Arðsemi opinberrar stjórnsýslu - ávarp fjármálaráðherra
FJÁRMÁLARÁÐHERRA
GEIR H. HAARDE
- Hið talaða orð gildir -
Setningarávarp á ráðstefnu
fjármálaráðuneytis, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands um arðsemi opinberrar stjórnsýslu
Grand Hótel Reykjavík, 9. mars 2005
Fundarstjóri, góðir ráðstefnugestir.
Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur á þessari ráðstefnu sem haldin er í samvinnu fjármálaráðuneytisins, Félags forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands undir yfirskriftinni "Arðsemi opinberrar stjórnsýslu". Vil ég færa aðstandendum ráðstefnunnar þakkir fyrir að efna til hennar, enda tel ég afar mikilvægt að gæði og skilvirkni opinberrar stjórnsýslu sé stöðugt til umfjöllunar og endurmats.
Vel rekin fyrirtæki á einkamarkaði meta með reglubundnum hætti tilgang sinn, hlutverk og markmið og mæla gæði þjónustu sinnar og starfsemi. Tilgangurinn er jafnan sá að halda viðskiptavinum sínum, fjölga þeim eftir megni og jafnframt að auka tekjur sínar og beina arðsemi. Fyrirtæki beita í þessu skyni ýmsum úrræðum, eitt af þeim er aðferðafræði árangursstjórnunar og mörg hver ákveða að einbeita sér að þeirri starfsemi sem þau eru best fær um að sinna í stað þess að dreifa kröftunum.
Fyrir meira en áratug fór að bera á auknum kröfum um að stjórnsýslan setti sér skýr markmið líkt og í einkarekstri, endurmæti tilgang sinn og þjónustu gagnvart almenningi og atvinnulífi og mæti með reglubundnum hætti árangur og afrakstur. Það sjónarmið náði fótfestu að beitt skyldi sambærilegu rekstrarfyrirkomulagi og stjórnháttum og tíðkuðust í fyrirtækjum, þar sem viðbragðsflýtir, sveigjanleiki og þjónustulund væru í hávegum höfð. Ólíkt fyrirtækjum á samkeppnismarkaði skyldi það ekki vera keppikefli hins opinbera að vaxa, auka tekjur eða ná fram beinum arði. Tilgangurinn væri miklu fremur sá að bæta þjónustuna með minni tilkostnaði, að ná fram aukinni skilvirkni og þar með bæta nýtingu skattfjár. Þetta þýddi einnig hugarfarsbreytingu í þá veru að stjórnsýslan væri fyrir almenning, en ekki öfugt.
Í höfuðdráttum hefur þróun ríkisrekstursins síðasta áratuginn verið einmitt þessi. Krafan um stöðugar endurbætur í þessa veru er þó enn til staðar og á að sjálfsögðu að vera viðvarandi. Krafan um skilvirkari stjórnsýslu er jafnframt krafa um aukna arðsemi fyrir þjóðfélagið í heild.
En þrátt fyrir miklar breytingar á umhverfi stjórnsýslunnar undanfarin ár hefur skort á ákveðna heildarsýn varðandi umbætur í íslenskri stjórnsýslu. Tími er kominn til þess að endurskoða og einfalda stjórnsýsluna og tryggja þannig áframhaldandi gæði hennar.
Í dag einkennist stofnanakerfið af mörgum og fámennum stofnunum. Vegna þessa er hlutfallslegur kostnaður þeirra við yfirstjórn hár, en það hefur jafnframt í för með sér að færri starfsmenn ná að sinna kjarnaverkefnum, almennri stjórnsýslu og þjónustu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þjónustu stjórnsýslunnar í dag. Litlar stjórnunareiningar eiga að sama skapi erfiðara með að sinna fjármálastjórn og starfsmannamálum. Þá getur hinn mikli fjöldi stofnana hamlað því að góð og skilvirk lausn fáist á einstökum málum og leitt til tvíverknaðar varðandi þætti eins og söfnun upplýsinga. Ríkið sinnir einnig í dag fjölmörgum verkefnum sem aðrir aðilar væru færir um að sinna jafnvel eða betur, þó svo ríkið greiddi eftir sem áður fyrir verkefnin.
Því er tímabært að endurskoða stofnanakerfið og rekstur verkefna ríkisins m.a. með það að markmiði að flytja verkefni til einkaaðila, t.d. með þjónustusamningum og útboðum, þar sem það er talið henta ásamt því að stækka stofnanir og auka samstarf þeirra í milli varðandi ýmsa þætti sem í dag er sinnt í mörgum smáum einingum. Breytingar sem þessar þurfa að taka tillit til fjölmargra sjónarmiða s.s. byggðasjónarmiða og mega ekki rýra gæði íslenskrar stjórnsýslu. Markmiðið með þeim er ekki að gera breytingar breytinganna vegna. Markmiðin þurfa að vera einfaldari og skilvirkari stjórnsýsla sem byggir á hagkvæmum lausnum, þar sem borgurum og fyrirtækjum er veitt betri þjónustu um leið og haldið er í grunngildi stjórnsýslunnar um réttsýni, jafnræði og málefnaleg sjónarmið. Þannig verður arðsöm stjórnsýsla best tryggð.
Í ljósi þessa ákvað ríkisstjórnin að setja á fót framkvæmdanefnd sem hefur það að markmiði að endurskoða stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins. Nefndinni, sem hóf störf í október sl., er ætlað að koma með tillögur og fylgja eftir ákvörðunum um breytingar innan stjórnsýslunnar með hliðsjón af þeim markmiðum sem ég nefndi hér að framan um skilvirkni, hagkvæmni og betri þjónustu. Framkvæmdanefndin hefur notað fyrstu mánuðina m.a. til þess að skoða stöðuna eins og hún er dag. Hún hefur útbúið gátlista fyrir ráðuneyti og stofnanir til þess að meta verkefni sem ráðuneyti og stofnanir eru að sinna eða til stendur að þau byrji að sinna og nefndin hefur sett vinnu í gang sem miðar að því að styrkja ríkið sem kaupanda við gerð þjónustusamninga við aðila utan ríkiskerfisins. Nefndin mun síðan með tíð og tíma í samvinnu við ráðuneyti og stofnanir vinna að sérstökum breytingum á stofnanakerfinu til hagsbóta fyrir samfélagið. Breytingar sem þessar gerast ekki á einni nóttu og þarf að skoða vel alla möguleika áður en lagt er af stað. Ekki er ráðgert að kollvarpa kerfinu sem reynst hefur í stærstum dráttum vel heldur draga lærdóm af því sem gert hefur verið, styrkja það sem vel er gert og bæta þá þætti sem betur mega fara.
Góðir ráðstefnugestir.
Mikilvægt er að við öll sem störfum í stjórnsýslunni vinnum saman að því að gera hana betri. Sú vinna hefur ekki skýran endapunkt heldur þarf stöðugt að sinna henni. Framsýni og þor okkar sem vinnum í stjórnsýslunni til þess að ræða og ráðast í breytingar er forsenda þess að stjórnsýslan fylgi eftir þróun þjóðfélagsins og auðveldi borgurunum og fyrirtækjum að sigla farsællega inn í framtíðina. Stjórnsýsla sem hræðist breytingar og lítur á sjálfa sig sem upphaf og endi alls sem gerist í samfélaginu er hamlandi fyrir nýsköpun og kjark. Einföld, skilvirk og framsýn stjórnsýsla sem auðveldar fólkinu og fyrirtækjunum í landinu að ná árangri stuðlar best að aukinni arðsemi í samfélaginu. Þannig stjórnsýslu viljum við halda áfram að byggja upp á Íslandi.
Með þessum orðum lýsi ég þessa ráðstefnu setta og óska ykkur góðs gengis í störfum ykkar hér í dag.