Hagvaxtarhorfur á nýju ári
Erindi fjármálaráðherra flutt á morgunverðarfundi Sparisjóðs vélstjóra.
Ágætu fundarmenn
Það er mér mikil ánægja að vera hjá ykkur í dag og ræða um horfurnar í efnahagsmálum.
Hagvaxtarskeið í hápunkti
Aðstæður í íslensku efnahagslífi hafa sjaldan verið betri en um þessar mundir. Hagvöxtur heldur áfram að vera mikill, kaupmáttur launa hefur aukist mikið undanfarin ár, atvinna í landinu er mikil og verðbólga, þótt hún sé ofan við verðbólgumarkmið Seðlabankans, er líkleg til að minnka þegar fram í sækir og ró kemst á fasteignamarkaðinn. Ríkisfjármálin eru með eindæmum góð og hafa ekki áður verið svo styrk í sögu lýðveldisins. Skattar hafa lækkað umtalsvert undanfarin ár og munu lækka frekar í ár og á næsta ári. Þrátt fyrir það hefur mikill afgangur verið á ríkissjóði ár eftir ár. Einkavæðing ríkisfyrirtækja hefur gengið vel. Afraksturinn hefur verið nýttur til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Einkavæðingin hefur einnig stuðlað að meiri samkeppni á fjármála og öðrum mörkuðum sem hefur skilað sér í bættri þjónustu og/eða lægri verðum til neytenda. Þá hefur hátt gengi aukið kaupmátt landsmanna erlendis og innflutningur á bifreiðum og varanlegum neysluvörum stóraukist. Það sem mest er um vert er að staða efnahagsmála staðfestir árangur efnahagsstefnunnar.
Hátt gengi krónunnar er þungbært
En það er ekki allt dans á rósum. Hátt gengi krónunnar hefur bitnað á afkomu fyrirtækja í útflutningi eða samkeppni við innflutning. Starfsemi hefur sumstaðar dregist saman og í nokkrum tilfellum hefur hluti af starfseminni verið færður erlendis. Þó verður að segja eins og er að hluti af ákvörðuninni tengist því að fyrirtækin sjá sér hag af því að vera nær birgjum og kúnnum á hinum stóru alþjóðlegu mörkuðum.
Genginu er spáð að lækka á komandi misserum
Það jákvæða í stöðunni er að genginu er spáð að lækka í náinni framtíð. Vonandi gengur það eftir, en þó er óvissa með gengið eins og oft áður. Það sem hefur tafið lækkun á gengi krónunnar hefur eflaust verið sú kerfisbreyting sem varð á fjármálamarkaðinum okkar á haustmánuðum í fyrra, en þá hófu erlendir aðilar að gefa út skuldabréf í íslenskum krónum. Sú útgáfa hefur aukist jafnt og þétt og var orðin ríflega 160 milljarðar króna þegar síðast var gáð. Innflæði erlends gjaldeyris í því magni hefur haft áhrif til að styrkja gengi krónunnar. Sérfræðingar telja líklegt að slík útgáfa haldi áfram um sinn, eða þar til væntingar aukast um að vaxtamunur við útlönd fari að minnka á ný. Miðað við þensluna á fasteignamarkaði, gæti orðið einhver bið eftir því að stýrivextir hérlendis lækki svo nokkru nemi. Þó verður að hafa hugfast að það þarf að fjármagna hinn mikla viðskiptahalla með erlendu lánsfé og það setur þrýsting á gengið á móti. Það eru því sterk öfl sem togast á. En ef spár um að gengið lækki á árinu rætast yrði það strax til bóta fyrir alþjóðlegar samkeppnisgreinar okkar.
Skuldir landsmanna hafa aukist, en eignir líka
Í öðru lagi hafa skuldir landsmanna aukist mikið í uppsveiflum, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Þykir mörgum nóg um skuldaaukninguna. Það verður þó að segjast eins og er að stór hluti af þessum skuldum tengist því að heimilin hafa verið að fjárfesta í bættum húsakosti, verðbréfum og í nýrri bílum. Fyrirtæki hafa verið dugleg að kaupa önnur fyrirtæki hér á landi eða erlendis, hagræða í rekstri og auka verðmæti sitt. Hvort tveggja tengist nægu framboði af ódýru fjármagni, auknum tekjum og uppganginum í þjóðfélaginu. Þá hefur aukinn kaupmáttur landsmanna erlendis ekki bara áhrif á innflutninginn heldur einnig útrásina. Það sem skiptir kannski mestu máli í þessu sambandi er að eignir landsmanna hafa verið að aukast á móti skuldum og að gengisáhættan tengd þessum skuldbindingum er þekkt og takmörkuð.
Ábyrg en sveigjanleg stjórn ríkisfjármála
En hvað á ríkið að gera til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og batnandi lífskjör í landinu? Eins og á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin markað skýra stefnu í ríkisfjármálum fyrir árið sem fer í hönd, sem liggur fyrir í nýsamþykktum fjárlögum ársins. Um leið hefur verið lögð fram langtímaáætlun, en gerð þeirra hefur markað þáttaskil í vinnubrögðum við hagstjórn hér á landi á yfirstandandi kjörtímabili. Þessi stefnumótun, sem er í góðu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ákvæði fjárreiðulaga, hefur reynst mjög mikilvæg við að mæta þeim risavöxnu framkvæmdum við virkjanir og stóriðju, sem nú eru í hápunkti. Ríkisstjórnin hefur framfylgt ábyrgri en sveigjanlegri hagstjórn og sýnt staðfestu í ríkisbúskapnum. Það sést best á því að hin alþjóðlegu matshæfisfyrirtæki Moody´s, Fitch og Standard&Poors hafa verið að gefa okkur prýðisgóðar einkunnir ár eftir ár þrátt fyrir þann vanda sem fylgir miklum hagvexti.
Aðhald í ríkisfjármálum
Eins og stefnt var að, hefur ríkisfjármálunum verið beitt með þeim hætti að þau hafa dregið verulega úr innlendri eftirspurn þegar framkvæmdir hafa verið sem mestar. Stefnir í að afgangurinn í ríkisfjármálum hafi verið mestur á umliðnu ári um alllangt skeið. Aðhald í ríkisfjármálum hefur verið aukið með því að verulega draga úr vexti samneyslu og miða hann við 2% árlegan vöxt að raungildi. Þar er m.a. miðað við að launakostnaður ríkisins hækki ekki umfram laun í samkeppnisgreinunum. Ennfremur hefur árleg hækkun tilfærsluútgjalda miðast við 2,5% að raungildi. Með aðhaldi í útgjöldum hefur tekjuaukning í uppsveiflunni skilað sér hratt í afgang sem hefur áhrif til að draga úr innlendri eftirspurn og þenslu.
Sveigjanlegt og opið hagkerfi
En ríkisstjórnin hefur gert meira en að reka ríkissjóð af festu og ábyrgð. Hún hefur lagt áherslu á að gera atvinnulífið í stakk búið að geta aðlagað sig að miklum hagvexti, háu raungengi og örum breytingum á markaði. Það hefur verið gert með því að koma á frelsi á fjármagnsmarkaði og afnámi hafta á fjármagnshreyfingum, stórbættri stöðu ríkisfjármála, skattkerfisbreytingum, einkavæðingu ríkisfyrirtækja, almennri markaðsvæðingu í hagkerfinu auk breytinga á stjórn peningamála. Fyrir vikið eru starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja orðin með því besta sem þekkist í heiminum í dag.
Samkeppnisstaða Íslands með því besta sem þekkist
Allir helstu aðilar sem gera úttektir á samkeppnishæfni einstakra landa hafa sett Ísland í hóp þeirra ríkja sem búa við best skilyrði og eru hvað samkeppnishæfust. Það sem þetta þýðir er það að fyrirtækin munu bregðast við og leita leiða til að hagræða og auka verðmæti sitt, sama hvað að steðjar.
Aðlögunarhæfni efnahagslífsins mjög mikil
Árin 2001 og 2002 kom það alþjóðastofnunum á óvart hvað íslenska hagkerfið sýndi aðdáunarverða aðlögunarhæfni. Eftir að hafa uppskorið mikinn viðskiptahalla, hvarf hann á einu ári eins og hendi væri veifað. Efnahagslífið náði lendingu eftir mikið uppgangsskeið. Nú er verið að spá því að við munum fá jafnvel mýkri lendingu eftir meiri uppgang og ójafnvægi. Ef það gengur eftir má að miklu leyti þakka miklu aðhaldi ríkisfjármála, aðhaldssamri stjórn peningamála og sveigjanlegri aðlögun atvinnulífsins.
Nýtt hagvaxtarskeið er framundan
Við núverandi aðstæður eru alltaf einhverjir sem spá að íslenska hagkerfið muni brotlenda og að hér skapist ófremdarástand með atvinnuleysi og óðaverðbólgu. Þær hrakspár rættust ekki í síðustu hagsveiflu, og sem betur fer. Miklu frekar er búist við að eftir þetta ár komi önnur góð ár, þótt eitthvað hægi á hagvextinum. Sterkir innviðir efnahagslífsins og mikill framfarahugur ættu að verða forsenda áframhaldandi uppgangs í atvinnulífinu. Þó þarf að halda vel á spilunum svo að það gangi eftir. Sérstaklega tel ég mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Hún er okkar besta trygging fyrir því að skila landsmönnum áframhaldandi velsæld.
Þakkir fyrir gott hljóð.