atvinnulífsins hafi verið og sé enn mikilvægt markmið efnahagsstefnunnar var jafnframt talið brýnt að treysta afkomu og kjör almennings, ekki síst hinna verst settu og lægst launuðu. Í þessu skyni beittu stjórnvöld sér fyrir því á árinu 1994 að lækka virðisaukaskatt af matvælum um nær helming, úr 24,5% í 14%. Þessi breyting skilaði sér í verulegri lækkun matvælaverðs sem kom sér ekki hvað síst vel fyrir fjölskyldur með lágar tekjur og þunga framfærslu. Ég hygg að þessi breyting, sem vissulega var nokkuð umdeild, sé einhver veigamesta aðgerð sem gripið hefur verið til á sviði skattamála á síðari árum í því skyni að bæta kjör almennings.

Tekjuskattur einstaklinga. En það er af fleiru að taka. Einna mikilvægast í þessu samhengi tel ég vera þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar á árinu 1997 að lækka tekjuskatt einstaklinga um 4 prósentustig, úr 30,4% í 26,4%. Með þessu er tekjuskattshlutfallið orðið lægra en það var þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp á árinu 1988. Lækkunin skilar sér með myndarlegum hætti í auknum ráðstöfunartekjum heimilanna og þar með auknum kaupmætti. Sem dæmi um áhrif þessara aðgerða má nefna að ráðstöfunartekjur hjóna með tekjur nokkuð undir meðallagi og tvö börn hækka um liðlega 100.000 krónur á ári, eða um 4-5%.

Með þessari ákvörðun hafa verið stigin veigamikil skref í átt til þess að lækka jaðarskatta hér á landi. Ég hafna því alfarið að ekki hafi verið staðið við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá árinu 1995. Þvert á móti er þessi lækkun tekjuskatts einstaklinga einhver umfangsmesta skattalækkun sem hér hefur komið til framkvæmda á síðari árum. Ég hygg að sú leið sé vandfundin sem skilar fljótvirkari árangri í lækkun jaðarskatta en lækkun tekjuskatts. Þessi skattalækkun kemur reyndar í kjölfar fyrri ákvörðunar stjórnvalda um að undanþiggja lífeyrisiðgjöld launafólks skattlagningu, sem kom til framkvæmda á árunum 1995 og 1996, en sú ákvörðun jafngilti 1,5-1,7 prósentustiga lækkun tekjuskatts.

Hér má einnig nefna til sögunnar nýlega ákvörðun Alþingis, að tillögu ríkisstjórnarinnar, að heimila enn frekari skattafrádrátt, eða sem nemur allt að 2% af launum, vegna sérstaks viðbótarframlags launafólks í lífeyrissjóði. Þessi aðgerð miðar að því að örva innlendan sparnað og gera almenningi kleift að spara sérstaklega umfram reglubundin framlög til lífeyrissjóða. Fólki er heimilt að ráðstafa þessum viðbótarsparnaði að vild. Auk þess er atvinnurekendum gert skylt að leggja fram 10% mótframlag þannig að hámarksframlag launafólks í þennan viðbótarsparnað getur numið 2,2% af heildarlaunum. Hjá þeim sem nýta sér þessa viðbótarsparnaðarleið jafngildir skattafrádrátturinn um 0,8% lækkun tekjuskatts.

Bætur almannatrygginga og námslán. Til viðbótar þessum ákvörðunum ákvað ríkisstjórnin árið 1997 breytingar á bótum almannatrygginga sem draga verulega úr jaðaráhrifum almannatryggingakerfisins, meðal annars varðandi uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar og niðurfellingu á afnotagjaldi ríkisútvarpsins. Það er einnig ástæða til að vekja athygli á því að stjórnvöld hafa dregið úr jaðaráhrifum í námslánakerfinu með lagabreytingu sem lækkar endurgreiðsluhlutfall lána úr 7% í 4,75%.

Í umræðu um nauðsyn þess að lækka jaðarskatta gætir oft á tíðum nokkurs misskilnings sem ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um. Þannig er oft rætt um mikilvægi þess að beina ýmsum bótagreiðslum í ríkari mæli til einstaklinga með hlutfallslega lágar tekjur, en í sömu andrá er rætt um nauðsyn þess að lækka jaðarskatta eða draga úr jaðaráhrifum. Í þessu felst viss mótsögn. Eðli tekjutengingar er einmitt að beita jaðaráhrifum til að skerða bætur til fólks með tekjur yfir tilteknum mörkum og það er því tekjutengingin sjálf sem skapar jaðaráhrifin. Þetta tvennt fer því ekki vel saman. Annað hvort beita menn tekjutengingu í tekjujöfnunarskyni eða ekki. Það er erfitt að gera hvort tveggja í senn.

Af því sem ég hef nú rakið sést að stjórnvöld hafa ekki setið auðum höndum hvað varðar lækkun jaðarskatta eins og ýmsir hafa gefið í skyn. Þvert á móti hefur ríkisstjórnin ákveðið og Alþingi lögfest breytingar á sköttum og félagslegri aðstoð í bótakerfinu sem fela í sér stór skref í átt til þess að lækka jaðarskatta heimilanna og draga úr neikvæðum áhrifum tekjutengingar. Þessar aðgerðir hafa leitt til umtalsverðrar kaupmáttaraukningar heimilanna.

Fjármagnstekjuskattur. Sem kunnugt er hefur nú verið tekin upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna. Í því felst að öll sparnaðarform, hverju nafni sem þau nefnast, eru skattlögð með sambærilegum hætti að því er varðar tekjuskatt. Enn er hins vegar nokkurt misræmi hvað eignarskatt varðar eins og ég vík að síðar. Skattlagning fjármagnstekna hefur lengi verið í farvatninu. Það að loksins fékkst fram lausn í þessu máli má í reynd rekja til yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga ASÍ og VSÍ á árinu 1993. Í kjölfarið var skipuð nefnd til að undirbúa málið, en afgreiðslu var þá frestað. Þráðurinn var síðan tekinn upp aftur árið 1995 með skipan nýrrar nefndar sem í sátu fulltrúar stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka, ASÍ og VSÍ. Nefndin skilaði sameiginlegu áliti, en stjórnarandstöðuflokkarnir - að Kvennalista frátöldum – sneru síðan við blaðinu í þinginu og voru á móti tillögunum.

Ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um þessa skattlagningu, ekki síst í ljósi nýlegra ummæla ýmissa stjórnarandstæðinga á Alþingi þar sem gætir sama misskilnings á eðli þessarar skattlagningar og áður, en það var reyndar allt hrakið á sínum tíma. Þannig hafa enn á ný heyrst raddir um að með þessari skattlagningu sé verið að hygla þeim sem betur mega sín á kostnað annarra sem verr eru settir; að hér sé um að ræða stórkostlegustu eignatilfærslu síðari ára, ef ekki alda, til stóreignamanna og fleira í þeim dúr. Þessar fullyrðingar eru rangar og eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Raunar þvert á móti. Ég rökstyð þá skoðun mína með því að vísa í álit nefndarinnar, en þar er fjallað ítarlega um áhrif þessarar skattlagningar. Þar kemur fram sú eindregna skoðun að skattlagning vaxtatekna feli í sér aukið samræmi í skattlagningu tekna. Auk þess stuðli skattlagningin að tekjujöfnun þar sem tekjuhærri og efnameiri einstaklingar hafi alla jafna meiri vaxtatekjur en hinir tekjulægri. Skattlagning annarra fjármagnstekna mun hins vegar verða léttari, enda er það beinlínis yfirlýst markmið að létta skattbyrðina frá því sem nú er til þess að örva uppbyggingu atvinnulífsins. Það er því alrangt sem haldið hefur verið fram að hér sé verið að skattleggja þá sem minnst mega sín.

Nefndin taldi á sínum tíma að minni skattlagning á arði af hlutabréfum, söluhagnaði og leigutekjum myndi verða til þess að örva viðskipti með hlutabréf og draga fram í dagsljósið ýmsar tekjur sem áður höfðu farið huldu höfði ef svo má að orði komast, til dæmis húsaleigutekjur. Upplýsingar úr síðustu skattframtölum staðfesta þessa skoðun með eftirminnilegum hætti þar sem skattstofninn hefur tvö- til þrefaldast eftir þessa breytingu. Ríkissjóður fær nú umtalsvert meiri tekjur en áður af þessum fjármagnsviðskiptum sem er vitaskuld af hinu góða og nýtist til ýmissa þarfra verka. Þetta hrekur rækilega ýmsar fullyrðingar þess efnis að ríkið myndi tapa stórfé á þessum aðgerðum.

Ég tel þess vegna engan vafa leika á því að sú skattlagningaraðferð sem var valin er besta leiðin til þess að tryggja allt í senn; samræmda skattlagningu fjármagnstekna, tekjujöfnun, sem minnsta röskun á fjármagnsmarkaði, sem einfaldasta framkvæmd og sem best skattskil. Auk þess mun samræmd skattlagning fjármagnstekna hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið og atvinnuuppbyggingu í landinu eins og þegar hefur sýnt sig, meðal annars í stórauknum umsvifum á hlutabréfamarkaði.

Eignarskattar, bifreiðaskattar o.fl. Af öðrum skattalegum aðgerðum vil ég nefna að samhliða upptöku fjármagnstekjuskatts var ákveðið að fella niður efsta þrep eignarskatts enda var það beinlínis rökstutt með því að fjármagnstekjur væru að mestu skattfrjálsar. Ennfremur hefur skattlagning bifreiða verið til ítarlegrar skoðunar um nokkurt skeið. Nú þegar hefur skattlagningin verið endurskoðuð að hluta með það að meginmarkmiði að draga úr neyslustýringu hennar, beinni eða óbeinni. Enn er nokkurt verk óunnið á þessu sviði eins og ég mun víkja að síðar.

Bætt réttarstaða skattgreiðenda, betra skatteftirlit. Eins og ég hef nú rakið hafa verið gerðar margvíslegar umbætur og breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum sem fyrst og fremst hafa miðað að því að treysta stöðu efnahagslífsins, jafnt atvinnulífs sem lífskjör almennings, en þetta tvennt er vitaskuld samtvinnað. En það hefur ýmislegt fleira verið gert sem mun, þegar upp er staðið, einnig verða til hagsbóta fyrir almenning í landinu. Þannig hefur að undanförnu verið unnið að endurskoðun á ýmsum þáttum skattamála sem miðar að því að bæta réttarstöðu skattgreiðenda. Lögð er áhersla á að tryggja samræmi í störfum skattstofa, gera skattkerfið skiljanlegra og gegnsærra en nú er og styrkja starf yfirskattanefndar. Þá hefur skatteftirlit verið eflt til muna og ýmsar breytingar gerðar á fyrirkomulagi innheimtu í því skyni að einfalda hana og jafnframt gera hana hagkvæmari og þjálli. Þessar breytingar hafa þegar skilað sér í betri þjónustu við skattgreiðendur og jafnframt orðið til þess að gera skattheimtuna í skilvirkari. Ennfremur hafa skattskil batnað sem hefur skilað umtalsverðum viðbótartekjum til sameiginlegra þarfa samfélagsins eins og nýlega kom fram í upplýsingum frá tollstjóra. Þær upphæðir hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Ég vona að þetta yfirlit yfir aðgerðir stjórnvalda í skattamálum á undanförnum árum gefi nokkra mynd af þeim megináherslum sem hafa legið til grundvallar og hvernig þær tengjast efnahagsstefnunni almennt. Þótt ég hafi eðli máls samkvæmt fyrst og fremst fjallað um það sem hefur verið efst á baugi í skattamálum hér á landi finnst mér mikilvægt að tengja þessa umfjöllun við það sem hefur verið að gerast víða erlendis. Vaxandi samskipti milli þjóða samhliða aukinni alþjóðavæðingu gefa hins vegar tilefni til að fara nokkrum orðum um það sem hefur verið að gerast á alþjóðavettvangi á þessu sviði að undanförnu.

3. Þróunin á alþjóðavettvangi
Það gefur auga leið að skattamál hér á landi geta ekki lengur lifað sjálfstæðu lífi án tillits þeirra breytinga sem hafa orðið og eru framundan á alþjóðavettvangi. Aukin samskipti milli ríkja kalla á aukna samræmingu á mörgum sviðum efnahagslífsins. Þess vegna hefur verið lögð áhersla á að þær breytingar sem orðið hafa hér á landi á sviði skattamála á undanförnum árum gangi ekki þvert á þá þróun sem er í okkar helstu nágrannaríkjum. Á síðustu árum hefur þátttaka okkar í alþjóðasamstarfi farið ört vaxandi, ekki síst með það fyrir augum að geta fylgst með þeirri umræðu sem þar fer fram, jafnt á sviði skattamála sem almennra efnahagsmála.

Megináherslan í þessari þróun hefur verið að lækka skatthlutföll, en á sama tíma að fækka undanþágum frá skatti og þar með í reynd stuðla að breiðari skattstofnum. Þessi þróun hefur ekki einungis miðað að því að tryggja afkomu hins opinbera, sem eins og ég hef áður vikið að er talin forsenda fyrir því að viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu, heldur er vaxandi áhersla lögð á að skattkerfið sé gegnsætt eins og það heitir og að hvers kyns fyrirgreiðsla til einstakra aðila fari fram fyrir opnum tjöldum en sé ekki falin á bak við einhverjar undanþágur.

Ég tel að við stöndum að mörgu leyti nokkuð vel í alþjóðlegum samanburði á þessu sviði. Við höfum verið svo lánsöm að forðast að falla í sömu gryfju og margar nágrannaþjóðir okkar, þ.e. að reyna að leysa öll mál í gegnum skatta- og tilfærslukerfin. Fyrir vikið hefur okkur tekist að halda skattbyrðinni innan þolanlegra marka enda sýna skýrslur OECD að skattbyrði hér á landi er með því lægsta sem þekkist í aðildarríkjum þeirra samtaka. Þannig er til dæmis skattbyrði meðalfjölskyldu mun lægri hér en víðast hvar annars staðar þegar horft er til álagningar tekjuskatts. Þessu er hins vegar öfugt farið hjá frændum okkar Svíum og Dönum sem hefur valdið þeim miklum erfiðleikum og bæði lönd, ekki síst Svíar, hafa mátt sjá á bak bæði arðbærum og öflugum fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa séð þann kost vænstan að flytja búferlum og losna þannig undan skattaánauðinni. Síðustu fregnir frá Svíþjóð herma reyndar að nú sé í undirbúningi að lækka skattbyrðina til þess að reyna að stemma stigu við landflótta.
Annað atriði sem hefur verið ofarlega á baugi í hinni alþjóðlegu umræðu lýtur að því sem kallast skattasamkeppni milli landa. Hér er átt við það þegar einstök ríki bjóða erlendum fyrirtækjum sérstök vildarkjör í skattamálum til þess að fá þau til að fjárfesta í viðkomandi ríki. Írland hefur löngum verið tekið sem dæmi um ríki sem beitt hefur þessum aðferðum, með góðum árangri, alla vega séð frá bæjardyrum Íra. Hins vegar eru Írar langt því frá að vera þeir einu sem slíka starfsemi stunda. Í flestum ríkjum tíðkast að grípa til ýmiss konar gylliboða í því skyni að laða að erlenda fjárfesta. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál innan Evrópusambandsins þar sem hver nefndin á fætur annarri hefur verið fengið það verkefni að leysa þennan vanda. Hingað til hefur þetta engan árangur borið enda skoðanir afar skiptar um mikilvægi þessa og nauðsyn þess að höggva hér á hnútinn.

Hér togast á það sjónarmið annars vegar að koma verði í veg fyrir undirboð, þ.e. að einstök ríki stundi þá iðju að lokka til sín einstaklinga og/eða fyrirtæki með gylliboðum um hagstæð skattakjör, eða starfskjör almennt. Hins vegar benda menn á að samkeppni af öllu tagi sé af hinu góða, hvort sem er á sviði skattamála eða annars staðar. Mín skoðun er sú að þegar til lengdar lætur verði erfitt að beita boðum eða bönnum á þessu sviði. Slíkt er aðeins til þess fallið að menn leiti allra undanbragða til að komast framhjá slíkum hindrunum. Auðvitað hljómar það vel að nú beri að samræma skatta milli landa. Raunveruleikinn er hins vegar allt annar. Þess vegna held ég að best sé að búa sig undir harðnandi samkeppni á þessu sviði sem annars staðar. Sérgreindar útfærslur einstakra landa verða sífellt erfiðari þar sem fyrirtæki jafnt sem einstaklingar geta auðveldlega fært sig á milli landa þangað sem hagstæðustu kjörin bjóðast.

4. Verkefnin framundan á sviði skattamála
Eins og oft vill verða er nauðsynlegt að líta yfir farinn veg þegar hugað er að framtíðinni. "Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja" kvað þjóðskáldið Einar Benediktsson á sínum tíma. Nú líður að lokum þessa kjörtímabils og þess vegna er ekki við hæfi að fjalla um hugsanlega skattastefnu næstu ríkisstjórnar. Hins vegar finnst mér að þróun síðustu ára á sviði skattamála gefi um margt gagnlegar vísbendingar um hvert beri að stefna. Ég vil því ljúka máli mínu á nokkrum hugleiðingum um þær áherslur í skattamálum sem ég tel æskilegar og heppilegar með tilliti til þeirra efnahagsmarkmiða sem ég tel að næsta ríkisstjórn eigi að hafa að leiðarljósi.

Ég tel óumdeilt að sú reynsla sem við höfum fengið af þeirri skattastefnu sem hefur verið fylgt lengst af þessum áratug undirstrikar mikilvægi þess að samhæfa stefnuna í skattamálum almennri efnahagsstefnu. Jafnframt er ljóst að stefnan í skattamálum hlýtur í vaxandi mæli að taka mið af þeim breytta heimi sem við nú lifum í. Þar sem frelsi í viðskiptum á öllum sviðum hefur leyst höft, boð og bönn af hólmi. Þar sem markaðsöflin hafa tekið við af forsjárhyggju hins opinbera. Þar sem einkaframtakið hefur tekið við hlutverki opinberra aðila. Skilaboðin eru skýr að mínu mati. Forsenda framfara og batnandi lífskjara er að sköpuð verði skilyrði fyrir frekari uppbyggingu efnahags- og atvinnulífs.

Það er æskilegt að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið í tekjuskattskerfi einstaklinga með það fyrir augum að draga enn frekar úr neikvæðum jaðaráhrifum. Það þarf að búa það þannig úr garði að það stuðli að auknu vinnuframlagi og hvetji fremur en letji vinnusemi og verðmætasköpun. Á undanförnum árum hefur margt áunnist í þessum efnum þar sem skatthlutföll hafa verið lækkuð og þannig verið dregið úr neikvæðum áhrifum skattkerfisins á vinnuframboð.

Á næstu árum og áratugum blasir við hlutfallsleg aukning eldra fólks á vinnumarkaði. Ekki aðeins hér á landi heldur víðast hvar annars staðar. Að óbreyttri skipan mála mun þessi fjölgun skapa mikinn þrýsting á opinber útgjöld til lífeyris-, heilbrigðis- og umönnunarmála. Verkefni stjórnvalda mun í vaxandi mæli snúast um hvernig á að mæta þessari auknu útgjaldaþörf án þess að það leiði til aukinnar skattbyrði fólks á vinnufærum aldri. Ég tel að við séum á réttri braut hvað þetta varðar og um margt komin lengra en margar, ef ekki flestar, af okkar nágrannaþjóðum. Þær umbætur sem hafa verið gerðar í lífeyrismálum á undanförnum árum hafa án nokkurs vafa stuðlað að því að gera þennan vanda viðráðanlegri en ella.

Enn er þó margt óunnið. Þannig tel ég brýnt að taka til sérstakrar skoðunar samspil bótakerfis almannatrygginga, greiðslna úr lífeyrissjóðum, skattkerfis og sparnaðar í efnahagslífinu. Markmiðið hlýtur að vera að gera þeim öllum þeim sem geta kleift að vinna eins lengi og unnt er, en jafnframt að skapa þeim sem ekki geta framfleytt sér með sama hætti ásættanleg kjör. Þetta tel ég eigi að vera eitt af fyrstu verkefnum nýrrar ríkisstjórnar.

Annað áhersluatriði tel ég vera á sviði umhverfismála, sérstaklega að því er varðar samspil umhverfisskatta og umhverfismála. Af hálfu fjármálaráðuneytis hefur um nokkurt skeið verið lögð áhersla á sérstaka skoðun á samhengi umhverfisgjalda og umhverfismála. Hugsunin á bak við þessar vangaveltur hefur einkum verið sú að beina skattlagningu á þessu sviði, þ.e. einkum bifreiða og eldsneytis, í þann farveg að það hvetji til umhverfisvænna lausna. Þessi sjónarmið hafa ekki alltaf verið í heiðri höfð heldur hefur skattlagningin oftar en ekki tekið mið af öðrum - og oft gagnstæðum – sjónarmiðum. Ég tel brýnt að taka þessa þætti til rækilegrar endurskoðunar og hef reyndar þegar gert ráðstafanir til þess að skoða þessi mál til hlítar. Þetta má hins vegar og mun ekki verða til þess að auka álögur á skattgreiðendur frá því sem nú er heldur lít ég þannig á að þetta gefi færi á að lækka aðra skatta.

Ég vil að lokum nefna þriðja atriðið sem ég tel brýnt að taka til sérstakrar skoðunar, en það er samræming eignarskatta. Eins og staðan er í dag njóta sumar tegundir eigna skattfrelsis á meðan aðrar eignir eru að fullu skattlagðar. Þessi mismunun á engan rétt á sér í dag og ég tel brýnt að taka á þessu máli við fyrsta tækifæri enda er hér um að ræða leifar frá gömlum tíma og allt öðrum aðstæðum en nú tíðkast.

5. Lokaorð
Ég vil að lokum ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að aðgerðir stjórnvalda í skattamálum á undanförnum árum hafa sem betur fer ekki beinst í gamalkunnan farveg fyrri ára, þ.e. að hygla tilteknum aðilum hvort sem það eru tilteknar atvinnugreinar eða ákveðnir þjóðfélagshópar. Aðgerðirnar hafa miklu frekar verið almenns eðlis þar sem hagsmunir heildarinnar hafa verið hafðir að leiðarljósi. Meginmarkmiðið hefur verið að treysta efnahagslegan grundvöll þjóðarinnar allrar og stuðla að bættum lífskjörum almennings í landinu.

Ég tel óumdeilt að þessi markmið hafi náðst og gildir þá einu hvaða mælikvörðum er beitt. Efnahagsleg velferð þjóðarinnar hefur verið treyst. Atvinnuleysi hefur verið útrýmt. Kaupmáttur almennings og almenn velmegun hefur aldrei verið meiri og þjóðarbúið stendur traustari fótum en nokkru sinni fyrr. Þótt alltaf megi deila um áherslur og einhverjum finnist að ýmislegt megi betur fara tel ég að efnahagsstjórn undanfarinna ára þar sem áhersla hefur verið lögð á að sígandi lukka sé best hafi sannað gildi sitt svo um munar. Mín lokaorð eru þau að framhald megi verða í þeim farvegi sem hefur verið markaður með samvinnu og sameiginlegu átaki stjórnvalda og samtökum launafólks og atvinnurekenda. Það hlýtur að vera íslensku þjóðfélagi fyrir bestu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta