Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

09. ágúst 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ávarp fjármálaráðherra vegna kynningar OECD á nýrri efnahagsskýrslu fyrir Ísland

Mynd af Árna M. MathiesenÉg vil bjóða ykkur öll velkomin til þessa fundar.

Tilefni hans er að í dag er lögð fram Efnahagsskýrsla OECD fyrir Ísland árið 2006. Helstu niðurstöður hennar liggja hér frammi, bæði á ensku og íslensku ásamt eintaki af skýrslunni í heild sinni á ensku.

Af hálfu OECD eru staddir hér tveir virtir sérfræðingar, Val Koromzay, sem er yfirmaður landarannsókna á efnahagsdeild OECD og Hannes Suppanz, sem er hagfræðingur á skrifstofu deildarinnar sem sér um málefni Íslands og Bandaríkjanna.

Það er mikilvægt að hér komi fram að þessi efnahagsskýrsla er liður í ,,jafningjaskoðun” (Peer Review) hagþróunarnefndar OECD þar sem árangur hagstjórnar einstakra aðildarríkja er metinn á 12 til 18 mánaðar fresti af fulltrúum allra aðildarríkjanna. Ferlið hefst með nákvæmri upplýsingaöflun sem innifelur fundarhöld með breiðum hópi aðila sem hafa áhrif á og fylgjast með íslenskum efnahagsmálum. Uppkast að skýrslunni er rætt á fundi hagþróunarnefndarinnar þar sem starfslið OECD og fulltrúar stjórnvalda viðkomandi lands svara spurningum og fá athugasemdir. Stjórnvöldum gefst þá tækifæri til að gera athugasemdir við drögin. Hin endanlega skýrsla felur í sér sameiginlegt álit allra aðildarríkja OECD um viðkomandi land. Þetta ferli og efnahagsskýrslur fyrir löndin hafa þann tilgang að bæta umræðu um hagstjórn, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi, með því að benda á það sem stjórnvöld geta gert til að bæta árangurinn í efnahagsmálum.

Til viðbótar við greiningu á framvindu efnahagsmála og efnahagsstjórn felur efnahagsskýrsla OECD í sér ítarlega greiningu og ráðleggingar varðandi starfsemi og áhrif einstakra markaða og/eða framkvæmd opinberrar þjónustu á mikilvægum sviðum. Að þessu sinni er að finna í skýrslunni greiningu á skipulagi fjármálamarkaðarins og menntamála.

Ég vil nota tækifærið til að þakka starfsmönnum OECD sem hafa komið að samningu skýrslunnar og eru nú hingað komnir til að kynna helstu niðurstöður hennar og að því loknu svara spurningum um hana.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta