Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. nóvember 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Erindi fjármálaráðherra á hádegisfundi Rotaryklúbbsins Reykjavík - Austurbær

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

15. nóvember 2001
(Hið talaða orð gildir)

Erindi á hádegisfundi Rotaryklúbbsins Reykjavík - Austurbær
"Alþjóðaviðskipti á krossgötum"

Ágætu Rotary-félagar

Ég hef valið að tala hér um alþjóðaviðskipti, reyndar á almennum nótum. Þetta er ágætur tími til þess. Alheimsviðskiptastofnunin hefur nýlokið samningalotu í Qatar og almennt séð þá eru samskipti milli þjóða á viðkvæmu stigi vegna hefndarverkanna í Bandaríkjunum. Við þetta bætist að hagkerfi heimsins hafa siglt inn í lægð og enginn veit hversu lengi hún varir.

Það er því að mörgu að hyggja í heiminum og sá stöðugleiki og friður sem ríkt hafði í fimmtíu ár, a.m.k. á Vesturlöndum, virðist viðkvæmari nú en áður.

Ýmsir hafa orðið til þess að nefna að þeir tímar sem við upplifum nú gætu þróast á líkan hátt og um síðustu aldamót. Þá, eins og nú, hafði langvarandi friður í Evrópu hleypt af stað miklu hagvaxtarskeiði, og viðskiptafrelsi var reglan fremur en undantekningin. Fólk ferðaðist vegabréfalaust á milli landa og engan grunaði annað en að aukin tækifæri og velsæld biðu heimsins.

En eins og vitum þá varð þróunin önnur. Í stað friðsemdar og hagsældar þá voru það stríð og kreppa sem einkenndu fyrri hluta síðustu aldar. Allt hófst þetta með voðaverki í Sarajevó þann 28. júní 1914. Nú veltum við því fyrir okkur hvort voðaverkin í New York og Washington þann 11. september verði kveikjan að svipaðri atburðarás.

Ég er ekki að draga upp þessa samlíkingu á milli upphafs síðustu aldar og upphafs 21. aldarinnar til þess að gerast heimsendaspámaður. Síður en svo. Ég er sannfærður um að heimurinn muni á skömmum tíma jafna sig eftir þá erfiðleika sem nú steðja að.

Meðal þeirra ráða sem þjóðir heims gripu til við upphaf kreppunnar miklu var að auka verulega höft á milliríkjaviðskipti. Miklir tollar voru lagðir á vöruinnflutning til Bandaríkjanna og viðskipti milli landa minnkuðu. Þessar aðgerðir í kreppunni urðu ekki til þess að draga úr áhrifum hennar – heldur þvert á móti urðu þær til þess að grafa enn frekar undan möguleikum hagkerfisins til þess að leiðrétta sig.

Þessi þróun hélt lengi vel áfram og það var í raun ekki fyrr en nokkru eftir síðari heimsstyrjöld að verulega tók að rofa til í þessum efnum á ný.

Eftir að stofnað var til GATT sáttmálans árið 1948 hefur þróunin í heimsviðskiptum verið í þá átt að frjálsræði hefur aukist. Þetta hefur átt sér stað samfara því að tiltölulega friðvænlegt hefur verið víðast í heiminum. Ég segi tiltölulega friðvænlegt því þrátt fyrir allt hafa á annað hundrað staðbundnar styrjaldir verið háðar frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Tollar á vörur hafa lækkað verulega og viðskipti á milli ríkja hafa aukist. Umfang milliríkjaviðskipta fjórtánfaldaðist frá 1950 til 1997 og hefur aukist enn síðan.

Friðsældin hér á Vesturlöndum og aukin milliríkjaviðskipti eru ekki ótengd fyrirbæri. Það er nefnilega þannig með okkur mannfólkið - að okkur finnst óþægilegra að berjast við þá sem við þekkjum og treystum á heldur en bláókunnugt fólk. Því samofnari sem hagsmunir þjóða og einstaklinga eru – þeim mun erfiðara verður að æsa fólk upp til stríðsaðgerða – og því eru viðskiptin svo nauðsynleg til þess að stuðla að friði.

Það má því óhikað segja að hægt sé að færa þau rök fyrir frjálsum heimsviðskiptum að þau stuðli að friði.

Það er stundum sagt um hagfræðinga að þeir geti aldrei komist að niðurstöðu. Winston Churchill sagði t.d. eitt sinn: "Ef þú hittir fyrir tvo hagfræðinga geturðu verið viss um að fá tvær ólíkar skoðanir. Nema annar þeirra sé John Maynard Keynes. Þá færðu þrjár." Það er reyndar rétt að kennisetningar hagfræðinnar eru fæstar óumdeildar. En kenningin um gagnsemi frjálsrar verslunar er næstum því algjörlega óumdeild meðal hagfræðinga. Það er því skrýtið að einmitt sú kenning hafi ekki komist til framkvæmda með meira hraði en raun ber vitni.

Hin ofureinfalda hugsun um frjáls viðskipti byggist á því að tveir einstaklingar standi betur að vígi eftir að hafa átt viðskipti heldur en þeir gerðu fyrir – annars hefðu viðskiptin ekki átt sér stað.

Um þetta deila hagfræðingar ekki – og það eru ekki hagfræðingar sem ganga um og segja að viðskipti séu þess eðlis að annar græði og hinn tapi. Það gera nú til dags aðeins gamlir Marxistar og þeim fer sem kunnugt er óðum fækkandi.

En það er dálítið merkilegt að jafnvel einstaklingar sem gera sér fulla grein fyrir gagnsemi frjálsrar verslunar á milli einstaklinga og fyrirtækja innanlands skuli ekki yfirfæra slíkan hugsunarhátt á heiminn í heild.

Gott dæmi um þetta eru ýmsir íhaldsmenn í Bandaríkjunum sem berjast fyrir sem allra mestu frjálsræði á innlendum mörkuðum en halda sig við hálfgerða einangrunarstefnu hvað varðar viðskipti við umheiminn. Málflutningur þeirra byggist á einhverri lífseigustu bábiljunni um alþjóðaviðskipti. Sú bábilja hljómar einhvern veginn þannig: Þjóðin okkar er í samkeppni við aðrar þjóðir. Til þess að sigra í þeirri samkeppni þurfum við að tryggja að innlendur framleiðendur haldi velli.

Af hverju skyldi þetta nú vera? Af hverju erum við ekki komin lengra í átt til fríverslunar?

Væntanlega er ástæðan sú að þrátt fyrir að hagsmunir heildarinnar séu klárlega að verslun á milli landa sé sem frjálsust þá hefur fjöldinn allur af fólki mikla hagsmuni af því að viðhalda ákveðinni vernd yfir tilteknum iðngreinum. Það er því nokkuð til í því sem sagt er að takmarkið um algjört viðskiptafrelsi sé líkt takmarkinu um himnaríkisvist. Það vilja allir komast þangað – bara ekki alveg strax.

Önnur bábilja er varðandi áhrif alþjóðavæðingar á þriðjaheimslöndin. Á síðustu árum hefur orðið til hreyfing sem berst hatrammlega gegn fríverslun og alþjóðavæðingu. Þessi hreyfing hefur tekið á sig sífellt ofbeldisfyllri mynd en kjarninn í málflutningi hennar, ef nokkurn kjarna má greina, er að vestræn fyrirtæki misnoti sér eymd fólks í fátækum löndum til þess að framleiða vörur á ódýrari máta en þau gætu á heimamörkuðum.

Sá grunur læðist að manni að þeir, sem standi fyrir slíkum mótmælum, láti hafa sig að leiksoppi. Það er ljóst að leið fátækustu ríkja heims út úr örbigðinni er í gegnum viðskipti og þótt verkamenn í Asíu og S-Ameríku fái greidd hræðileg laun á vestrænan mælikvarða þá er öruggt starf með stöðugum tekjum mikið betri kostur en allt annað sem býðst fólkinu. Það eru hins vegar hagsmunir ákveðinna hópa í þróaðri ríkjunum að halda láglaunastörfunum innan landamæra sinna.

Samt er ekki líklegt að andstæðingar fríverslunar hafi á endanum erindi sem erfiði. Ein helsta ástæða þess er að almenningur áttar sig sífellt betur á kostum fríverslunar. Tækniframfarir síðustu ára hafa þar gegnt lykilhlutverki, enda hefur nú í fyrsta skiptið opnast fyrir þann möguleika að einstaklingar geti átt milliliðalaus viðskipti við erlenda birgja – s.s. eins og þeir gera þegar þeir panta sér bækur á Internetinu hjá Amazon. Þægindin og hagkvæmnin verða svo augljós þegar einstaklingar njóta þess beint og milliliðalaust.

Þegar einstaklingar upplifa slíkt þá verður sífellt erfiðara fyrir þá, sem mæla gegn viðskiptafrelsi, að hljóta hljómgrunn meðal almennings. Og það er lykilatriði. Vandinn við málflutning fríverslunarsinna hefur ætíð verið sá að þótt hagsbótin sem fylgir frelsinu sé yfirþyrmandi þá eru hagsmunir þeirra einstaklinga sem þrífast í skjóli haftanna hlutfallslega mun meiri og samþjappaðri. Þannig hafa hagsmunaaðilar getað varið miklu fé og miklum tíma í að færa rök fyrir tiltekinni vernd gegn samkeppni en einstaklingarnir sem skaðast af verndinni hafa ekki nægilega mikla hagsmuni hver um sig til þess að spyrna við fótum. Fámennir hagsmunahópar öðlast því veruleg pólitísk áhrif. Aukinn skilningur á kostum fríverslunar í heiminum mun því vonandi veita stjórnmálamönnum svigrúm til þess að taka ákvarðanir þótt þær stríði gegn vilja öflugra sérhagsmunahópa.

Alþjóðasamningar um fríverslun eru mjög mikilvægir að þessu tilliti. Þeir eiga að tryggja ákveðna sanngirni í alþjóðaviðskiptum og koma í veg fyrir mismunun. En alheimsviðskiptastofnunin gegnir einnig því hlutverki að aðstoða stjórnmálamenn til þess að koma fríverslun á í heimalöndum sínum. Á heimasíðu stofnunarinnar er það talið alþjóðasamstarfinu til tekna að það hlífi stjórnmálamönnum við því að þurfa að eiga í höggi við hagsmunahópa á heimavelli. Þar sem samningarnir á milli ríkja eru stórir þá mun hagsbótin sem þeim fylgir verða svo augljós að málflutningur verndarsinna er ólíklegri til þess að ná eyrum almennings.

Rökin fyrir fríverslun eru margþætt – og að mínu mati augljós. Fríverslun eykur tækifæri allra jarðarbúa til þess að lifa við sæmileg kjör. Fríverslun stuðlar að friði í heiminum. Og fríverslun stuðlar að aukinni samkeppni.

Þá má ekki gleyma hinni gríðarlegu verðmætasköpun sem á sér stað með fríverslun. Það hefur verið áætlað af Alþjóðabankanum (World Bank) að heildarframleiðsla í heiminum jykist um 2.800 milljarða Bandaríkjadala á ári ef allar viðskiptahindranir yrðu lagðar niður. Þetta er 280 þúsund milljarðar íslenskra króna – eða u.þ.b. 50 þús. krónur á hvern jarðarbúa á ári.
Það eru mikil verðmæti.

Hindranirnar sem standa í veginum eru nokkrar en þeim verður væntanlega rutt úr veginum á næstu áratugum. En eins og titill erindis míns segir þá eru alþjóðaviðskipti á krossgötum. Andúð á alþjóðavæðingunni hefur skotið rótum mjög víða, friðnum á Vesturlöndum hefur verið ógnað – og hugsanlega munu samningaumleitanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar stranda á deilum um niðurgreiðslu landbúnaðarvara. Ef allt fer á versta veg þá gæti heimurinn átt það á hættu að viðskiptastríð brjótist út og að raddir einangrunarsinna fái aukin hljómgrunn.

Allir ábyrgir menn vona að hlutirnir muni þróast á jákvæðari hátt. Og – eins og ég hef sagt – þá hef ég fulla trú á því.

Hér á Íslandi höfum við reynt að undirbúa hagkerfið og þjóðfélagið undir aukna alþjóðavæðingu. Nýlegar skattalækkunartillögur eru settar fram m.a. í því ljósi.

Við höfum verið þátttakendur í GATT samningnum og síðar Alþjóðaviðskiptastofnuninni frá því 1968 og það er mín trú að í gegnum slíka samninga – og öfluga tvíhliðasamninga við stór markaðssvæði – eins og EES – geti íslensk stjórnvöld skapað þjóðinni góð skilyrði til þess að taka þátt – og njóta góðs af – þróuninni í átt að síauknu frelsi í alþjóðaviðskiptum.

Góðir fundarmenn!

Eins og ég sagði fyrr þá er takmarkið um fríverslun í heiminum líkt takmarkinu um himnaríkisvist. Og það er ljóst að það þarf sterk pólitísk bein til þess að hrinda slíkum verkefnum í framkvæmd. Það er von mín að alþjóðasamfélagið noti ekki ófriðarástandið – eða efnahagslega niðursveiflu – sem átyllu til þess að snúa af þeirri braut að auka frelsi heimsbyggðarinnar til þess að versla óhindrað sín á milli.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta