Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

13. nóvember 2012 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Dagur gegn einelti

Í dag, 8. nóvember 2012, er árlegur baráttudagur gegn einelti. Í tilefni dagsins hefur verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti, samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, ákveðið að veita kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu viðurkenningu vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins.

Kvennalandsliðið  í knattspyrnu tók sig saman fyrir landsleikinn gegn Úkraínu um daginn og útbjuggu myndband til þess að vekja athygli á mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum og settu það á youtube.  Yfirskriftin á myndbandinu er “Fögnum fjölbreytileikanum” og þýðir að við eigum ekki að dæma hvert annað á útliti, kynþætti, kyni, kynhneigð, skoðunum eða þeim hlutum sem móta manneskjuna. Það er allt í lagi að hafa mismunandi skoðanir og vera öðruvísi svo lengi sem fólk kemur fram af virðingu við sjálft sig og aðra. Kartín Ómarsdóttir samdi lagið en hún samdi textann ásamt Mist Edvardsdóttur. Lagið er flutt af Mist og Rakel Hönnudóttur.  Allar stelpurnar í landsliðinu skrifuðu síðan skilaboð gegn einelti sem þær halda á lofti í myndbandinu.

Verkefnastjórnin telur þetta framtak kvennalandsliðsins til fyrirmyndar þar sem sett eru fram skýr skilaboð um að aldrei eigi að líða einelti í samfélaginu. Kvennalandsliðið hefur einnig með framgöngu sinni á knattspyrnuvellinum, með sterkri liðsheild bæði innan og utan vallar, lífsgleði og jákvæðni verið öllum góð fyrirmynd um að hægt sé að láta drauma sína rætast. Við erum ákaflega stolt af stelpunum okkar í landsliðinu og þær eru svo sannarlega góðar fyrirmyndir.

Verkefnisstjórn telur að þetta framtak kvennalandsliðsins nái vel að endurspegla markmið verkefnisins  um að byggja upp samfélag sem einkennist af lýðræðislegum gildum og jákvæðum samskiptum þar sem einelti er hafnað og allir búi við öryggi og virðingu.

 

Hér er texti lagsins sem Mist og Rakel sömdu:

Ég kem heim úr skólanum, mér líður ekki vel
lít í spegilinn og átta mig ekki á því hver ég er.
Ég er ekki eins og hinir, ég lít öðruvísi út,
hegða mér á annan hátt, en samt er staðreyndin þó sú
að ég er bara ég, þarf ég að breyta hver ég er?
til þess eins að fitta inn og fá að vera með.
Hvað sem ég geri sjá þau flísina í auga mínu
en ekkert þeirra tekur eftir bjálkanum í sínu.

Það er til tvenns konar fólk, þeir sem hífa þig upp
og þeir sem rífa þig niður.
Þeir reyna að rífa þig niður til að hífa sig upp
og þeir sem hífa þig upp eru alvöru vinir.

Ég læt þetta ekki á mig fá.
Ég er sterkari en það, stend upp fyrir sjáfri mér.
Það dýrmætasta sem ég á
er þetta líf og ég mun lifa því eins og ég er.

Þegar á endann er kominn vinna þeir sem breyta rétt.
Þú sérð samt fljótt að þessi leið er ekki alltaf létt.
Sá sem ranglæti mætir ekki, fylgir alltaf hinum.
Hjálpar ekk' og stendur ekki upp á móti vinum.
Mótlæti myndar manninn, sýnir úr hverju hann er gerður.
Ekki gefast upp þó heimurinn sé stundum harður.
Bítt'í skjaldarrendur og treystu eigin hjarta
fyrr en varir muntu sjá að þú átt framtíðina bjarta.

Það er til tvenns konar fólk, þeir sem hífa þig upp
og þeir sem rífa þig niður.
Þeir reyna að rífa þig niður til að hífa sig upp
og þeir sem hífa þig upp eru alvöru vinir.

Ég læt þetta ekki á mig fá.
Ég er sterkari en það, stend upp fyrir sjáfri mér.
Það dýrmætasta sem ég á
er þetta líf og ég mun lifa því eins og ég er.

Flytjendur: Mist Edvardsdóttir og Rakel Hönnudóttir.
Lag: Katrín Ómarsdóttir.
Texti: Katrín Ómarsdóttir og Mist Edvardsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta