Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

18. mars 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra við undirritun samnings um Rafrænt markaðstorg.

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

15. mars 2002
(Hið talaða orð gildir)


Ágætu gestir!

Það er mér mikil ánægja að undirrita þennan samning um rafrænt markaðstorg ríkisins hér í dag. Samningurinn rammar inn stefnu ráðuneytisins í þessum málaflokki og er endipunktur á umfangsmiklu útboðsferli. Hann markar jafnframt upphaf samstarfs ríkis og einkaaðila um þróun rafræns markaðstorgs til nota í vörukaupum og hugsanlegra annarra rafrænna viðskipta. Um er að ræða verkefni sem er nýjung hér á landi og er óhætt að segja að það hafi verið staðið að öllum undirbúningi með miklum sóma og rétt að þakka Ríkiskaupum sérstaklega í því sambandi.

Rafrænt markaðstorg markar innleiðingu rafrænna viðskipta í ríkisrekstrinum og er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að stuðla að hagnýtingu upplýsingatækninnar á sem flestum sviðum.

Upplýsingabyltingin er ef til vill núna fyrst að skila þeim árangri sem vonir stóðu til um. Nú fyrst er farið að bera á því að fólk og fyrirtæki séu almennt farin að nýta sér kosti internetsins – eða lýðnetsins eins og Morgunblaðið vildi kalla það – til raunverulegrar framleiðniaukningar. Upplýsingatækniiðnaðurinn hefur farið í gegnum tímabil skapandi eyðileggingar, eins og hagfræðingurinn Schumpeter kallaði það, og nú eru góðu hugmyndirnar farnar að vinsast frá hinum vondu. Það hefur alltaf legið fyrir að verslun á netinu yrði ein af þessum góðu hugmyndum og í tilfelli ríkisins, þar sem hægt er að gera stór innkaup sem nýtast mörgum smáum aðilum, er um að ræða möguleika sem felur í sér verulegan sparnað og hagræðingu.

Fyrir utan það að leggja áherslu á að markaðstorgið býður upp á að nýta rafræn viðskipti í innkaupum ríkisins með aukinni skilvirkni og hagræðingu, er tvennt sem ég vil sérstaklega nefna í tengslum við þennan samning.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að sem fjármálaráðherra hef ég skrifað undir fjölmarga samninga vegna ólíkra verkefna. Eitt eiga þeir þó sameiginlegt en það er að flestir hafa þeir í för með aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er þó ekki þar með sagt að þau verkefni séu hvorki arðsöm né góð enda er það nú einu sinni hlutverk fjármálaráðherra að gæta ráðdeildar í ríkisbúskapnum. Það er því sérstaklega ánægjulegt að samningurinn sem við undirritum í dag hefur ekki í för með sér umtalsverð bein útgjöld fyrir ríkissjóð heldur skapar hann vettvang fyrir notendur þjónustunnar sem greiða fyrir hana í samræmi við fjölda viðskipta sem fram fara í gegnum torgið. Þannig nýta allir aðilar eigin aðstöðu og þeir sem að verkefninu standa eru sannfærðir um að fyrirkomulag viðskipta með þessum hætti skili hagræði fyrir þá sem nýta sér þessa tækni. Í hverjum viðskiptum næst ákveðið hagræði og það á því ekki við í þessu verkefni eins og í svo mörgum góðum verkefnum að það verður að byrja á því að eyða áður en maður getur farið að spara.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna sérstaklega varðandi þennan samning er hugsunin á bak við samstarf við einkaaðila um þessa þjónustu. Við ákvörðun um ný verkefna hefur ríkið nokkra valmöguleika við úrlausn þeirra. Ein leiðin er auðvitað sú að vinna verkefnið upp á eigin spýtur og byggja upp þann búnað og þekkingu sem til þarf innan ríkisins. Þessi leið hefur í gegnum tíðina verið farin með misjöfnum árangri. Önnur leið sem farin hefur verið í vaxandi mæli, er sú að leita samstarfs við hinn almenna markað um úrlausn verkefnanna. Það er sú leið sem farin er með samningnum sem verið er að undirrita og bind ég vonir við að í honum kristallist sá ávinningur sem getur náðst með slíku samstarfi. Með verkefninu hefur verið mótuð sú stefna að vinna með einkaaðilum við uppbyggingu á torginu og fá fyrirtæki á almennum markaði til að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu og rekstur. Þannig getur ríkið í krafti magninnkaupa stuðlað að uppbyggingu rafrænna viðskipta á almennum markaði í stað þess að byggja upp sértæka þjónustu sem aðeins nýtist ríkisaðilum. Hagræðing sem hlýst af notkun rafrænna innkaupa með þessum hætti nýtist því bæði ríkinu og fyrirtækjum á almennum markaði.

Að lokum vil ég árétta að ég vonast til að eiga ánægjulegt samstarf um þróun verkefnisins öllum til hagsbóta, ríkisaðilum og fyrirtækjum á almennum markaði.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta