Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

17. ágúst 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Hugleiðing um líf og sögu þjóðarinnar

Ræða Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, flutt í Hóladómkirkju sunnudaginn 16. ágúst 2009.

Í sinni mögnuðu bók, Dagur í Austurbotni, lýsir verðlaunaskálið Antti Tuuri, með ótrúlega næmum en beinskeyttum hætti lífi fólksins á þeim slóðum. Þó eins og nafn sögunnar beri með sér séu aðeins raktir atburðir eins dags, u.þ.b. 14 klukkustunda nánar tiltekið, verður hin glögga mynd sem skáldið dregur upp til þess að maður fær heilmikla innsýn í mannlíf, hugsunarhátt, lífskjör og aðstæður fólks við Austurbotninn þar sem grimm saga innbyrðis átaka og styrjalda, fasisma og kommúnisma, lúrir í bakgrunninum.

Hins vegar tekur eitt mesta skáld rómönsku Ameríku, Gabriel García Marquez, fyrir heil hundrað ár, í sinni stórbók, 100 ára einsemd. Og þar gildir það sama, við fáum innsýn í og öðlumst skilning á og finnum til með, fólkinu sem hann fjallar um og fylgir eftir í bók sinni í heila öld.

Risi íslenskra bókmennta, Halldór Kiljan Laxness, hefur gert enn betur, því segja má að hann hafi tekið fyrir kafla á víð og dreif úr allri okkar ellefu og tæplega hálfrar aldar sögu, í mörgum af sínum öndvegisverkum. Gerplu, frá söguöldinni, Íslandsklukkunni, síðari hluta miðalda, og hverri perlunni á fætur annarri sem lýsa lífi og högum íslendinga í aðdraganda þess að skáldið sjálft fæddist, og langt fram eftir þeim tíma sem hann lifði. Með Sjálfstætt fólk, Sölku Völku, Brekkukotsannál, Atómstöðina og fleiri öndvegisverk í broddi fylkingar dregur skáldið upp ótrúlega skarpa mynd og sér með sínum augum atburði í okkar sögu, lýsir lífi og kjörum fólks, hugsunarhætti þess og greinir þann tíðaranda sem ríkti.

Að sjálfsögðu er það skáldið sem tjáir sína upplifun, tilfinningu og skoðanir á mönnum, málefnum og atburðum og við vitum að þar er ekki sagnfræðingur á ferð, heldur skáld, en þau þjóna líka stóru hlutverki í því að búa til vitund okkar um okkur sjálf, það hvað við vorum, hvað við erum og hvað við munum verða.

Ég hef velt því fyrir mér á undanförnum mánuðum, já reyndar undanförnum árum, hvernig einhver Laxness framtíðarinnar, því auðvitað vonumst við til að eignast aftur aðra slíka, muni fjalla um nýliðin ár og yfirstandandi atburði Íslandssögunnar, kannski eftir 50, 100 eða 200 ár

Hverjir þeir sem skrifa munu sögu fyrstu tveggja eða þriggja áratuga aldarinnar sem nú er hafin munu hafa úr ærnum efnivið að moða. Ýmsir eru þegar byrjaðir með nánast samtímaverkum um efnahagshrunið, stjórnmálaþróunina og afleiðingar alls þessa fyrir okkur.

En, þegar frá líður verður skrifað um þá hluti með öðrum hætti; af yfirvegun þeirrar fjarlægðar sem þá er orðin á atburðina, og ekki síst á grundvelli þess sem þá liggur fyrir um, hvernig úr hlutunum vannst.

En fyrst, góðir áheyrendur, þurfum við að lifa í gegnum þessa tíma. Við þurfum og erum með lífi okkar og starfi og verkum öllum að búa til efniviðinn í söguna, og sérstaklega er okkar verkefni og öllu öðru mikilvægara að leggja grunn að góðum endi. 

En þá aðeins að upphafinu, orsökum og aðdraganda þeirra aðstæðna sem nú eru uppi á Íslandi. Því það er að sjálfsögðu eitt af því sem við þurfum að glíma við, að greina og skilja, rannsaka og upplýsa, átta okkur á og læra af. Ég er að sjálfsögðu ekki hlutlaus greinandi í þessum efnum. Ég hef mín viðhorf og mína afstöðu til mála og dreg engan dul á það að ég horfi á þessa hluti undir heilmiklum áhrifum minna lífsskoðana, gilda og pólitísku sýnar. Þetta er því greining sjóaðs stjórnmálamanns og virks þátttakanda og sumpart geranda í atburðarrásinni sem þið fáið að heyra. En hún er u.þ.b. eftirfarandi:

Varðandi aðdraganda og meginorsakir þeirra erfiðleika sem Íslendingar hafa ratað í, standa nokkrir hlutir upp úr:

Í fyrsta lagi er það hugmyndafræði, gildi, afstaða, viðhorf, siðferði. Enginn vafi er á því, í mínum huga, að drjúgur sökudólgur hér er hugmyndafræði, hugsunarháttur, gildismat og tíðarandi, jafnvel má segja tíska, sem reyndist okkur ekki vel.  Það var hin blinda efnis- og markaðshyggja, það var dýrkun græðginnar, það var það siðrof sem var að verða í íslensku samfélagi sem við erum að súpa seyðið af. Þar með er að sjálfsögðu einnig mikill þáttur þeirra stjórnmálamanna og hugsuða sem gengu þessum hlutum á hönd og voru boðberar og /eða gerendur fyrir. Athafnir banka- og viðskiptajöfranna sjálfra, hafa orðið okkur harla dýrkeyptar. Þeir sigldu ljúfan byr tíðarandans og umhverfisins sem þeim var skapað eða þeir bjuggu sér til. Glæframennska þeirra og glópsskapur, svo ekki séu notuð um það enn sterkari orð, er orðið að harmleik.  Ég lét hafa það eftir mér á fundi með norrænum bændahöfðingjum á Hótel Sögu á dögunum, að þessi nafngift sem á þá var fundin, útrásarvíkingana, væri í raun og veru ekki sanngjörn, þ.e.a.s hún gerði gömlu víkingunum okkar órétt til. Þó ýmislegt megi nú um þá segja, víkingana hina einu og sönnu, og við skrifum ekki í dag upp á margt sem þeir aðhöfðust, þá voru þeir mætir um margt. Þeir gerðu fleira en að fara ruplandi og rænandi um hinn norð-vestlæga heim.  Þeir skópu einnig menningu, bókmenntir, voru að yrkja landið og byggja upp sín samfélög, stunduðu kaupskap og heiðarleg viðskipti, í bland við ránsferðir og vopnaskak vissulega, en það voru nú ekki beinlínis friðardúfur á hverju bóli þá hvort sem var. Almennt var fólk víkingaaldar auðvitað fyrst og fremst að afla brauðs í svita síns andlits. Að hinu sama verðum við að hyggja í dag, að allur þorri athafnamanna og almennra starfsmanna í bönkum t.d. gerði ekkert nema að mæta í vinnuna og rækja sínar skyldur af samviskusemi.  Við megum ekki dæma allan skóginn eftir nokkrum rotnum trjám. Við verðum líka að horfast í augu við að okkar eigin eftirlitsstofnanir og stjórnsýsla, reyndust ekki vandanum vaxin, e.t.v. líka að einhverju leyti  blinduð af glámskyggni tíðarandans og sváfu þar á verðinum sem árvekni hefði þurft við.

Ég hef oft nefnt fjölmiðla í þessum efnum og það hvernig þeir einnig brugðust okkur, spiluðu með og sinntu ekki sinni gagnrýnis- og aðhaldsskyldu, - ekki það að ég sé sérstakur talsmaður þess að fjölmiðlar flytji eingöngu neikvæðar fréttir og rífi niður, en málefnaleg gagnrýni og aðhald þarf alltaf að vera til staðar.  Svipað má reyndar segja um fræðasamfélagið, og jafnvel ýmis félagasamtök.  Hefðu menn ekki þar getað staðið sig betur, verið betur niðri á jörðinni, leyft heilbrigðri skynsemi, óbrenglaðri dómgreind og siðferðismati að ráða meiru um afstöðu sína? Hefði þá ekki betur farið? Í reynd lít ég svo á að ófarnaður okkar sé ekki síst ósigur gagnrýnnar hugsunar, og þess að að henni sé ætíð hlúð. Ef gagnrýni er sett fram með uppbyggilegum hætti og í uppbyggilegum tilgangi, þá á að leggja eyrun við, það á ekki að reyna að afgreiða þá sem á einhverjum tímum hafa efasemdir um vegferðina, tískusveiflu eða ríkjandi hugmyndafræði sem í augnablikinu virðist óumdeild, þá á ekki að afgreiða slíkt út af borðinu með því að hlæja að eða velja háðuleg orð þeim gagnrýna eða vara við.  Slíkir eru alltaf hollir hverju samfélagi og hverri vegferð. Vinur er sá er til vamms segir. Ekki veldur sá er varar.Efinn, hinar áleitnu spurningar, prófin sem við látum hlutina undirgangast, þessu má aldrei sleppa.

Tjónið sem við höfum orðið fyrir er mikið. Það er ekki bara efnahagslegt og ekki einu sinni allt efnislegt, þó það sé fyrirferðarmest í umræðunni, einfaldlega hið mikla tjón sem íslenskt samfélag og þjóðarbú hefur mátt taka á sig vegna efnahags- og bankahrunsins.  Eftir sitjum við sem þjóð, með verulega þungar skuldir. Ríkissjóðurinn okkar, atvinnulífið, heimilin, sveitarfélögin, - já allar helstu máttarstoðir samfélagsins, hafa nú mátt axla og eru að axla þungar byrðar.  Þær eru þó viðráðanlegar, fyrst og fremst vegna þess að við erum gæfusöm að vera í grunninn, ríkt, þróað samfélag með öfluga innviði og sterkar auðlindir og mikinn mannauð.  Við erum vinnusöm og dugleg þjóð og allt þetta kemur okkur til góða þegar við nú hefjum endurreisn samfélagsins. 

En tjónið er líka óefnislegt. Orðstír landsins hefur skaddast. Það þykir ekki fínt lengur að flagga því í alþjóðlegum viðskiptum að vera íslenskur eða að hafa íslenska kennitölu. Við þurfum að sanna okkur, upp á hvern einasta dag, að það sé óhætt að eiga við okkur viðskipti. Að við getum staðið við samninga og skuldbindingar. Að fyrirtæki geti afgreitt vörur, tryggt afhendingu þeirra. Að unnt sé að millifæra fé til okkar banka og þar fram eftir götunum. Það er verk að vinna, góðir landsmenn, að endurheimta það annars ágæta orð sem af okkur fór og það er sárt til þess að vita, að íslenska ríkið, sem hafði fram að hruninu og er reyndar enn, einhver áreiðanlegasti greiðandi sinna erlendu skulda og alþjóðlegra skuldbindinga sem um getur, land sem ætíð greiddi á réttum tíma framlag sitt til alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna, sem er meira en hægt er að segja um ýmsa aðra, að þessi skuggi skuli nú hafa fallið á annars okkar ágæta orðspor. En þessu verðum við að kyngja og úr þessu verðum við að bæta.  Við þurfum einfaldlega að sanna okkur á nýjan leik. Að við séum, þrátt fyrir það, hversu fáeinir glæframenn fóru illa með okkur, eftir sem áður, heiðarleg og vinnusöm þjóð sem vilji standa við sínar skyldur og skuldbindingar og hægt sé að eiga heiðarleg samskipti við.  Og við höfum líka orðið fyrir tjóni hvað varðar okkar sjálfmynd og sjálfsvitund.  Því verðum við að kyngja sömuleiðis. Við þurfum að gera upp málin, og við þurfum ekki síst að læra af þeim.  Nógu dýrt er nú áfallið samt þó við látum ekki það tækifæri okkur úr greipum ganga að draga af þessu lærdóma, sérstaklega þá hvað við þurfum að forðast og í hverju við megum aldrei aftur lenda. Hremmingar Íslands nú er því miður mikið skólabókardæmi um það hvað þjóðir mega ekki láta henda sig.

Og þá vil ég aðeins snúa mér að því hvað kemur næst, hvað þarf til ?

