Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. nóvember 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðBjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017

Rafræn stjórnsýsla og hagnýting upplýsingatækni

Lykilræða Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á Oracle notendaráðstefnu Advania 15. nóvember 2013.

Ágætu fundarmenn!

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag og ávarpa þessa notendaráðstefnu Oracle. Orri, eða fjárhags- og  mannauðskerfi ríkisins, er ríkinu afar mikilvægt. Ásamt skattakerfunum er Orri það kerfi sem ríkið nýtir einna mest.  Þið sjáið því fram á áhugaverðan dag með innlendum og erlendum fyrirlestrum um nýjustu strauma og stefnur í lausnum fyrir Orra.

Upplýsingatækni, sem hefur þróast hratt undanfarin ár hefur haft áhrif á líf okkar allra.  Ég er nú ekki gamall maður, en þó nógu gamall til að muna eftir því þegar tölvupóstur ruddi sér til rúms og leiddi til þess að bréfasendingum fór smám saman að fækka. Í dag fer fólk varla út úr húsi án þess að hafa tölvupóstinn á sér, geymdan í símanum, ásamt ýmsum öðrum samskiptaforritum. Þá eykst notkun rafrænna skjala hratt. Nú eru sjö ár frá því Fjársýslan hætti að senda út launamiða í pósti sem spara ríkinu 30 milljónir króna á ári. Það munar um minna!  Þau áhrif sem upplýsingatæknin hefur eru því ýmis og lykilatriði í mínum huga er hvernig veita megi borgaranum betri þjónustu með hagnýtingu hennar.

Það er ljóst að miklir hagræðingamöguleikar liggja í þróun og notkun upplýsingatækni. Góð þekking á upplýsingatækni stuðlar að nýsköpun og vexti atvinnulífsins. Ísland stendur framarlega þegar kemur að netnotkun en á ýmsum sviðum hefur ekki tekist að nýta upplýsingatæknina sem skyldi til að einfalda og bæta opinbera þjónustu. Alþjóðlegar úttektir gefa til kynna að Ísland sé styttra á veg komið en helstu samanburðarlönd og hafi heldur dregist aftur úr á síðustu árum.

Þessari þróun ætlum við að sporna við. Í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og Framsókarflokksins er fjallað sérstaklega um að ríkisstjórnin muni leggja áherslu á að nýta upplýsingatækni og efla rafræna stjórnsýslu til að stuðla að hagræðingu og samhæfingu stjórnsýslukerfa. Það mun leiða til bættrar og einfaldari þjónustu.

En hvað hefur hamlað framförum hér á landi? Nefna má að hér höfum við fjölda samkynja stofnana án miðlægrar yfirstjórnar í upplýsingatæknimálum. Samvinnu skortir og samhæfingu á ýmsum sviðum rafrænnar stjórnsýslu. Mikilvægt er að gera ábyrgð á ólíkum þáttum í þróun upplýsingatæknimála skýrari og vinna þannig að framgangi stefnumála um öflugt og nútímalegt upplýsingasamfélag.

Við ætlum að leggja áherslu á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa.

Í frumvarpi til fjárlaga 2014 eru áformaðar margvíslegar umbætur til að þjónusta við almenning og atvinnulífið verði einfaldari og hraðvirkari. Unnið er að því að koma á samræmdu skipulagi á landsvísu með aukinni samvirkni milli upplýsingakerfa og að mótun landsarkitektúrs í upplýsingatæknimálum sem meðal annars felur í sér að yfirlit verði gert yfir upplýsingatæknikerfi ríkisins til að greina samlegðaráhrif og bæta yfirsýn.

Þessi verkefni eru meðal forsendna þess að við getum hætt að gefa út vottorð og aðrar staðlaðar upplýsingar á pappírsformi. Þess í stað munu notendur veita heimild fyrir að upplýsingar séu sendar rafrænt milli kerfa og spara sér þannig ferðir til opinberra aðila.

Fjármálaráðuneytið hefur um árabil stuðlað að útgáfu og útbreiðslu rafrænna skilríkja í samvinnu við atvinnulífið. Notkun skilríkjanna hefur verið minni en vonir voru bundar við í upphafi, en nú horfir betur við í þeim efnum. Undanfarið hefur vinna átt sér stað við þróun skilríkjanna á sim-kortum sem gerir þau notendavænni en áður var. Nú þegar geta viðskiptavinir Símans orðið sér út um rafræn skilríki á sim-korti og gera má ráð fyrir að önnur fjarskiptafyrirtæki bjóði í náinni framtíð  upp á  sömu lausn.  

Fjölmörg tækifæri eru til hagræðingar með notkun rafrænna skilríkja auk þess sem þau stuðla að bættri þjónustu við almenning.

Rafræn skilríki eru í raun forsenda þess að hið opinbera geti opnað aðgang fyrir einstaklinga að upplýsingum um sig sjálfa og veitt þeim þá rafrænu opinberu þjónustu sem krafist er.

Á meðal þeirra verkefna sem rafræn skilríki verða notuð við á næstu misserum má nefna rafrænar þinglýsingar. Gert er ráð fyrir að eftir um það bil  ár verði unnt að þinglýsa veðskuldabréfum rafrænt. Áætlað er að sparnaður sem hlýst af þinglýsingu rafrænna skjala hjá sýslumannsembættum landsins sé 70 - 80 milljónir á ári og að heildarsparnaður fjármálafyrirtækja geti numið allt að 275 milljónum á ári ef mið er tekið af fjölda veðskuldabréfa undanfarin 10 ár. Auk þess er gert ráð fyrir að meðalafgreiðslutími umsókna hjá Íbúðalánasjóði styttist um tvo þriðju.

Ríkisskattstjóri sér fjölmörg tækifæri til hagræðingar og bættrar þjónustu við almenning með notkun rafrænna skilríkja. Um mitt næsta ár verður fyrirtækjaskrá orðin rafræn sem þýðir að unnt verður að stofna fyrirtæki á netinu og tilkynningar til fyrirtækjaskrár svo sem  vegna stjórnaskipta fari fram með rafrænum hætti og undirritaðar með fullgildum rafrænum skilríkjum. Þá er gert ráð fyrir að rafræn skilríki verði grundvöllur samskipta fjármálafyrirtækja og ríkisskattstjóra vegna neytendalána frá og með nóvember 2014.

Á komandi misserum verða rafræn skilríki notuð sem forsenda fyrir samskiptum ríkisskattstjóra við framteljendur þegar ágreiningur skapast um skattskyldur, þegar framteljendur vilja senda inn erindi til breytingar á framtölum eða vilja með öðrum hætti koma að formlegum athugasemdum við ákvarðanir ríkisskattstjóra, þar með taldar kærur vegna álagninga.

Embætti landlæknis vinnur nú að því að dánarvottorð verði rafræn og ætti því starfi að ljúka innan fárra mánaða. Lyfseðlar verði jafnframt undirritaðir með rafrænum hætti auk þess sem rafræn skilríki skipta sköpun fyrir rafræna sjúkraskrá. Aðgangur einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum og lyfjagagnagrunni verður opnaður með rafrænum hætti í áföngum á næstu árum. Ekki er gert ráð fyrir öðru en að krafist verði notkunar rafrænna skilríkja til að nálgast þessar upplýsingar enda veita þau bestu vörnina gegn netglæpum.

Öll þessi atriði sem hér hafa verið nefnd stuðla að bætti þjónustu ríkisins við borgara auk þess sem þau fela í sér heilmikinn fjárhagslegan sparnað.

Annað atriði sem hefur umtalsverða hagræðingu í för með sér fyrir rekstur stofnana eru rafrænir reikningar. Fjársýsla ríkisins hefur nú lokið uppsetningu í Orra svo hægt er að taka við reikningum á rafrænu formi. Góð reynsla er nú þegar komin af þessu fyrirkomulagi hjá Fjársýslunni og nokkrum stofnunum.Samhliða því hefur verið unnið að því að setja upp rafræna samþykktarferla hjá stofnunum og þar með fullnýta kosti þessa fyrirkomulags til hagræðingar.

Árlega berast ríkinu yfir 500 þúsund reikningar og von er á yfirlýsingu um að ríkið taki aðeins við rafrænum reikningum frá fyrirtækjum og öðrum sem stunda viðskipti við opinbera aðila.

Kostir rafrænna reikninga eru margvíslegir. Fjársýslan og Reykjavíkurborg hafa skoðað hagræðingu af rafrænum reikningum og má með varfærni ætla að sparnaður sé að minnsta kosti 1.000 kr fyrir hvern reikning. Hagræðingin er m.a. fólgin í:

  • Sparnaði sem tengist pappír, svo sem pappírinn sjálfur, sendingar, geymsla og önnur meðhöndlun pappírs. Fyrirkomulagið er einnig umhverfisvænt.
  • Rafrænir reikningar týnast ekki.
  • Sparnaði sem tengist móttöku og úrvinnslu reikninga, svo sem sjálfvirk bókun, rafrænir samþykktarferlar og greiðslustýringar. Einnig eru færri mistök í skráningu og betri upplýsingar.
  • Hraðari afgreiðslu,- frekar greitt á réttum tíma, færri símtöl eða eftirrekstur.
  • Betra yfirlit yfir skuldbindingar stofnana og fjárstreymi.
  • Bætt aðgengi fyrir aðila eins og endurskoðendur.

Nú þegar má sjá merki hagræðingar í fækkun starfa og lækkun á öðrum kostnaði. Til dæmis hefur vaxtakostnaður Landspítalans vegna dráttar á greiðslu lækkað um tugi milljóna á ári við tilkomu rafrænar úrvinnslu.

Rafræn innkaup eru rökrétt næsta skref og hefur spítalinn gengið á undan í þeim efnum. Næstu skref í hagræðingu eru því rafrænar pantanir og beiðnir, afstemmingarskjöl, einnig vörulistar og afhendingarseðlar þar sem það á við.

Eitt af því sem upplýsingatæknin gerir mögulegt er birting ýmissa opinberra upplýsinga á aðgengilegu formi á netinu, sem gerir áhugasömum kleift að kynna sér þær og hagnýta. Undanfarin ár hefur orðið ör þróun í stjórnsýslu hvað varðar aðgengi að opinberum gögnum og gagnasöfnum.

Mörg góð rök eru fyrir því að auka aðgengi að gögnum hins opinbera. Hér má nefna gegnsæi, þátttöku almennings og aukið traust, sjálfsafgreiðslu á fyrirspurnum, hagræðingu í opinberri stjórnsýslu og nýsköpun. Þá verður til ný þekking með samkeyrslu umfangsmikilla gagnasafna og umbætur verða í þjónustu og vöruframboði einkaaðila.

Upphafsmaður Internetsins Tim Berners-Lee skoraði á fyrirtæki og stofnanir, bara fyrir fáum misserum að opna gögn í þeim tilgangi að auka gegnsæi og bæta upplýsingaflæði samfélagsins, enda myndi næsta bylting í upplýsingatækni snúast um opin gögn og samtengd gagnasöfn.

Síðan hefur margt gerst á alþjóðavettvangi varðandi opnun opinberra gagnasafna. Þar hafa Bandaríkin og Bretland verið leiðandi. Á vefsvæðunum stjórnvalda í þessu löndum hafa verið birt þúsundir gagnasafna. Þar er meðal annars að finna landfræðilegar upplýsingar, skrár yfir tekjur og gjöld ýmissa stjórnsýslueininga og ótal margt annað. Þessi gögn nýtast m.a. almenningi við þekkingaröflun og þeim sem vilja þjónusta almenning og eru hreinn fjársjóður fyrir marga, ég nefni t.d. sprotafyrirtæki sem hafa geta gert sér mat úr þessum upplýsingum. Hér á landi eru fyrirtæki eins og DataMarket dugleg við að nýta gögn og setja þau fram með aðgengilegum hætti. Flest þekkjum við væntanlega myndræna útgáfu þeirra á  fjárlagafrumvarpinu.

Á skömmum tíma hafa sprottið upp gagnagáttir fyrir lönd, borgir, fyrirtæki og stofnanir og framboð upplýsinga eykst hratt.  Jafnframt er sífellt verið að þróa öflugri tæknilausnir og vinnubrögð fyrir úrvinnslu og birtingu upplýsinga sem byggja á opnum gögnum.

Þetta hefur verið töluvert í deiglunni hér á landi. Ég bendi á að upplýsingalögin voru nýlega endurskoðuð, þar sem kveðið er á um að gögn skuli gerð aðgengileg með rafrænum hætti.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á aðgengi almennings að gögnum hins opinbera, líkt og fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar frá í vor. Þar segir að einkum sé brýnt að auka og bæta aðgengi að upplýsingum um ráðstöfun almannafjár.

Fyrstu skrefin í opnun fjárhagsupplýsinga ríkisins voru stigin á þessu ári. Starfshópur, sem skipaður var í byrjun ársins, skilaði tillögum í vor en þær lutu að því að birta upplýsingar sem snerta árshluta- og mánaðaruppgjör ríkissjóðs með ítarlegri og aðgengilegri hætti en hingað til.  Mikilvæg grunnvinna hefur verið unnin, ég nefni til dæmis leyfisskilmála, sem eru afar mikilvægir í þessum efnum.

Þannig þarf til dæmis að koma fram þar, að engar takmarkanir séu á afnotum gagnanna sem gætu komið í veg fyrir nýsköpun, eða að verðmætar afurðir sem byggja á gögnunum verði til. Fyrir utan, ef til vill það sjálfsagða atriði, að þeir séu skýrir og öllum auðskiljanlegir.

Þessi vinna getur nýst okkur í framhaldinu við stefnumótun og opnun frekari gagnasafna. Það er ljóst að við stefnum í þá átt að auka aðgengi áhugasamra að opinberum fjárhagsupplýsingum, með þeim kostum sem ég hef lýst.

Kæru fundarmenn! 

Dagurinn í dag snýst um Orra, fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Það verður ekki hjá því komist að minnast á þá gagnrýni sem ORRI varð fyrir á haustmánuðum 2012. Í kjölfar þeirrar umræðu ákvað fjármála- og efnahagsráðuneytið að láta gera óháða úttekt á kerfinu.

Skemmst er frá því að segja að megin niðurstaða úttektarinnar voru þær að fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins mætir þörfum stjórnvalda og stjórnsýslu og virkni þess uppfyllir kröfur ríkisins í meginatriðum. Ekkert bendir til að betri útkoma hefði fengist fyrir ríkið með því að nýta aðra lausn en þá sem varð fyrir valinu fyrir tólf árum síðan.

Úttektin leiddi í ljós að kerfið hefur skapað verulegt virði fyrir ríkið og stofnanir þess.

Í skýrslunni er mælt með því að kerfið verði notað áfram, en skerpa þurfi á stefnumiðaðri stjórnun, ábyrgð og eignarhaldi kerfishluta Orra.

Þessar ábendingar tekur fjármálaráðuneytið alvarlega og ljóst er að nauðsynlegt sé að fara reglubundið yfir notkun kerfisins og þróunarmöguleika. Þá þarf einnig að vinna að stefnumótun um upplýsingavinnslu ríkisins og efla miðlæga þjónustu við ríkisstofnanir í heild.

Skýrslunni verður ekki stungið ofan í skúffu heldur munum við nýta hana til að hjálpa okkur að gera kerfið í heild sinni enn skilvirkara og betra en það er.

Ágætu fundargestir!

Á sínum tíma, fyrir meira en þúsund árum, var Guðríður Þorbjarnardóttir víðförlasti Íslendingurinn. Hún fór til Grænlands og meginlands Ameríku í vestur og alla leið til Rómar í hina áttina.

Þetta ferðalag tók hana alla ævina.

Í dag getum við ekki aðeins flogið þessa æviferð hennar á nokkrum klukkutímum. Við getum líka náð til fólks í ólíkum heimshlutum hvar sem við erum stödd hverju sinni með síma eða í gegnum netið. Við getum nánast komist til Rómar á örskotsstundu, óskum við þess, í gegnum nútímatækni.

Upplýsingatæknin er þess eðlis að við getum ekki verið að finna upp hjólið hvað eftir annað. Ríkið mun áfram leggja sig fram við að ná góðri samvinnu við atvinnulífið með öflugri stefnumótun og notendavænum lausnum og freista þess að læra af þeim sem framast standa í þessum efnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta