Lífeyriskerfið - óvissuþættir og framtíðarhorfur
Ágætu fundargestir
Ég vil byrja á því að þakka fyrir að fá að taka þátt í þessu málþingi, sérstaklega þar sem málefnið sem til umræðu er skiptir okkur öll mjög miklu máli.
Ég hef undanfarna daga fengið aðstoð góðra manna við að setja mig betur inn í þenna frekar flókna málaflokk og það hefur komið mér hvað mest á óvart, hvað útfærslan er flókin og háð mörgum óvissuþáttum þrátt fyrir einfalda grunnhugsun. Mig langar í þessu stutta innleggi mínu að deila með ykkur nokkrum þeim atriðum sem ég staldraði við á þessari vegferð.
Í sjálfu sér er útgangspunkturinn í lífeyrismálum einfaldur, þ.e. að tryggja þeim sem lokið hafa starfsævinni framfærslu til æviloka. Málið flækist hins vegar um leið og kemur að því að svara spurningunum, annars vegar hverjum og hins vegar hvernig eigi að tryggja þetta.
Hér á öldum áður var það hlutverk stórfjölskyldunnar eða byggðalagsins að tryggja framfærslu þeirra sem einhverra hluta vegna gátu ekki framfleytt sér sjálfir. Það liggur í hlutarins eðli að framkvæmd þess var mjög mismunandi og fór meira eftir vilja og getu þeirra sem réðu en þörfum þeirra sem á þurftu að halda. Okkur hefur sem betur fer tekist að koma þessum málum í annan og betri farveg.
Það kerfi sem við byggjum á í dag er þríþætt.
Í fyrsta lagi almannatryggingakerfið, sem er gegnumstreymiskerfi, fjármagnað með sköttum og greiðir tiltölulega lágan og eftir atvikum tekjutengdan lífeyri. Hlutverk þess er fyrst og fremst að vera öryggisnet fyrir þá sem ekki eiga rétt samkvæmt öðru fyrirkomulagi.
Í öðru lagi lífeyrissjóðakerfið, sem er bæði sjóðssöfnunar- og samtryggingarkerfi, fjármagnað með skyldubundnum iðgjöldum og greiðir að meginstofni til þann lífeyri sem viðkomandi fær.
Í þriðja lagi séreignasjóðskerfið, sem er vinnutengt sparnaðarkerfi sem hverjum og einum er frjálst að taka þátt í.
Þetta er í sjálfu sér tiltölulega skýr grunnmynd en vandamálið er að hún hefur orðið til á löngum tíma og að einstaka hlutar hennar hafa verið útfærðir með mismunandi hætti gagnvart mismunandi hópum.
Þarna komum við að fyrsta álitaefninu og kemur það fram með hvað skýrustum hætti þegar borin eru saman eftirlaun ríkisstarfsmanna í B-deild LSR og annarra launamanna. Fyrir það fyrsta er B-deildin elsta formlega lífeyriskerfið og er þegar af þeirri ástæðu með meiri skuldbindingar en yngri kerfi. Eins er það blanda af gegnumstreymis- og sjóðssöfnunarkerfi sem yngri kerfi eru ekki og síðast en ekki síst þá er það fastréttindakerfi en ekki fastiðgjaldakerfi eins og yngri kerfin eru yfirleitt. Allt eru þetta þekktar staðreyndir og hafa verið lengi, en samt sem áður er í hinni opinberu umræðu og þá einkum nú í seinni tíð, oft látið eins og þetta séu nýuppgötvuð sannindi. Þetta höfum við vitað lengi og er úlausnarefni sem leggja þarf línur um sem fyrst. Að sjálfsögðu má ekki láta eins og ekkert sé.
Ekki er hægt að líta framhjá þeirri staðreynd að árið 2024 er ekkert lengur til í sjóði og ríkið þyrfti þá, ef ekkert verður aðhafst fyrr, að greiða aukalega til sjóðsins rúmlega 17 milljarða árlega í 11 ár og árið 2040 væri upphæðin komin niður í 10 milljarða aukalega og lækkar mjög hratt eftir það. Síðustu útgreiðslurnar eru á milli áranna 2060 og 2065. Eins væri hægt byrja strax að leggja fyrir og ef við legðum sjóðnum til viðbótar frá og með árinu í ár tæplega 8 milljarða á ári næstu 30 árin myndi það sleppa til.
Þetta eru dæmi um mismunandi leiðir sem hægt væri að fara, svo kemur margt annað til greina, en þar sem þetta er eitt af þeim verkefnum sem starfshópur skipaður, m.a. fulltrúum ykkar er að kljást við um þessar mundir ætla ég mér ekki á þessar stundu að segja af eða á um hvaða leið sé best þó almennt hugnist mér að undirbúa stórar aðgerðir og stefna að því tímalega að finna leiðir sem hafa sem minnstar aukaverkanir í för með sér.
En þetta er ekki eina álitaefnið á útfærslu lífeyrissjóðakerfa sem þarf að huga að. Þannig er það sammerkt öllum lífeyriskerfum á Íslandi að þurfa að glíma við það gleðilega mál sem er vaxandi lífslíkur á sama tíma og þeim sem greiða til sjóðanna fækkar. Þannig eru í dag ríflega fimm starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni en árið 2050 verða u.þ.b. tveir starfandi að baki hverjum eftirlaunamanni. Á sama tíma er talið að meðalævin lengist um tæp þrjú ár. Þessu til viðbótar hefur örorka farið hraðvaxandi.
Með samkomulagi allra aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga árið 2009 var ákveðið að setjast yfir þessi álitamál og freista þess að finna sameiginlega framtíðarsýn. Vinna þessa hóps fór af stað í byrjun febrúar 2010 og er hann enn að störfum.
Á ráðstefnu sem starfshópurinn stóð fyrir haustið 2010 var, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið, meginstefið í afstöðu þátttakenda að áherslan ætti að vera á samræmingu lífeyriskerfa og jöfnun réttinda.
Æskilegt væri að nýtt kerfi byði upp á meiri sveigjanleika og valfrelsi en núverandi kerfi en útgangspunkturinn væri að kerfið væri sjálfbært og fólk nyti ávaxta ævistarfsins sem í raun þýði að útgreiðslur úr lífeyrissjóðum haldist í hendur við inngreiðslur. Samhljómur var um að betra væri að hækka lífeyrisaldurinn en iðgjöldin og einnig voru menn almennt á þeirri skoðun að kerfið þurfi að hafa innibyggðan hvata til þess að vinna lengur. Það megi samt ekki verða til þess að skerða réttindi annarra sjóðfélaga. Þeir sem kjósi að vinna lengur eigi að geta greitt í lífeyrissjóð til starfsloka. Sveigjanleikinn þurfi líka að ná til lífeyrisgreiðslna og í því sambandi var rætt um möguleika á því að draga úr vinnu á seinni hluta starfsævinnar og fá á móti lífeyri að hluta. Þá var rætt hvort lífeyrisgreiðslur þyrftu alltaf að vera jafn háar eða hvort lækka mætti þær við ákveðin aldursmörk.
Samkvæmt mínum heimildum voru flestir sammála um að fækkun sjóða myndi skila sér í hagkvæmari rekstri. Stærri sjóðir væru betur í stakk búnir til að mæta sveiflum á fjármálamörkuðum sem og aukinni örorkubyrði. Einnig voru flestir á þeirri skoðun að heppilegast væri að sjóðfélagar tilheyrðu ólíkum starfstéttum því þannig myndi áhætta t.d. af örorku dreifast. Samhljómur var um það meðal þeirra sem að umræðunni komu að mikilvægt væri að lífeyrisréttindi væru áfram hluti af kjarasamningsbundnum réttindum og að stefna skuli að því að lífeyrissjóðirnir séu sjálfbærir til framtíðar. Menn voru einnig á því að sjóðssöfnunarfyrirkomulag væri mun heppilegra en gegnumstreymiskerfi en þó var einnig bent á að nauðsynlegt væri að tryggja lágmarksframfærslu í gegnum almannatryggingakerfi sem flestir töldu eðlilegt að væri gegnumstreymiskerfi. Þátttakendur voru einnig á því að tryggja þyrfi samræmi í lífeyriskerfinu á öllum vinnumarkaðnum m.a. til þess að fólk geti farið á milli starfa á almenna og opinbera markaðnum án þess að það hafi áhrif á lífeyrisréttindi.
Skiptar skoðanir voru meðal þátttakenda um það hvort byggja skyldi kerfið upp á föstum iðgjöldum eða föstum réttindum og þá með hvaða hætti hægt væri að tryggja þau réttindi. Þátttakendur voru sammála um að endurskoða þyrfti hlutverk lífeyrissjóða og samspil þeirra við almannatryggingakerfið og þá sérstaklega með tilliti til veikindaréttar og örorkulífeyris. Skoðanir voru skiptar hvað varðar örorkulífeyrinn því sumir töldu heppilegra að almannatryggingakerfið sæi alfarið um hann á meðan aðrir töldu skynsamlegra að hafa fyrirkomulagið eins og það er að því gefnu að ríkið haldi áfram að jafna byrði sjóðanna með framlögum.
Af þessum punktum má draga þá ályktun að aðilar séu sammála um meginstefnuna en hafa mismunandi skoðanir og áherslur á útfærslunni.
Starfshópurinn þarf að fá tækifæri til að ljúka störfum og setja fram niðurstöður sínar en markmiðið er að gera kerfin jafnstæð og finna leiðir til þess. Stefna á að einu sjálfbæru kerfi þar sem engin hindrun er á milli vinnumarkaða. Opinberir starfsmenn þurfa að geta skipt yfir í störf á almennum vinnumarkaði án þess að hafa áhyggjur af lífeyrisréttindum sínum og öfugt. Á því hvernig hlutverkum lífeyrissjóða og almannatrygginga er háttað þarf að skerpa og eins á samspili lífeyrissjóðakerfisins og almannatryggingakerfisins.
Þegar öllu er á botnin hvolft er ljóst að þegar að kemur að útgjöldum ríkissjóðs þarf að skoða allar breytur í þessum málum sem og öðrum, í ljósi heildstæðrar áætlanagerðar. Meta þarf ákvarðanir stjórnvalda áður en þær eru teknar og áhrif þeirra á ríkisbúskapinn til lengri tíma. Skipuleggja þarf og undirbúa hvernig ríkissjóður tekst á við skuldbindingar sínar, svo sem vegna B-deildar og aldurssamsetningar þjóðarinnar og áhrif mismunandi leiða á stöðu ríkissjóðs og þar með á þjónustu ríkisins við þá sem þurfa á henni að halda.
Að lokum vildi ég leggja áherslu á að málefni lífeyris- og bótakerfisins varða okkur öll og þau varða framtíð þessarar þjóðar. Því þarf að vanda til verka og horfa til langrar framtíðar. En ákvarðanir verður að taka. Ég hvet því þau ykkar til dáða sem vinna að tillögum um nauðsynlegar breytingar á kerfinu og óska eftir góðu samstarfi.
Takk fyrir og gangi ykkur vel í ykkar störfum.