Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

28. september 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Efnahagslegt sjálfstæði endurheimt

Íslendingum er öllum kunnugt það gerningaveður sem reið yfir landið í október 2008. Fjármálakerfið var í aðalatriðum hrunið. Vextir og verðbólga voru 18%. Krónan var í frjálsu falli. Tekjur ríkissjóðs voru að hrynja og útgjöldin að stóraukast. Verkefnið var að afstýra endanlegri og algerri bráðnun íslenska hagkerfisins. En um það var talað. Hættan á algerri bráðnun hagkerfisins við fordæmalausar aðstæður, eins og sérfræðingarnir sögðu, haustið 2008 blasti við. Rætt var um hættuna á greiðslufalli og gjaldþroti þjóðarinnar. Við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að í október 2008 glataði landið nánast efnahagslegu sjálfstæði sínu. Verkefnið hefur verið að endurheimta það sjálfstæði og nú má með mikilli vissu fullyrða að það hafi tekist.

Algjör viðsnúningur á rekstri ríkissjóðs

Í ríkisfjármálunum hefur óumdeilanlega náðst mjög mikill árangur. Tökum þau sem dæmi. Í upphaflegri áætlun íslenskra stjórnvalda og AGS var gert ráð fyrir að hallinn á ríkissjóði, heildarjöfnuður, yrði neikvæður um 7,3% af vergri landsframleiðslu á yfirstandandi ári. Samkvæmt fjárlögum og horfum nú í sumarlok má ætla að hallinn verði u.þ.b. 2,5%. Það munar sem sagt yfir 60 milljörðum kr. hversu ríkisfjármálin standa betur núna á yfirstandandi ári en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Frumjöfnuður næst á þessu ári á rekstrargrunni en verður e.t.v. lítillega undir strikinu á greiðslugrunni.

Þessi mikla aðlögun í ríkisfjármálunum hefur farið fram á erfiðu samdráttarskeiði í þjóðarbúskapnum og á tiltölulega skömmum tíma. Það vekur mikla athygli. Nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, vekur sérstaka athygli á þessu og á því að tekist hefur að fara með íslenskt samfélag í gegnum þessa erfiðleika og ná þessum árangri án þess að kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu. Tekist hefur að hlífa lægstu launum við skattlagningu. Jöfnuður hefur aukist á Íslandi í staðinn fyrir ört vaxandi ójöfnuð á svokölluðum góðærisárum þar á undan. Gini-stuðullinn fyrir Ísland þróast nú í rétta átt ár eftir ár – í átt til meiri jöfnuðar.

 

Uppbygging bankakerfisins

Víkjum aðeins að uppbyggingu fjármálakerfisins sem mikið hefur verið rætt um. Ríkið hefur bundið samtals um 185 milljarða kr. í stóru bönkunum við endurreisn þeirra í formi eiginfjárframlaga og víkjandi lána. Ef staðan í dag er skoðuð er ljóst að ríkið hefur haft mjög góða ávöxtun á því fé sem það varð að binda í þetta verkefni sem er um 250 milljörðum minna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Það má ætla að ríkið fái þessa peninga að fullu til baka og komist frá endurreisn stóru bankanna án nokkurs taps í þeim skilningi að arðgefandi eignir og/eða endurseljanlegar eignir standi fyllilega undir því fé sem ríkið hefur bundið í verkefnið miðað við efnahagsreikninga bankanna. Þeir standa traustum fótum með hátt eiginfjárhlutfall.

 

Hagvöxtur tekinn við

Nýverið birtu OECD og Eurostat lista sína yfir hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi 2011. Kom þá í ljós að aðeins eitt land innan OECD er með meiri hagvöxt en Ísland. Á Íslandi mældist um 2% hagvöxtur sem er 1,7% yfir meðaltali OECD ríkjanna. Sterkar vísbendingar benda til þess að skriður sé að komast á hagkerfið og veitir að sjálfsögðu ekki af. Óvissa um framhaldið er nú ekki síður tengd þróun efnahagsmála í Evrópu og Norður – Ameríku en hér heima. Tíminn frá 2008 hefur sannarlega verið okkur Íslendingum erfiður og mörg ljón á veginum. Enn er enginn hörgull á vandamálum að benda á fyrir þá sem helga sig alfarið slíku. Hitt er ljóst og skiptir nú ekki litlu máli að náðst hefur að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, Ísland er komið út af hættusvæðinu sem við vorum á frá 2008 og fram á fyrstu mánuði síðastliðins árs. Einhvern tímann hafa menn nú látið það eftir sér að gleðjast yfir minna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta