Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. september 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra á afmælisráðstefnu Nýherja hf. "Nýir straumar í upplýsingatækni í upphafi aldar"

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

13. september 2002
Ávarp á afmælisráðstefnu Nýherja hf.
"Nýir straumar í upplýsingatækni í upphafi aldar"


Ágætu ráðstefnugestir!

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta tækifæri til að ávarpa þennan góða hóp hér í dag og um leið óska ég Nýherja til hamingju með tíu ára afmælið.

Nýherji byggði í upphafi á öflugum grunni fyrirrennara sinna og hefur á tíu árum náð að skapa sér afar sterka stöðu á íslenskum upplýsingatæknimarkaði. Fyrirtækið hefur sýnt að það stendur traustum fótum á hinum ótrygga og óútreiknanlega upplýsingatæknimarkaði.

Yfirskrift þessarar afmælisráðstefnu er nýir straumar í upplýsingatækni. Núorðið er varla til sá maður sem ekki kann að nota tölvur í einhverjum tilgangi – og framfarirnar eru slíkar að jafnvel mestu skussar geta hagnýtt sér tæknina með meiri árangri en helstu sérfræðingar gerðu fyrir um það bil fimmtán árum. Það skal játað að það vantar nokkuð upp á að ég geti kallast sérfræðingur í upplýsingatækniiðnaði, frekar skussi, og reynsla mín einskoraðast við notendahliðina, eins og sagt er.

Mín aðkoma að upplýsingatækniiðnaðinum er tvíþætt. Annars vegar sem almennur notandi og hins vegar sem stjórnmálamaður og ráðherra í ríkisstjórn.

Sem notandi vil ég bara að tölvan virki og geri nokkurn veginn það sem hún á að gera – því eins og allir hér vita mætavel þá er fátt jafnóþolandi og tölva sem gerir ekki það sem henni er sagt.

Sem stjórnmálamaður og ráðherra hef ég áhuga á hátækniiðnaðinum sem slíkum og ekki síst því hvernig hátæknivæðing atvinnuveganna gerir okkur kleift að framleiða sífellt verðmætari vörur á skemmri tíma og með minni tilkostnaði. Það er að segja hvernig tæknin eykur framleiðnina í hagkerfinu.

Sem stjórnmálamaður hef ég vitaskuld einnig áhuga á áhrifum upplýsingatækninnar á þróun samfélagsins í heild. Þessi áhrif eru ekki síður merkileg heldur en þau sem snúa að hagkvæmni í fyrirtækjarekstri og slíku – því upplýsingatæknin er tæki sem getur stuðlað að miklum samfélagslegum breytingum.

Þegar litið er til baka til upplýsingabyltingarinnar á miðöldum sést hversu miklar breytingar urðu á samfélaginu við það eitt að miðlun upplýsinga – með tilkomu prenttækninnar – varð skyndilega miklum mun auðveldari. Prentlistin gerði t.d. almenna menntun mögulega og var því undirstaða þeirra miklu framfara sem síðar urðu í heiminum.

Upplýsingatæknin og kannski sérstaklega internetið er nýr kafli í þessari miklu umbyltingu. Sá sem hefur aðgang að nettengdri tölvu hefur sennilega aðgang að meira upplýsingamagni en nokkur maður hafði fyrir árið 1990. Og það sem meira er – það er hægt að nálgast þær án þess að þurfa svo mikið sem snúa sér í stólnum.

Áhrifin eru hverjum manni augljós. Fréttir berast á ljóshraða um allan heim og það sem ef til vill skilur þessa byltingu frá prentbyltingunni – er að nokkurn veginn hver sem er getur komið skoðunum sínum á framfæri án tilkostnaðar, án fyrirvara og án ritskoðunar.

Og rétt eins og fyrri upplýsingabyltingin gerði einræðisherrum í Evrópu lífið leitt á þeim tíma þá óttast einræðisstjórnir heimsins í dag fátt meira en hið frjálsa flæði upplýsinga sem streymir um allan heim í gegnum netið. Sums staðar hafa verið gerðar umfangsmiklar og kostnaðarsamar tilraunir til þess að hefta þann aðgang fólks að netinu. Slíkur er óttinn við þessa nýju tækni.

Slíkar tilraunir munu vafalaust gera almenningi í einræðisríkjum erfiðara um vik með að nálgast efni sem ekki er þarlendum stjórnvöldum þóknanlegt – en á endanum mun það verkefni vafalaust reynast þeim ofviða. Því það er a.m.k. eitt sem við höfum lært hingað til varðandi internetið – að það er enginn hægðarleikur að koma í veg fyrir að menn komist yfir þær upplýsingar sem þeir sækjast eftir.

Það er því ljóst að fátt hefur aukið frelsi einstaklinganna meira og opnað samfélögin meira en upplýsingabyltingin.

Því hljóta allir frjálshuga menn að fagna.

En hvaða skilning sem menn kunna að leggja í upplýsingatæknibyltinguna og áhrif hennar þá er ljóst að ekki verður aftur snúið.

Gagnaflutningar eru orðnir ein af mikilvægustu lífæðum íslensks atvinnulífs og það er án vafa eitt mikilvægasta verkefni næstu ára að sjá til þess að þau samskipti séu bæði trygg og greið.

Og upplýsingatæknin hefur að líkindum haft meiri áhrif á daglegt líf fólks á Vesturlöndum á skemmri tíma en nokkur önnur samfélagsbreyting. Tíminn sem leið frá því að fólk heyrði fyrst orðið "internet" og þar til það var farið að notfæra sér það við störf og leik er margfalt styttri en t.d. tíminn sem leið frá því fólk heyrði fyrst af rafmagni og tók að notfæra sér það.

Þessar breytingar eru vitaskuld mest áberandi í starfi fólks og breytingar á starfsferlum, skipulagi og samskiptum vegna viðskipta, þjónustu og framleiðslu eru gríðarlegar. Hlutum sem áður tók marga daga að koma í kring er nú hægt að ganga frá á nokkrum mínútum og höndunum sem þarf til þess að vinna mörg verk hefur fækkað mjög.

Þrátt fyrir þetta sýndu rannsóknir lengi vel ekki fram á að upplýsingatækninni hefði fylgt framleiðniaukning.

Það var ekki fyrr en undir lok síðustu aldar sem hagfræðingar töldu sig geta markað að framleiðniaukning hefði átt sér stað fyrir tilstuðlan upplýsingatækninnar og komust hagfræðingar hjá Bandaríska seðlabankanum að því að rekja mætti um tvo þriðju hluta framleiðniaukingarinnar til upplýsingatækninnar.

En það er í rauninni ekki upplýsingatæknin sjálf sem veldur framleiðniaukningu heldur þær aðferðir sem við finnum til þess að nýta hana. Að sama skapi skilaði rafmagnsvæðingin engu til fyrirtækja fyrr en menn fóru að haga verklagi sínu og framleiðsluaðferðum þannig að rafmagnstæknin gæti nýst því það er ekki rafmagnstengið sjálft sem skiptir máli heldur tækin sem sett eru í samband við það.


Ágætu ráðstefnugestir!

Það er óvænt ánægja þegar fyrirtæki í upplýsingatækniiðnaðinum bjóða stjórnmálamanni að taka þátt í ráðstefnum af þessu tagi. Eitt af einkennum iðnaðarins er nefnilega mikið sjálfstæði gagnvart opinberum aðilum og í raun má segja að viðkvæðið hjá þessari grein gagnvart ríkisvaldinu sé – "látið okkur bara í friði og þá spjörum við okkur".

Samkeppnin á þessum markaði getur aldrei takmarkast við landamæri og þar gera menn sér grein fyrir því að í slíkri samkeppni dugir ekki að halla sér að neinu öðru en eigin hyggjuviti og hæfileikum.

Hins vegar er það mikilvægt að stjórnvöld átti sig á því að með ýmsum aðgerðum er hægt að bæta starfsskilyrði hátæknifyrirtækja jafnt sem annars atvinnureksturs t.d. á sviði skattamála. Fyrir ári var tekin ákvörðun um verulega lækkun á tekjuskatti fyrirtækja sem mun skipta miklu máli fyrir rekstur fyrirtækja í ykkar starfsgrein, ekki síst þeirra sem starfa á alþjóðamarkaði.

Annað verkefni er menntun þjóðarinnar. Þar ber ríkisvaldið mikla ábyrgð og tryggja þarf að ungt fólk hér á Íslandi hafi aðgang að góðri menntun sem veitir trausta undirstöðu undir þátttöku í atvinnulífi framtíðarinnar.

Að öðru leyti tel ég að verkefni ríkisins varðandi upplýsingatækni sé fyrst og fremst að nýta sér hana eins og aðrir og reyna eftir fremsta megni að bæta nýtingu skattfjárins með því að hagræða og gera einstaklingum auðveldara að eiga samskipti við ríkið. Að þessu hefur markvisst verið unnið undanfarin ár í fjármálaráðuneytinu og hafa rafrænar lausnir á vegum stofnanna þess hlotið ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar. Meðal verkefnanna má nefna innleiðingu á nýjum fjárhags- og mannauðskerfum þar sem mörkuð er sameiginleg stefna ríkisins varðandi framsetningu fjárhagsupplýsinga, uppgjör og upplýsingagjöf.

Í innkaupamálum og meðferð reikninga hefur frumkvæði ráðuneytisins í verkefnum um rafrænt markaðstorg og innkaupakort nýst jafnt í ríkisrekstrinum sem á hinum almenna markaði. Rafræn stjórnsýsla hefur skilað mikilli hagræðingu með einfaldari vinnuferlum og bættri upplýsingagjöf nægir þar að nefna tolla- og skattamál - en tæplega 75% einstaklingsframtaka bárust á rafrænu formi í ár og allur þorri fyrirtækjaframtala. Ríkið hefur að auki nýtt sér upplýsingatæknina í innkaupum, starfsauglýsingum og auðvitað varðandi alla innri vinnslu og gagnageymslu.

Ég vil að endingu ítreka hamingjuóskir mínar til Nýherja í tilefni afmælisins. Ég vona að fyrirlestrar dagsins verði upplífgandi og uppljómandi fyrir gestina.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta