Ræða fjármálaráðherra á haustráðstefnu Félags löggiltra endurskoðenda í Salnum í Kópavogi.
Fjármálaráðherra | 8. nóvember 2001 (Hið talaða orð gildir) |
Ræða á haustráðstefnu Félags löggiltra endurskoðenda
"Nýjar áherslur í skattamálum"
"Nýjar áherslur í skattamálum"
Góðir ráðstefnugestir,
Ég vil byrja á því að fagna þessu tækifæri til þess að ræða skattamálin í þennan hóp. Tímasetning þessarar ráðstefnu er mjög góð - nú eru ákveðin tímamót þar sem stutt er síðan ríkisstjórnin lagði fram tillögur sínar um róttækar umbætur í skattamálum sem vakið hafa mikla athygli, bæði innanlands og utan.
Ég hef verið beðinn um að tala um nýjar áherslur í skattamálum, en eins og oft vill verða er nauðsynlegt að líta yfir farinn veg þegar hugað er að framtíðinni. Ég vil því í upphafi fara yfir þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum árum á skattaumhverfinu hér á landi, síðan mun ég fjalla um þær breytingar sem nú standa fyrir dyrum í skattamálum og að því loknu mun ég horfa til þeirra verkefna sem ég tel brýnust á þessum vettvangi á næstu árum.
Skattþróun síðasta áratugar
Á síðasta áratug hafa orðið gífurlegar breytingar í skattamálum hér á landi og áherslurnar verið skýrar. Meginmarkmiðin hafa verið þau að treysta samkeppnisstöðu atvinnulífsins, stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og bæta lífskjör heimilanna í landinu. Að auki hefur markmiðið verið að nútímavæða íslenska skattkerfið og gera það að fullu samkeppnishæft við það sem annars staðar gerist.
Án þess að fara út í tæmandi upptalningu langar mig að fara yfir nokkur atriði í skattamálum sem komið hafa til framkvæmda á síðustu árum.
Atvinnulífið
Í upphafi tíunda áratugarins voru aðstæður erfiðar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Framan af áratugnum var því lögð áhersla á að styrkja stöðu atvinnulífsins til þess að vinna bug á því atvinnuleysi sem þá ríkti og fór vaxandi. Tekjuskattar fyrirtækja voru lækkaðir verulega, úr 50% í 30%, en um leið felldar niður margvíslegar undanþágur sem þá voru í gildi. Jafnframt var aðstöðugjaldið lagt niður, en sá skattur þótti sérstaklega ósanngjarn þar sem hann var lagður á veltu fyrirtækja án tillits til afkomu. Tryggingagjaldið var ennfremur samræmt eftir atvinnugreinum, en það var áður mishátt eftir greinum og lagðist þyngst á ýmis ný fyrirtæki t.d. í þekkingariðnaði. Samræmdur 10% fjármagnstekjuskattur var tekinn upp árið 1997 og með því að stilla skattprósentunni í hóf og hafa skattinn undanþágulausan hefur skapast góð sátt um þá skattlagningu.
Ennfremur hafa ýmsar sérstakar umbætur verið gerðar á skattumhverfinu til frekari hagsbóta og einföldunar fyrir atvinnulífið. Þar má nefna atriði eins og heimild til samsköttunar móður- og dótturfyrirtækja og setningu sérstakra skattalegra ákvæða um kauprétt starfsfólks á hlutabréfum samkvæmt kaupréttarákvæðum. Með þessum breytingum hafa rekstrarskilyrði fyrirtækja verið bætt með markvissum hætti, skattalöggjöf samræmd milli atvinnugreina og teknar upp ýmsar nýjungar að erlendri fyrirmynd.
Aðrar skattbreytingar
En það er af fleiru að taka. Á umræddu tímabili hafa einnig verið gerðar breytingar á öðrum sköttum en þeim er snúa beint að fyrirtækjunum í landinu. Þar má meðal annars nefna að tekjuskattur einstaklinga var lækkaður um 4 prósentustig og er hlutdeild ríkissjóðs í staðgreiðslunni orðin lægri nú en hún var þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988. Samkvæmt nýframlögðu frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem rætt verður hér á eftir, mun tekjuskattshlutfallið lækka enn frekar um næstu áramót, eða um 0,33%, og verður þá 25,75%.
Einnig hefur verið lögfest að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur á milli hjóna eða sambúðarfólks í stað 80% áður. Þetta gerist í áföngum og verður að fullu komið til framkvæmda árið 2003.
Lífeyrisiðgjöld launafólks voru gerð skattfrjáls á ný og kom sú breyting til framkvæmda á árunum 1995 og 1996. Jafngilti sú ákvörðun á þeim tíma 1,5-1,7 prósentustiga lækkun tekjuskatts. Einnig var árið 1999 heimilaður skattfrjáls viðbótarlífeyrissparnaður með mótframlagi frá ríkissjóði, og hefur heimildin nýverið verið aukin í 4% af heildarlaunum með 0,4% mótframlagi ríkisins. Markmiðið með þessum breytingum var m.a. að að auka hlutdeild almennings í þjóðhagslegan sparnaði. Einnig með það að leiðarljósi var skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa almennings framlengdur.
Virðisaukaskattur af matvælum var lækkaður árið 1994 um nær helming, úr 24,5% í 14%.
Þegar litið er til tolla og vörugjalda má sjá að einnig hefur verið tekið til hendinni þar, einkanlega að því er varðar aðföng í atvinnurekstri. Vörugjaldaflokkum á bifreiðum hefur einnig verið fækkað og þar með dregið úr neyslustýringu. Ennfremur hafa verið gerðar breytingar á vörugjaldi á öðrum ökutækjum. Árið 1999 var tekið upp fast gjald á hvern bensínlítra í stað verðtolls, m.a. til þess að draga úr verðsveiflum. FÍB heldur því fram að þessi aðgerð ein hafi sparað bíleigendum í kringum 4 milljarða króna.
Að lokum vil ég nefna að á undanförnum árum hefur mikilvægt starf verið unnið í skattkerfinu til að bæta það og einfalda. Þar vil ég sérstaklega nefna upptöku rafrænna skattskila hjá RSK sem yfir 130,000 framteljendur nýttu sér á síðasta ári. Það er stefna mín að skattyfirvöld haldi áfram að nýta sér nýjar leiðir til þess að auðvelda samskipti við einstaklinga og fyrirtæki í landinu.
Boðaðar skattbreytingar
En víkjum þá að þeim skattbreytingum sem nú eru á döfinni. Eins og kunnugt er lagði ríkisstjórnin fram í upphafi þings viðamikið skattafrumvarp - eitt það viðamesta um árabil. Í frumvarpinu er að finna tillögur um víðtækar umbætur í skattamálum sem endurspegla vel fyrrnefnda stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum þar sem höfuðáhersla er lögð á að búa íslensku atvinnulífi heilbrigt og samkeppnishæft starfsumhverfi og þegnum þessa lands góð lífskjör. Traust staða atvinnulífsins er grundvöllur öflugs velferðarkerfis og farsæls mannlífs.
Samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja
Sem fyrr segir varða tillögur frumvarpsins bæði skattlagningu einstaklinga og fyrirtækja, en ég mun hér leggja megináherslu á skattalegt umhverfi fyrirtækja út frá samkeppnissjónarmiðum. Í því samhengi er rétt að hafa í huga það sem áður kom fram, að nú er liðinn tæplega áratugur frá því að gripið var til umfangsmikilla skattalækkana á fyrirtæki til þess að treysta undirstöður íslensks atvinnulífs og koma efnahagslífinu upp úr þeirri lægð sem það var þá í. Með þeim aðgerðum varð skattalegt umhverfi fyrirtækja hér á landi með því besta sem þekktist í okkar helstu viðskiptalöndum.
Stórfelldar breytingar á alþjóðavettvangi hafa hins vegar að nýju breytt þessari mynd innlendu atvinnulífi í óhag, eins og ykkar hópur þekkir gjörla. Með auknu frelsi í alþjóðaviðskiptum hafa augu stjórnvalda í vaxandi mæli beinst að því að treysta samkeppnisstöðu fyrirtækja, meðal annars með lækkun fyrirtækjaskatta samhliða aukinni hagræðingu af hálfu fyrirtækjanna sjálfra. Þetta hefur reynst nauðsynlegt til þess að fyrirtæki geti mætt aukinni samkeppni erlendis frá, þar sem landamæri skipta sífellt minna máli og fjármagn og fyrirtæki leita einfaldlega til þeirra landa sem bjóða hagstæðustu aðstæðurnar.
Ekki verður framhjá því horft að íslenskt atvinnulíf býr að mörgu leyti við erfiðari aðstæður en erlend fyrirtæki, meðal annars vegna smæðar sinnar sem og fjarlægðar okkar frá erlendum mörkuðum. Þess vegna skiptir jafnvel enn meira máli hér á landi en annars staðar að skapa atvinnulífinu starfsskilyrði sem eru ekki aðeins sambærileg við önnur lönd heldur betri.
Breytingar í alþjóðaumhverfi kalla á viðbrögð
Ýmislegt bendir til þess að íslenskt atvinnulíf búi ekki lengur við það forskot sem hér ríkti í skattalegu tilliti á síðasta áratug. Þetta á bæði við um tekjuskattshlutfallið, sem í dag er rétt undir meðallagi OECD-ríkjanna, en var langt fyrir neðan það fyrir tæplega áratug. Einnig er rétt að hafa í huga að samhliða lækkun skatthlutfallsins hér á landi var skattstofninn breikkaður með afnámi ýmissa frádráttarheimilda og er skattstofninn því óvíða jafn breiður og hér. Eins má halda því fram að álagning eignarskatta á fyrirtæki líkt og hér er gert sé að verða einsdæmi meðal vestrænna ríkja, enda hafa flest ríki sem enn lögðu eignarskatta á fyrirtæki á upphafi síðasta áratugar fellt þá niður.
Helstu skattabreytingarnar
Þetta eru hin efnahagslegu rök sem liggja að baki þeim tillögum sem nú hafa verið lagðar fram um breytingar á skattlagningu fyrirtækja. Hér eru á ferðinni einhverjar umfangsmestu skattalækkanir sem gripið hefur verið til gagnvart íslensku atvinnulífi. Enginn vafi leikur á því að þær munu örva atvinnulífið og skapa forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu þess, bæði fyrir tilstilli innlendra og erlendra fyrirtækja, og þannig renna traustari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Þessa sjást þegar merki á verðbréfamarkaðinum.
Ég álít að ríkisstjórnin hafi í krafti aðhaldssamrar stefnu í ríkisfjármálum verið í kjöraðstöðu nú til þess að beita jákvæðum aðgerðum til þess að gefa athafnalífinu í landinu vítamínsprautu. Það gerum við best með almennum og uppbyggilegum aðgerðum í stað fálmkenndra handaflsaðgerða sem eitt sinn þóttu allra meina bót í íslenskri hagstjórn. Þeir tímar eru sem betur fer liðnir og ég efast um að nokkur hér inni sakni þeirra.
Lítum þá nánar á einstaka þætti þessara breytinga.
Fyrsta breytingin sem ég vil nefna, og sú veigamesta, er lækkun tekjuskatts hlutafélaga og annarra félaga með takmarkaða ábyrgð úr 30% í 18% á árinu 2002 sem kemur til framkvæmda við álagningu á árinu 2003. Á sama tíma lækkar tekjuskattur sameignarfélaga og samlagsfélaga úr 38% í 26%. Með þessari breytingu hefur Ísland tekið forystu meðal vestrænna ríkja, ásamt Írlandi, að því er viðkemur tekjuskattlagningu fyrirtækja.
Samhliða þessu verður styrkt sú skattframkvæmd að skattleggja vinnu manns í atvinnurekstri sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, með sambærilegum hætti og vinnu hans við sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila, með það að markmiði að koma í veg fyrir að hluthafar eða hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun undir því sem almennt getur talist eðlilegt endurgjald.
Í öðru lagi er lögð til helmingslækkun almenna eignarskattsins, þ.e. úr 1,2% í 0,6% í árslok 2002. Jafnframt verður sérstaki eignarskatturinn afnuminn frá sama tíma. Þessi áhrif munu koma fram við álagningu ársins 2003.
Í þriðja lagi er gerð tillaga um afnám verðbólguleiðréttinga í skattskilum og reikningsskilum frá 1. janúar 2002, sem er stórt skref í átt að aðlögun okkar skattkerfis að kerfum annarra ríkja. Alþjóðavæðing íslenskra fyrirtækja og allt starfsumhverfi þeirra kallar á þessa breytingu, þ.e. að reikningsskil þeirra verði samanburðarhæf við reikningsskil erlendra keppinauta, auk þess sem erlendir viðskiptaaðilar skilja almennt ekki afkomuhugtak íslenskra fyrirtækja.
Í fjórða lagi er áformað að fyrirtækjum verði heimilt að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt frá og með næstu áramótum og er frumvarp þess efnis í smíðum í fjármálaráðuneytinu.
Í fimmta lagi mun tillaga um lækkun stimpilgjalds frá 1. janúar 2003 líta dagsins ljós á næstunni. Óhætt er að fullyrða að gildandi lög um stimpilgjald hafa verið ýmsum þyrnir í augum, meðal annars fjármálastofnunum sem eru í harðri samkeppni við erlendar lánastofnanir. Þessi skattstofn er að ýmsu leyti úreltur.
Í sjötta lagi er lagt til að tryggingagjaldið hækki um 0,77% til að skapa betra svigrúm fyrir ríkissjóð í ljósi framangreindra breytinga. Hér er því valin sú leið að lækka skatta á fjármagn og hækka skatta á vinnuafl sem er rökrétt miðað við ríkjandi aðstæður og stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði. Einnig er rétt að hafa í huga að tryggingagjöld hér á landi eru lág miðað við það sem gengur og gerist í öðrum löndum jafnvel þótt tekið sé tillit til lífeyrisiðgjalda.
Að lokum vil ég nefna tvö efnisatriði sem einnig er að finna í skattatillögum ríkisstjórnarinnar og eru mikilvæg fyrir íslenskt atvinnulíf.
Þar ber fyrst að nefna breytingu á skattskyldu við yfirfærslu á einstaklingsrekstri yfir í einkahlutafélag í þá veru að yfirfærslan hafi ekki í för með sér skattskyldar tekjur fyrir eigandann eða félagið sjálft. Markmiðið með þessari breytingu er að gera einstaklingum í atvinnurekstri kleift að breyta um rekstrarform án þess að til skattlagningar söluhagnaðar komi í samræmi við þær reglur sem gilda um yfirfærslur milli annarra rekstrarforma.
Síðara atriðið er skattaleg meðferð samlagsfélaga, samlagshlutafélaga og eigenda þeirra, en í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt er ekki að finna ákvæði um þessi félagsform. Í eldri lögum er að finna ákvæði um skattlagningu samlagshlutafélaga með sambærilegum hætti og hlutafélaga, en með lögum nr. 30/1971 féll það ákvæði niður. Ástæða þess er talin sú að menn hafa á þeim tíma ekki talið félagsform þetta skipta miklu máli, þar sem það tíðkaðist lítt hér á landi. Hins vegar er í auknum mæli farið að bera á áhuga á þessu félagsformi, þótt engin slík félög hafi enn verið skráð. Í ljósi þeirrar þróunar er lagt til í framkomnu frumvarpi að kveðið verði með skýrum hætti á um skattalega meðferð samlagshlutafélaga og samlagsfélaga, þ.e. að um skattalega meðferð samlagshlutafélaga fari eins og um hlutafélög, þ.m.t. um skattalega meðferð arðs til eigenda, en samlagsfélaga eins og um sameignarfélög. Þetta er gert með það að leiðarljósi að hafa lögin skýr og taka af allan vafa um skattalega meðferð þessa félagaforms.
Til viðbótar við það sem hér hefur verið nefnt gerir ríkisstjórnin ýmsar tillögur er varða skattlagningu einstaklinga. Eignarskattar einstaklinga verða lækkaðir um helming og sérstaki eignarskatturinn afnuminn miðað við árslok 2002. Tekjuskattur einstaklinga lækkar eins og áður kom fram um 0,33% 1. janúar 2002 og frítekjumörk í hátekjuskatti hækka um 15% vegna tekna á árinu 2001. Skattlagning húsaleigubóta verður afnumin frá og með árinu 2002 og fríeignarmörk í eignarskatti og sérstökum eignarskatti einstaklinga hækka um 20% vegna eigna í árslok 2001 til þess að koma í veg fyrir að hækkun fasteignamats fyrr á árinu leiði til hækkunar eignarskatta á næsta ári.
Efnahagsleg áhrif
Eftir þessa upptalningu vaknar eflaust sú spurning hver verði efnahagsleg áhrif þessara tillagna. Þar ber kannski fyrst að nefna áhrifin á tekjur ríkissjóðs. Áætlað er að þessar breytingar geti lækkað tekjur ríkissjóðs fyrst í stað, þ.e. árið 2003, um 3,5 milljarða króna, eða sem nemur tæplega 0,5% af VLÞ, þegar tekið hefur verið tillit til veltuáhrifa og annarra þátta. Hér er hins vegar um varlega áætlun að ræða og líklegt að tekjulækkunin verði enn minni og snúist jafnvel í tekjuauka þegar fram í sækir.
Ég er þess fullviss að ríkissjóður muni standa vel af sér þessar breytingar. Við höfum á undanförnum árum með uppgreiðslu lána létt af honum vaxtabyrði sem varlega áætlað gæti numið í kringum 5 milljörðum króna árlega. Það má því segja að við séum búin að leggja til hliðar fyrir þessum breytingum og höfum skapað okkur svigrúm til þess að geta komið þessu í framkvæmd án þess að veikja stöðu ríkissjóðs að marki.
Hin efnahagslegu áhrif skattbreytingana munu á hinn bóginn birtast í auknum fjárfestingum, meiri atvinnu og tekjumyndun og almennt auknum umsvifum í þjóðarbúskapnum. Þetta nýja skattaumhverfi er líklegt til að leiða bæði til aukinna fjárfestinga erlendra aðila hér á landi og koma í veg fyrir að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína til útlanda. Dæmi eru þegar um að íslensk fyrirtæki hafi lýst slíku yfir. Jafnframt má ætla að lækkun eignarskatta skili sér að hluta í auknum þjóðhagslegum sparnaði og að hluta í aukinni veltu.
Í mínum huga er enginn vafi á að þessar breytingar munu verða lyftistöng fyrir íslenskt atvinnulíf, jafnt til sóknar innanlands sem utan. Samhliða þeim verður jafnframt lögð frekari áhersla á gerð tvísköttunarsamninga við önnur ríki, en með þeim kunna að skapast nýir markaðir fyrir íslensk fyrirtæki auk þess sem Ísland verður vænlegri fjárfestingarkostur fyrir erlenda aðila. Þannig verða forsendur skapaðar fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins, bæði fyrir tilstilli innlendra og erlendra fyrirtækja.
Næstu verkefni
Með þessum breytingum ljúkum við stórum áfanga í umbótum og nútímavæðingu íslensks skattkerfis. En við höfum að sjálfsögðu hvergi nærri lokið störfum. Það er enn langt í land að skattkerfi okkar sé að öllu leyti til fyrirmyndar þótt margt hafi áunnist. Skattamálin eru í eðli sínu síbreytileg og þurfa að vera til stöðugrar athugunar. Nú er hins vegar rétt að doka við um stundarsakir og láta áhrifin af þessum breytingum koma í ljós á meðan næstu skref eru undirbúin. Verkefnin eru næg og listinn langur.
Ég vil því ljúka máli mínu með því að fara nokkrum orðum um það sem ég tel mikilvægast og brýnast að ráðast í á næstu mánuðum og árum, eftir því sem fjárhagslegt svigrúm leyfir.
Það er grundvallaratriði að skattar séu bæði sanngjarnir og réttlátir. Sanngjarnir þannig að þeir séu ekki of háir og réttlátir þannig að þeir mismuni ekki fólki. Þannig virka þeir hvetjandi á einstaklinga og atvinnulíf, en draga ekki úr því þrótt. Slíkt skattkerfi mun að mínu viti stuðla að traustari undirstöðu undir velferðarmál og þá þjónustu sem ríkið tekur að sér að sinna. Einfalt, gegnsætt skattkerfi, án undanþága og sérstakra ívilnana er í mínum huga það sem stefna ber að.
En víkjum þá að einstökum skatttegundum. Ef við byrjum á tekjuskatti fyrirtækja tel ég að með þeim áfanga sem nú er framundan séum við ágætlega sett í bili. Sem lengri tíma markmið tel ég hins vegar að við eigum að stefna að því að lækka þennan skatt í 10%.
Tekjuskattur einstaklinga á að mínu mati líka að halda áfram að lækka á næstu árum, og það sem mikilvægara er, hann á að lækka án þess að útsvar sveitarfélaganna hækki á móti. Ekki er raunhæft að tímasetja slíkar lækkanir nú. En ávinningurinn af lækkun tekjuskatts fyrirtækja mun auðvelda lækkanir á þessu sviði. Sérstaka tekjuskattinn, eða svokallaðan hátekjuskatt, á að afnema við fyrsta tækifæri þar sem hann er vinnuletjandi og kemur sérstaklega illa við ungt, duglegt fólk sem leggur hart að sér t.d. við öflun eigin húsnæðis.
Eignarskattar einstaklinga og fyrirtækja eiga að mínu mati að hverfa á fáum árum.
Við þurfum að halda áfram að laga stimpilgjaldið. Sá gamli, danski skattur er að mörgu leyti úrelt form skattlagningar sem skerðir samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, einkum í ljósi aukins frjálsræðis á fjármagnsmörkuðum þar sem fé streymir nánast óhindrað milli landa. Ég tel því mikilvægt að þrengja gjaldstofninn verulega, afnema stimpilgjaldið þar sem það skaðar íslenskt atvinnulíf en samræma gjaldtökuna og lækka á öðrum flokkum stimpilskyldra skjala.
Fjármagnstekjuskatturinn tel ég að eigi að vera óbreyttur þar sem hann er lágur í alþjóðlegum samanburði og er ekki til trafala á markaði. Það gæti hins vegar haft mjög alvarlegar afleiðingar að hækka hann.
Halda þarf áfram með umbætur á vörugjöldum, fækka flokkum og koma í veg fyrir neyslustýringu. Einkum þarf að huga sérstaklega að vörugjöldum er varða atvinnureksturinn til þess að koma í veg fyrir að þau skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og atvinnugreina.
Virðisaukaskatturinn er mikilvægasti tekjustofn ríkissjóðs og að mörgu leyti sanngjarnasta skattformið því hann leggst á neysluna. Fyrir tveimur árum var gerð viðamikil úttekt á virðisaukaskattskerfinu á vegum fjármálaráðuneytisins og kom þar fram að í meginatriðum ríki almenn sátt um fyrirkomulag skattsins. Hins vegar má alltaf bæta um betur. Ég er þeirrar skoðunar að til lengri tíma skuli stefna að lækkun skatthlutfallsins og fækka undanþágum með það að markmiði að gera skattinn þannig að menn líti svo á að ekki sé fyrirhafnarinnar virði að skjóta honum undan.
___________________
Eins og á þessari upptalningu má sjá, sem er þó hvergi nærri tæmandi, eru verkefnin næg. Það er gott vegna þess að það sýnir að skattkerfið er lifandi kerfi sem tekur breytingum og aðlagar sig eftir aðstæðum hverju sinni. Meðal þess sem sérstaklega þarf að hyggja að er hvernig koma megi í veg fyrir að skattkerfið feli í sér óskynsamlega hvata sem brenglað geta ákvarðanatöku fólks. Meðal þess sem sérstaklega ber að athuga er vaxtabótakerfið sem hvetur til mikillar skuldsetningar í stað ráðdeildar og sparnaðar. Þetta þarf að taka til sérstakrar skoðunar í náinni framtíð.
Góðir fundarmenn.
Ég er mjög ánægður með þær breytingar á skattkerfinu sem vonandi verða að lögum fyrir jól og lít á þau viðfangsefni sem ég hef talið upp hér að framan sem ögrandi framhald sama máls. Ég trúi því að Ísland hafi alla möguleika á því að verða í fremstu röð í skattalegu tilliti. Og það sem meira er, ég tel að við verðum að vera það til þess að halda í okkar unga, vel menntaða fólk sem getur valið sér störf um allan heim ólíkt því sem áður tíðkaðist.
Ég vil að endingu þakka það góða samstarf sem ég hef átt við Félag löggiltra endurskoðenda hingað til og vænti góðs af því í framtíðinni. Ég óska ykkur velgengni á ráðstefnu ykkar hér í dag.