Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

19. mars 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp Geirs H. Haarde á ráðstefnu fjármálaráðuneytisins um rekstur og stjórnun ríkisstofnana

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

Hið talaða orð gildir

Ágætu ráðstefnugestir!

Ég vil bjóða ykkur velkomin á þessa ráðstefnu um rekstur og stjórnun ríkisstofnana sem ber yfirskriftina – LÆRUM HVERT AF ÖÐRU. Á ráðstefnunni verður gerð grein fyrir nokkrum þeim verkefnum og áherslum sem ríkisstofnanir hafa verið að vinna að undanfarna mánuði og ár.

Ríkisstjórnin hefur síðastliðin 10 ár eða svo lagt ríka áherslu á að nútímavæða ríkisreksturinn. Umfangsmiklar breytingar hafa verið gerðar þar sem víðtækar stjórnunarheimildir hafa verið færðar til stofnana og svigrúm þeirra og sjálfstæði aukist. Samfara aukinni valddreifingu hefur verið leitast við að skýra valdsvið og ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana. Með breytingum á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, lögum um fjárreiður ríkisins, lögum um opinber innkaup og opinberar framkvæmdir og reglugerðum tengdum þessum lögum, ásamt breytingum á fjárlagagerð og kjarasamningum ríkisstarfsmanna, hefur ábyrgð og valdsvið forstöðumanna aukist. Þessi þróun hefur einnig leitt til þess að frelsi til athafna og forgangsröðunar verkefna hjá stofnunum er nú mun meira en áður hefur tíðkast. Heimildir forstöðumanna til breytinga, hagræðingar, launahækkana, bætts starfsumhverfis o.s.frv. hafa verið skýrðar til muna. Jafnframt hafa samfara þessum breytingum verið innleiddar nýjar stjórnunaraðferðir og kenningar eins og árangursstjórnun, mannauðsstjórnun, þekkingarstjórnun og samhæft árangursmat svo dæmi séu tekin. Aukin áhersla hefur verið lögð á markmiðssetningu og mælanlegan árangur. Tilgangurinn er að skilgreina betur hlutverk ríkisins, afmarka betur opinbera þjónustu, leita hagkvæmustu leiða til að veita þjónustu sem kostuð er af opinberu fé og auka sveigjanleika stofnana í rekstri. Í upplýsingamálum hefur verið mótuð metnaðarfull stefna sem miðar að því að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims í nýtingu upplýsingatækninnar í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar. Mótaðar hafa verið reglur um framkvæmd fjárlaga þar sem leitast er við að gefa skýringar og leiðbeiningar um þau meginsjónarmið sem varða framkvæmd fjárlaga og eftirlit með þeim. Innkaupastefna hefur verið mótuð sem myndar ramma um áherslur í innkaupum ríkisins og er ætlað að skapa aðhald markaðarins gagnvart ríkisstofnunum og svo mætti lengi telja.

Fjármálaráðuneytið hefur áður staðið fyrir ráðstefnum og fundum þar sem ríkisstofnunum gefst kostur á að kynna þau verkefni í anda nútímavæðingar sem verið er að vinna að. Vonandi getur sú umgjörð, sem ég gat um fyrr í máli mínu, skapað grundvöll fyrir stofnanir ríkisins til að vinna að þessum málum með frjóum hætti. Ég er viss um að hér í dag verða mörg merkileg og áhugaverð verkefni kynnt sem gagnast munu í rekstri ríkisins í náinni framtíð

Ég segi þessa ráðstefnu um rekstur og stjórnun ríkisstofnana setta.


Dagskrá ráðstefnunnar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta