Ræða fjármálaráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands
Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Seðlabanka Íslands, 27. mars 2014.
Það er mér sérstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða um íslenskt efnahagslíf í víðu samhengi hér í dag. Hlutverk Seðlabankans við stjórn peningamála er þar mikilvægt og leggur bankinn sitt af mörkum við uppbyggingu og viðhald þess stöðugleika sem okkur er svo mikilvægur.
Einn helsti akkilesarhæll íslenskra efnahagsmála í gegnum áratugina hefur verið afar sveiflukennt hagkerfi. Ein fisktegund breytir hegðun sinni og syndir inn eða út úr lögsögunni eða gefur eftir gagnvart öðrum í endalausri leit náttúrunnar að jafnvægi - og hagsveiflan fylgir með. Það á að vera markmið okkar að nýta uppsveiflurnar vel og reyna að dreifa áhrifum þeirra inn í framtíðina til að vinna á móti samdrættinum þegar hann kemur.
Við erum enn að glíma við ýmsar afleiðingar efnahagsáfallsins, en það er engu að síður tímabært að við förum að búa okkur undir að vinna á móti þenslu til að tryggja varanlegan stöðugleika.
Þetta er ánægjulegt verkefni, sem grundvallast á þeirri staðreynd að hér var 3,3% hagvöxtur á síðasta ári og að seðlabankinn spáir að meðaltali 3,1% hagvexti næstu þrjú árin. Vinnumarkaðurinn er að jafna sig og samkvæmt nýjustu tölum var atvinnuleysi í febrúar rétt um 4%.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði bera vott miklum og góðum vilja til að verja kaupmátt launa með því að gera samninga sem tryggja raunverulegar launahækkanir, en ekki einungis tölur á blaði sem svo brenna upp í verðbólgubáli. Þessi ábyrga afstaða vinnumarkaðarins hefur skilað sér, bæði hvað varðar verðbólguspár og væntingavísitölu, en hún hækkar verulega samkvæmt nýjustu mælingum.
Það er vor í lofti í íslensku efnahagslífi.
Að því sögðu er rétt að hafa í huga að íslenska vorið getur verið hverfult og oft eru blikur á lofti. Fjármagnshöftin sem komið var á fyrir rúmum fimm árum varpa skugga á landið. Þau eru óvenjuleg í hagkerfi sem okkar, sem byggir afkomu sína á frjálsum viðskiptum og óhindruðum samskiptum við helstu markaðssvæði heimsins.
* * *
Afnám haftanna er lykilatriði í því að treysta samkeppnishæfni og viðskiptafrelsi Íslands á ný. Það eru ekki einungis kröfuhafar föllnu bankanna sem hér sitja í höftum, þótt oft séu þeir mest áberandi í umræðunni. Höftin hvíla á öllu efnahagslífinu, á fyrirtækjum, lífeyrissjóðum og einstaklingum. Þau vinna gegn möguleikum á því að dreifa áhættu og meðan þau vara getum við ekki tekið þátt í alþjóðlegu viðskiptalífi á eðlilegum forsendum og missum því af ýmsum tækifærum til vaxtar.
Ýmis skref hafa verið stigin til þess að skapa jafnt og þétt aðstæður til þess að unnt verði að lyfta höftunum. Ríkisfjármál hafa verið tekin föstum tökum og miklum hallarekstri snúið í afgang. Höftum á fjármagnsflutninga til landsins hefur verið aflétt og búin til sérstök fjárfestingarleið til að laða að erlent fjármagn. Lífeyrissjóðir hafa komið með umtalsverða erlenda fjármuni til landsins, Seðlabankinn hefur notað gjaldeyrisforðann í einstökum viðskiptum til að létta af þrýstingi og ríkissjóður hefur rutt brautina með erlendum skuldabréfaútgáfum og þannig opnað á möguleika innlendra aðila til erlendrar fjármögnunar.
Íslendingar hafa jafnframt búið við helst til lágt raungengi í sögulegu samhengi síðustu fimm ár og mun lægra fjárfestingarstig en þekkst hefur, sem hefur skilað sér í samanlögðum viðskiptaafgangi við útlönd sem nemur um fjórðungi af landsframleiðslu á þessu tímabili. Það eru ansi snögg umskipti hjá þjóð sem hafði áður búið við áratuga langan halla af viðskiptum við útlönd.
En þrátt fyrir allar þessar aðgerðir eru heimili og atvinnulíf á Íslandi enn föst í spennitreyju haftanna og raungengi krónunnar helst lágt með tilheyrandi áhrifum á lífskjör. Af fréttaflutningi fyrr á þessu ári mátti ráða að spennitreyjan væri til komin vegna þess að Ísland væri úti í kuldanum á erlendum fjármálamörkuðum vegna ágreinings íslenskra stjórnvalda við erlenda kröfuhafa. Sú fullyrðing á sér enga stoð í veruleikanum.
Vaxtaálag sem skuldabréf ríkissjóðs útgefin í bandaríkjadal bera hefur heldur lækkað undanfarið, sem er afar jákvætt. Alþjóðlegu lánshæfisfyrirtækin meta horfur stöðugar og hitamælar alþjóðlegra fjármálamarkaða sýna síður en svo kulda gagnvart Íslandi. Aðgangur ríkissjóðs að erlendum lánamörkuðum er þvert á móti góður um þessari mundir.
Ríkisstjórnin hefur sett afnám hafta í algeran forgang og þar skiptir uppgjör slitabúa gömlu bankanna miklu máli. Íslensk stjórnvöld eru ekki í neinum beinum viðræðum við kröfuhafa gömlu bankanna, enda eiga þeir kröfur á innlend fjármálafyrirtæki í slitameðferð, en ekki á íslenska ríkið. Það er á ábyrgð slitastjórna og kröfuhafa bankanna að leita eftir nauðasamningum um uppgjör þeirra sín á milli og hvorki Seðlabankinn né stjórnvöld hafa beina aðkomu að gerð samninganna sjálfra. Hlutverk stjórnvalda er aftur á móti að sjá til þess að að þær undanþágur frá höftunum sem slitabúin sækjast eftir vegna útgreiðslna til kröfuhafa hafi ekki neikvæð áhrif á þjóðarbúið og þar með þá sem eftir sitja.
Vandi slitabúanna og möguleg neikvæð áhrif þeirra á stöðugleika efnahagslífsins er meðal helstu ástæðna þess að hægt hefur gengið að afnema fjármagnshöftin. Því er mjög brýnt fyrir Ísland að þetta mál leysist farsællega. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt um að ég er samt sem áður bjartsýnn á að stíga megi stór skref á þessu ári sem auðvelda afnám haftanna og tel að þess sjáist ýmis merki að væntingar um útgreiðslu krónueigna í gjaldeyri séu hófstilltari en til þessa.
Það er samt sem áður rétt að hafa í huga að líftími slitabúanna getur ekki verið endalaus. Erlendis eru dæmi um að veittur sé 3 ára frestur, t.d. í Bandaríkjunum, til að ljúka slitum, sem hægt er að framlengja í allt að 5 ár samtals við sérstakar aðstæður. Gömlu bankarnir hafa nú þegar verið meira en 5 ár í slitaferli. Ef kröfuhafarnir ná ekki að ljúka nauðasamningum er ekki annað að gera en að fara með búin í gjaldþrot.
Að auki verður að taka fram, að það að eignarhald íslenskra fjármálafyrirtækja sé með þeim hætti sem verið hefur, er ástand sem getur ekki orðið viðvarandi, óháð fjármagnshöftum.
* * *
Ríkisstjórnin sem tók við völdum fyrir tæpu ári setti sér það markmið að vinna hratt að því að ná tökum á ríkisfjármálunum. Fyrstu mánuðirnir fóru í að greina veikleika í áætlanagerð og rekstri hins opinbera sem voru allnokkrir þegar við tókum við. Skuldsetning er of mikil og við lögðum mikla áherslu á að stöðva sjálfvirka skuldasöfnun ríkisins. Það höfum við gert með hallalausum fjárlögum fyrir árið 2014, þeim fyrstu í sex ár.
Það má í raun fullyrða að lækkun skulda hins opinbera sé eitt helsta grunnstef efnhagsstefnunnar og það er varla hægt að orða þá hugsun hvernig staða Íslands hefði verið haustið 2008 ef íslenska ríkið hefði ekki verið nálægt því að vera skuldlaust.
***
Lítið hagkerfi eins og okkar, sem er viðkvæmt fyrir utanaðkomandi sveiflum þarf að setja sér metnaðarfull markmið um litla skuldsetningu og leggja áherslu á langtímasýn í opinberum fjármálum. Að því er stefnt í nýjum frumvarpi um opinber fjármál sem ríkisstjórnin afgreiddi á fundi sínum í morgun. Þar eru lengri áætlanir og fastmótaðri stefnumörkun lögð til grundvallar, auk strangra fjármálareglna.
Meðal markmiðanna er að afkoma ríkisins verði ætíð jákvæð innan hvers fimm ára tímabils og árlegur halli fari ekki yfir 2,5% af landsframleiðslu. Innleitt verður skuldaþak sem nemur 45% af landsframleiðslu, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum. Fela reglurnar jafnframt í sér leiðbeiningar um það hvernig settu skuldamarkmiði verður náð. Við samþykkt frumvarpsins verður innleiddur mun meiri agi við stjórn ríkisfjármála.
***
Fyrir Alþingi liggur einnig frumvarp til laga um fjármálastöðugleikaráð, sem leysa á af hólmi nefnd um fjármálastöðugleika, sem er nú vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og tillögugerðar vegna fjármálastöðugleika og samhæfingar viðbúnaðar við hugsanlegu fjármálaáfalli.
Með ákvæðum frumvarpsins er brugðist við einni þeirra meginveilna sem í ljós komu í kjölfar fjármálakreppunnar, þ.e. skorti á tengslum heildar- og eindaeftirlits á fjármálamörkuðum sem leiddi til þess að enginn einn aðili hafði heildaryfirsýn yfir stöðu fjármálakerfisins.
Í frumvarpinu er lagt til að settur verði á stofn formlegur vettvangur stjórnvalda sem hafa á yfirsýn yfir stöðu og þróun fjármálamarkaðar og þeim vettvangi skapaður formlegur lagalegur grunnur.
Gerð er tillaga um stofnun annars vegar fjármálastöðugleikaráðs og hins vegar kerfisáhættunefndar sem undirbýr umfjöllun fjármálastöðugleikaráðs.
Hvorki fjármálastöðugleikaráði né kerfisáhættunefnd er ætlað að hrófla við sjálfstæði Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitsins, en af fenginni reynslu hérlendis sem erlendis má ætla að áföll á fjármálamarkaði kalli á beina eða óbeina aðkomu ríkissjóðs. Er því nauðsynlegt að viðbrögð við slíkum áföllum verði undir forustu þess ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins.
Verði þessi frumvörp tvö að lögum, annars vegar um opinber fjármál og hins vegar um fjármálastöðugleikaráð munu þau styrkja umgjörð efnahagsstjórnarinnar til frambúðar.
* * *
Vinnuhópur sem fjármálaráðuneyti og Seðlabanki Íslands komu á fót hefur um nokkurra missera skeið unnið að endurskoðun á fjárhagslegum samskiptum ríkissjóðs og bankans. Meðal þess sem hópurinn tók til skoðunar voru reglur um ráðstöfun árlegs hagnaðar Seðlabankans og mat á eigin fé bankans. Hópurinn hafði til hliðsjónar sérfræðiskýrslur, ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga og samsvarandi löggjöf í nágrannaríkjum.
Aðilar eru sammála um að núgildandi viðmið um eigið fé og fyrirkomulag um ráðstöfun hagnaðar SÍ tryggi ekki nægilega fjárhagslegt sjálfstæði bankans og að þau geti jafnvel í sumum tilvikum gengið gegn markmiðum peningastefnunnar. Þannig geti komið til greiðslu hagnaðar til ríkissjóðs þrátt fyrir að eiginfjárstaðan sé talin ófullnægjandi. Á sama hátt gæti núverandi umgjörð sömuleiðis leitt til þess að eiginfjárstaða SÍ yrði mun sterkari en þörf er á.
Greining sem gerð var á fjármagnsskipan og eiginfjárstöðu bankans sýnir að hægt er að viðhalda sambærilegum eiginfjárstyrk bankans og áður en draga að sama skapi úr innborguðu eigin fé. Áætlað er að þeim fjámunum verði varið til að lækka það skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til að styrkja eigið fé bankans í kjölfar veðtapa sem bankinn varð fyrir við fall fjármálafyrirtækja. Samhliða hefur verið endursamið um skilmála skuldabréfsins á grundvelli þess samnings sem gerður var um s.l. áramót. Skuldabréfið mun bera óverðtryggða vexti sem taka mið af innlánsvöxtum Seðlabankans og verður með föstum afborgunakjörum til 29 ára.
Meginsjónarmið sem horft var til við smíði nýrrar reglu um eigið fé og arðgreiðslur voru að efla fjárhagslegt sjálfstæði Seðlabankans, að nýta það fjármagn sem ríkissjóður hefur yfir að ráða og að færa fjárhagsleg samskipti ríkissjóðs og bankans í varanlegra horf. Þessum markmiðum verði náð með því að haga efnahagsreikningi bankans þannig að tekjur af vaxtaberandi eignum nægi fyrir rekstrarkostnaði að teknu tilliti til óvaxtaberandi skulda og að eigið féð endurspegli þá áhættu sem bankinn stendur frammi fyrir hverju sinni.
Ábati af nýrri eiginfjár- og arðgreiðslureglu er að trúverðugleiki peningastefnunnar eykst þar sem reglan eflir trú markaðsaðila á fjárhagslegu sjálfstæði bankans og möguleikum hans til að framkvæma nauðsynlegar peningamálaaðgerðir. Betri ráðstöfun fjármuna leiðir einnig til lægri skulda ríkissjóðs og þ.a.l. minni vaxtakostnaðar. Þá verða fjárhagsleg samskipti ríkissjóðs og bankans gegnsærri, formlegri og ábyrgari.
Verið er að leggja lokahönd á lagafrumvarp sem tekur til þeirra breytinga sem lagðar eru til á eiginfjárviðmiðum og arðgreiðslum bankans. Áformað er að það frumvarp verði lagt fyrir Alþingi á allra næstu dögum.
* * *
Nokkur reynsla hefur nú fengist á þá skipan sem ákveðin var með þeim breytingum sem gerðar voru á lögum um Seðlabanka Íslands í febrúar 2009, en þær vörðuðu fyrst og fremst skipan yfirstjórnar bankans og peningastefnunefnd, sem komið var á með þeim lögum. Að auki hefur hlutverk Seðlabankans tekið veigamiklum breytingum í kjölfar hruns fjármálakerfisins 2008 og bankinn hefur tekist á hendur verkefni sem hann ekki hafði áður. Það er tímabært að leggja mat á þær breytingar, auk þess sem rík ástæða er til að endurmeta ýmsa aðra þætti í starfsemi Seðlabanka Íslands í kjölfar þess umbrotatíma sem að baki er.
Í þessu skyni hef ég ákveðið að skipa nefnd um heildarendurskoðun laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Nefndin skal gaumgæfa þróun á starfsemi annarra seðlabanka og löggjöf á sviði peningamála og efnahagsstjórnunar með það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og traust á íslenskum efnahagsmálum. Með hliðsjón af því umróti sem orðið hefur á fjármálamörkuðum á undanförnum árum skal nefndin einnig skoða hvort ástæða sé til að gera breytingar á skipulagi fjármálamarkaðar og Fjármálaeftirlitsins í því skyni að efla samstarf og skýra verkaskiptingu milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans.
* * *
Ágætu fundargestir.
Ég hef trú á því að Íslands sé á réttri leið. Til þess benda hefðbundnir hagvísar en um leið og ég fagna því vil ég að við höfum í huga fyrri uppgangstíma og búum okkur undir að beita ýtrustu varfærni við stjórn efnahagsmála.
Við eigum að temja okkur að búa í haginn fyrir framtíðina, í stórum sem smáum atriðum. Þannig lítum við á hluta þeirra úrræða sem við kynntum í gær til að aðstoða fólk við að lækka höfuðstól húsnæðislána sinna, þar sem þeim sem ekki eiga nú þegar íbúð verður boðinn skattafsláttur ef þeir kjósa að nota séreignarsparnað við kaup á húsnæði. Hér áður fyrr vorum við með húsnæðissparnaðarreikninga og skyldusparnað og reynt var að stuðla að því að fólk drægi ekki skuldasængina upp fyrir höfuð þegar það keypti sér íbúð.
Nú er ekki um að ræða neina skyldu til að spara fyrir útborgun, einungis hvata, en ég tel að þetta geti hjálpað til við ákveðna hugarfarsbreytingu þegar kemur að fasteignakaupum.
Þessi hugsun á einnig að ríkja við stjórn opinberra fjármála. Við eigum að temja okkur aga og yfirsýn, gera áætlanir sem er ætlað að standa til lengri tíma og ekki gefa neinn afslátt af þeirri kröfu að nýta opinbert fé á sem bestan og máta, en ég held að allir geti verið sammála um að greiðsla himinhárra vaxtagjalda falli ekki undir þá skilgreiningu.
Fyrirsjáanleiki, varfærni, stöðugleiki og agi eru leiðarstef efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar og við vitum að við deilum þessari sýn með helstu stofnunum ríkisvaldsins sem koma að því að verja fjármálastöðugleikann. Ég er því bjartsýnn á að okkur takist það ætlunarverk okkar að skapa hér samfélag þar sem hæfilegur vöxtur og aukinn stöðugleiki verða grundvöllur batnandi lífskjara um langa framtíð.
- Sígandi lukka er best.
Að síðustu þakka ég bankaráði, seðlabankastjóra og starfsliði bankans fyrir vel unnin störf.