Hagkerfið og fjármálalífið
Góðir fundarmenn!
Mikið hagvaxtarskeið...
Íslenskt efnahagslíf hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár sem má meðal annars sjá af því að hagvöxtur hér hefur verið mikill og sá mesti í samanburði við þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við. Í nýútkominni skýrslu fjármálaráðuneytisins, Þjóðarbúskapurinn vorskýrsla 2006, sem inniheldur þjóðhagsspá fyrir árin 2006-2010 kemur fram að hagvöxtur hér á landi hefur verið meiri en bráðabirgðatölur gáfu til kynna. Hagvöxtur ársins 2004 var 8,2% samkvæmt endurskoðuðu þjóðhagsuppgjöri Hagstofu Íslands eða tveimur prósentustigum hærri en bráðabirgðatölur gáfu til kynna. Jafnframt gefa bráðabirgðatölur Hagstofunnar fyrir árið 2005 upp á 5,5% til kynna að hagvöxturinn hafi verið ívið meiri en spá fjármálaráðuneytisins gerði ráð fyrir.
...en um leið mikil spenna í hagkerfinu
Þessi mikli hagvöxtur bendir til þess að meiri framleiðsluspenna hafi verið í hagkerfinu en ráð var fyrir gert. Um leið er ljóst að hluta þeirrar spennu þarf að skrifa á ófyrirséðar breytingar í hagkerfinu, sbr. mjög aukna samkeppni fjármálafyrirtækja á íbúðalánamarkaði frá haustmánuðum 2004 og útgáfu erlendra aðila á skuldabréfum í krónum frá haustmánuðum 2005, en hvorutveggja hafði áhrif til að auka eftirspurn og vanda hagstjórnar. Í því samhengi er hins vegar þörf á að nefna tvennt. Áhrif þessara kerfisbreytinga eru þegar byrjuð að ganga niður, eins og merkja má á fasteignamarkaði og með lækkun á gengi krónunnar. Þá er mikilvægt að hafa hugfast að hér er um kerfisbreytingar að ræða sem í sjálfu sér eru jákvæðar fyrir hagkerfið og framþróun þess.
Einkaneyslu er spáð að vaxa í ár og á næst ári
Í nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er fjallað um framvindu hagkerfisins á komandi árum. Nokkra breytingu er að merkja frá janúarspá ráðuneytisins sem rekja má annars vegar til þess að hagtölur fyrri ára hafa tekið umtalsverðum breytingum og hins vegar hefur ókyrrð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum borist hingað til lands. Við það hefur gengi krónu og hlutabréfa lækkað, þótt lækkunin hafi nú gengið að hluta til baka. Af þessum sökum hefur vöxtur einkaneyslu á þessu ári og því næsta verið endurskoðaður til lækkunar. Spurt hefur verið hvort vöxtur einkaneyslu verði ekki minni en nú er spáð og vitnað í reynsluna af síðustu hagsveiflu í því sambandi þegar einkaneysla dróst saman árin 2001 og 2002.
Margt er ólíkt með núverandi og síðustu hagsveiflu
Ástæða er til að fara yfir það hvað er ólíkt með núverandi og síðustu hagsveiflu. Til að byrja með er gert ráð fyrir að veiking á gengi krónunnar í ár verði helmingi minni en varð árið 2001, en gengið hefur mikil áhrif á kaupmátt landsmanna erlendis. Fasteignaverð hefur einnig hækkað meira nú en í fyrri uppsveiflu og hrein eign landsmanna, sem samanstendur m.a. af húsnæðisauði og lífeyrissparnaði, hefur aukist um 60% árin 2003-2005 en til samanburðar var aukningin árin 1998-2000 um 34%. Auðsáhrif á einkaneyslu hafa því verið meiri í þessari uppsveiflu en þeirri fyrri. Árin 2006 – 2007 er gert ráð fyrir áframhaldandi en hægari vexti fasteignaverðs og hreinnar eignar landsmanna og að auðsáhrifa gæti áfram. Lausafjárstaða heimilanna hefur batnað við það að raunvaxtakostnaður þeirra árin 2004-2005 var að meðaltali 25% lægri en árin 2000 og 2001.
Þótt hann sé nýverið tekinn að hækka er viðbúið að raunvaxtastigið verði hlutfallslega lægra í ár og á næsta ári en það var fyrir fjórum til fimm árum. Þá er spáð að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann aukist mun meira þessi ár en í niðursveiflunni, en þá var hann óbreyttur. Skattalækkanir munu auka kaupmátt ráðstöfunartekna á mann allt að 2,7% á næsta ári, en slíku var ekki til að dreifa í síðustu niðursveiflu. Að lokum er rétt að benda á þann mun að yfirstandandi stóriðjuframkvæmdir eru enn í fullum gangi í ár og lýkur á því næsta. Í fyrri uppsveiflu lauk stóriðjuframkvæmdum árið 1998, en þær voru jafnframt mun minni en núverandi framkvæmdir. Af öllu þessu athuguðu er niðurstaðan sú sem birt hefur verið.
Atvinnulífið er orðið mun fjölbreyttara en áður
En snúum okkur að stöðu hagkerfisins. Ein af þeim spurningum sem margir velta fyrir sér er hvort hinn mikli uppgangur sem verið hefur á Íslandi geti staðist. Hvernig standi á því að þessi mikli árangur hefur náðst. Ef við lítum aðeins 10 ár aftur í tímann þá var Ísland í raun mjög vel sett í samanburði við aðrar þjóðir. Lífskjör voru hér góð, atvinnuleysi lítið samanburði við ýmsa aðra og við ofarlega á flestum mælistikum sem mælir velferð þjóða. En hvað hefur breyst síðan þá? Í fáum orðum má segja að undirstöðurnar hafa styrkst og þeim fjölgað.
Helstu breytingar á hagkerfinu
Fyrir 10 árum þá vorum við að veiða álíka mikið og við erum að veiða núna, en það er engum blöðum um það að fletta að við erum í dag að gera það með miklu hagkvæmari hætti. Framlegðin í sjávarútvegi hefur aukist til mikilla muna sem má sjá á því hversu vel fyrirtækin komust frá rekstri sínum þegar krónan var sem sterkust. Þetta er mikil breyting frá því sem var fyrir 10 árum síðan. Fyrir áratug var eitt álver í landinu sem framleiddi í kringum 120.000 tonn af áli. Nú eru álverin tvö og verið að ljúka við það þriðja og framleiðslu getan eykst næstum fjórfalt frá því sem var fyrir 10 árum síðan. Fyrir áratug komu hingað til lands um 160 þúsund ferðamenn á ári hverju, en nú nálgast þeir að verða 400 þúsund. Kominn var vísir að lyfjageira fyrir áratug en nú er Actavís eitt og sér orðið fjórða stærsta lyfjafyrirtæki á sviði samheitalyfja í heiminum. Hér áður var rekið eitt öflugt millilandaflugfélag, en nú eru þau a.m.k. þrjú og fleiri ef við horfum til flugfélaga í íslenskri eigu með höfuðstöðvar erlendis. Fyrir 10 árum var tölvu- og upplýsingageirinn að ryðja sér til rúms en nú starfa mjög öflug fyrirtæki á þessi sviði og sum þeirra afla verulegra gjaldeyristekna. Fyrir áratug voru allir íslensku bankarnir starfandi á heimamarkaði nú eru þetta orðin öflug alþjóðleg fyrirtæki auk þess sem þeim hefur verið að fjölga á undanförnum árum. Svona væri hægt að halda lengur áfram. Á þessum 10 árum hefur þjóðinni jafnframt fjölgað um 32 þúsund manns og telur nú um 300 þúsund í heildina. Það þarf því engan að undra þegar umfang atvinnulífsins er skoðað með tilliti til fólksfjöldans sem hér býr að Íslendingar hafi það gott og kaupmáttur hér sé mikill.
Ábyrg en sveigjanleg stjórn ríkisfjármála
En hvað á ríkið að gera til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagsmálum og batnandi lífskjör í landinu? Eins og á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin markað skýra stefnu í ríkisfjármálum fyrir árið sem fer í hönd, sem liggur fyrir í nýsamþykktum fjárlögum ársins. Um leið hefur verið lögð fram langtímaáætlun, en gerð þeirra hefur markað þáttaskil í vinnubrögðum við hagstjórn hér á landi á yfirstandandi kjörtímabili. Þessi stefnumótun, sem er í góðu samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og ákvæði fjárreiðulaga, hefur reynst mjög mikilvæg við að mæta þeim risavöxnu framkvæmdum við virkjanir og stóriðju, sem nú eru í hápunkti. Ríkisstjórnin hefur framfylgt ábyrgri en sveigjanlegri hagstjórn og sýnt staðfestu í ríkisbúskapnum. Það sést best á því að hin alþjóðlegu matshæfisfyrirtæki Moody´s, Standard&Poors og Fitch hafa verið að gefa okkur prýðisgóðar einkunnir ár eftir ár þrátt fyrir þann vanda sem fylgir miklum hagvexti.
Aðhald í ríkisfjármálum
Eins og stefnt var að, hefur ríkisfjármálunum verið beitt með þeim hætti að þau hafa dregið verulega úr innlendri eftirspurn þegar framkvæmdir hafa verið sem mestar. Stefnir í að afgangurinn í ríkisfjármálum hafi verið mestur á umliðnu ári um alllangt skeið. Jafnframt er gert ráð yfir myndarlegum afgangi í ár. Aðhald í ríkisfjármálum hefur verið aukið með því að verulega draga úr vexti samneyslu og miða hann við 2% árlegan vöxt að raungildi. Þar er m.a. miðað við að launakostnaður ríkisins hækki ekki umfram laun í samkeppnisgreinunum. Ennfremur hefur árleg hækkun tilfærsluútgjalda miðast við 2,5% að raungildi. Með aðhaldi í útgjöldum hefur tekjuaukning í uppsveiflunni skilað sér hratt í afgang sem hefur áhrif til að draga úr innlendri eftirspurn og þenslu.
Markaðsbúskapur grundvöllur aukins árangurs efnahagsstarfseminnar
Um leið og þetta hefur verið að gerast þá hefur mikil formbreyting átt sér stað í íslensku þjóðfélagi þar sem markvisst hefur verið dregið úr ríkisafskiptum, þjóðfélagið gert mun opnara og sveigjanlegra. Fyrir mér er því sá árangur sem náðst hefur á Íslandi ekki neitt kraftaverk heldur er hann uppskera markvissrar stefnu og aðgerða sem hafa umbreytt þjóðfélaginu og ýtt undir kraft og áræði einstaklinga og fyrirtækja. Hinn títt nefndi hagvöxtur á sér eðlilegar skýringar þar sem fámennt ágætlega sett þjóðfélag fyrir 10 árum síðan hefur ná að fjölga stoðum efnahagslífsins og efla þær sem fyrir voru. Þeir sem tala um uppganginn í íslensku efnahagslífi eins og hann sé á einhvern hátt óútskýranlegur eða óeðlilegur þurfa ekki annað en að líta til þess sem hér að framan er talið.
Sveigjanlegt og opið hagkerfi
En ríkisstjórnin hefur gert meira en að reka ríkissjóð af festu og ábyrgð. Hún hefur lagt áherslu á að gera atvinnulífið í stakk búið til að geta aðlagað sig að miklum hagvexti, háu raungengi og örum breytingum á markaði. Það hefur verið gert með því að koma á frelsi á fjármagnsmarkaði og afnámi hafta á fjármagnshreyfingum, stórbættri stöðu ríkisfjármála, skattkerfisbreytingum, einkavæðingu ríkisfyrirtækja, almennri markaðsvæðingu í hagkerfinu auk breytinga á stjórn peningamála. Fyrir vikið eru starfsskilyrði íslenskra fyrirtækja orðin með því besta sem þekkist í heiminum í dag.
Skattkerfinu hefur verið breytt
Grundvallar skipulagsbreytingar hafa verið gerða á uppbyggingu skattkerfisins sem hefur skilað sér í samkeppnishæfari fyrirtækjum og betri afkomu allra landsmanna. Það er því sérkennilegt að ýmsir hafa viljað gera lítið úr skattalækkununum og ganga jafnvel svo langt að tala um lækkanir sem skattahækkanir, en staðreyndirnar tala sínu máli en í ljósi umræðunnar finnst mér ástæða til að rifja upp helstu breytingar sem gerðar hafa verið. Aðstöðugjald sem var sérstakur skattur á fyrirtæki hefur verið afnumið og sama má segja um sérstakan skatt á verslunar og skrifstofuhúsnæði. Tekjuskattur á fyrirtæki hefur verið lækkaður úr 45% í 18%. Raunlækkun tekjuskatta á einstaklinga verður 28% í upphafi árs 2007 þar sem tekjuskattur ríkisins verður kominn niður í 21,75%. Hátekjuskatturinn svo kallaði var lagður niður um síðustu áramót en vegna aukins kaupmáttar var hann farinn að leggjast hvað þyngst á fólk með meðaltekjur. Þá hefur fjármagnstekjuskatturinn, að undanskildum sköttum á vexti sem voru skattfrjálsir, verið lækkaður niður í 10%. Eignaskattur hefur verið afnuminn, tekið upp lægra þrep í virðisaukaskatti og erfðafjárskattur lækkaður.
Samkeppnisstaða Íslands með því besta sem þekkist
Allir helstu aðilar sem gera úttektir á samkeppnishæfni einstakra landa hafa sett Ísland í hóp þeirra ríkja sem búa við best skilyrði og eru hvað samkeppnishæfust. Það sem þetta þýðir er það að fyrirtækin munu bregðast við og leita leiða til að hagræða og auka verðmæti sitt, sama hvað að steðjar.
Aðlögunarhæfni efnahagslífsins mjög mikil
Árin 2001 og 2002 kom það alþjóðastofnunum á óvart hvað íslenska hagkerfið sýndi aðdáunarverða aðlögunarhæfni. Eftir að hafa uppskorið mikinn viðskiptahalla, hvarf hann á einu ári eins og hendi væri veifað. Á sama tíma reið yfir verðbólguskot sem gekk hratt til baka. Efnahagslífið náði lendingu eftir mikið uppgangsskeið. Nú er verið að spá því að við munum fá jafnvel mýkri lendingu eftir meiri uppgang og ójafnvægi. Ef það gengur eftir má að miklu leyti þakka miklu aðhaldi ríkisfjármála, aðhaldssamri stjórn peningamála, skynsamlegum skipulagsbreytingum og sveigjanlegri aðlögun atvinnulífsins.
Hægir á hagvextinum á næsta ári
Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að efnahagsstarfsemin verði áfram mikill á næsta ári þó draga muni úr vaxtahraðanum. Ástæðan fyrir því er sú að reiknað er með að hratt dragi úr vexti fjárfestinga atvinnuveganna. Framkvæmdum við þær stóriðjuframkvæmdir sem þegar hafa verið teknar ákvarðanir um verður að stórum hluta lokið. Þá er gert ráð fyrir að áfram hægi á aukningu einkaneyslu heimilanna.
Útflutningsdrifið hagvaxtarskeið er framundan
Við núverandi aðstæður eru alltaf einhverjir sem spá að íslenska hagkerfið muni brotlenda og að hér skapist ófremdarástand með atvinnuleysi og óðaverðbólgu. Þær hrakspár rættust ekki í síðustu hagsveiflu, og sem betur fer. Miklu frekar er búist við að eftir þetta ár komi önnur góð ár, þótt eitthvað hægi á hagvextinum. Sterkir innviðir efnahagslífsins og mikill framfarahugur ættu að verða forsenda áframhaldandi uppgangs í atvinnulífinu. Þó þarf að halda vel á spilunum svo að það gangi eftir. Sérstaklega tel ég mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið. Hún er okkar besta trygging fyrir því að skila landsmönnum áframhaldandi velsæld.
Takk fyrir !