Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands
*Birt með fyrirvara um breytingar við flutning ræðunnar.
Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér á ársfundi Seðlabanka Íslands sem fjármála- og efnahagsráðherra. Málefni Seðlabankans færðust síðasta haust yfir í nýtt ráðuneyti fjármála- og efnahagsmála sem varð til við umfangsmikla endurskipulagningu á Stjórnarráði Íslands. Ég hef fulla trú á því að sú ákvörðun, að setja undir eitt ráðuneyti stjórn ríkisfjármálanna og efnahagsmálanna, skapi betri færi til þess að tryggja í senn þau markmið sem við setjum okkur í ríkisfjármálum jafnt sem almenn hagstjórnarmarkmið.
Við sem þjóð, höfum tekist á við krefjandi verkefni í kjölfar þess að fjármálakerfi landsins tók kollsteypu fyrir rúmum fjórum árum og því fer fjarri að verkinu sé lokið. Framundan er úrlausn erfiðra verkefna sem varða þjóðarhag.
Frá árinu 2010 höfum við séð viðsnúning í efnahagsmálum eftir banka-, efnahags- og gjaldeyrishrun sem skók undirstöður íslenska hagkerfisins. Síðustu tvö ár hefur hagkerfið vaxið, þrátt fyrir óvissu á alþjóðamörkuðum og miklar þrengingar í mörgum af okkar helstu viðskiptalöndum. Landsframleiðslan er nú svipuð að raungildi og hún var árið 2006 og getum við verið hóflega bjartsýn um að vöxturinn haldi áfram eftir því sem fjárfesting eykst og jafnvægi næst á ríkisfjármálin. Bráðabirgðatölur um greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir árið 2012 liggja nú fyrir og bera þær með sér að frumjöfnuður ríkissjóðs hafi verið jákvæður um 18 mia.kr. á greiðslugrunni, eða 6 mia.kr. betri en áætlað var við afgreiðslu fjárlaga 2013.
Þetta er í fyrsta sinn eftir bankahrunið haustið 2008 sem afgangur næst á frumjöfnuði og hefur þar með fyrsta markmiði ríkisfjármálaáætlunar stjórnvalda verið náð, sem er ánægjuefni. Heildarjöfnuður árið 2012 var hins vegar neikvæður um 41 mia.kr. og næsta verk er að ná seinna markmiði ríkisfjármálastefnunnar um jákvæðan heildarjöfnuð.
Ljóst er að hefur náðst mikilvægur áfangi í þeirri vegferð að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og hefja niðurgreiðslu skulda á komandi árum. Á síðastliðnum fjórum árum hefur ríkissjóður þurft að taka á sig auknar skuldbindingar og byrðar sem að stórum hluta má rekja beint til afleiðinga bankahrunsins haustið 2008. Aðgerðir stjórnvalda í ríkisfjármálum hafa því bæði þurft að vega á móti auknum útgjöldum og vinna á fjárlagahallanum. Miðað við þróun opinberra fjármála í mörgum vestrænum ríkjum er það markverður árangur að bati í frumjöfnuði á greiðslugrunni á árunum 2009 til 2012 nemi samtals 120 mia.kr eða um 7,7% af vergri landsframleiðslu.
Á næsta ári er gert ráð fyrir jákvæðum heildarjöfnuði og í kjölfarið verður það forgangsmál í ríkisfjármálum að hefja lækkun skulda ríkisins jafnt og þétt. Það getur eingöngu orðið með því móti að greiðsluafkoma ríkissjóðs skili árlega myndarlegum afgangi um langt árabil eða að sölu eigna ríkissjóðs verði varið til uppgreiðslu á skuldum. Sem dæmi um hversu stórt og tímafrekt þetta viðfangsefni verður má nefna að þótt afkoma ríkissjóðs gæti skilað 50 mia.kr. á ári til að greiða niður skuldir tæki það 10 ár að lækka þær um þriðjung. Nauðsynlegt er því að hafa áfram festu og jafnvægi í ríkisbúskapnum og hindra óhóflegan útgjaldavöxt. Í ljósi þessa er orðið tímabært að útfæra nánar langtímamarkmið í ríkisfjármálum um lækkun heildarskulda hins opinbera í um 60% af landsframleiðslu og vinna að nánari greiningu á því hvernig og hvenær þeim markmiðum verður náð.
Síðustu misseri hefur umræðunni um losun fjármagnshafta fleytt fram af meiri þunga en áður. Ljóst er að nú styttist í mikilvægar ákvarðanir verði teknar til að leysa megi þann greiðslujafnaðarvanda sem þjóðarbúið hefur staðið frammi fyrir og ryðja leiðina fyrir losun fjármagnshafta á fólk og fyrirtæki. Sú áætlun um losun hafta sem kynnt var vorið 2011 snéri að mestu að aflandskrónuvandanum eins og hann blasti við þá, og það er vissulega jákvætt að tekist hefur að minnka þann vanda nokkuð með gjaldeyrisútboðum Seðlabankans og fjárfestingarleiðinni svokölluðu. Það hefur hins vegar skýrst betur að vandinn er umfangsmeiri en svo, og snýr að uppgjöri búa föllnu bankanna og því útflæði gjaldeyris sem því uppgjöri gæti fylgt.
Ljóst er að stjórnvöld þurfa að vera samstíga í málinu og vinna að heildstæðri lausn þess. Sem fjármála- og efnahagsráðherra beitti ég mér fyrir því að endurvekja stýrinefnd um losun fjármagnshafta sem í eiga sæti auk mín atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Þessi stýrinefnd er vettvangur samráðs og ákvarðana sem lúta að framvæmd áætlunarinnar um afnám hafta og stýrinefndin vinnur nú að því að endurskoða og uppfæra áætlanir um losun fjármagnshafta, m.a. út frá ólíkum sviðsmyndun um úrlausn á búum viðskiptabankanna. Umfang verkefnisins hefur verið að skýrast mjög á undanförnum misserum og um leið mögulegar leiðir til lausnar.
Þetta verkefni, að stíga markviss og árangursrík skref í átt að losun hafta, varðar okkur öll og framtíð okkar allra. Ég hef því beitt mér fyrir því að ná sem víðtækastri pólitískri sátt um viðfangsefnið og eiga gott þverpólitískt samráð. Enginn deilir lengur um mikilvægi þess að hafa náð fullum tökum á greiðsluflæði frá þrotabúunum til kröfuhafa með því að fella erlendar eignir þeirra undir fjármagnshöftin í mars á síðasta ári. Ekki voru allir sammála þá – en það hefur breyst sem betur fer - og tókst okkur að ná algerum samhljómi um nauðsyn þess að fella brott ákveðna dagsetningu þegar höftin skyldu losuð og miðum þess í stað við að ná ákveðnum árangri. Nú er einnig kominn formlegri ferill við ákvarðanatöku um reglur um útgreiðslur úr búum föllnu bankanna og samráð og kynningu við veitingu stærri undanþága. Lög um þessa breytingu voru afgreidd í fullri sátt á Alþingi og nú er að nást sama víðtæka samstaðan um annars vegar rýmkun á höftunum gagnvart heimilum og fyrirtækjum og hins vegar betri verkfæri fyrir Seðlabankann til að framfylgja þeim.
Ríkisstjórn og Seðlabanki hafa verið algerlega samstíga í þeirri nálgun sinni að við munum ganga eins langt og lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar leyfa í vörn fyrir íslenska hagsmuni. Þau skilaboð að um þessa afstöðu sé samstaða, óháð flokkslínum eða niðurstöðum kosninga, eru mikilvæg.
Vísbendingar eru um að kröfuhafar í bú föllnu bankanna séu að leggja raunsærra mat á virði krafna sinna. Samspil eðlilegs mats á raunvirði krafna og gengi getur verið lykill að því að losa um þá hengju af kvikum krónum sem ella verða til við uppgjör búanna. Þessi staða staðfestir hve mikilvægt skref það var að semja við kröfuhafa um að eignast bankana í stað þess að ríkið tæki þá alla yfir og kröfuhafar ættu skuldabréf á allt íslenska bankakerfið. Við þær aðstæður lægi áhættan af raunvirði krafnanna öll okkar megin á meðan þrýstingur á gengi krónunnar vegna greiðslna til kröfuhafa væri stöðugur og óháður því.
Bú föllnu bankanna undir slitastjórnum eru einkaréttarlegir aðilar og einkaaðilar sem eiga kröfurnar. Ríkið á aðeins lítinn hluta í þeim nýju bönkum sem búin eiga eignarhluti í. Þessi staða er líka mikilvæg í ljósi umræðunnar um að það sé mikilvægt að ríkissjóður taki ekki á sig of mikla áhættu í tengslum við framhald slitameðferðar gömlu bankanna. Það breytir því þó ekki að fyrir ríkissjóð geta verið miklir bæði beinir og óbeinir hagsmunir af hagstæðri úrlausn þessa máls. Fyrir heimili og fyrirtæki munar ef til vill mestu um aukinn stöðugleika gengis og verðlags. Þá gæti skapast svigrúm til að lækka skuldir ríkisjóðs og losa þar með um fjármagn sem varið er til þess að greiða vexti og ráðstafa því til annarra og brýnni verkefna.
Við þurfum þó að nálgast málið með ítrustu hagsmuni Íslands að leiðarljósi og af raunsæi. Þá náum við árangri.
Meðal brýnustu verkefna í stjórnmálunum er að svara því hvert beri að stefna í peningamálum. Hvað á að taka við eftir að losað hefur verið um fjármagnshöft? Ítarleg skýrsla Seðlabanka Íslands um valkosti í gengismálum og úttekt á þeim þjóðhagsvarúðartækjum sem til staðar þurfa að vera á næstu árum, eru mikilvægt framlag til umræðunnar.
Því miður fer of lítið fyrir ábyrgri umræðu af hálfu annarra um framtíðarsýn í peningamálum. Öðru hvoru er varpað fram hugmyndum um að taka einhliða upp hinn eða þennan gjaldmiðilinn án þess að ræða hvernig fjármálakerfi við hyggjumst reisa á þeim grunni eða hvernig stöðugleiki þess verði tryggður.
Að mínu mati mun margt af því sem við lítum á sem tímabundin óþægindi í kjölfar hruns verða viðvarandi ástand ef við tökum þá ákvörðun að hér verði krónan gjaldmiðill okkar til framtíðar og eigi að duga án þess að henni fylgi þær miklu sveiflur sem við þekkjum því miður allt of vel. Aðrir virðast sáttir við rússíbanahagstjórn og stóla á margrómaðan sveigjanleika krónunnar til að taka bratt niður kaupmátt fólks og gera okkur samkeppnishæf í krafti lágs innlends kostnaðar. Ég óttast áhrif þessarar leiðar á möguleikar okkar til að byggja upp fjölbreyttara atvinnulíf, ekki síst áhrifn á þann geira sem kallaður er „alþjóðageirinn“ í nýlegri skýrslu McKinsey um vaxtartækifæri á Íslandi. Alþjóðageirinn samanstendur af útflutningsfyrirtækjum sem spjara sig í alþjóðlegri samkeppni án þess að byggja á nýtingu staðbundinna íslenskra auðlinda. Þessi fyrirtæki virkja hina óþrjótandi auðlind hugvitið. Á þessu sviði eru einmitt mörg þeirra fyrirtækja sem við Íslendingar lítum til með hvað mestu stolti og sum þeirra vaxa einmitt upp úr rótgrónum undirstöðugreinum okkar, einkum sjávarútveginum.
Engum kemur á óvart að ég tala fyrir því að við förum fram af fyllstu ábyrgð í ríkisfjármálum, göngum í ESB og um leið uppfylla skilyrði til að komast inn í ERM II myntsamstarfið og stefnum að lokum á upptöku evru.
Í umræðum um valkosti í peningamálum rifjast stundum upp fyrir mér sagan um ferðamanninn sem stöðvaði bílaleigubíl sinn í Dublin til að spyrja gamlan heimamann vegar til Cork. Gamli Írinn klóraði sér í kollinum og svaraði svo: „Ég myndi ekkert fara til Cork.“ Annað svar fékk ferðamaðurinn ekki.
Í mínum huga skiptir nefnilega máli að vita hvert takmarkið er til að geta skipulagt ferðalagið, valið viðeigandi farkost og útbúið okkur rétt. Þegar ég skoða skilyrðin sem við þurfum að uppfylla sé ég árangur skynsamlegar hagstjórnar. Þetta er leið þess stöðugleika sem heimili og fyrirtæki þrá og þurfa.
Umræðan um verðtrygginguna skautar stundum framhjá þeirri staðreynd að það er verðbólgan sem er hið eiginlega mein. Verðbólga sem að stórum hluta stafar af óvissu um verðmæti gjaldmiðils okkar, veldur heimilum erfiðleikum og heldur vöxtum háum með tilheyrandi skertri samkeppnisstöðu atvinnulífsins.
Á næstu árum þurfum við að afla meiru en við eyðum og til þess þurfum við fjárfestingu í atvinnulífinu. Sem eru enn ein rökin fyrir því að stefna á upptöku evru. Lönd sem tekið hafa upp evru hafa í kjölfarið uppskorið aukningu beinnar erlendrar fjárfestingar, einkum frá öðrum evruríkjum.
Það eykur enn á mikilvægi þess að hér sé farið fram að fyrirhyggju og varúð að horfur í heimsbúskapnum eru enn viðsjárverðar. Erfiðleikar á Evrusvæðinu eru ekki að baki, þótt útlit um stöðugleika hafi batnað, en pólitískur óstöðugleiki í skuldsettum ríkjum getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Í Bandaríkjunum hefur ríkisfjármálastapinn skapað óvissu, sem þó hefur dvínað. Efnahagslegur vöxtur á mikilvægustu viðskiptasvæðum Íslendinga hefur hægt á sér undanfarin misseri, og sums staðar jafnvel verið neikvæður um hríð, og það er áhyggjuefni fyrir okkur. Við erum ekki eyland í efnahagslegum skilningi. Þvert á móti eiga hinar gjaldeyrisskapandi greina, og þar með þjóðarbúið allt, mikið undir því að úr rætist. Það gefur því tilefni til hóflegrar bjartsýni að alþjóðlegir spáaðilar telja að þrátt fyrir allt hafi fjármálastöðugleiki almennt aukist og að hagvöxtur í þróuðum ríkjum muni taka við sér á síðari hluta þessa árs og því næsta.
Góðir ársfundargestir
Þegar ég lít til baka yfir síðustu fjögur ár er ég stolt af þeim árangri sem við höfum náð. En ég er líka raunsæ og geri mér grein fyrir þeim krefjandi úrlausnarefnum sem bíða okkar.
Því miður er ekki komið að uppskerutíma. Mikilvægt er að við stöndum við þá áætlun í ríkisfjármálum að byrja að greiða niður skuldir ríkisins á næsta ári. Til þess þarf áfram að sýna aga og beita aðhaldi í ríkisrekstri. Tölur um hagvöxt síðasta árs ollu vonbrigðum, bæði hér á landi og í flestum nágrannalöndum okkar. Horfur í efnahagsmálum heimsins eru óvissar og þótt við búum sem betur fer við vöxt sem er yfir meðaltali þróaðri hagkerfa heimsins þá gefur það okkur ekki tilefni að ofmetnast.
Í aðdraganda þessara kosninga er því brýnt að stjórnmálamenn sýni þá ábyrgð að fara ekki fram með óábyrg loforð sem leitt geta yfir okkur nýjar kollsteypur. Við þurfum að taka raunsæ skref fram á við og byggja undir stöðugan vöxt.
Við höfum nokkuð fast land undir fótum, eygjum tækifæri til að leysa farsællega úr okkar stærstu viðfangsefnum í náinni framtíð og byggja undir frekari stöðugleika og velsæld. Þetta eru stærstu hagsmunamál okkar, fyrirtækja og heimila á næstu árum. Von mín er sú að við náum sátt og samstöðu um þetta verkefni.