Um mikilvægi opinberra fjármála fyrir efnahagslegan stöðugleika
Erindi fjármálaráðherra flutt á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga 20. febrúar 2006.
Ágætu fundarmenn!
Það er mér mikil ánægja að vera hjá ykkur í dag og ræða um samstarf ríkis og sveitarfélaga.
Nýr samstarfssáttmáli
Nýr samstarfssáttmáli milli ríkis og sveitarfélaga liggur fyrir. Sáttmálinn endurnýjar grundvöll fyrir samráð ríkis og sveitarfélaga. Lögð er áhersla á að stuðla að sameiginlegri sýn á stöðu, þróun og framtíðarsýn sveitarstjórnarstigsins. Þá ber ríki og sveitarfélögum að samræma stefnu sína í opinberum fjármálum eftir því sem kostur er. Opinber fjármál og peningamál Seðlabankans eru tvær meginstoðir hagstjórnar. Ábyrg stjórn opinberra fjármála getur haft mikil áhrif á það hvort hagvöxtur helst stöðugur eða ekki. Þátttaka sveitarfélaganna í landinu í hagstjórninni hefur ekki verið sem skyldi undanfarin ár. Eflaust eru ástæður fyrir því. Þó er vert að leita leiða til að auka þátttöku sveitarstjórna í hagstjórninni. Það yrði þjóðinni til hagsbóta. Ég vil gera það að umtalsefni mínu í dag.
Framfarir í efnahagslífinu
Til að byrja með er ástæða að líta yfir farinn veg. Þær stórstígu framfarir sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi komu í kjölfar viðamikilla skipulags- og kerfisbreytinga. Skattlagningu fyrirtækja og einstaklinga hefur markvisst verið breytt, ríkisfyrirtæki á sviði fjármála- og samskiptaþjónustu hafa verið einkavædd og Ísland tekið þátt í EES-samningnum. Markmiðið hefur verið að renna traustari stoðum undir íslenskt atvinnulíf og skapa betri rekstrargrundvöll fyrir fjölbreyttar atvinnugreinar. Aukin starfsemi íslenskra fyrirtækja í fjármálaþjónustu, upplýsingatækni, hugbúnaðargerð, fjarskiptum og líftækni, hér á landi og erlendis, hefur vakið verðskuldaða athygli. Þá hefur framleiðni í atvinnulífinu aukist á undanförnum árum og afkoma fyrirtækja í mörgum greinum batnað.
Betur má ef duga skal
En betur má ef duga skal. Hið opinbera gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja að efnahagslegum stöðugleika sé viðhaldið. Í kjölfar aukinnar markaðsvæðingar hagkerfisins og uppbyggingar víða um land höfum við uppskorið kröftugan hagvöxt. Því ástandi fylgir sú áskorun til stjórnvalda að viðhalda efnahagslegum stöðugleika – hemja verðþenslu og viðskiptahalla. Þá er atvinnuleysi aftur orðið lítið og spennu farið að gæta á vinnumarkaði. Hið opinbera getur lagt sitt af mörkum með því að beita aðgerðum sem draga úr þjóðarútgjöldum. Núverandi staða gerir kröfu um áframhaldandi aðhald í hagstjórninni. Undanfarin ár hefur þáttur ríkisins og Seðlabankans að hagstjórninni verið óumdeild. Hins vegar eru margar ástæður fyrir því að sveitarfélögin taki einnig þátt í hagstjórninni. Fjármál hins opinbera í heild skipta miklu máli fyrir árangur og stöðugleika efnahagslífsins.
Stefnan í ríkisfjármálum
Stefnan í ríkisfjármálum undanfarin ár hefur verið að treysta stöðu ríkissjóðs, greiða niður skuldir, stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, efla hagvöxt og þar með leggja grunn að bættri afkomu einstaklinga og fyrirtækja, ekki aðeins í dag heldur einnig til lengri tíma litið. Tölur um afkomu ríkissjóðs að undanförnu sem sýna mikinn tekjuafgang og stórfellda niðurgreiðslu skulda eru til vitnis um að þetta er rétt stefna og að hún hefur skilað árangri. Sömu sögu er að segja af almennri þróun efnahagsmála undanfarin ár sem einkennist af miklum hagvexti og mikilli kaupmáttaraukningu heimilanna.
Aukið aðhald í ríkisfjármálum
Frá árinu 2003 hefur ríkistjórnin markað langtímastefnu í ríkisfjármálum, sem hefur miðast við að draga úr örum vexti útgjalda á þenslutíma. Fyrir vikið hafa auknar tekjur í uppsveiflunni leitt af sér myndarlegan afgang, sem hefur haft mikil áhrif til að draga úr spennunni undanfarin tvö ár. Í ár er áfram stefnt af því að ríkissjóður skili tekjuafgangi.
Ríki og sveitarfélög ekki samstíga í stjórn opinberra fjármála
Árin 2004 - 2006, þegar uppsveiflan í efnahagslífinu er í hámarki, er áætlað að samanlagður tekjuafgangur ríkissjóðs verði 6,5% af landsframleiðslu, sem er einn besti árangur í fjármálum OECD-ríkjanna þessi ár. Á sama tímabili er gert ráð fyrir að tekjuhalli sveitarfélaga nemi rúmum 2% af landsframleiðslu. Samanlagt má því gera ráð fyrir að opinber fjármál skili tekjuafgangi upp á um 4% af landsframleiðslu þessi ár. Jafnvel sá árangur er í hættu ef útgjöld sveitarfélaganna aukast í ár umfram það sem nú er áætlað, m.a. vegna frekari launabreytinga, endurgreiðslu leikskólagjalda eða fæðikostnaðar í grunnskólum. Á meðan ríkið og Seðlabankinn, með aðhaldi í útgjöldum annars vegar og háu stýrivaxtastigi hins vegar, berjast við að draga úr þenslu auka fjármál sveitarfélaganna á spennuna í hagkerfinu. Með því draga þau úr áhrifum opinberra fjármála á eftirspurn í hagkerfinu og árangri hagstjórnarinnar í heild. Sú óæskilega þróun er áskorun til okkar allra að leita leiða til að ríki og sveitarfélög verði samstíga í stjórn opinberra fjármála í framtíðinni. Þá má benda á að tekjur sveitarfélaga aukast mikið í uppsveiflu. Samræmingar er því þörf af mörgum ástæðum.
Sveitarfélögin eru ólík
Eitt helsta einkenni íslenska sveitarstjórnarkerfisins er hversu ólík sveitarfélögin eru. Sum eru stór og vaxandi en önnur eiga við samdrátt að etja. Í lagalegu tilliti eru samt öll sveitarfélögin jafnt sett. Þau hafa sömu verkefni og gegna sömu skyldum gagnvart íbúum sínum. Tekjustofnar þeirra skapa þeim afar mismunandi tekjur auk þess sem þau glíma í sumum tilvikum við erfiðar ytri aðstæður sem auka á vanda þeirra. Samskipti ríkis og sveitarfélaga markast nokkuð af þessum breytileika. Skipting verkefna mótast af því að reynt er að fara hinn gullna meðalveg. Stærri sveitarfélögin vilja í mörgum tilvikum taka að sér fleiri verkefni en þau annast nú en þau minni geta ekki sinnt öllum lögbundnum verkefnum eða verða að framkvæma þau í samvinnu við önnur sveitarfélög. Til að jafna fjárhagslega stöðu þeirra verður að viðhalda flóknu tekjujöfnunarkerfi í gegnum jöfnunarsjóð, sem seint næst algjör samstaða um.
Verkefni og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga
Það er ekki markmið í sjálfu sér að fækka sveitarfélögum heldur að efla sveitarstjórnarstigið. Mikilvægur þáttur í stefnumörkun í ríkisfjármálum við lok síðustu aldar var að auka hagræðingu í rekstri og tryggja sem besta nýtingu á skattfé þjóðarinnar. Einn liður í þeirri viðleitni var að endurskoða verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga í þá veru að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á verkefnum. Sveitarfélögum var falið að sinna félagslegri þjónustu í ríkara mæli vegna meiri nálægðar við íbúana. Til að mæta kröfum um aukna þjónustu fengu sveitarfélögin rýmri heimildir til þess að ákvarða eigin tekjustofna. Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru því mun einfaldari og skýrari en þau voru fyrir nokkrum árum þegar í gildi voru margar og flóknar reglur um skiptingu kostnaðarhlutdeildar ríkis og sveitarfélaga.
Færri og stærri sveitarfélög
Um þessar mundir eru íbúar landsins um 300.000 en sveitarfélögin 98. Alls búa 72%, eða 215.000 íbúanna í átta stærstu sveitarfélögunum, en rúmur fjórðungur í hinum 90. Þessi stækkun og fækkun sveitarfélaga, sem líklega mun halda áfram á komandi árum, eykur möguleikana á því að móta heildstæða og samræmda stefnu í fjármálum þeirra. Um leið eykur það möguleika á meiri samræmingu í stjórn opinberra fjármála í heild, sem mun auka áhrif efnahagsstjórnar.
Búist við frekari sameiningu sveitarfélaga
Búist er við áframhaldandi sameiningu á einstökum svæðum og að sveitarfélögin fækki í um 80 innan tíðar. Ganga má enn lengra í þessum efnum með frekari sameiningu sveitarfélaga. Ein leið að því marki gæti verið að stefna að tiltölulega fáum sveitarfélögum, sem væru nokkuð sambærileg að getu til að takast á við ný verkefni og fjármagna þau verkefni með staðbundnum tekjustofnum. Þannig mætti draga úr hlutverki Jöfnunarsjóðs en jafnframt að skilgreina betur lágmarksþjónustu sveitarfélaga.
Aukin umsvif sveitarstjórnarstigs
Tilflutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga árið 1997 varð til að auka vægi sveitarfélaga í búskap hins opinbera. Árið 1991 voru heildartekjur og gjöld sveitarfélaganna um fimmtungur af tekjum og gjöldum hins opinbera, en árið 1998 voru hlutföllin komin upp fyrir fjórðung. En umsvif sveitarfélaga hafa haldið áfram að aukast eftir tilfærslu verkefna og í ár nálgast heildartekjur og gjöld sveitarfélaganna um 30% af tekjum og gjöldum hins opinbera. Á móti hefur hlutur ríkisins í opinberum umsvifum dregist saman. Þessi þróun gerir kröfu til sveitarfélaga um aukna þátttöku í stefnumótun við stjórn opinberra fjármála og ábyrgð á að ná fram settum markmiðum.
Launmál hins opinbera í deiglunni
Launamál eru stór þáttur í útgjöldum hins opinbera og þróun þeirra hefur mikil áhrif á árangur í stjórn opinberra fjármála. Meginþorri opinberra starfsmanna tekur laun sín á grundvelli kjarasamninga sem einstök stéttarfélög gera hvert út frá eigin forsendum. Þetta er ólíkt fyrirkomulagi viðast hvar annarsstaðar á Norðurlöndunum. Þar taka heildarsamtök stéttarfélaga oftast til starfsmanna á einkamarkaði og opinberum markaði. Við endurskoðun kjarasamninga eru jafnframt lagðar fram forsendur um m.a. launaþróun, starfsmannaþörf og aðrar efnahagslegar forsendur. Út frá slíkum forsendum er svo kostnaðarrammi kjarasamningsgerðarinnar ákveðinn. Þessu er ekki svo háttað hjá okkur og því þurfum við að breyta. Árið 2002 var skipuð nefnd með aðild helstu hagsmunaaðila á opinberum vinnumarkaði til að endurskoða núverandi fyrirkomulag kjarasamningsgerðar opinberra aðila. Nefnd þessi hóf störf af miklum krafti en hefur legið í dvala um nokkra hríð. Ég tel að við eigum að taka höndum saman og endurvekja hana með það að markmiði að skapa sambærilega umgjörð og grannþjóðir okkar búa við og koma þannig í veg fyrir, eða a.m.k. takmarka, álíka upphlaup og við höfum orðið vitni að á undanförnum mánuðum.
Sameiginlegt með ríki og sveitarfélögum
Það verður ekki hjá því komist að samskipti ríkis og sveitarfélaga verði alltaf fremur fjölþætt og flókin og að stöku sinnum hlaupi snurða á þráðinn. Eigi að síður þarf sífellt að leita leiða til að ríki og sveitarfélög vinni saman að þjóðhagslegum markmiðum þegar til lengri tíma er litið enda eru bæði stjórnstig lýðræðislega kosin af sömu kjósendum sem í báðum tilvikum eru hinir endanlegu greiðendur þjónustunnar.
Þörf á samræmdri stefnu í opinberum fjármálum
Almennt er litið svo á að á vettvangi ríkisvaldsins séu sett þjóðfélagsleg megin¬markmið og þar með talin efnahagsmarkmið til lengri tíma. Innan þess ramma þarf að takast náið samstarf m.a. við sveitarfélög um útfærslu markmiðanna. Samhæfing af þessum toga verður mikilvægari eftir því sem sveitarstjórnarkerfið á stærri hlutdeild í opinberum búskap.
Samstarf til farsældar þjóðinni
Þegar öllu er á botninn hvolft hljóta menn að vera sammála um það meginmarkmið að sveitarfélög og ríkisvald taki höndum saman til að tryggja stöðugleikann í efnahagslífinu með öllum tiltækum ráðum. Þetta gerir kröfu um að þessir tveir aðilar tali saman og stilli saman strengi sína eins og reyndar er kveðið á um í gildandi samstarfssáttmála milli þessara aðila. Það er von mín að okkur auðnist að efla þetta samstarf þjóðinni til farsældar.
Þakkir fyrir gott hljóð.