Ráðstefna um árangursstjórnun í ríkisrekstri
Setningarávarp fjármálaráðherra
Ráðstefna um árangursstjórnun í ríkisrekstri
(Hið talaða orð gildir)
Ágætu ráðstefnugestir
Ég vil bjóða ykkur velkomin á þessa ráðstefnu þar sem ætlunin er að meta reynslu af verkefni um árangursstjórnun á undanförum árum og leggja línurnar í framtíðarsýn ráðuneytanna um stefnumörkun, áætlanagerð og mat á árangri.
Á sínum tíma var meginmarkmið átaks um nýskipan í ríkisrekstri að skipulag og starfsemi ríkisins sé með þeim hætti að það geti sinnt skyldum sínum á eins hagkvæman, skjótvirkan og árangursríkan hátt og kostur er. Þetta markmið stendur fyrir sínu enn þann dag í dag og ráðstefna þessi er mikilvægur hlekkur í því að efla hugsun og umræður um árangur af starfi stofnana og ráðuneyta. Nauðsynlegt er að starfsfólk ráðuneytanna velti stöðugt fyrir sér spurningum eins og: Hverju við viljum breyta og hvað þarf helst að bæta í rekstri ríkisins. Árangursstjórnun er eitt af lykiltækjum Stjórnarráðsins til þess að ná enn betri árangri til þess að uppfylla markmið um skilvirkan rekstur ríkisins. Byggt er á ákveðinni heildarhugsun sem felst í því að stjórnendur hugi að samhengi og gæti samræmis, auk þess sem lögð er áhersla á fagleg vinnubrögð. Árangursstjórnun byggir á þremur þáttum. Í fyrsta lagi markmiðssetningu bæði til langs og skamms tíma; sem byggir á stefnumörkun um starfsemi stofnana og verkefna. Í öðru lagi eru kerfisbundnar mælingar sem ætlað er að veita yfirsýn yfir starfið þannig að unnt sé að sannreyna hverju það skilar. Loks þarf að tryggja eftirfylgni þannig að bæði stjórnendur og starfsmenn fái hvatningu, með því að fá upplýsingar um hvernig stofnunin og þeir sjálfir standa sig. Festa þarf góð vinnubrögð í sessi og bæta stöðugt vinnuaðferðir. Þetta eru jafnframt þeir þættir sem við ættum að bæta á næstu árum.
Vönduð stefnumótunarvinna snýr ekki aðeins að markmiðsetningu og áætlanagerð innan stofnunar, heldur ekki síður að verkaskiptingu milli stofnana og ráðuneyta, til að tryggja samræmi og forgang sameiginlegra markmiða.
Í fjármálaráðuneytinu verðum við glögglega vör við nauðsyn þess að tengja betur saman fjárhagsáætlanir og umfang verkefna. Brýnt er að áætlanagerð taki mið af þeim verkefnum sem eru í gangi svo og fjárhagsramma, þannig að forgangsröðun verði skýr og og heildarumfang verkefna verði innan ramma. Kjarni velheppnaðrar árangursstjórnunar er samþætting fjármálastjórnunar og fagstjórnunar. Góðir árangursmælikvarðar byggja á samspili faglegra og fjárhagslegra upplýsinga.
Tengsl árangursmælinga og umbunar til starfsmanna í formi launa er eitt vandmeðfarnasta mál sem tengja hvatningarkerfum starfsfólks. Nauðsynlegt er að bæði ráðuneytin og forstöðumenn hugi að þessum málum og dragi lærdóm af reynslu þeirra fyrirtækja sem hafa komið á árangurstengingu launa.
Á undanförnum árum hefur fjármálaráðuneytið haft forgöngu um valddreifingu frá ráðuneytum til forstöðumanna. Samhliða valddreifingunni er nauðsynlegt að ráðuneytin skýri betur árangurskröfur varðandi magn og gæði þjónustunnar. Óljósar kröfur um hvað stofnunum er ætlað að skila auka líkurnar á því að útgjöldin aukist fremur en að leitað sé raunhæfra leiða til að hagræða í starfseminni. Í þessu sambandi verða ráðuneytin oft að gegna hlutverki kaupanda gagnvart þjónustu sem keypt er af ríkis- og sjálfseignarstofnunum.
Í dag fáum við að heyra af mismunandi reynslu forstöðumanna tveggja stofnana, svo og viðhorfum starfsmanna ráðuneytanna til þess hvernig til hefur tekist að innleiða breytta og bætta stjórnunarhætti hjá ríkinu. Á undanförnum árum hafa ráðgjafafyrirtæki byggt upp mikilvæga þekkingu á árangursmati og höfum við boðið fulltrúum tveggja þeirra á okkar fund hér í dag og væntum þess að heyra þeirra sjónarhorn á árangursmati hjá ríkinu og hvort það sé mjög frábrugðið því sem gengur og gerist á almennum markaði. Þá vil ég bjóða Björn Bjarnason, menntamálaráðherra sérstaklega velkomin en eins og kunnugt er hefur hann verið mjög áhugasamur um gerð árangursstjórnunarsamninga milli ráðuneyta og stofnana, enda er menntamálaráðuneytið að mörgu leiti í fararbroddi í þessum málum.
Tilgangur ráðstefnunnar er að gefa ráðuneytunum hugmyndir og tæki í því skyni að bæta ríkisreksturinn á þessum sviðum. Auk þess ættu ráðuneytin að verða betur í stakk búin til þess að leiðbeina og svara forstöðumönnum vegna langtímaáætlana og ársskýrslna stofnana.
Að svo mæltu óska ég ykkur góðs gengis við þekkingaröflun hér í dag og vonast til þess að við sjáum öll varanlegan árangur af starfinu á næstu mánuðum og árum.