Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ræða fjármálaráðherra flutt á aðalfundi Landsamtaka landeigenda á Íslandi

Mynd af Árna M. MathiesenRæða fjármálaráðherra flutt á aðalfundi Landsamtaka landeigenda á Íslandi, 14. febrúar 2008.

Á þessu ári eru liðin 10 ár frá því að lögin um þjóðlendur og mörk eignarlanda tóku gildi. Þó svo að lögin hafi verið umdeild og leitt fram ágreining manna í millum á þessu viðkvæma sviði, þá held ég að flestir geti verið sammála um að lagasetningin hafi verið nauðsynleg til að greiða úr þeirri óvissu sem ríkt hafði um langt skeið um takmörk beins eignarréttar í landinu og þannig í reynd um inntak eignarheimilda að jörðum hér á landi. Íslendingar eru ekki þeir einu sem hafa þurft að taka á þessum vandamálum, heldur hafa t.d. nágrannar okkar í Noregi farið álíka leiðir til að afmarka mörk þessara mikilsverðu réttinda.

Réttaróvissa sú sem hér hafði ríkt hafði komið fram í ýmsum myndum og fyrirsjáanlegt var að sú réttaróvissa myndi aukast og geta hamlað nýtingu landsins og í reynd haft neikvæð áhrif á eignarrétt að jörðum hér á landi. Er einfaldast að benda á þá dóma Hæstaréttar sem gengið höfðu fyrir setningu þjóðlendulaga varðandi rétt til fuglaveiða í eignarlöndum, en eigendur jarða gátu ekki með góðu móti tryggt rétt sinn skv. þeim lögum vegna ágreinings um takmörk eignarlanda og almennra afrétta og almenninga, eða sem síðar voru kallaðar þjóðlendur.

Það má þó segja að þessi mál varðandi rjúpnaveiðarnar voru í reynd kannski ekki aðal málið. Þeir dómar, og reyndar einnig svokallaðir Landmannaafréttardómar, frá síðari hluta síðustu aldar, voru hins vegar ótvíræð staðfesting þess að ágreiningur væri um hinn beina eignarrrétt að landi, dómstólar voru með öðrum orðum ekki tilbúnir til að líta svo á að landamerkjalýsingar jarða og fleiri sambærileg gögn væru fullnægjandi grundvöllur eignarréttarins. Þetta hafði þannig augljóslega þau áhrif að óvissa var með öll önnur réttindi sem almennt fylgja beinum eignarrétti, s.s. réttur til jarðefna, jarðhita, vatnsréttinda, svo nokkur dæmi séu tekin.

Ég held að eftir á að hyggja hljóti það að hafa talist skynsamleg og í reynd nauðsynleg ráðstöfun, að ráðast í þá vinnu, á grundvelli þeirrar afstöðu sem dómstólar höfðu lýst til afmörkunar eignarréttinda hér á landi, að greina eftir því sem kostur væri mörk beinna eignarlanda og þess hluta landsins, sem féll utan þeirrar skilgreiningar, þ.e. þjóðareignarinnar.

Það má hins vegar deila um það hvernig framkvæmd slíkra mála er best fyrir komið. Á síðasta ári var staða þjóðlendumála sú, að óbyggðanefnd hafði lokið umfjöllun um suðurhluta landsins, og jafnframt voru kveðnir upp úrskurðir á Norð-Austurlandi, og tók það svæði, svokallað svæði 5, til svæðisins frá Fljótsdal og að Jökulsá á Fjöllum. Þá gengu jafnframt á síðasta ári allnokkrir dómar í Hæstarétti varðandi þjóðlendumál, sem að nokkru leyti voru stefnumarkandi, og gáfu verulegar vísbendingar um afstöðu æðsta dómstóls ríkisins til þessarar afmörkunar einkaeignarréttarins og almenninga.

Að fengnum þessum úrskurðum og dómum Hæstaréttar á síðasta ári, og ekki hvað síst með tilliti til úrskurða óbyggðanefndar á Norð-Austurlandi, sem voru afar mikilvægir, fannst mér tilefni komið til að fara yfir stöðu þjóðlendumálanna heildstætt, ekki hvað síst með tilliti til þess hvernig háttað yrði kröfugerð ríkisins á þeim svæðum sem eftir var að fjalla um og þá að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða, sem fram hafa komið, m.a. frá ykkur í samtökum landeigenda, hvort ekki mætti draga úr kröfugerð ríkisins á einstökum svæðum, þannig að meiri sátt geti náðst um framkvæmdina.

Að höfðu samráði við fulltrúa í ráðgjafarnefnd ríkisins í þjóðlendumálum og lögmann þann sem fer með fyrirsvar þjóðlendumála f.h. íslenska ríkisins, var mörkuð stefna og gerðar allnokkrar tillögur varðandi framhald á framkvæmd þjóðlendumála. Á ég von á að sú stefnumörkun sem ráðist var í muni koma fram í framkvæmd þjóðlendumála á þeim svæðum sem eftir er að taka afstöðu til og vona ég að góð sátt geti orðið um þá framkvæmd. Á hinn bóginn er ljóst að ágreiningur verður ugglaust eftir sem áður um einstök svæði og mörk almenninga, en það er eðli þessara mála, að sjónarmið eru mismunandi varðandi einstök svæði, svo sem skiljanlegt er.

Eitt af því sem ég tók til skoðunar á síðasta ári, og hafði verið gagnrýnt, var verklag við undirbúning kröfulýsinga ríkisins. Það er ekki launungarmál, að það fyrirkomulag sem viðhaft er, þ.e. að ríkið þarf að lýsa kröfum sínum í upphafi málsmeðferðar, þ.e. í reynd áður en gagnaöflun er lokið í málunum, leiðir óhjákvæmilega til þess, að kröfugerð ríkisins verður umfangsmeiri en ella þyrfti að vera. Það er skiljanlegt að þetta hafi valdið óánægju landeigenda.

Á síðasta ári gerði fjármálaráðuneytið tillögu til óbyggðanefndar um að þessu fyrirkomulagi yrði að nokkru leyti breytt og féllst óbyggðanefnd á sjónarmið okkar að þessu leyti.

Hið breytta verklag við undirbúning kröfulýsinga ríkisins í þjóðlendumálum byggist á því að lengdur er sá tími sem íslenska ríkið hefur til undirbúnings kröfulýsingum sínum. Mun óbyggðanefnd í því sambandi upplýsa ríkið fyrr um fyrirhugaða töku svæðis til meðferðar en nú er, þ.e. áður en hinn formlegi frestur til að lýsa þjóðlendukröfum hefst. Samhliða verður sú breyting á verklagi, að hafist verður fyrr handa við öflun gagna og skjala varðandi það svæði sem fyrirhugað er að komi til meðferðar, í samræmi við sérstakar leitaráætlanir. Í því felst að stefnt er að því að gagnaleit hefjist fyrr hjá Þjóðskjalasafni en nú er og gert er ráð fyrir að leit að þeim grundvallargögnum sem hingað til hafa verið lögð fram undir rekstri málanna hjá óbyggðanefnd hefjist nú áður en íslenska ríkinu verður gert að skila kröfulýsingum. Er markmið verklagsbreytingarinnar það að sem mest af gögnum liggi fyrir áður en til kröfulýsingar ríkisins kemur. Í þessu sambandi skal m.a. bent á að forvinna vegna næsta svæðis hefur þegar hafist á vegum íslenska ríkisins með beiðnum um leit að gögnum, í samráði við óbyggðanefnd og Þjóðskjalasafn. Er við það miðað að af þessu geti leitt að kröfulýsingar ríkisins geti þá þegar í upphafi tekið mið af helstu gögnum sem fyrir liggja um viðkomandi svæði.

Annað sem af framangreindri endurskoðun minni á þessum málaflokki leiddi var að ákveðið var að fara að nokkru leyti hægar í sakirnar en hingað til hefur verið stefnt að. Það er ljóst að þau tímamörk sem menn settu sér í upphafi, þ.e. á árinu 1998, hafa ekki staðist og hefur frestur til að ljúka þesssari heildarvinnu verið lengdur. Það er hins vegar afstaða mín, að vegna mikilvægis þessa málaflokks og þess hversu mikilvægt er að farið sé nákvæmlega ofan í saumana á eignarheimildum o.fl., er það mat mitt að betra sé að fara sér hægar en hraðar.

Af þessum ástæðum leitaði fjármálaráðuneytið eftir því við óbyggðanefnd sl. haust, að það svæði sem er til meðferðar, svokallað svæði 7, Mið-Norðurland, sem er í reynd gríðarstórt, og náði frá jöklum í suðri og norður allan Tröllaskaga, að því yrði skipt í tvo hluta, þannig að einungis yrði tekinn til meðferðar nú suðurhluti svæðisins, þ.e. hálendið sunnan byggðar í Eyja- og Skagafirði.

Mat mitt er það að með þessu gefist kostur á að endurmeta þörf fyrir kröfugerð m.a. á norðanverðu landinu. Hef ég þá m.a. í huga, að enn er beðið niðurstöðu óbyggðanefndar vegna þjóðlendumála í Mývatnssveit og í Grýtubakkahreppi. Mun ég fara vandlega yfir þá úrskurði áður en ég legg til frekari kröfugerð í Eyjafirði og í Skagafirðinum.

Að lokum má geta þess að á síðasta ári var að auki tekin sú ákvörðun af hálfu ríkisins, um að una að öllu leyti úrskurði óbyggðanefndar á Norð-Austurlandi, en málshöfðunarfrestur vegna þess úrskurðar rann út núna um síðustu áramót. Þetta eru kannski nokkur tíðindi, þar sem áður hefur ríkið jafnan borið undir dóm tiltekin atriði í úrskurðum nefndarinnar á einstökum svæðum, þ.e. þegar ekki hefur verið fallist á kröfugerð ríkisins til þjóðlendna.

Þetta á sér þó nú ákveðnar skýringar. Meginástæða þess að ríkið taldi rétt að láta reyna á ýmsa þætti í ákvörðunum óbyggðanefndar á Suðurlandi, var til að fá fram afstöðu dómstóla til tiltekinna mikilsverðra ágreiningsefna, ekki hvað síst til að draga af lærdóm varðandi framhald málanna. Hefur Hæstiréttur þannig þegar tekið afstöðu til ýmissa mikilsverðra þátta og má draga allnokkrar ályktanir af dómunum varðandi ýmsar aðrar aðstæður, þó svo að um þær hafi ekki beinlínis verið dæmt.

Af framangreindum ástæðum var m.a. tekin sú ákvörðun á síðasta ári, að una úrskurði óbyggðanefndar varðandi svokölluð Smjörfjöll. Þar eru aðstæður í megindráttum þær að jarðir liggja báðum megin við fjallgarðinn, sem talinn var hafa á sér allnokkurn þjóðlendublæ. Að mati óbyggðanefndar var hins vegar talið að lýsingar einstakra jarða næðu til miðfjallsins og að ekki væri ástæða til að draga eignarrétt jarða hvoru megin í efa.

Við þessa niðurstöðu óbyggðanefndar ákvað ríkið að sætta sig við. Má að sönnu draga nokkrar ályktanir af þessu varðandi fyrirkomulag kröfugerðar ríkisins í framtíðinni. Þessi afstaða leiðir jafnframt til þess að ég tel með sama hætti mega una við þá niðurstöðu óbyggðanefndar, að því er varðar Esju-svæðið, að jarðir sem liggja hvorum megin að Esju-fjöllum, teljist ná saman í miðfjalli, í samræmi við afstöðu óbyggðanefndar. Hef ég falið lögmanni ríkisins að leitast eftir því að dómsmál sem rekið er vegna Esjunnar, verði fellt niður fyrir héraðsdómi.

Er það trú mín, að þessi afstaða, sem hér var lýst, muni einfalda nokkuð kröfugerð af hálfu ríkisins hér eftir, en rétt er þó að ítreka að hér er sérstaklega horft til þessara aðstæðna sem þarna eru, m.a. að eignarjarðir liggi saman eins og ég var að lýsa.

Að lokum má geta þess að fjármálaráðuneytið hefur breytt verklagi í nokkrum öðrum þáttum þjóðlendumála, sem ekki er ástæða til að fjölyrða um hér, en von mín er að verði til bóta og jafnframt til að stuðla að því að viðunandi sátt verði um framkvæmd þessara mikilvægu málefna í framtíðinni og að þjóðlendumálum megi ljúka í eins mikilli sátt og frekast er unnt.

Athugasemdir og ábendingar varðandi framkvæmd þjóðlendumála hafa borist víða að og málin verið mjög í opinberri umræðu. Ég vil þó þakka framlag landssamtaka landeigenda til þessarar umræðu og hef ég reynt að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem frá stjórn samtakanna hafa komið, eftir því sem frekast hefur verið talið unnt. Sú stefnumörkun sem átti sér stað á síðasta ári og ég lýsti hér áðan, hefur að mínu mati verið í anda þeirra ábendinga sem samtökin hafa komið fram með.

Það er hins vegar ljóst og geri ég ráð fyrir að menn hér eins og annars staðar hafi á því skilning, að við framkvæmd þjóðlendumála ber mér sem fjármálaráðherra og fyrirsvarsmanni ríkissjóðs í þjóðlendumálum, að gæta þeirra almennu hagsmuna sem lög um þjóðlendur leggja mér á herðar. Með góðu samkomulagi um framkvæmd laganna tel ég að gæta megi þeirra hagsmuna en samhliða taka tillit til mikilsverðra sjónarmiða landeigenda í landinu. Fyrir því er fullur vilji af minni hálfu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta