Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á skattadegi Deloitte
Ávarp Katrínar Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, á skattadegi Deloitte, 10. janúar 2013.
Góðir gestir
Það er mér sönn ánægja að vera boðið að opna skattadag Deloitte.
Viðfangsefnið hér í dag er eitthvað sem við höfum öll skoðun á og snertir okkur á ýmsa vegu. Við greiðum skatta en við skulum líka huga að þeirri þjónustu sem við fáum á móti.
Við höfum verið gagnrýnd fyrir skattabreytingar. En til þess að ræða réttmæti og árangur þeirra aðgerða sem gripið hefur til frá hruni fjármálakerfisins verðum við að átta okkur á umfangi verkefnisins sem við blasti. Fjárlagahallinn fyrir árin 2009 til 2012 var áætlaður 350 milljarðar króna. Skuldatryggingarálag íslenska ríkisins var í kringum þúsund punkta og 1500 mest. Spár um atvinnuleysi á næstu árum voru ógnvæglegar. Gjaldeyriskreppan var hamin með höftum og erlendum lánum í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Við þessar aðstæður varð það eðlilega kjarnaverkefni í endurreisn hagkerfisins að ná tökum á ríkisfjármálunum. Að öðru leyti væri útséð með að ríkissjóður gæti endurgreitt skuldir sínar með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla fjármögnunarmöguleika íslensks atvinnulífs.Umfang verkefnisins var líka slíkt að augljóst var að við þyrftum hvort tveggja; auknar tekjur og niðurskurð ríkisútgjalda. Ég tel að það haldi því enginn fram í alvöru sem raunhæfum kosti að beita ekki báðum aðferðum.
Þessi blandaða leið byggði líka á viðleitni til þess að lágmarka neikvæð áhrif á hagkerfið hvað varðar fjárfestingar og neyslu og þar með eftirspurn. Hin hárrétta blanda er alltaf umdeilanleg en andspænis vandanum var mikilvægast að grípa til aðgerða. Árangurinn er svo besti dómarinn.
Þegar við lítum yfir sjáum við að þessi leið hefur tryggt atvinnustig í landinu umfram spár og dregið verulega úr neikvæðum áhrifum kreppunnar. Við höfum unnið að því að tryggja kaupmátt lægstu launa og líka að tryggja eftirspurn í hagkerfinu.
Í dag er staðan þannig að skuldir ríkissjóðs nema um 1500 milljörðum króna sem jafngildir um 86% af landsframleiðslu. Langtímamarkmiðið er að heildarskuldir ríkissjóðs verði innan við 60% af landsframleiðslu. Séu hreinar skuldir ríkissjóðs hinsvegar skoðaðar en þær eru skilgreindar sem heildarskuldir að frádregnum veittum lánum, skammtímakröfum, og handbærufé ríkissjóðs, þá nema þær um 800 milljörðum króna sem jafngildir 46% af landsframleiðslu.
Mikilvægt markmið er að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands. Á hverju ári kannar Alþjóðabankinn hvernig er að reka sama fyrirtækið út frá sömu forsendum í 185 löndum og raðar þeim svo eftir því hversu auðvelt sé að stunda viðskipti á hverjum stað. Þar er Ísland nú í 14. sæti af 185. Svo gripið sé til líkingamáls sem við flest þekkjum úr knattspyrnunni, þá spilar Ísland í úrvaldsdeild. Það er árangur sem við eigum að vera stolt af. Við erum enn í vanda vegna skulda en Ísland er ekki í fallhættu úr úrvalsdeildinni heldur spilar um hana miðja meðal margra af þeim ríkjum sem við mesta hagsæld búa. Við eigum þó að sjálfsögðu að stefna enn hærra.
OECD ber líka saman skattgreiðslur fyrirtækja sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Árið 2011 var þetta hlutfall aðeins 1,6% hér á landi sem er afar lágt samanborið við nágrannaríki okkar. Í Noregi var þetta hlutfall í kringum 11% en um 2,8% í Danmörku og Bretlandi. Öll umræða um óeðlilega skattpíningu og ofurskattlagningu íslensks atvinnulífs er því röng og villandi.
En skattabreytingarnar voru eðli máls samkvæmt hluti af varnarviðbrögðum þjóðar sem var með efnahagslíf sitt í járnum. Ég skal vera manna fyrst til að viðurkenna að við þær aðstæður hafa óhjákvæmilega verið gerð einhver mistök.
Við hefðum þurft að eiga uppbyggilegra samtal um meginmarkmiðin og leiðir að þeim þannig að breytingar væru kynntar með meiri fyrirvara í samráðsferli.
Sú ríka viðleitni að tryggja að sanngjörn dreifing byrðanna kæmi ekki of þungt niður á einn stað, leiddi líka þess að breytingarnar urðu eðli máls samkvæmt fleiri en æskilegast væri.
En nú erum við að komast fyrir vind og staða ríkisfjármála allt önnur en fyrir fjórum árum síðan. Árangurinn mun sjást strax á næsta ári en samkvæmt ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að árið 2014 náist í fyrsta sinn frá hruni jákvæður heildarjöfnuður í ríkisfjármálum þ.e. við munum afla meira en við munum eyða. Eins er vert að benda á að skuldatryggingarálag íslenska ríkisins fór í 172 punkta í þessari viku og hefur það ekki mælst lægra frá hruni.
Þá bendi ég á að atvinnuleysi hefur farið minnkandi, en það er nú í kringum 5%.
Ég tel að nú séum við komin að ákveðnum tímamótum og að nauðsynlegt sé að við setjumst yfir þær skattabreytingar sem gerðar hafa verið og hefjum fordómalausa skoðun á skattkerfinu með það að markmiði að einfalda það og sníða af því vankanta.
Því mun ég á næstu dögum skipa starfshóp sem mun fara í ítarlega skoðun á skattkerfinu og mun skila mér tillögum sínum fljótt og vel. Í framhaldinu mun vinna hefjast í fjármála- og efnahagsráðuneytinu byggð á tillögum hópsins sem mun nýtast okkur inn í framtíðina.
Markmiðið er að viðhalda samkeppnisstöðu Íslands meðal fremstu þjóða heimsins. Mín skoðun er sú að mikilvægast sé að sýna ábyrgð og festu í skattamálum. Stöðugleiki og hagstætt almennt rekstrarumhverfi fyrir atvinnulíf og einnig heimili vegur að mínu mati þyngra til lengri tíma litið en kapphlaup við að bjóða ævinlega lægstu skattana með tilheyrandi örum breytingum og hækkunum um leið og illa gengur.
Við eigum að vera opin fyrir öllum tillögum sem einfalda skattkerfið og létta þannig undir með atvinnulífinu. Sé svigrúm til að létta á álögum er mikilvægt að við gerum það þannig að við náum hámarkshvata til verðmætasköpunar út úr hverri krónu. Við fjárlagagerðina fyrir þetta ár náðum við að lækka tryggingagjaldið í heild um 0,1% sem er lítið skref í rétta átt þótt það væru vissulega vonbrigði að það skyldi ekki geta verið stærra.
Það er enda eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda nú um stundir að horfa líka á hina hliðina í tekjuöfluninni: Það er að stækka kökuna og auka umsvifin í þjóðfélaginu. Á sama tíma lækkum við skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og aukum tekjur ríkissjóðs.
Við verðum að efla hér fjárfestingu og bæta rekstrarumhverfi enn frekar. Á undanförnum árum hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða í því skyni sem staðfesta meðal annars að því fer fjarri að allar þær skattabreytingar sem gerðar hafa verið hafi verið íþyngjandi.Nú fá fyrirtæki 20% skattaafslátt vegna rannsókna og þróunarstarfs. Þessi stuðningur nam um 850 milljónum króna á síðasta ár og hefur reynst fjölda fyrirtækja vel. Ég er sannfærð um að við munum sjá ríkulega ávexti þessara ívilnana á næstu árum.
Á grundvelli rammalöggjafar um ívilnanir vegna nýfjárfestinga hafa verið gerðir fjárfestingarsamningar sem veita til dæmis afslátt af tryggingargjaldi og þak á skatthlutföll.
Endurgreiðsla á 20% framleiðslukostnaðar kvikmynda hefur skilað hingað til lands stórum erlendum verkefnum með tilheyrandi gjaldeyristekjum og eflingu íslenskra fyrirtækja.
Átakið Allir Vinna hefur reynst byggingariðnaðinum mikilvægt.
Loks felur fjárfestingarleið Seðlabankans að lausn á aflandskrónuvandanum í sér raunverulegan afslátt af fjárfestingarkostnaði um leið og aflandskrónu eru bundnar í verðmætaskapandi verkefnum til lengri tíma.
Ég vil líka nota þennan vettvang til að segja að fjármálaráðuneytið mun á næstunni senda ESA til kynningar frumvarp sem heimilar skattalega hvata fyrir einstaklinga til að fjárfesta í litlum- og meðalstórum fyrirtækjum.
Eftir slíku skrefi hefur lengi verið beðið.
Góðir fundargestir
Við verðum enn að halda vöku okkur og vera aðhaldssöm í ríkisútgjöldum. Í fjárlögum fyrir árið 2013 er þriðji stærsti útgjaldamálaflokkur , á eftir almannatryggingum og heilbrigðismálum, vaxtagjöld ríkissjóðs sem nema um 85 milljörðum króna. Á móti vegur að vaxtatekjur ríkissjóðs nema um 21 milljarð króna og því er fjármagnsjöfnuðurinn neikvæður um 64 milljarða. Verkefnið framundan er að lækka þessa tölu verulega með uppgreiðslu skulda íslenska ríkisins. Við viljum breyta vöxtum í velferð.
Því er einkar mikilvægt að stjórnmálamenn tali af ábyrgð nú í aðdraganda kosninga. Óábyrg stefna í ríkisfjármálum, m.a. í formi kosningaloforða sem verða óútfylltir tékkar inn í framtíðina, er ekki boðleg við núverandi aðstæður.
Skilaboð mín eru þessi: Við megum vera stolt af árangrinum sem náðst hefur en margt er enn ógert. Við höfum verk að vinna.