Við þurfum augljóslega að leggja krafta okkar saman á öllum sviðum þjóðlífsins næstu misseri til þess að sigrast á erfiðleikunum. Við þurfum eftir föngum að standa vörð, að sjálfsögðu um okkar velferðarkerfi, og búa eins vel og efni þjóðfélagsins leyfa, að þeim sem höllum fæti standa og þurfa á stuðningi að halda. Og til þess verðum við hin einfaldlega að sætta okkur við að leggja meiri byrðar á okkur. Við, sem erum svo lánsöm að vera heilsuhraust, að vera í góðri vinnu og hafa sæmilegar tekjur verðum að sætta okkur við að deila meiru af okkar gæðum með hinum sem erfiðara eiga.

Við þurfum í öðru lagi að sameinast um að viðhalda trú og bjartsýni á framtíðina.  Það ljós má aldrei slokkna. Viljinn dregur langt í þessum efnum og það gerir líka óbilandi trú á möguleika Íslands og bjartsýni á framtíðina.  Það er engin ástæða til annars, þrátt fyrir það áfall sem hér hefur orðið.

Þjóðin sem með þrotlausri vinnu þriggja fjögurra kynslóða reis úr öskustó fátæktar og niðurlægingar sótti sér í áföngum sjálfstæði og einhver mestu lífsgæði sem þekkjast í heiminum er talandi dæmi um það sem getur gerst, líka hjá fámennri þjóð sem er landfræðilega einangruð og sem býr við óblíð náttúruöfl en vissulega um leið gjöful. Möguleikar Íslands eru nánast einstæðir í heimi dagsins.  Það eru varla nokkur dæmi um þjóðir, nema ef vera skyldi Grænlendingar handan við sundið, sem þrátt fyrir allt eru jafn ríkulega búnar auðlindum og við. Fámenn þjóð sem hefur fengið stórt og gjöfult og einstakt land til varðveislu og búsetu. Með allar okkar auðlindar í sjó og á landi, fiskinn, gróðurmoldina, orkuauðlindirnar.  Landið sjálft, landslagið og fegurðina og að eiga síðan okkur sjálf, unga, vinnusama, vel menntaða þjóð, eru allt gríðarlegar auðlindir. Við búum núna að allri þeirri uppbyggingu, öllum þeim þjóðarauði sem velmegun undangenginna áratuga hefur skapað. Við eigum glæsilegar byggingar, samgöngukerfi, skóla, sjúkrahús, innviði sem eru með því besta og ríkulegasta sem þekkist í heiminum.  Jú, við erum vissulega skuldug. Vorum það reyndar fyrir hrunið með þeirri einu undantekningu sem var ríkissjóður, en nú hefur einnig þar orðið hastarleg breyting á. En á móti því standa gríðarleg verðmæti, og þess vegna verð ég að segja það, góðir áheyrendur, að það særir mig og mér finnst það óviðeigandi, þegar að staða okkar nú, þó við höfum orðið fyrir þessu áfalli, er borin saman við ógæfusöm, bláfátæk þróunarlönd sem eiga ekkert af því sem við eigum, þau eiga ekki einu sinni vatn til að drekka, varla nokkra gróðurmold eftir til að yrkja, litlar eða engar orkuauðlindir; eiga fátt nema blásna sanda og brennandi sól, erfiða sögu átaka og kúgunar og iðulega í klóm gerspilltra valdhafa eða harðstjóra nema hvorutveggja sé. Ólæs almenningur og börn sem deyja umvörpum vegna skorts á mat, lyfjum mannsæmandi húsnæði og heilnæmu umhverfi þetta er okkur fjarlægur veruleiki. Fólk á vergangi eða í flóttamannabúðum milljónum saman, jafnvel kynslóð fram af kynslóð þar sem engin framtíð bíður, þar sem reiðin og hatrið, ofstæki og örþrifaráðin finna frjóan jarðveg. Það er ennþá og óháð öllu krepputali gæfa að fæðast Íslendingur. Hér er og skal áfram verða gott að lifa og starfa, eldast og deyja.

Við Íslendingar eigum líka eitt best uppbyggða og öflugasta lífeyrissjóðakerfi í heiminum. Við höfum á undanförnum fjórum áratugum eða svo, byggt jafnt og þétt upp okkar sparnað til efri áranna og tökum hann með okkur inn á eftirlaunaaldurinn og þessi auðæfi okkar eru að fróðra manna dómi, talin fullkomlega ígildi þess sem að Norðmenn eiga á hvern mann í sínum fræga olíusjóði.  Þannig að Ísland er norrænt, ríkt og þróað velmegunarríki sem hefur lent í erfileikum, munum það.

Við þurfum síðan að leggja mikla vinnu í úrvinnslu þessara atburða.  Við þurfum að vinna úr og komast frá þessum kafla í okkar sögu. Því við munum þurfa að lifa með því, næstu áratugina, að Ísland rataði í ógæfu, varð fyrir miklu tjóni. Við þurfum að skýra og skilja og rannsaka hvernig það gerðist, auðvitað innan marka leikreglna réttarkerfisins, að draga þá til ábyrgðar sem ábyrgð eiga að bera og láta þá taka út sína refsingu sem það þurfa að gera, en það á ekki að vera eina markmið, og í raun og veru ekki einu sinni aðalmarkmið slíkra rannsókna, heldur hitt, að þetta þurfum við að gera og upplýsa til að komast frá þessum atburðum sem þjóð með sem minnst ör á sálinni. Við þurfum að nálgast þetta með réttu hugarfari. Besta dæmið sem ég þekki um þjóðir sem hafa lent í dapurlegum köflum í sinni sögu er frá þeim vísu mönnum sem réðu ferðinni eftir að kynþáttaaðskilnaðarstefnan leið undir lok í S-Afríku. Þeir virðingarverðu menn, sem þar réðu för, snillingar eins og Nelson Mandela og Desmond Tutu, þeir lögðu grunninn að hinni félagslegu, pólitísku og andlegu endurreisn S-Afríku. Með sannleiksnefndum, ekki bara með því að elta uppi þá sem ábyrgð báru, heldur allt eins, og jafnvel ekki síður, að fyrirgefa þeim, sem orðið höfðu á mistök, og reyna að búa til forsendur sátta í samfélaginu, þrátt fyrir þær hörmungar, mannréttindabrot og erfiðleika sem hinn grimmi tími ómennskrar kynþáttaaðskilnaðarstefnu hafði leitt yfir allan þorra almennings í S-Afríku, og ekki síst hinn þeldökka meirihluta.

Hugsið ykkur fordæmið sem Nelson Mandela, sem eyddi, ef ég man rétt, 27 árum æfi sinnar í fangelsi, hefur gefið okkur öllum, eða Mahatma Ghandi, þess vegna, með sínum ástríðuþrungna friðarboðskap og sínum friðsamlegu aðgerðum? Það að þessi litli og horaði maður, vafinn í hvítan dúk, lagði yfirráð sjálfs breska heimsveldisins að velli á Indlandi, með friðinn og mannkærleikann einan að vopni er eitt af mestu afrekum mannsandans á síðustu öld. Af þessu öllu getum við lært.

Ég get ekki látið hjá líða að nefna það aðeins til sögunnar að nú eru rétt hundrað ár frá því afi minn Jóhannes Árnason bóndi á Gunnarsstöðum var nemandi í Hólaskóla. Hann minntist þess tíma alltaf með mikill hlýju og ég held að dvöl hans hér hafi haft heilmikil áhrif á búskaparhætti á Gunnarsstöðum í framhaldinu, rétt eins og gerði dvöl föður hans Árna Davíðssonar í skólanum í Ólafsdal áður.

Önnur af  mínum fyrirmyndum í lífinu, var frændi minn á Gunnarsstöðum, Óli Halldórsson. Óli var mikill maður og stór í sniðum. Hann var hugsandi og fjölfróður, að mestu sjálfmenntaður erfiðisvinnumaður og kennari. Hann sagði reyndar að það væri hvergi betra að hugsa en í fjósinu, hann fyndi svo margar góðar hugmyndir eða vísur í flórnum. Ein hans kostulega kenning sem og ég heyrði hann útlista ungur, var þetta með hroðvirknina og dugnaðinn. Hann sagði einfaldlega þetta: „Það er vont ef hroðvirkir menn eru duglegir, því þá gera þeir svo mikið illa“, - mér hefur stundum orðið hugsað til þessa þegar  banka- og útrásarvíkingarnir okkar eiga í hlut, þeir reyndust sannarlega hroðvirkir. Og það hefði vissulega verið betra ef þeir hefðu ekki verið svona afkastamiklir, þá hefðu þeir ekki gert svona mikið illa.

Forsætisráðherra Ástralíu efndi eitt af sínum kosningaloforðum strax eftir stjórnarskipti þar í landi og bað frumbyggja landsins, Aboriginals, afsökunar á harðræði og illri meðferð liðinna áratuga og alda. Forsætisráðherra okkar Jóhanna Sigurðardóttir bað Breiðuvíkurdrengina og aðra þá sem liðu fyrir eitthvað hliðstætt afsökunar. Íslensk stjórnvöld eiga enn óaðgert í slíkum efnum. Mér finnst að það eigi að biðja þá afsökunar sem sættu óréttmætum og væntanlega ólögmætum persónunjósnum og símhlerunum vegna skoðana sinna. Mér finnst að það eigi að biðja íslensku þjóðina afsökunar að nafn hennar var lagt við ólögmætt árásarstríð í Írak og þá þjóð í leiðinni. Þá sem sættu þvingaðri vönun vegna einnar saman fötlunar ætti að biðja afsökunar. Og hvernig er það? Þurfa ekki ýmsir að biðjast afsökunar nú. Ég bíð eftir afsökunarbeiðni þeirra sem báru ábyrgð á Landsbankanum síðustu árin. Og ekki væri verra ef þeir kæmu svo með auð sinn þann sem eftir kann að standa einhvers staðar og leggðu hann í púkkið til að bæta tjónið. Hlýtur ekki að koma afsökunarbeiðni bráðum frá þeim sem einkavæddu Landsbankann, frá bankastjórum, bankaráðsmönnum og eigendum sem með atferli sínu hafa valdið þjóðinni ómældu tjóni og sálarangist. Þegar ég sá að Kjartan Gunnarsson, sem var ýmist formaður eða varaformaður bankaráðs Landsbankans gamla lengi vel, var að skrifa stórgrein á heiðursopnu Morgunblaðsins í fyrradag og fjalla um icesave málið þá datt mér ekki annað í hug en að hann væri að biðjast afsökunar. Það var nú ekki og hann af öllum mönnum undir sólinni taldi sig vera í siðferðilegri aðstöðu til annarra hluta. Nær væri að allir þeir sem mesta ábyrgð bera á hruni bankanna, ekki síst Landsbankans, bæðu þjóðina afsökunar á því mikla tjóni sem þeir hafa valdið komna krjúpandi á hnjánum.

En úr því að hið erfiða icesave mál ber hér óvart á góma, sem alls ekki var nú ætlunin að fjalla um, þá vil ég samt nota tækifærið og fagna þeirri tiltölulega víðtæku samstöðu sem tókst í fjárlaganefnd og vonandi á þingi almennt um afgreiðslu málsins. Það eiga allir mikið hrós skilið sem þar lögðu sitt af mörkum og alveg sérstaklega þó nefndarmenn bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkanna.    

Kannski er þá tímabært að við veltum aðeins fyrir okkur óhófinu, græðginni eða lönguninni í sífellt meira, sem drífur marga áfram? Af hverju er það svoleiðis, með mannskepnuna að við skulum ekki vera nægjusamari og ánægðari með það sem við höfum, þegar það er orðið nóg, þegar við höfum, eins og við segjum mörg, allt til alls og okkur líður vel, okkur vantar í raun ekkert meira?  Ef við eigum þak yfir höfuðið, ef við höfum vinnu, ef við höfum nóg til daglegra þarfa, og svo eitthvað aðeins í viðbót til að gera okkur dagamun, af hverju er þá þessi þörf svona sterk í manninum að samt þurfum við eitthvað meira ? Að nóg sé aldrei nóg? Ég veit það ekki. Ég held það sé ekki endilega vegna þess að við séum svona í eðli okkar, þó það geti vissulega verið þáttur, að arfur frá löngu liðnum tíma sífelldrar baráttu við skortinn frá tímum safnara- og veiðimanna menningarskeiðanna, að það sé aldrei neitt öruggt, og að þú þurfir sífellt að reyna að eiga meira, meiri forða, meiri birgðir.

En hefur þá öll þróun samfélagsins og mannsandans um árþúsundir ekki nægt til þess að þróa okkur í burtu frá þessum aðstæðum? Eða er það vegna hins, að græðgin, efnishyggjan er sífellt nærð? Á hana er sífellt borinn áburður, hún er gyllt og henni er hampað af voldugum öflum í heiminum á sama tíma og nægjusemi og innihaldsríkt líf er talið viðeigandi hlutskipti fyrir sérvitringa. Ég veit það ekki en ég hugsa mikið um það.

Loks held ég að eitt stórt viðbótarverkefni bíði okkar Íslendinga, sem við megum ekki vanrækja, hvorki nú né endranær, og það er að horfa fram á veginn og ræða um gildin, um samfélagið okkar, um hvers konar þjóðfélag og mannlíf við viljum? Ég hef velt því fyrir mér að ef fyrir tíu árum síðan, hefði átt sér stað þróttmikil umræða um slíka hluti og vísustu menn og almenningur allur hefðu verið með í að bollaleggja sem svo: Jæja, nú eru aldamótin að nálgast, og við ætlum að ræða það hvernig við viljum að samfélagið þróist næstu árin, hvernig þjóðfélag og mannlíf við viljum sjá hér og hvað við teljum heppilegt að leggja áherslu á?

Er líklegt að út úr slíkri vinnu, slíkri rökræðu, slíkri umræðu, hefði komið sú niðurstaða að á næstu árum á eftir ætluðum við að þenja út bankakerfið okkar og fara með það í útrás, sem og viðskiptalífið, þangað til að þar væri komið að það skuldaði í útlöndum tólffalda - þrettánfalda landsframleiðslu ? Er líklegt að út slíkri stefnumótunar og hugmyndafræðivinnu hefði komið að á löngu árabili væri skynsamlegt að byggja þrisvar sinnum fleiri íbúðir á ári á höfuðborgarsvæðinu en þyrfti fyrir íbúafjöldann þar og eðlilega fólksfjölgun? Ég held ekki.

Og þá hefði það kannski orðið, að þegar þessir hlutir fóru að gerast, þá hefðum við séð að okkur var að bera af leið, þá hefðum við séð að við vorum að fara út fyrir rammann, gul ljós hefðu blikkað og við hefðum fyrr getað gripið í taumana.

Við ætlum ekki að láta hliðstæða atburði endurtaka sig og þess vegna held ég að núna sé rétti tíminn, og í framhaldinu, næstu misserin, samhliða endurreisnar - og uppbyggingarverkefnunum að leggja þessar línur inn í framtíðina, hvers konar samfélag viljum við að verði hér á Íslandi árið 2020? Örugglega ekki hið græðgivædda efnis- og neysluhyggjusamfélag sem hér myndaðist um skeið og með skelfilegum afleiðingum að lokum.

Ég held að það eigi ekki að vera erfitt fyrir íslensku þjóðina að sameinast um markmið og leiðir í þessum efnum. Við ætlum okkur að verða, á nýjan leik myndu kannski einhverjir segja, gott jafnréttissinnað norrænt velferðarsamfélag, opið, lýðræðislegt samfélag. Samfélag samhjálpar og nægjusemi, góðrar umgengni við land og náttúru. Samfélag sjálfbærrar þróunar sem setur sér alltaf þau markmið að ganga ekki á rétt komandi kynslóða, hvorki til umhverfisgæða né annarra þátta. Samfélag þar sem hinir umhverfislegu-, félagslegu-, og efnahagslegu þættir eru samofnir og engin rétthærri öðrum

Og auðvitað ætlum við okkur, á þessum tíma og á árunum sem þar á eftir koma, á þriðja, fjórða o.s.frv. áratug aldarinnar, að tryggja að börnin okkar og barnabörn, og auðvitað líka við, þau okkar sem ná því að koma saman á Þingvöllum árið 2030, eða jafnvel 2044, því þá læt ég mér detta í hug að þjóðin blási til samkomu, þá geti menn, með stolti litið til baka og sagt: „Jú, vissulega lentu Íslendingar í miklum raunum, þarna í lok fyrsta áratugar aldarinnar, en menn gáfust ekki upp“. Þeir hinir sömu, eða sama kynslóð og bar ábyrgð á hruninu, hún hafði þó manndóm í sér til að takast á við það, vinna úr því, gera það heiðarlega upp, endurreisa efnahag landsins og leggja grunn á nýjan leik að bjartri framtíð. Og þess vegna er þeim fyrirgefið, okkur öllum sem kynslóð, af því að við brugðumst ekki tvisvar, heldur bara einu sinni. Við brugðumst ekki í seinni hluta verkefnisins, að axla sjálf  byrðar, takast á við erfiðleikana og sigrast á þeim. Það er prófið og verður næstu misserin. Ætlum við, ráðandi kynslóð í landinu, ætlum við líka að bregðast í því að takast á við erfiðleikana og hrunið sem við sjálf berum auðvitað mikla ábyrgð á, þó ýmsir utanaðkomandi þættir hafi þar spilað inn í.

Nei, það skal ekki verða. Og ég, a.m.k. vil sem einstaklingur heita því, hér og nú, að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og er tilbúinn til að leggja mikið á mig og færa miklar fórnir til þess að þannig verði ekki.  Mér liggur við að segja að mér sé alveg sama hvað um sjálfan mig verður og hverju ég þarf að kosta til, sem einstaklingur og stjórnmálamaður til þess að leggja mitt litla að mörkum. Það skal takast að endurreisa Ísland og það mun takast.

Ég sé fyrir mér blómlegt og náið samband sjálfstæðra Færeyja, Grænlands og Íslands hér í útnorðrinu eins og frændur okkar segja. Þá verður Ísland kraftmikil samgöngumiðstöð þessa svæðis þar sem ferðaþjónusta er orðin stærsta atvinnugreinin þar sem ís og eldur, elsta og yngsta berg á jörðinni, matur, menning, ný og gömul hús, hvalir og norðurljós vetrarhiminsins leika sitt hlutverk. Ég sé Ísland sem miðstöð mikillar gagnavörslu og vinnslu í krafti sinnar legu, svala veðurs, landrýmis og grænu orku. Ég sé fyrir mér tíma þar sem vatnið er orðið að einni helstu virku auðlind okkar og jöklar ár og vötn landsins eru á heimsminjaskrá sem ein af sammannlegum gersemum heimsins. Ég sé fyrir mér Ísland sem kraftmikla miðstöð matvælastóriðju þar sem fullunnar og hágæða matvörur úr hreinu umhverfi sjávarútvegs og landbúnaðar eru eftirsótt gæði sem færri fá en vilja. Ég sé fyrir mér mannlíf og athafnasemi í öllum byggðum landsins. Ég sé fyrir mér Vatnajökulsþjóðgarð sem heimsþekkt aðdráttarafl, krúnudjásn, hjarta landsins.Ég sé fyrir mér herlausa friðelskandi þjóð sem bíður fram land sitt sem hlutlausan griðastað, vettvang samningaviðræna, alþjóðaráðstefnuhalds. Ég sé krossgötur margs konar samskipta og viðskipta austurs og vestur og opið hlið til norðurslóða.

Já, góðir gestir hér á Hólum, hér heima á Hólum okkar Norðlendinga, ég sé fagurt og frítt land með fannhvíta jöklanna tinda, enda hefur þá mannkynið gert yfirbót gagnvart náttúrunni og er hætt að grafa sér gröf með mengun og óhófi. Þar er Ísland meðal landanna löngu búið að leysa úr sínum erfiðleikum og deilumálum, virt og viðurkennt sem velferðar og menningarsamfélag. Þar býr stolt sjálfstæð þjóð og talar íslensku.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Gæfa fylgi Hólastað, okkur öllum og íslenskri þjóð     



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta