Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

27. febrúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra 2012-2013

Samstaða um að verja íslenska hagsmuni

Eftir að hafa hlýtt á landsfundarávörp formanna tveggja stjórnarandstöðuflokka fagna ég þeirri þverpólitísku samstöðu sem nú hefur náðst um ýtrustu vörn fyrir hagsmuni íslenskra heimila og fyrirtækja gagnvart því verkefni að gera upp þrotabú föllnu bankanna og losa um fjármagnshöft. Fyrir aðeins ári síðan var umdeilt á Alþingi hvort fella ætti erlendar eignir þrotabúanna undir fjármagnshöftin og fulltrúar stjórnarandstöðu ýmist greitt atkvæði gegn því eða setið hjá. Í dag ríkir hins vegar einhugur um mikilvægi þess að með því náðum við fullum tökum á greiðsluflæði frá þrotabúunum til erlendra kröfuhafa.

Full eining er um það milli ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands að ganga eins langt í því að verja íslenska hagsmuni og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar leyfa. Við væntum þess að losunaráætlunin gengi hraðar en varúðarsjónarmið gagnvart þróun á alþjóðamörkuðum og stöðu þrotabúanna hafa ráðið hraðanum. Til að stýra uppfærslu áætlunar um losun fjármagnshafta, þar sem tekið er á því risavaxna verkefni sem uppgjör þrotabúa föllnu bankanna sannarlega er, starfar stýrinefnd sem í eiga sæti ráðherrar efnahags- og bankamála auk Seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Ekki verða gefnar út reglur sem heimila undanþágur til uppgjörs á þrotabúum gömlu bankanna án þess að þær hafi verið yfirfarnar í stýrinefnd og staðfestar af fjármála- og efnahagsráðherra.

Ég hef lagt ríka áherslu á að halda forystumönnum allra flokka upplýstum um framvinduna enda blasir við að hver sú ríkisstjórnsem hér tekur við að loknum kosningunum í vor mun þurfa að fást við þetta verkefni. Samstaða hefur nú náðst um að stíga það mikilvæga skref að miða losun fjármagnshafta ekki við ákveðnar dagsetningar heldur við þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar og þann árangur sem við viljum ná.

Gagnvart kröfuhöfum styrkir það stöðu okkar að þessi þverpólitíska samstaða sem náðst hefur um íslenska hagsmuni síðustu misserin haldi. Þannig hef ég stýrt þessu verkefni og hyggst gera áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta