Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

23. apríl 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ræða fjármálaráðherra á morgunverðarfundi um ársreikninga á vegum Lánstrausts hf. 23. apríl 2003.

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

Hið talaða orð gildir

Morgunverðarfundur um ársreikninga
á vegum Lánstrausts hf.
23. apríl 2003

Góðir fundarmenn,

Mér er ánægja að því að setja þennan fund um ársreikninga. Yfirskrift fundarins er áhugaverð þar sem varpað er upp þeirri spurningu hvort birting og uppgjörsaðferðir leiði til gagnsæis í viðskiptum eða feluleiks?

Það er sjálfsagt eins og að messa yfir sanntrúuðum að lýsa mikilvægi ársreikninga fyrir ykkur hér. Nauðsynlegt er að vel sé staðið að gerð ársreikninga og þeir séu opinberlega aðgengilegir. Tilgangur birtingar ársreikninga er að notendur reikningsskila jafnt fjárfestar, hluthafar, lánadrottnar og aðrir hafi greiðan aðgang að þeim og geti lagt sjálfstætt mat á afkomu fyrirtækja. Ársreikningar fyrirtækja eru því nú á tímum ekki einkamál þeirra.

Á síðustu vikum hefur komið fram nokkur gagnrýni á íslensku ársreikningalögin, þar sem meðal annars hefur verið gagnrýnt að lögin séu ekki í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IAS) og að íslensku lögin haldi ekki í við þá þróun sem eigi sér stað erlendis. Ég fagna þessari umræðu þar sem þessi mál eru og hafa verið í mikilli þróun um nokkurt skeið.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld skapi traust umhverfi fyrir fyrirtæki til að starfa í. Hluti af því er að til séu skýrar og sanngjarnar reglur um reikningsskil fyrirtækja. Vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur erlendis er aukin krafa gerð til gegnsæis og samanburðarhæfni ársreikninga fyrirtækja. Notendur reikningsskila, til að mynda fjárfestar, verða að geta metið það sjálfstætt hvort viðkomandi fjárfesting sé vænleg og það gera þeir m.a. með því að skoða ársreikning fyrirtækis og bera saman við önnur sambærileg fyrirtæki.

ESB hefur nú ákveðið að innleiða alþjóðlegu reikningsskilastaðlana frá og með árinu 2005, og þarf Ísland væntanlega jafnframt að innleiða þá frá sama tíma vegna skuldbindinga samkvæmt EES-samningnum. Þessar samræmdar reglur munu hafa mikil áhrif hér á landi og sérstaklega fyrir skráð félög í Kauphöll Íslands.

Lögin um ársreikninga voru sett í árslok 1994 á grundvelli tveggja félagatilskipana ESB, nr. 4 um ársreikninga tiltekinna félaga og nr. 7 um samstæðureikningsskil. Sem aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið bar Íslandi að samræma löggjöf sína á þessu sviði ákvæðum tilskipana ESB.

Með skipun nefndar árið 2000 beitti ég mér fyrir því að lögin um ársreikninga yrðu endurskoðuð með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur hér á landi og annarsstaðar, meðal annars á vettvangi ESB. Enn fremur var nefndinni falið að kanna möguleika fyrirtækja á að færa bókhald sitt og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli.

Vegna vinnu nefndarinnar hefur lögum um ársreikninga verið breytt tvívegis. Í fyrsta lagi hefur fyrirtækjum, með lögum frá árinu 2002, verið heimilað að færa bókhaldsbækur sínar í erlendum gjaldmiðli og semja og birta ársreikning í þeim gjaldmiðli, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í öðru lagi voru gerðar breytingar, nú á nýloknu þingi, sem að meginefni komu til vegna athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og snerust um samstæðureikningsskil félaga auk annarra breytinga.

Næst á dagskrá hjá ráðuneytinu er að endurskoða ákvæði ársreikningalaga um matsreglur fjármálaskjala í reikningsskilum í samræmi við breytingar á vettvangi ESB á 4. og 7. félagatilskipun, sem lög um ársreikninga byggjast á. Jafnframt er verið að undirbúa innleiðingu á reglugerð ESB um innleiðingu reikningsskilastaðla Alþjóðlega reikningsskilaráðsins. Samkvæmt reglugerðinni er öllum félögum sem skráð eru á verðbréfamarkaði á EES/ESB svæðinu gert skylt að semja samstæðureikningsskil sín skv. alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Heimild er í reglugerðinni fyrir aðildarríkin að láta þessa skyldu ná til reikningsskila fleiri félaga.

Einnig hafa á vettvangi ESB verið samþykktar breytingar á 4. og 7. félagatilskipun, sem lúta að því að ryðja úr vegi hömlum sem kunna vera í tilskipunum, svo önnur félög en þau sem skyldan nær til, geti notað reglur Alþjóðlega reikningsskilaráðsins eftir eigin þörfum.

Hafa ber í huga að 4. og 7. félagatilskipun, þannig breyttar, verða áfram sá grunnur sem ársreikningalög aðildarríkja ESB og EES verða að byggjast á, að frátöldum samstæðureikningsskilum fyrrnefndra samstæðna sem eru skráð á opinberum markaði.

Aðildarríki Evrópusambandsins eru nú hvert fyrir sig að vinna að breytingum á löggjöf sinni um reikningsskil félaga í þessa veru og erum við Íslendingar í samfloti með þeim. En hafa ber í huga að um er að ræða snúið mál og vanda þarf vel til verks.

Varðandi birtingu ársreikninga má að lokum minnast á nýgerða breytingu á 69. gr. ársreikningslaga, sem gerir það að ótvíræðri skyldu allra félaga í félagasamstæðum að leggja einnig fram ársreikning dótturfélaga, ásamt samstæðureikningi félagasamstæðunnar.

Góðir fundarmenn,

Ég vænti þess að þið verðið margs vísari eftir þau áhugaverðu ávörp sem hér á eftir fara og segi þennan morgunverðarfund settan.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta