Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

21. nóvember 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ráðstefna Ríkiskaupa um opinber innkaup

Setningarávarp fjármálaráðherra
á ráðstefnu Ríkiskaupa um opinber innkaup 2000
21. nóvember 2000.

(Hið talaða orð gildir)


Komin er hefð á að Ríkiskaup haldi ráðstefnu einu sinni á ári þar sem farið er yfir það helsta sem er á döfinni á sviði opinberra innkaupa. Mikill áhugi hefur verið á þessum ráðstefnum bæði af hálfu ríkisaðila og birgja eins og mætingin hér í dag ber glöggt vitni um.

Innkaupamál eru sífellt meira í sviðsljósinu og er það ánægjuefni. Ríkið er stór kaupandi á almennum markaði hvort sem um er að ræða vörur, þjónustu eða verkframkvæmdir. Innkaup eru stór hluti af útgjöldum ríkisins og miklir hagsmunir af hálfu ríkisins að ýtrustu hagkvæmni sé gætt. Talið er 12-14% af þjóðarframleiðslu falli undir opinber innkaup eða sem samsvarar 80-90 milljörðum króna og þar af séu innkaup ríkisins 55-65 milljarðar.

Hagsmunir bæði ríkisins og markaðarins eru því miklir þegar kemur að samskiptum í tengslum við innkaup. Það er því eitt af verkefnum okkar sem komum að stefnumótun í ríkisrekstri, og ekki síst okkar sem kjörnir erum af almenningi til þessara verka, að skipuleggja samskipti ríkis og einkaaðila með þeim hætti að full sátt ríki. Mikilvægi þessa hefur reyndar aukist heldur á síðari árum þar sem meiri áhersla hefur verið lögð á að færa verkefni yfir á hendi markaðarins.
Í samskiptum ríkis og einkaaðila við innkaup þarf í meginatriðum að huga að þremur atriðum: Lagalegt umhverfi þarf að vera einfalt, gegnsætt og traust. Stefna ríkisins í innkaupamálum þarf að vera skýr og meðvituð af öllum sem annast innkaup af hálfu ríkisins. Að lokum er nauðsynlegt að framkvæmd innkaupa sé byggð á sérhæfingu og þekkingu.

Lagalegt umhverfi hefur verið í stöðugri þróun á undanförnum árum. Tilskipanir EES samningsins frá árinu 1993 áttu mikinn þátt í að móta lagalegt umhverfi sem tryggir aðgengi að innkaupum hins opinbera, jafnræði við mat tilboða og gegnsæan útboðsferil. Nú er í undirbúningi innan fjármálaráðuneytisins frumvarp til laga um breytingar á lögum um opinber innkaup sem kynnt verður á næstu vikum og er ætlað að styrkja enn frekar lagalegt umhverfi í þessum málaflokki. Þá eru á vettvangi Evrópusambandsins í undirbúningi róttækar breytingar á tilskipunum EB um opinber innkaup sem gera má ráð fyrir að verði lögleiddar innan 3 – 4 ára. Við mótun lagalegs umhverfis hefur með skipulegum hætti verið haft samráð við helstu hagsmunasamtök birgja og stærstu einstöku kaupendur af hálfu ríkisins.

Útboð á verkefnum og þjónustu af hálfu hins opinbera hefur verið eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar og óhætt er að segja að árangur hafi náðst í þessum málum á undanförnum árum. Stefna ríkisins hvað varðar opinber innkaup er skýr. Í fyrsta lagi ber að tryggja hagkvæm innkaup með útboðum á sem flestum sviðum. Í öðru lagi að efla samkeppni milli ríkisins og einkaaðila með því að gefa einkaaðilum færi á því að takast á hendur verkefni sem áður voru eingöngu unnin af ríkisaðilum og í þriðja lagi að tryggja jafnan aðgang og meðhöndlun bjóðenda við innkaup ríkisins.

Síðast en ekki síst eru mikilvægir hagmunir tengdir sjálfri framkvæmd innkaupanna. Á næstu árum verður lögð sérstök áhersla á þennan þátt við innkaup ríkisins. Á ráðstefnunni hér í dag eru einmitt kynnt verkefni af hálfu ríkisins sem ætlað er að auka hagkvæmni við framkvæmd innkaupanna. Annars vegar er um að ræða verkefni um innkaupakort ríkisins sem er komið vel á veg, og hins vegar útboð á uppbyggingu á rafrænu innkaupakerfi fyrir ríkisstofnanir í tengslum við rammasamninga Ríkiskaupa. Með þessum tveimur verkefnum er mótuð stefna varðandi innkaup á rekstrarvörum til næstu ára. Í báðum tilfellum er farin sú leið að leita samstarf við einkafyrirtæki við þróun og innleiðingu á nýjum viðskiptaháttum sem skila sér í sparnaði og hagræði fyrir ríkisstofnanir. Ríkið er með þessu að veita einkaaðilum tækifæri til að spreyta sig á þróun nýrrar tækni að uppfylltum fyrirfram skilgreindum kröfum. Sú reynsla og sérhæfing sem skapast með þessu nýtist atvinnulífinu í heild og hvetur til frekari þróunar á þessum markaði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta