Auðlindaarðurinn - ráðstefna Samtaka orkusveitarfélaga og Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 14. mars 2013
Ég fagna því mikilvæga frumkvæði sem Samtök orkusveitarfélag og Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa sýnt með þessari ráðstefnu og er það heiður að vera þátttakandi hér. Skilaboð mín til ykkar eru þau að við verðum að taka höndum saman um það á næstu árum að ljúka innleiðingu þeirrar heildstæðu auðlindastefnu fyrir Ísland sem við lukum við á þessu kjörtímabili og erum byrjuð að innleiða.
Auðlindastefnunefnd var sett á laggirnar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar 31. maí 2011. Í henni sátu fulltrúar sex ráðuneyta. Verkefni nefndarinnar var að draga saman hagnýtar tillögur að heildstæðri auðlindastefnu, byggt á skýrslum og stefnumótun síðustu ára. Nefndin sem slík fór því ekki í sjálfstæðar úttektir eða rannsóknir.
Þungamiðjan er í raun vinna auðlindanefndar sem kosin var á Alþingis skv. þingsályktunartillögu árið 1998. Jóhannes Nordal stýrði þeirri nefnd sem fékk fjölda fræðimanna og hagsmunaðila til liðs við og skilaði áfangaskýrslu 1999 og lokaniðurstöðum árið 2000. Þótt því miður hafi ekki verið unnið heildstætt út frá merkum niðurstöðum Auðlindanefndar fyrr hafa þó allar þær breytingar sem gerðar hafa verið síðan á gjaldtöku fyrir sérleyfi til nýtingar verið í samræmi við meginniðurstöður nefndarinnar.
Til að auðlindastefna ríkisins sé heildstæð þarf hún að standa á þremur stoðum:
Fyrsta stoðin er rannsóknir, stefnumótun og ráðgjöf um verndun eða nýtingu sem er nokkuð vel fyrir komið í stjórnkerfinu hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og stofnunum þess.
Önnur stoðin er svo ákvarðanir um nýtingu í atvinnuskyni, skilyrði sem sett eru um umgengni við auðlind eða gæði sem nýta á og eftirlit með nýtingu. Þessi stoð er traust hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og stofnunum þess.
Þriðja stoðin er svo umsýsla ríkisins sem eiganda eða umsjónaraðila auðlinda og snýr að þáttum á borð við hvernig handhafar sérleyfa til nýtingar eru valdir, gjaldtöku fyrir sérleyfi, skiptingu auðlindarentu milli þjóðar og sérleyfishafa og tímalengd sérleyfa.
Til einföldunar getum við sagt að verkefni auðlindastefnunefndar hafi snúið að þessari þriðju stoð enda augljóst af deilum og umræðum um auðlindamál síðustu ára að hér eigum við mest óunnið. Samt er þetta lykilatriði í því að skapa sátt um auðlindanýtingu okkar.
Eitt mikilvægasta verkefni heildstæðrar auðlindastefnu er aðgreiningin á milli auðlindanna sjálfra, varanlegs yfirráðaréttar og tilkalls til auðlindaarðsins annars vegar og svo tímabundinna sérleyfa til nýtingar hins vegar. Hið sértæka verkefni sem við þurfum að leysa er að tryggja þeim atvinnugreinum sem byggja á sérleyfum til nýtingar auðlinda hagfelld rekstrarskilyrði um leið og við finnum skilaleið fyrir sanngjarna hlutdeild í auðlindaarðinum til þjóðarinnar.
Ein af forsendunum fyrir heildstæðri auðlindastefnu hefur gengið sem rauður þráður gegnum allar skýrslur og stefnumótun um auðlindamál allt frá skýrslu auðlindanefndar árið 2000. Það er að nýtingarrétti auðlinda í eigu eða umsjón þjóðarinnar verði aðeins úthlutað tímabundið, gegn eðlilegu gjaldi og með gagnsæjum hætti á grundvelli jafnræðissjónarmiða. Önnur forsenda er að við gerum arðinn af auðlindunum og ráðstöfun hans í þágu komandi kynslóða eða uppbyggingar og samfélagslegra verkefna sýnilegan.
Hugtakið auðlindarenta eða auðlindaarður hefur ekki verkið mikið í almennri umræðu fyrr en skyndilega upp á síðkastið og er fyrir vikið oft misskilið. Gætum okkar á því að skilja á milli annars vegar réttmæts tilkalls til hluta auðlindaarðsins og hins vegar skattlagningar hefðbundins hagnaðar af atvinnurekstri, sem menn hafa af fjárfestingu sinni, útsjónarsemi og reynslu. Auðlindaarðurinn er sá umframarður sem til verður vegna úthlutunar sérleyfa til nýtingar á sameiginlegum auðlindum okkar. Hann er birtingarmynd verðmætis auðlindarinnar sjálfrar og stendur því eftir þegar greinin hefur greitt allan rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun fjármuna. Hagsmunir eiganda auðlinda og handhafa sérleyfis til nýtingar fara saman í því að hámarka auðlindaarðinn.
Auðlindagjöld hafa þann ótvíræða kost umfram aðra skatta að þau hafa lágmarks bjagandi áhrif á atvinnulífið. Aðilar á borð við OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa bent á að vel útfært tilkall ríkisins til auðlindaarðs, það er, hluta auðlindarentu, hafi mun minni neikvæð áhrif á efnahagslega hvata í atvinnugreinum en hefðbundnir skattar eða gjöld.
Íslenska þjóðin er rík að auðlindum. Sterk efnahagsleg rök hníga til þess að fjármögnun samfélagslegra verkefna verði í framtíðinni í auknum mæli mætt með tekjum af auðlindum en á móti megi létta frekar álögum af einstaklingum og almennu atvinnulífi. Framtíðarsýnin er um umtalsverðar tekjur af auðlindaarði í sjávarútvegi, í orkugeiranum, í hinum tilvonandi olíugeira og etv. af sölu loftslagsheimilda. Gott dæmi eru leyfin sem gefin hafa verið út til olíuleitar í íslenskri lögsögu. Eins og Ingvi Már hefur væntanlega rakið hér fyrr í dag fórum við ítarlega yfir löggjöf um sérstakan auðlindarentuskatt á olíuvinnslu svo tryggt er að væntanleg olíuvinnsla mun skila samfélaginu öllu ríkulegum auðlindaarði.
Hluti auðlindaarðsins vegna sérleyfa til nýtingar sameiginlegra fiskistofna okkar skilar sér nú einnig til þjóðarinnar í gegnum veiðileyfagjald og nýtist til uppbyggingarverkefna víða um land þegar við þurfum mest á slíku að halda í kjölfar efnahagslægðar. Orkufyrirtæki allra landsmanna, Landsvirkjun, skilar nú ríkulegum arði til eigenda sinna. Þegar fram líða stundir og tímabil stöðugs rekstrar og niðurgreiðslu skulda tekur við af tímabili hinnar hröðu uppbyggingar og fjárfestinga munum við sjá stöðugt vaxandi auðlindaarð úr orkugeiranum.
Næsta verkefni er að tryggja þjóðinni tilkall til hans og í skýrslu auðlindastefnunefndar er litið til norsku leiðarinnar í orkugeiranum sem fyrirmyndar. Þeir leggja á auðlindarentuskatta í raforkugeiranum enda myndast umtalsverð auðlindarenta í norsku vatnsafli. Eins og ég nefndi áðan þurfum við að búa okkur undir að svipaðar aðstæður skapist hér. En norska leiðin í orkugeiranum felur líka í sér annað mikilvægt atriði sem sérstaklega er nefnt í skýrslu auðlindastefnunefndar: Þar rennur ákveðinn hluti auðlindarentunnar til svæðanna og sveitarfélaganna. Það fyrirkomulag er talið mikilvægur liður í að tryggja sátt um orkugeirann auk þess sem viðkomandi svæði bera margvíslegan kostnað og taka á sig það rask sem oft fylgir virkjunum.
Ég fagna sérstaklega frumkvæði ykkar í umræðunni og þessari ráðstefnu því í mínum huga verðum við á næstu misserum að skoða alvarlega hvort og þá hvernig við skiptum umframarðinum af nýtingu verðmætra sameiginlegra auðlinda okkar milli ríkis og svæða eða sveitarfélaga. Þetta er hluti af því verkefni að ljúka við innleiðingu heildstæðrar auðlindastefnu.
Í skýrslu auðlindastefnunefndar er það einmitt nefnt sem dæmi að svæði sem háðust eru auðlindanýtingu færa fórnir vegna hagræðingar í einstökum auðlindagreinum. Hér er augljóst að líta til sjávarútvegsins. Til að þessi grein fái dafnað og skilað sem mestum arði og um leið hámarkað auðlindaarðinn í þágu samfélagsins alls, þarf hún að búa við frelsi til vaxtar og hagræðingar. En slíkt frelsi felur um leið í sér að ákvarðanir einstakra fjárfesta eða eigenda um breytingar í rekstri geta bylt framtíðarhorfum smærri sveitarfélaga með tilheyrandi afleiðingum. Þennan samfélagslega kostnað af aukinni hagræðingu hefur samfélagið borið á meðan afar lítið af þeim umframarði sem hin verðmætu sérleyfi til nýtingar á sameiginlegri auðlinda skapar, hafa runnið til baka.
Góðir fundargestir
Stundum er rætt um auðlindamál og auðlindanýtingu eins og sérstakt áhugamál karla. Í hugum fólk tengist þessi málaflokkur gjarnan stórum verklegum framkvæmdum. En þá vantar okkur einmitt þá vídd sem hér er til umræðu. Viðfangsefni okkar hér í dag snýr ekki síst að konum og ungu fólki um land allt. Rætist sá draumur að til samfélagsins renni sanngjarn hluti auðlindaarðsins skapast ný tækifæri til að efla innviði og draga úr öðrum álögum til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf en það sem byggir beinlínis á auðlindanýtingunni. Enda er umfang þeirrar nýtingar háð náttúrulegum vaxtartakmörkunum.
Til að eflast þurfa byggðir landsins að skapa tækifæri sem heilla ungt fólk og ekki síður konur því þær eru gjarnan fyrstu fórnarlömb einhæfni í atvinnulífi og flytja þangað sem tækifærin eru meiri. Auðlindamálin okkar eru því nátengd byggðamálum og líka kynjamálum og tækifærum unga fólksins. Þið gerið rétt í því að halda þessu sjónarmiði á lofti.
Vegna alls þess sem ég hef að framan rakið er ég sammála því eðlilega sjónarmiði samtaka orkusveitarfélaga og samtaka sjávarútvegssveitarfélaga að við þurfum að finna í sameiningu lausn á því hvernig við deilum auðlindaarðinum milli ríkis og svæðanna sjálfra. Í orkugeiranum getum við litið til Noregs í leit að fyrirmynd. En við höfum verk að vinna í sjávarútvegshlutanum. Í báðum tilfellum er sátt um viðkomandi greinar og sátt þeirra við nærsamfélög sín meðal mestu ávinninga af því að leysa þetta mál. Það er mikilvægt að þið berið þetta mál áfram.
Þau skref sem við erum að stíga nú í innleiðingu heildstæðrar auðlindastefnu falla vel að þessu verkefni. Sú miðstöð auðlindaumsýslu sem lögð er til í skýrslu auðlindastefnunefndar er að verða til innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þangað er að flytjast öll samningagerð ríkisins vegna auðlinda og nýtingar á takmörkuðum gæðum í eigu eða umsjón ríkisins skv. forsetaúrskurði. Þá er verið er að ljúka við skipulagsbreytingar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu þar sem miðstöðinni er fyrir komið. Hér er verið að koma til móts við tillögur og óskir sem ítrekað hafa verið settar fram, allt frá skýrslu auðlindanefndar árið 2000. Samkvæmt skýrslu auðlindastefnunefndar hefur miðstöð auðlindaumsýslu einnig það hlutverka að vera til ráðgjafar við stjórnvöld og löggjafa vegna laga og reglna sem varða auðlindaumsýslu, sem og samningsgerð við nýtingaraðila.
Ég mun leggja til í minnisblaði til ríkisstjórnar að fyrsta verkefni miðstöðvar auðlindaumsýslu verði að taka til skoðunar drög að frumvarpi um auðlindarentuskatta í orkugeiranum og vinna það inn í heildstæða auðlindastefnu þar sem ekki bara sýnileiki auðlindaarðsins heldur einnig ráðstöfun hans og skipting er undir. Sama vinna þarf að fara fram varðandi sjávarútveginn.
Næsta verkefni miðstöðar auðlindaumsýslu er að undirbúa stofnun auðlindasjóðs sem tæki við auðlindaarði frá þeim auðlindum sem ekki teljast endurnýjanlegar, svo sem olíu, og eðlilegt er því að ávaxta svo komandi kynslóðar njóti hans einnig.
Sú tillaga auðlindastefnunefndar að gera sýnileika auðlindaarðs sýnilegan sem sérstakan tekjulið í fjárlögum og ríkisreikningi í formi auðlindareiknings verður hluti af frumvarpi til nýrra laga um opinber fjármál sem nú er að fara í opinbera kynningu og umsagnarferli.
Í þessu samhengi þurfum við svo að efla og þroska umræðuna um náttúruperlur þjóðarinnar, eitt helsta aðdráttarafl vaxandi ferðaþjónustu. Hvernig tryggjum við að hluti verðmæta þeirra renni til verndunar, betra aðgengis og uppbyggingar fyrir ferðaþjónustuna?
Góðir gestir
Við skulum taka höndum saman um að ljúka innleiðingu heildstæðrar auðlindastefnu. Þið eruð að stíga mikilvægt skref hér í dag og ég vona að við verðum samferða eftirleiðis.