Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. febrúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2012-2013

Ávarp við veitingu viðurkenningar Creditinfo til framúrskarandi fyrirtækja ársins 2012.

Bestu þakkir fyrir bjóða mér að vera með ykkur hér í dag við þennan gleðilega viðburð. Við eigum að gleðjast saman þegar vel gengur í atvinnulífinu, ekki síst þegar tilefnið er framúrskarandi fyrirtæki, hvorki meira né minna.  Heilbrigt atvinnulíf er forsenda framfara og velferðar í þessu landi.

Það er einkar gleðilegt að sjá að framúrskarandi fyrirtækjum fjölgar um 46% milli ára og eru nú orðin 358.
Við erum á réttri leið, það bera þessar tölur ótvírætt með sér. Þau fyrirtæki sem komast á þennan lista framúrskarandi fyrirtækja hafa nefnilega þurft að skila jákvæðri afkomu síðastliðin þrjú ár. 

Við þær erfiðu aðstæður sem ríkt hafa hérlendis og á okkar helstu mörkuðum undanfarin þrjú ár er hér um að ræða virkilega góðan árangur sem er þessum fyrirtækjum, stjórnendum þeirra og starfsfólki til mikils sóma.
Skilyrðin hafa vissulega verið krefjandi, hvort sem er fyrir fyrirtæki, stjórnvöld eða heimilin.
Andspænis þeirri ógn sem mikill fjárlagahalli og skuldasöfnun ríkisins er við hagsmuni fyrirtækja og heimila varð að grípa tafarlaust til róttækra aðgerða.

Markmiðið var að ná niður hallanum og fara blandaða leið niðurskurðar ríkisútgjalda og tekjuöflunar þannig að við ógnuðum ekki hagvexti, héldum uppi eftirspurn og drægjum úr atvinnuleysinu. Óumdeilt er að sá árangur hefur náðst í öllum aðalatriðum þótt því sé stundum lýst með hlutlægari hætti í úttektum og rýni óháðra erlendra aðila en í innlendri dægurumræðu.

Í dag er staðan þannig að skuldir ríkissjóðs nema um 1500 milljörðum króna sem jafngildir um 86% af landsframleiðslu. Langtímamarkmiðið er að heildarskuldir ríkissjóðs verði innan við 60% af landsframleiðslu.  Vaxtakostnaður ríkisins af þessum skuldum mun nema hátt í 90 mia.kr á þessu ári. Stjórnvöld hafa því haft ærna ástæðu til að ráðast í þær skattabreytingar sem farið hefur verið í. 

Sú staðreynd að við búum við gjaldmiðil í skjóli strangra fjármagnshafta á að vera okkur enn frekari áminning um nauðsyn aðhalds í ríkisrekstri.

Sé litið til vaxtarmöguleika íslensks atvinnulífs og fjárfestinga í uppbyggingu til framtíðar er stefna okkar í peningamálum forgangsmál.

Það er ekki hægt að strá um sig óábyrgum loforðum um skattalækkanir eða stórkostleg útgjöld í aðdraganda kosninga og þykjast um leið geta losað fjármagnshöftin.

Ég vil fara þá leið að skapa hratt forsendur fyrir stöðugra gengi með áframhaldandi aðhaldi í ríkisfjármálum og skýrum markmiðum um að uppfylla sem fyrst skilyrði til að geta komist inn í ERM II, fordyri að upptöku stöðugra gjaldmiðils og lægri vaxta í þágu fjárfestingar og uppbyggingar í atvinnulífinu.

Samhliða aðildarviðræðum við Evópusambandið höfum við átt í viðræðum við sambandið, evrópska seðlabankann og alþjóðagjaldeyrissjóðinn um lausn á vanda krónunnar.

Ferlið sem slíkt styður við krónuna og með þátttöku í myntsamstarfinu kemst hún í langþráð og nauðsynlegt skjól þar til forsendur skapast fyrir upptöku evru.

Fari svo að aðild verði hafnað þegar þjóðin fær fullbúinn aðildarsamning til afgreiðslu er ferlið við að uppfylla Maastricht skilyrðin og sá agi sem því fylgir engu að síður mikilvægt vegarnesti fyrir þá torfærari leið sem þá blasir við með gjaldmiðil okkur fyrir atvinnulífið.

Annað mikilvægt skilyrði sem við þurfum að uppfylla er að tryggja jákvæðan viðskiptajöfnuð. Þar gegnir fjárfesting í atvinnulífinu og aukin verðmætasköpun lykilhlutverki.

Það er oft ágætt að minna sig á að hvorki ríkisstjórn né Alþingi skapa störf. Hlutverk okkar er að skapa skilyrði til vaxtar og nýsköpunar. Á undanförnum árum höfum ráðist í mikilvægar aðgerðir til að bæta starfsumhverfi fyrirtækja í landinu.

Fyrsta rammalöggjöfin um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi var sett sumarið 2010. Í kjölfarið hófst ítarleg úttekt á því hvernig staðið hefur verið að því að laða hingað til lands beina erlenda fjárfestingu. Útkoman varð fyrsta stefnumótun stjórnvalda um beinar erlendar fjárfestingar, samþykkt sem þingsályktun.  Lög um endurgreiðslu skatta vegna rannsókna- og þróunarkostnaður hefur verið lyftistöng fyrir fjölmörg fyrirtæki og stuðlað að vexti þeirra. Efling Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs um 500 milljónir kr. á ári og 200 milljónir kr. til markáætlana gefa fjölmörgum frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum tækifæri til að þróa verðmæta vöru og þjónustu. Við sjáum mikilvægi stuðningsins við hugverkageirann m.a. í vexti skapandi greina á borð við kvikmyndaiðnaðinn og tölvuleikjageirann. Átakið Allir vinna hefur reynst byggingariðnaðinum mikilvægt innspýting við mjög erfiðar aðstæður.  

Því er það í ljósi þessa sem ég hef talið hér upp einkar forvitnileg spurning að spyrja sig í hvaða umhverfi starfa íslensk fyrirtæki í alþjóðlegum samanburði í dag?

Á hverju ári kannar Alþjóðabankinn hvernig það er að reka sama fyrirtækið út frá sömu forsendum í 185 löndum og raðar þeim svo eftir því hversu auðvelt sé að stunda viðskipti á hverjum stað. Þessi könnun ber heitið Doing business og finnst hratt og örugglega sé leitað á internetinu.  Þar er fyrirtæki stofnað og það rekið miðað við allar opinberar álögur og aðra þá þætti sem áhrif hafa á rekstrarumhverfi þess í viðkomandi landi.  En hvernig skyldi fyrirtækið standa sig hér á landi?

Þar er Ísland nú í 14. sæti af þeim 185 löndum sem taka þátt. Svo gripið sé til líkingamáls sem við flest þekkjum úr knattspyrnunni, þá spilar Ísland þar í úrvaldsdeild. Það er árangur sem við eigum að vera stolt yfir.  Við eigum þó að sjálfsögðu að stefna enn hærra og um leið fjölga framúrskarandi fyrirtækjum hér á landi.

Til þess þurfum við að skapa þeim framúrskarandi skilyrði, líka hvað varðar frjálsar fjármagnshreyfingar, stöðugleika í gengismálum og viðráðanlegt vaxtarstig. Miðað við hvað þessi fyrirtæki eru að áorka við núverandi aðstæður þá getum við rétt ímyndað okkur kraftinn í þeim ef við náum slíkum áfanga.

En ég er hingað komin í dag til að  veita viðurkenningu til þriggja fyrirtækja. Fyrirtækja sem við getum kallað framúrskarandi fyrirtæki.

Fyrsta fyrirtækið sem hlýtur viðurkenningu er Alefli. En Alefli hefur náð framúrskarandi árangri í þeirri atvinnugrein sem Creditinfo telur hafa búið við erfiðustu rekstrarskilyrðin á sl. ár. Það er byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Ég vil biðja Þorstein Kröyer frá Alefli að koma hér og taka við viðurkenningunni.

Næst vil ég kynna það fyrirtæki sem hefur hækkað mest á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki sl. þrjú ár en það er Kælismiðjan Frost sem árið 2012 var í 54 sæti. Ég vil biðja Gunnar Larsend að koma hingað og taka á móti viðurkenningunni.

Að endingu kynni ég til leiks það fyrirtæki sem vermir efsta sætið á listanum yfir framúrskarandi fyrirtæki. En það er Medis og vil ég biðja Val Ragnarsson frá Medis að koma hingað og taka á móti viðurkenningunni.    

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta