Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

24. mars 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Aðalfundur Bílgreinasambands Íslands 2001

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra


Ræða á aðalfundi Bílgreinasambands Íslands
24. mars 2001
(Talað orð gildir)


Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á því að óska félagsmönnum til hamingju með 30 ára afmæli Bílgreinasambandsins og ágætt starf þess á þessu tímabili. Ég vil einnig þakka Boga Pálssyni fráfarandi formanni sambandsins ágætt samstarf undanfarin ár. Um leið óska ég nýkjörnum formanni, Ernu Gísladóttur, til hamingju með kjörið og ykkur hinum til hamingju með hana.

Í gegnum árin hafa ætíð verið mikil samskipti á milli Bílgreinasambandsins og fjármálaráðuneytisins. Innan Bílgreinasambandsins eru fagmenn sem veita ráðuneytinu nauðsynlegar upplýsingar sem og ákveðið aðhald, sérstaklega varðandi málefni er lúta að skattlagningu á greinina. Mjög mikilvægt er að samskiptin séu góð og að það ríki samvinna aðila á milli, en auðvitað er ekki óeðlilegt að upp komi álitamál í þeim tilvikum þar sem hagsmunir ríkissjóðs og félagsmanna fara ekki saman.

Bílgreinin í heild er mjög mikilvægur tekjupóstur fyrir ríkið og á því er engin fyrirsjáanleg breyting. Hins vegar er í fjármálaráðuneytinu stöðugt verið að vinna að breytingum og endurbótum á lögum varðandi þessi málefni með það að markmiði að einfalda kerfið, draga úr álögum og minnka neyslustýringu. Mikið hefur áunnist á undanförnum árnum og mun ég hér á eftir rekja helstu breytingar sem gerðar hafa verið sl. þrjú ár.

Skattlagning á bifreiðar
Mikið hefur verið rætt um aukinn rekstrarkostnað bifreiða, ekki síst í ljósi tíðra hækkana á bensínverði. Þess ber þó að geta að aðeins lítill hluti þessa kostnaðarauka hefur skilað sér beint til ríkissjóðs. Álögur ríkissjóðs hafa ekki aukist umfram almenna verðlagsþróun undanfarin ár, þvert á móti hefur í mörgum tilvikum verið um verulega lækkun að ræða.

Skattlagning ríkisins á bifreiðar er í stórum dráttum fjórþætt, að undanskildum virðisaukaskatti og byggist hún á vörugjaldi af bifreiðum, vörugjaldi af bensíni, þungaskatti og bifreiðagjaldi. Ég ætla að fjalla stuttlega um hvernig skattlagning á þessum þáttum hefur þróast undanfarið.

Vörugjald af ökutækjum - lækkun og fækkun flokka
Þróunin í vörugjöldum af ökutækjum hefur undanfarin ár verið til lækkunar á gjöldunum, en einnig hefur gjaldflokkum verið fækkað. Fyrir um ári síðan voru samþykktar á Alþingi umtalsverðar breytingar á lögunum um vörugjald af ökutækjum. Meðal annars var flokkum vörugjalds fækkað úr þremur í tvo, en fyrir nokkrum árum voru gjaldflokkarnir sjö. Hæsti flokkur vörugjalds er nú 45% en var fyrir breytingarnar 65% og lækkaði því gjaldið verulega af þeim flokkum bifreiða sem báru hæsta gjaldið. Tilgangurinn með þessum breytingum var að stíga enn eitt skref í átt til minni neyslustýringar og að auðvelda fleirum að kaupa öruggari og betur búnar bifreiðar sem menga minna.

Vörugjald af ökutækjum til atvinnurekstrar
Einnig hafa verið stigin stór skref í því að lækka og/eða fella niður vörugjöld af ýmsum flokkum bifreiða sem notaðar eru í atvinnustarfsemi. Þannig eru t.d. ökutæki, sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir fimm tonn að heildarþyngd undanþegin vörugjaldi. Vörugjöld af hópferðabílum fyrir 10-17 manns sem eru í eigu hópferða- eða sérleyfishafa hafa lækkað úr 10% í 5%, en stærri hópferðabifreiðar eru alveg undanþegnar gjaldinu.

Vörugjald af leigubifreiðum og bílaleigubílum hefur jafnframt verið lækkað og er nú, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, 10 eða 13% eftir sprengirými aflvélar.

Einnig vil ég nefna að ég hef hug á því að leggja fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um vörugjald af ökutækjum þar sem vörugjald af bifreiðum til ökukennslu, hafi ökukennarar kennsluna að aðalatvinnu, verður fært til samræmis við það sem gildir um leigubifreiðir.

Á síðasta ári voru einnig gerðar verulegar breytingar á vörugjaldi af bifhjólum, snjósleðum og fjórhjólum. Fyrir þær breytingar voru vörugjöld af þessum tækjum 70%, en voru lækkuð í 30% sem þótti í betra samræmi við gjöld á öðrum farartækjum.

Almennt vörugjald af eldsneyti - föst krónutala í stað 97% vörugjalds
Heimsmarkaðsverðs af olíu hefur eins og öllum er kunnugt haft veruleg áhrif á bensínverð hér á landi. Miklar hækkanir byrjuðu að koma fram á fyrri hluta árs 1999.

Fram til 22. október 1999 var almennt vörugjald af eldsneyti 97% af tollverði, en í ljósi fyrrgreindra hækkana var ákveðið í ríkisstjórn og á Alþingi að breyta gjaldtökunni í fasta krónutölu, kr. 10,50 af hverjum lítra. Við það lækkaði vörugjald af bensíni úr u.þ.b. 13 kr. á lítra í 10,50 kr. á lítra. Þess má geta að ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða hefði vörugjald af bensíni í ágúst s.l. (þegar verðið náði hámarki) verið 21.50 kr. á lítra og bensínlítrinn þar með tæplega 14 kr. hærri en raun varð á. Miðað við meðaltal bensínverðs síðustu sex mánaða hefði vörugjaldið af sömu orsökum verið tæplega 19 kr. í stað 10.50 kr. og bensínlítrinn því um 11 kr. dýrari.

Auk almenns vörugjalds á eldsneyti er innheimt sérstakt bensíngjald sem rennur til vegagerðar. Gjaldið er föst krónutala, kr. 28,60 kr. á lítra, og hefur verið óbreytt frá 1. júní 1999. Sömu forsendur eru í fjárlögum þessa árs.

Þungaskattur
Á síðasta ári voru enn gerðar breytingar á þungaskattskerfinu, nú í kjölfar álits samkeppnisráðs. Fast 100 þúsund króna árgjald var fellt niður sem og afsláttur sá sem veittur var af akstri umfram 95 þúsund km. á ári. Samhliða þessu var kílómetragjaldið hækkað til þess að vega upp á móti tekjutapi ríkissjóðs við afnám 100 þúsund króna fastagjaldsins.

Nokkur gagnrýni kom fram á álagningu þungaskatts í kjölfarið og á áhrif þessara breytinga á mismunandi tegundir reksturs. Ástæða þess var að breytingarnar höfðu óhjákvæmilega í för með sér aukna gjaldbyrði mikið ekinna, þungra díselbifreiða, en á móti kom að gjaldbyrði bifreiða sem minna er ekið lækkaði samsvarandi. Síðar á árinu varð ljóst að tekjur ríkissjóðs af þungaskatti yrðu væntanlega hærri á árinu 2000 en áætlað hafði verið við breytingarnar. Ríkisstjórnin ákvað því að beita sér fyrir lækkun kílómetragjalds þungaskatts til að draga úr gjaldbyrði þeirra sem breytingin hafði mest áhrif á. Lækkaði kílómetragjald um 10% frá og með yfirstandandi álagningartímabili.

Úr þungaskatti í olíugjald?
Þrátt fyrir að skil þungaskatts hafi batnað verulega eftir að lög um fjáröflun til vegagerðar voru tekin til gagngerrar endurskoðunar árið 1996 hefur gagnrýnendum þungaskattskerfisins farið fjölgandi og sífellt fleiri hallast að upptöku olíugjalds til lausnar á þeim vanda. Í kjölfar álits samkeppnisstofnunar um að fast árgjald kr. 100.000 og fyrrnefndur 95 þúsund km afsláttur stæðust ekki samkeppnislög, kallaði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis eftir áliti samkeppnisstofnunar á því hvort fast árgjald af bifreiðum undir fjórum tonnum stæðist samkeppnislög. Samkeppnisráð taldi að fasta gjaldið gæti raskað samkeppnisstöðu þeirra sem aka bifreiðum undir fjórum tonnum og þeirra sem aka bifreiðum sem eru yfir fjögur tonn. Nefndin mæltist því til þess við fjármálaráðherra að hann léti fara fram heildarendurskoðun á lögum um fjáröflun til vegagerðar þar sem kannaðir yrðu að nýju kostir og gallar þess að taka upp olíugjald. Í kjölfarið var skipuð nefnd sem er nú að störfum og er henni ætlað að skila áfangaskýrslu í lok mánaðarins. Miðað er við að hún skili tillögum um mitt ár.

Bifreiðagjald
Fjórði megingjaldstofninn er eins og áður sagði bifreiðagjaldið, en það er fast gjald sem lagt er á tvisvar á ári og tekur mið af þyngd bifreiða. Gjaldið hefur ekki hækkað síðan 1. janúar 1999 og er hækkun ekki fyrirhuguð á þessu ári. Gjaldið hefur því lækkað að raungildi um liðlega 10% frá ársbyrjun 1999.

Virðisaukaskattur af hópferðabifreiðum
Að lokum vil ég fara örfáum orðum um fyrirhugaðar tímabundnar breytingar varðandi hópferðabíla. Eins og kunnugt er geta þeir sem nýta bifreiðar í virðisaukaskattsskyldri starfsemi nýtt virðisaukaskatt af rekstri og fjárfestingu sem innskatt. Hins vegar eru fólksflutningar ekki í virðisaukaskattskerfinu. Reglur um virðisaukaskatt aðila í flutningastarfsemi hafa ekki breyst undanfarin ár að öðru leyti en því að síðastliðið vor var lögfest heimild til að endurgreiða rekstraraðilum hópbifreiða, sem leyfi hafa samkvæmt lögum um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 19,68% af söluverði hópbifreiða sem þeir sannanlega selja úr landi. Heimildinni var ætlað að greiða fyrir sölu notaðra hópbifreiða úr landi og auðvelda með þeim hætti endurnýjun hópbifreiða.

Endurnýjun hópferðabifreiða hefur verið mjög lítil á undanförnum árum og hefur það staðið þessari grein ferðaþjónustunnar fyrir þrifum. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að beita sér fyrir breytingum á lögunum um virðisaukaskatt, þannig að tímabundið í u.þ.b. þrjú ár verði heimilt að endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er af kaupverði eða leiguverði hópferðabifreiða sem uppfylla ákveðin skilyrði. Þetta er eins og fyrr segir tímabundin aðgerð, byggð á öryggis- og umhverfissjónarmiðum, sem miðar að því að auðvelda rekstraraðilum hópferðabifreiða og sérleyfishöfum að endurnýja flota sinn og bæta þar með samkeppnisstöðu sína, m.a. gagnvart erlendum rekstraraðilum sem í auknum mæli eru að koma inn á íslenska markaðinn yfir sumarmánuðina.

Lokaorð
Eins og hér hefur komið fram hafa miklar breytingar orðið á gjaldtöku ríkissjóðs á bifreiðum og eldsneyti á síðustu árum, kerfið verið einfaldað og gjaldflokkum fækkað. Brugðist hefur verið við utanaðkomandi aðstæðum eftir mætti með því að lækka gjaldtöku ríkisins. Allt miðar þetta eins og áður segir að því að einfalda kerfið og skapa atvinnurekstrinum samkeppnisfært umhverfi. Því verki er að sjálfsögðu hvergi nærri lokið og vænti ég áframhaldandi farsæls samstarfs fjármálaráðuneytis og Bílgreinasambands-ins með þau markmið að leiðarljósi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta