Ávarp fjármála- og efnhagsráðherra á degi Samtaka fjármálafyrirtækja
Ávarp Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, á SFF deginum 1. nóvember 2012.
Ágætu tiheyrendur!
Eitt eiga fjármálakerfið og stjórnmálakerfið sameiginlegt, sem þau eru einnig innilega sammála um að þau vildu vera án: Það er sú staðreynd að bæði kerfin njóta lítils trausts meðal almennings um þessar mundir. Þetta er sá veruleiki sem er okkar daglega brauð og það eru bara tíminn og verkin sem við vinnum sem munu skila okkur trausti og áliti ef vel gengur. Við erum því í sama báti að þessu leyti, stjórnmálamenn og fjármálamenn, og siglum enn úfinn sjó.
Nú er það svo að ég tel að í stjórnmálum, innan stjórnsýslunnar, í fjármálastofnunum og innan eftirlitsstofnana, hafi víða verið unnið gríðarlega vel frá hruni og jafnvel þannig að til afreka megi teljast. Okkur kann því að þykja gagnrýni og vantraust lýsa vanþakklæti og ósanngirni, en þegar traustið bregst, þetta fjöregg stjórnmála jafnt sem fjármála, þá er mikils misst og þann missi tekur langan tíma að bæta.
Fjármálamenning þjóðar skiptir sköpum um farnað ríkisins og efnahagslegt sjálfstæði. Hún mótast ekki bara af bönkum og sjóðum heldur hverskonar meðhöndlun fjármuna í þjóðfélaginu, jafnt af hálfu hins opinbera sem einkaaðila. Og ekki síður af laga- og reglugerðarumhverfi, innlendu sem alþjóðlegu, starfsemi eftirlitsstofnana, og stefnumótun stjórnvalda. Samkeppnishæfni þjóða ræðst að hluta til af því hvort fjármálamenning þeirra er á háu stigi.
Þetta eru að mínum dómi nokkuð algild sannindi. En þegar bankakerfið skilaði meira til landsframleiðslunnar en sjávarútvegur og þriðjungi af hinum blússandi hagvexti í landinu, þá höfðu menn talsvert uppblásnar hugmyndir um hlutverk fjármagnsmarkaðarins. Árið 2006 var sagt:
„Fleiri eru þeir sem hafa ekki enn komið auga á að fjármagnsmarkaðurinn er áhrifamesta tækið til þess að koma á umbótum og framförum. Hann beinir fjármagninu í þann farveg þar sem það skilar mestum afköstum og ryður burt stöðnuðum hugmyndum og úreltum framleiðsluháttum.“
Bankarnir og fjármálakerfið áttu að vísa veginn, við hin að fylgja foringjunum. En vegurinn lá í villur sem varast ber. Í stað þess að skila varanlegum umbótum, auknum afköstum og sjálfbærum framtíðarlausnum reyndist alþjóðlegur fjármagnsmarkaður byggja á loftköstulum, óskiljanlegum afurðum, óverðskulduðum ofurlaunum, óábyrgri lántöku og stórhættulegu glæfraspili gagnvart þjóðríkjunum.
Krafan frá almenningi til stjórnmálamanna er sú að þetta gerist ekki aftur. Af sögunni þekkjum við þó að þrátt fyrir slíkar kröfur á ýmsum tímum þá eru verðbólur og hrun endurtekið efni. Það er því ekki nema von að væntingar almennings standi til þess að fjármagnsmörkuðum sé stýrt og þeir fái ekki svigrúm eða traust til þess að vera á sjálfstýringu.
Í þessu ljósi er það vel við hæfi að Samtök fjármálafyrirtækja verji degi sínum í ár til þess að ræða leikreglur til framtíðar. Best væri að slíkar reglur væru fáar og skýrar, en fjármálamarkaðurinn er flókið fyrirbæri, og regluverkið hefur tilhneigingu til þess að þenjast út – og vera þó einu skrefi á eftir. Mestu skiptir að við sameinumst um heildarumgjörð sem miðar að fjármálastöðugleika og fjármálageirinn virðir í raun.
Í framhaldi af Rannsóknarskýrslu Alþingis og samstöðuályktun þingmanna um aðgerðir til þess að fylgja henni eftir var lagt í ítarlega vinnu við að greina stöðu fjármálakerfisins á Íslandi í samráði við hagsmunaaðila. Í vor kom út skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra til Alþingis sem bar titilinn Framtíðarskipan fjármálakerfisins. Í skýrslunni voru reifaðar þær leiðir sem eru færar til að bæta umgjörð fjármálakerfisins og opinbert eftirlit með því. Í kjölfarið var settur á fót sérfræðingahópur, G3-hópurinn, skipaður Gavin Bingham, fv. framkvæmdastjóri Central Bank Governance Forum hjá BIS í Basel, Jóni Sigurðsson, fv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans í Helsingfors, sem flytur erindi hér á SFF deginum, og Kaarlo Jännäri, fv. forstjóri fjármálaeftirlits Finnlands.
Hópnum var falið að kanna hvernig lögum og reglum um fjármálastarfsemi hefur verið breytt frá hruni, greina þá veikleika sem enn kynnu að vera til staðar og leggja fram fastmótaðar tillögur um fjármálakerfið, eftirlit með því og hvernig samræma megi heildarumgjörð laga og reglna um starfsemi á fjármálamarkaði.
Tillögur sérfræðinganna voru kynntar nýverið og munu ráðuneytin strax hefja undirbúning lagafrumvarpa sem tengjast tveimur þeirra. Ég mun setja af stað vinnu við að semja frumvarp um fjármálastöðugleika til að efla og viðhalda skilvirku fjármálakerfi í almannaþágu. Nauðsynlegt er að setja á fót fjármálastöðugleikaráð og færa Seðlabanka og Fjármálaeftirlit undir eitt ráðuneyti svo ábyrgð á málaflokknum sé skýr.
Þá mun atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra setja á fót nefnd til þess að semja frumvarp um viðbúnað, inngrip og slit fjármálafyrirtækja. Auk þess er í gangi undirbúningur nýs frumvarps um innistæðutryggingar á grunni Evróputilskipunar, sem leysa á af hólmi ábyrgðaryfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um allsherjartryggingu á innistæðum sem var gefin í október 2008.